Samsæriskennigar og poppólismi

Í spegli kvöldsins, á fréttastofu ruv, var viðtal við Eirík Bergmann Eiríksson um bók hans Conspiracy and Populism. Þetta er orðinn fastur liður stjórnenda spegilsins og því vart þörf á að kaupa bók Eiríks, til að svelgja í sig stóra sannleikann. Nægir þar að hlusta reglulega á spegil ruv, til að fá allt innihaldið. 

Í kvöld útskýrði höfundurinn sína skilgreiningu á þjóðernispoppólisma og verður að segja að túlkun hans var bara nokkuð góð:

"Þjóðernispoppólismi gengur alltaf út á að skipta fólki í tvennt, þ.e. okkur góða hópinn, saklausa hópinn, hreina hópinn, sem ber að vernda gagnvart öðrum, sem eru þá hinir sem tilheyra okkur ekki. Það er þá yfirleitt tvennt, annars vegar utanaðkomandi hópur, sem okkur steðjar ógn af og hins vegar samverkamenn þeirra".

Þetta er sannarlega kunnuglegt, þekkjum þetta mæta vel úr íslensku samfélagi, þar sem skoðanir sumra eru taldar æðri en skoðanir annarra, jafnvel um hin minnstu mál. Oft hefur þetta leitt til þess að fólk hefur orðið að leita dómstóla til þess eins að fá að halda sinni skoðun. Nefna má t.d. Snorra í Betel og nú nýjasta dæmið um Kristinn Sigurjónsson, lektor í HR.

Góða, saklausa og hreina fólkið er í þessu sambandi það fólk sem telur sínar skoðanir þær einu réttu og gjarnan hallar það sér til vinstri í pólitík. Samverkamenn þess eru svo aftur þeir sem stundum hafa verið nefndir "virkir í athugasemdum", það fólk sem oftar en ekki hefur farið hamförum og sett þjóðfélagið á annan endann, gegnum það kerfi. Allir muna eftir látunum í Lúkasarmálinu, þegar hengja átti saklaust fólk, allt vegna skrifa "virkra" í athugasemdir fréttamiðla. Svo langt gekk að sumir fréttamiðlar lokuðu athugasemdardálkum sínum í kjölfarið, eða þrengdu verulega notkunarmöguleika þeirra.

Skilgreining Eiríks á þjóðernispoppólisma á því vel við á Íslandi. Ef menn eru ekki réttu megin við góða, saklausa og hreina fólkið, verður að velja hvert orð og hverja setningu að gaumgætni og alls ekki tala um það sem "ekki má". Þeir sem eru réttu megin mega hins vegar segja það sem þeim dettur í hug, jafnvel að vinnustaður sé ekki réttlætanlegur vegna þess að þar vinni "bara útlendingar".

Aldrei hef ég tekið mikið mark á blæstrinum frá Eiríki Bergmann, tel loftið í honum alveg mega missa sig. En það er með hann, eins og allir aðra, þá kemur stundum óvart eitthvað af viti, eins og þessi skilgreining hans á poppólisma, þó vissulega hann hafi ekki verið að ræða innlenda pólitík, heldur var hugur hans að venju staddur í Brussel. Og það sem fram hefur komið í speglinum hingað til um þessa bók hans, bendir ekki til að þar sé um mikla ritsmíð að ræða.

Kannski segir kynning á bókinni meira en nokkuð annað um hugmyndaflug Eiríks, en þar kemur fram að hann telur vera viðvarandi hugsun þeirra sem á móti ESB eru, að Angela Merkel sé laundóttir Adólfs Hitler.  Sjálfur er ég einlægur andstæðingur þess að Ísland gangi í ESB, þó ég taki ekki afstöðu til sambandsins að öðru leiti. Aldrei hef ég þó heyrt né lesið þá fullyrðingu að Merkel sé laundóttir Hitlers, fyrr en ég skoðaði kynningu á bók Eiríks Bergmanns Eiríkssonar, Conspirasy and populism.


Bloggfærslur 10. október 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband