Sífellt hærra ákall á uppsögn EES

Nýlega felldi Hæstiréttur dóm um að innflutningur á ófrosnu kjöti væri heimill, samkvæmt EES samningnum. Þetta er nokkuð undarlegur dómur, þar sem landbúnaði og fiskveiðum var haldið utan þess samnings, við gerð hans í upphafi síðasta áratugar síðustu aldar. Má kannski eiga von á að evrópskir dómstólar fari að fella dóma í sambandi við fiskveiðar hér við land, af því þeir standist ekki EES samninginn?

Sárt var að lesa á fésbókinn færslu eftir fyrrverandi formann Bændasamtakanna, þar sem uppgjafartónninn var í fyrirrúmi hjá þessum fyrrum skelegga forustumanni bænda. Kannski núverandi staða hans sé farin að skekkja eitthvað dómgreindina.

Það er ljóst að hvert kíló af innfluttu kjöti mun leiða af sér sama magn af óseldu íslensku kjöti. Þá þarf ekki að nefna þann regin mun á íslensku kjöti og því erlenda, en enginn bústofn er jafn hreinn og sá íslenski og hér á landi er sýklalyfjanotkun nánast engin og hormónagjöf óþekkt, meðan erlendis er slíkri ólyfjan  beinlínis blandað saman við fóður skeppnanna. Þetta hefur auðvitað þann ókost að íslenskur bústofn er einstaklega viðkvæmur fyrir smiti alls kyns sjúkdóma sem viðgangast í erlendum bústofnum þó kostirnir toppi það auðvitað margfalt.

Smitsjúkdómafræðingar hafa mælt eindregið gegn innflutningi á ófrosnu kjöti, enda smithættan margfalt meiri. Lyfjaofnæmi er orðið stórt vandamál erlendis og jafnvel talið að innan skamms tíma muni þar herja alvarlegir sjúkdómar og mannfellir, vegna þess. Leiða má líkum að því að slíkt lyfjaofnæmi megi að stærstum eða öllum hluta rekja til þess að skepnur til manneldis eru markvisst fóðraðar á fúkalyfjum.

Á vefsíðu visir.is er viðtal við framkvæmdastjóra Krónunnar, þar sem hún fullyrðir að bændur þurfi ekkert að óttast þó innflutningur á erlendu kjöti aukist. Segir að nú þegar sé flutt inn töluvert magn af kjöti og það hafi sýnt sig að neytendur haldi tryggð við íslenska kjötið. Á hvaða lyfjum er manneskjan!!

Fyrir það fyrsta þá væru innflytjendur vart að flytja inn erlent kjöt, ef það ekki selst.

Í öðru lagi þá er það rétt, töluverður innflutningur er nú þegar á kjöti og spurning hvort vandi bænda í dag væri jafn stór ef sá innflutningur væri minni eða jafnvel ekki til staðar.

Í þriðja lagi er ljóst að kaupmaður sem flytur inn kjöt, þarf að greiða það að fullu áður en það fæst flutt til landsins og ber því sjálfur ábyrgð á rýrnun vegna söluleysis, meðan hann fær innlenda kjötið lánað út á krít og skilar aftur því sem ekki selst. Þetta leiðir af sér að innflutta kjötinu verður haldið frammi fyrir neytandanum meðan leita þarf að því íslenska aftast í hillum verslana.

Í fjórða lagi þá er með öllu útilokað að hægt sé að treysta matvælaeftirliti ESB til að gefa út heilbrigðisvottorð fyrir erlent kjöt. Allar þær krísur og öll þau hneyksli sem það eftirlit hefur orðið fyrir síðustu ár, hafa gert trúverðugleika þess að engu. Þá er samkvæmt reglum ESB nægilegt að einungis 60% matvæla sé frá því landi sem fær upprunavottorðið, hin 40% geta verið hvaðan sem er úr heiminum. Uppraunavottorðið er að auki gefið á það land sem kjötið er unnið, sem þarf alls ekki að vera sama land og skepnan fæddist í og var alin upp.

Það er ljóst að þessi dómur hæstaréttar er enn eitt áfallið fyrir íslenska bændur og vandséð hvernig þeir geta bætt því á annað sem á þá hefur verið lagt. Þetta er í raun enn frekari staðfesting þess að vilji til að halda íslenskan landbúnað er einungis til staðar á tyllidögum. Ráðherra landbúnaðarmála er eins mikil dula og frekast getur og ætti að skammast sín. Allt sem hann hefur gert hefur verið gegn bændum og fáheyrt að ráðherra ráðist með slíku offorsi á þá stétt sem hann á að vera fulltrúi og varðmaður fyrir. Jafnvel forveri hans, formaður Viðreisnar, var skárri og er þá mikið sagt. Hætt er við að fáir kjósendur Sjálfstæðisflokk hugsi vel til hans í næstu kosningum.

Þá er einstakt hvernig fyrrum formaður bænda talar og einstakt hvernig einn maður hefur snúast frá dyggri stöðu með bændum til algerrar uppgjafar. Þingmaðurinn talar nú um að engin önnur lausn sé en að fara að dómi Hæstaréttar, meðan augljósa leiðin er auðvitað að byrja strax á að reyna viðræður við ESB um málið, þó reyndar lýkur á lausn þar séu frekar litlar, svona í ljósi þess hvernig breskum stjórnvöldum gengur að uppfylla vilja kjósenda sinna.

Þá er alltaf ein lausn eftir, lausn sem reyndar myndi leysa mörg önnur vandamál hér á landi og myndi leysa þingmenn frá þeirri kvöð að samþykkja landsölufrumvarp utanríkisráðherra, sem mun verða flutt eftir áramót. Sú lausn myndi einnig leysa fyrrum þingmann og ráðherra Sjálfstæðisflokks frá nefndarstarfi því sem nú þegar er farið að gera hann að einskonar hirðfífli.

Þessi lausn er uppsögn EES samningsins.


Bloggfærslur 15. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband