Öllu snúið á haus hjá BF

Á fundi BF er því haldið fram að þörfin fyrir öflugri byggðalínu og samtengingu allra landshluta við hana sé stóriðjunni að kenna. Þvílík endemis þvæla!

Staðreyndin er sú að vegna stóriðjunnar er landið nú allt rafvætt. Við sem þjóð hefðum aldrei getað farið út í þær framkvæmdir sem þurftu til þess, hvorki virkjanaframkvæmdir né uppbyggingu flutningskerfisins, nema með samningum við stóriðjuna á sínum tíma. Það var forsenda þess að við gátum tekið lán til framkvæmdanna og það var stóriðjan sem greiddi þau lán niður. Þetta vita auðvitað allir íslendingar sem voru komnir af bleyju um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Hins vegar má kannski segja að þeim börnum sem hafa vaxið úr grasi síðan til afsökunar, að sagan er ekki kennd í skólum landsins.

Rafvæðing landsins hófst af krafti strax í byrjun áttunda áratugar og lagningu byggðalínu lokið undir lok þess áratugar, eða fyrir rúmum þrem og hálfum áratug. Í framhaldinu var síðan hafist handa við tengingu allra byggðarkjarna og sveitarbæi við sjálfa orkukerfið.

Með nýrri tækni og ekki síst vegna aukinnar kröfu um rafvæðingu alls þess sem hægt er að rafvæða, en er keyrt á innfluttu eldsneyti, eykst orkunotkun landsmanna. Því er byggðalínan orðin yfirlestuð og getur ekki svarað köllum markaðarins. Er orðin barn síns tíma. Þetta og sú staðreynd að aldur línunnar er farinn að halla vel á fjórða áratuginn veldur því að byggja þarf nýja og öflugri byggðalínu. Það kemur stóriðjunni ekkert við, en hins vegar skiptir þetta sköpum um framþróun byggðar í landinu og að hægt sé að útrýma olíukynntum bræðslustöðvum.

Þá er fullyrt á þessum fundi að rafmagnstruflanir á kerfinu séu stóriðjunni að kenna og því nauðsynlegt að samtengja landið. Fyrir það fyrsta þá verður raforkukerfið alltaf lokað, hvort sem það er hringtengt eða ekki. Alltaf sama orka sem liggur í því. Því mun samtenging landshluta litlu breyta varðandi orkuhögg frá stóriðjunni. Í öðru lagi er þegar búið að vinna gegn þessum sveiflum sem stóriðjan hafði á kerfið, með uppsetningu vara í spennuvirkjum sem fóðra hana. Við minnstu sveiflu rofnar samband stóriðjuvera við kerfið og högginu þannig haldið utan kerfis. Þessari vinnu lauk fyrir nærri áratug og því sveiflur frá stóriðjunni ekki lengur vandi flutningskerfisins.

Hins vegar eru vissulega truflanir á orkukerfi okkar, einkum á Vestfjörðum og Austfjöðrum, jaðarsvæðum byggðalínunnar. Þær truflanir skapast einkum af veðurfari og þeirri staðreynd að flutningskerfið er orðið gamalt og úr sér gengið. Þetta þarf að sjálfsögðu að laga og það ekki seinna en strax.

Það er því engum blöðum um það að fletta að uppbygging raforkukerfisins er bráð nauðsynleg. Jafn nauðsynlegt er að mynda eins margar hringtengingar þess og hægt er, þannig að ef eitthvað bilar á einum stað sé hægt að halda uppi fullri þjónustu við landsmenn. Ef byggja á upp hér þjóðfélag án innflutnings á eldsneyti, er þetta frum forsenda. Um þetta deilir enginn, hins vegar deila menn um hvaða leiðir skuli farið að því markmiði að tryggja raforku um allt land, bæði landfræðilega og fjármagnslega.

Það er í sjálfu sér sjónarmið að segja að stóriðjan eigi að koma að því verki, en þá eiga menn bara að halda sig við það sjónarmið. Ekki skreyta það einhverjum tættum fjöðrum! Ekki halda uppi málflutningi sem ekki stenst skoðun smábarns!

 


mbl.is Stóriðjan beri kostnaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband