Er búið að gelda alla þingmenn Sjálfstæðisflokks?

Það var hálf sorglegt að hlusta á Brynjar í þættinum Þingvellir á K100. Hann fór eins og köttur um heitan graut og þorði ekki að segja neitt af viti. Sneri úr og í.

Þó hafðist upp úr honum að honum hugnaðist ekki 3.orkupakkinn frá Brussel, talaði um að ekki mætti skerða þá hagmuni sem EES samningurinn gefur, að hans mati og bar síðan við að eitthvað óskýrt væri með gildi þess samnings ef Ísland hafnar 3.orkupakkanum. Varðandi EES samninginn vildi þingmaðurinn alls ekki segja þeim samning upp en taldi hann þó mein gallaðan og kröfur ESB um sífellt meiri völd gegnum hann, ótækar.

Hitt var aftur skrítnara, afsökunin um að ekki sé vitað hvað skeður ef tilskipuninni verður hafnað. Þar má benda þingmanninum á að lesa þann samning, nú eða ræða við einhverja þá sem stóðu að gerð hans af Íslands hálfu, t.d. þáverandi utanríkisráðherra. Þá kemst þingmaðurinn að þeirri augljósu niðurstöðu að ekkert mun gerast, annað en að hugsanleg muni ESB aftengja fyrstu tvo orkupakkana. Þá gæti Brynjar einnig velt fyrir sér hvers vegna Alþingi þarf að taka þessa tilskipun til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu, ef ekki má hafna henni.

Um þá hagsmuni sem við Íslendingar höfum af EES samningnum er fátt að segja og ekki allir á eitt sáttir. Í það minnsta er svo komið í dag að vegna aðildar að þessum samningi erum við að greiða ýmislegt hærra verði en áður, auk þess gjald sem við greiðum fyrir aðildina. Þar er verið að tala um tugi milljarða á ári og þætti sjálfsagt einhverjum það nokkuð hátt gjald til að fá tollaafslætti inn í ESB. Víst þykir þó að Björn Bjarna og hans nefnd muni sjá allt til góða þessum samningi, er gjarnan svo þegar útsýnið er skoðað með blinda auganu.

Þegar EES samningurinn var saminn og samþykktur af minnsta meirihluta á Alþingi, án aðkomu þjóðarinnar, var ljóst að þrjú megin málefni voru utan þess samnings, sjávarútvegur, landbúnaður og orkumál.

Enn hefur okkur tekist að halda sjávarútveginum utan samningsins, hversu lengi sem það mun halda. Landbúnaður er óbeint kominn inn í hann, með dómi EFTA dómstólsins, sem ákvað að breyta íslenskum landbúnaði í viðskipti og dæma út frá því. Og ráðamenn þjóðarinnar sátu hjá eins og barðir hundar.

Það var hins vegar með fyrstu tilskipun ESB um orkumál sem Ísland festist í neti ESB um orkumál og enn frekar þegar Alþingi samþykkti 2. tilskipunin um þetta málefni. Þessar tvær tilskipanir hafa þó haft frekar lítil áhrif hér á landi og það litla til hins verra. Samkvæmt þeim varð að skipta orkufyrirtækjum upp í vinnslu, dreifingu og sölu. Búa til þrjú fyrirtæki með þremur yfirstjórnum um það sem áður var eitt fyrirtæki með einni stjórn, með tilheyrandi aukakostnaði. Þá voru feld úr gildi lög um skipan orkumála hér á landi. Þar tapaðist m.a. út eini varnaglinn sem var til fyrir heimili landsmanna, en hann hljóðaði upp á að hagnaði orkufyrirtækja skildi ráðstafa til lækkunar orkuverðs og að aldrei mætti láta heimili landsins niðurgreiða orku til annarra nota. Það væri því vart hundrað í hættunni þó ESB ákveði að fyrstu tveir orkupakkarnir verði aftengdir.

Brynjar, þessi ágæti þingmaður sem sjaldan hefur látið segja sér fyrir verkum og gjarn á að tala stórt, virðist nú kominn undir hæl einhvers. Orðræða hans í þessu viðtali bar öll merki þess sem er haldið í bandi. Hann hefur brostið kjark.

Merkilegast við þetta viðtal á K100, voru þó orð þáttastjórnanda um að erfiðlega hafi gengið að fá þingmenn Sjálfstæðisflokk til viðtals um orkupakkann. Er það virkilega orðið svo innan Sjálfstæðisflokks að þingmenn þar láti skipa sér fyrir verkum, láti segja sér á hvorn hnappinn skuli ýtt, í atkvæðagreiðslum? Þeir ættu kannski að spá aðeins í nafn síns flokks og fyrir hvað það stendur, skoða stefnu flokksins og hlusta á þá fulltrúa flokksins sem mæta á landsfund. Kannski mun fylgi flokksins eitthvað braggast við það.

K 100, viðtalið

 


mbl.is Vilja ekki innleiða orkupakkann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband