Hvað býr að baki?

Hvað býr að baki því að ráðherra velur að senda röð "tísta" um orkupakka ESB? Var ríkisstjórnin ekki búin að fresta málinu? Var sú frestun ekki til að láta færustu sérfræðinga skoða það nánar? Á ráðherra þá ekki að halda sig til hlés, meðan slík skoðun fer fram? Eða er kannski eitthvað annað sem býr að baki þeirri festu sem ráðherrann hefur í málinu? Kannski eitthvað sem hún óttast að komi fram við frekari skoðun?

Ráðherra fullyrðir að ekkert afsal fylgi samþykkt orkupakka ESB. Þetta eru menn ekki sammála um og færustu lögfræðingar í Evrópurétti, bæði innlendir og erlendir, telja þessa fullyrðingu hennar ranga.

Þá talar ráðherrann um að ákvörðun um hvort sæstrengur verði lagður til Bretlands, muni áfram verða á valdi Alþingis. Sömu sérfræðingar í Evrópurétti eru ósammála þessari fullyrðingu einnig.

Það eru fyrst og fremst þessi tvö atriði sem skilur á milli þeirra sem samþykkja vilja orkupakkann og hinna sem eru honum mótfallnir, enda snýst sjálfstæði okkar að stórum hluta um að halda yfirráðum um þessi mál. Af þeim sökum var málinu frestað, svo hægt væri að skoða það nánar. Því kemur þetta "tíst" ráðherrans eins og skrattinn úr sauðaleggnum.

En það er ekki bara skoðanamunurinn sem fram kemur í skrifum ráðherrans, þau opinbera einnig hroka hennar og tillitsleysi til skoðana annarra og gerir hún fólki upp sakir, sem henni eru ekki sammála.

Ráðherrann fullyrðir að þeir sem á móti orkupakkanum eru, séu einnig á móti EES samningnum. Þetta tvennt er sitt hvor hluturinn og algerlega óháð hvoru öðru, nema að orkupakkinn verði samþykktur. Þá mun eina ráðið sem eftir er, til að halda völdum yfir orkuauðlindinni, vera að segja upp EES samningnum. Ekkert annað svar verður þá til fyrir okkur sem þjóð!!

Því ættu þeir sem vilja EES samningnum allt hið besta og að hann verði við lýði áfram, að fara varlega og bíða með allar fullyrðingar um orkupakkann þar til hann hefur fengið fullkomna skoðun færustu manna á þessu sviði! Það sæmir ekki ráðherra að bulla um eitthvað sem hún greinilega hefur mjög litla þekkingu á!!

Vissulega hafa sumir kallað eftir endurskoðun EES samningsins, enda hann að verða 30 ára gamall og fullt tilefni til að skoða hvernig hann gagnast okkur. Endurskoðun og uppsögn er þó sitt hvað, eins og ráðherra hlýtur að vita. Því miður var sú nefnd sem skipuð var til skoðunar hans þannig samsett, að niðurstaða hennar liggur í raun ljós fyrir. Þar voru skipaðir tveir yfirlýstir ESB sinnar, með formann sem hefur einstaka ást á EES samningnum. Niðurstaða er því fyrirfram pöntuð og mun ekki slá á gagnrýnisraddir á þann samning, þvert á móti. 

Hitt liggur ljóst fyrir, að ef orkupakkinn verður samþykktur og það rennur upp fyrir þjóðinni hversu frámunalegur afleikur það var, mun verða næsta auðvelt að fá hana á það band að segja þeim samningi einhliða upp. Sjálfstæði okkar er meira virði en einhver 30 ára stórgallaður samningur, sem í þokkabót var samþykktur með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi og án aðkomu þjóðarinnar!!

 


mbl.is Er ekki afsal á forræði auðlindarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband