EES og orkupakki 3

Björn Bjarnason hafnar því í grein sinni að þeir sem aðhyllast op3 þurfi að leggja fram einhverja sönnun fyrir því að hingað verði ekki lagður strengur. Nú er það svo að op3 fjallar fyrst og fremst um orkuflutning milli þeirra landa sem hann samþykkja. Reglugerð 714/2009, frá ESB og er hluti op3 segir;

Reglugerðin kveður á um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri. Markmið reglugerðarinnar er að setja sanngjarnar reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri og auka með því samkeppni á innri markaðnum. Þá leysir hún af hólmi eldri reglugerð um sama efni.

Skýrara etur þetta varla orðið og því hljóta þeir sem aðhyllast þennan orkupakka að þurfa að færa fyrir því sönnur að ekki verði lagður hér strengur, verði pakkinn samþykktur af Alþingi. Fyrir liggur að lög samkvæmt tilskipunum ESB eru rétthærri en lög viðkomandi þjóðar, þannig að einhliða fyrirvarar Alþingis eru ansi léttvægar ef til dómsmála kemur.

Fyrir stuttu hélt formaður Flokks fólksins því fram að umræðuhópurinn Orkan okkar, á FB, væri gerður fyrir Miðflokkinn, væntanlega þá að meina að andstaðan við op3 sé bundinn við þann flokk. Orkan okkar er umræðuhópur þeirra sem eru á móti op3, algerlega óháð flokkadrætti. Stór hluti þeirra sem þar skrifa eru, eða voru, félagar í Sjálfstæðisflokk. Þá er vitað að fyrrverandi þingmenn og ráðherrar í öllum flokkum, utan Viðreisnar, eru á móti orkupakkanum. Að Miðflokkurinn skuli vera að njóta einhverra ávaxta af op3, stafar eingöngu af því að sá flokkur hefur einn mótmælt pakkanum á Alþingi, að þingmenn þess flokks kunna að lesa í vilja kjósenda. Betur færi ef fleiri þingmen væru gæddir þeirri náðargáfu og hefðu kjark til að standa í lappirnar!!

Nú er það svo að ekki eru allir sáttir við EES og sá sem þetta ritar hefur verið á móti þeim samningi frá upphafi. Í fyrstu vegna þess hvernig málið var afgreitt, þegar Alþingi samþykkti þann samning með minnsta mögulega meirihluta, án þess að þjóðin fengi þar nokkra aðkomu. Síðar meir af þeirri ástæðu að þrátt fyrir að finna megi góða kosti við þann samning eru ókostirnir hróplegir. Það eru þó ekki allir sem eru í andstöðu við op3 sem vilja EES samninginn burtu. Gæti til dæmis ætlað að Jón Baldvin Hannibalsson vilji ekki fórna EES, þó hann sé yfirlýstur andstæðingur orkupakkans. Hitt er ljóst að með tilkomu þessa pakka hafa margir sem ekki voru í andstöðu við EES áður, nú farið að líta þann samning öðrum augum. Og alveg er á tæru að verði op3 samþykktur af Alþingi mun andstaðan við EES aukast verulega, enda ljóst að eina von okkar til að ná yfirráðum yfir orkuauðlindinn aftur, úrganga úr EES. Því ættu menn eins og Björn Bjarnason að vinna hörðum höndum að því að op3 verði sendur til heimahúsanna og þar fengin endanleg undanþága frá honum. Einungis þannig er hægt að bjarga EES.

Ekki ætla ég að telja allt það upp sem óhagkvæmt er okkur, verði op3 samþykktur. Fjöldi manna, bæði lærðir sem leikir hafa séð um það. Unnendum pakkans hefur hins vegar ekki tekist að benda á neitt okkur hagfellt, þeirra málflutningur hefur fyrst og fremst snúist um útúrsnúninga og máttlausar tilraunir til að gera lítið úr staðreyndum.

 

 


Lögbrot eiga ekki að líðast

Framkvæmdastjóri verslunar og þjónustu segir okkur fréttir af því að tugir tonna af erlendum lambahryggjum séu á leið til landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem ráðherra hefur ekki heimilað slíkan innflutning. Reyndar þvert á móti, þá hefur ráðherrann vísað tilmælum ráðgjafanefndar um inn og útflutning landbúnaðarvara til heimahúsanna og óskað eftir að nefndin endurskoði tillögu sína. Enda nægt kjöt til í landinu.

Kannski telja SVÞ sig utan laga og reglna í landinu, að það nægi að fífla einhverja embættismenn til fylgilags við sig.

Allt er þetta mál hið undarlegasta og engu líkara en að félagsmenn SVÞ hafi verið búnir að versla kjötið erlendis áður en nefndin gaf út úrskurð sinn. Hafi dottið niður á einhverja útsölu. Þá er magnið sem Andrés nefnir ótrúlegt, jafnvel þó svo einhver skortur hefði verið þessar tvær vikur sem eru til fyrstu slátrunar hér heima. Tugir tonna af hryggjum er nokkuð vel í lagt og ljóst að verslunin ætlar þarna að búa sér í haginn.

Það er vonandi að ráðherrann svari þessu á viðeigandi hátt og láti endursenda kjötið úr landi jafn skjótt og það birtist. Lögbrot eiga ekki að líðast!

Ef Andrés  er í einhverjum vandræðum með að fá hrygg á grillið hjá sér þá á ég a.m.k. tvo í kistunni hjá mér og gæti alveg selt honum þá, ef hann er tilbúinn að borga viðunnandi verð.

 


mbl.is Hryggir á leiðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurheimt votlendis

Það er margt athugunarvert við endurheimt votlendis og þann ávinning sem af því hlýst. Að mestu er stuðst við útreikninga IPCC í því sambandi, útreikninga sem gerðir eru við allt aðrar aðstæður en hér á landi. Út frá þeim upplýsingum og reyndar einnig íslenskum um lengd skurða og mati á áhrifum þeirra, er farið af stað og ætlunin að leggja í það verkefni ómælda fjármuni. Engar beinharðar staðreyndir liggja að baki, einungis mat og væntingar. Ekki svo sem í fyrsta skipti sem við Íslendingar förum þá leiðina að einhverju markmiði.

Matið á losun kolefnis úr þurrkuðu landi hér eru svo stjarnfræðilega hátt að engu tali tekur. Talað er um að það losni gróðurhúsaloftegundir upp á 11,7 milljónir tonna vegna þurrkaðs lands hér á landi. Þarna er svo mikið magn sem um ræðir að beinlínis ætti að vera lífshættulegt að hætta sér út á land sem hefur verið framræst! Þegar skoðaðar eru forsendur fyrir þessari tölu er ljóst að eitthvað stórkostlegt hefur skeð í útreikningum, fyrir utan að notast við staðla sem engan vegin er hægt að heimfæra á Ísland.

Þegar skoðaðar eru forsendur sem liggja að baki þessari tölu sést fljótt að um mjög mikið ofmat er að ræða, jafnvel hægt að tala um hreinan skáldskap. Þessar upplýsingar er hægt að nálgast í skýrslu á heimasíðu stjórnarráðsins.

Fyrir það fyrsta er það landsvæði sem sagt er vera innan þessa áhrifasvæðis 420.000 ha., þ.e. um 4% landsins. Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem sambærilegt land er talið vera 3% alls heimsins. Hvernig getur það staðist að hér, á þessari veðurbörðu eldfjallaeyju með sinn þunna jarðveg, skuli vera að meðaltali meira af þykkri jarðvegsþekju en að meðaltali yfir jörðina.

Næst ber að telja áhrifasvæði skurða. Samkvæmt skýrslu stjórnarráðsins er talið að áhrifasvæði skurðar sé um 200 metrar, eða 100 metrar á hvorn kannt. Vera má að hægt sé að tala um slíkt þegar einn skurður er grafinn eftir blautri mýri, þó varla. Slíkir skurðir eru fáséðir, hins vegar eru flestir skurðir hér á landi grafnir til að þurrka upp land til túngerðar. Þar er bil milli skurða mun minna, eða frá 35 - 45 metrar. í blautum mýrum jafnvel minna. Meiri lengd á milli skuða í blautu landi veldur því að illfært getur orðið um miðbik túnsins og spretta þar minni en ella. Ef við erum nokkuð rausnarleg og segjum bil milli skurða vera 40 metra, er ljóst að áhrifasvæði skurðarins fellur úr 200 metrum niður í 40 metra. Það munar um minna.

Í skýrslunni er talað um að grafnir hafa verið 29.000 km af skurðum, að mestu á árunum 1951 - 1985. Fyrsta skurðgrafan kom til landsins 1941 og fram að þeim tíma var einungis um að ræða handgrafna skurði. Frá 1985 hefur framræsla verið lítið meiri en fyrir komu fyrstu gröfunnar og þá gjarnan einungis þegar brýn nauðsyn er til. Nú er það svo að skurðir fyllast ótrúlega fljótt upp, sé þeim ekki haldið við og hætta að virka sem framræsla. Ef ekki er hreinsað reglulega upp úr þeim má áætla að þeir séu orðnir næsta fullir af jarðvegi eftir 40 ár, sér í lagi í blautu landi. Þetta staðfesta nýjustu rannsóknir Landbúnaðarháskólans. Toppnum í framræslu var náð 1969, síðastliðin 40 ár hefur lítið verið framræst og nánast hverfandi framræsla verið frá árinu 1985, eins og áður segir. Því má áætla að flestir skurðir í votlendi, sem ekki er nýtt sem tún, séu nánast fullir af jarðvegi og hættir að virka sem framræsluskurðir. Endurheimt votlendis með því að moka ofaní slíka skurði er því nánast gangslítil eða gagnslaus. Oftar en ekki, þegar fjölmiðlaglaðir einstaklingar láta taka af sér myndir þar sem verið er að "endurheimta votlendi", eru þeir skurðir sem sjást nánast uppgrónir og landið um kring þá þegar orðið að mýri. Jafnvel lét forsetinn okkar plata sig í slíka myndatöku fyrir nokkrum misserum. Verra er þó þegar myndefni birtist af mönnum vera að fylla ofaní skurði í skráþurru vallendi og ætlast til að fá fyrir það greiðslu.

Samkvæmt þeirri skýrslu sem stjórnarráðið gaf út og notast við varðandi útreikning á losun gróðurhúsalofttegunda, eru þeir stuðlar sem stuðst er við rangir, kol rangir. Út frá þeim er áætlað að til endurheimtingu 100 hektara lands þurfi að fylla fjóra kílómetra af skurðum. Staðreyndin er að til að endurheimta 100 hektara af þurrkuðu votlendi þarf að fylla yfir 20 kílómetra af skurðum, miðað við að skurðirnir séu nýir. Við hvert ár sem líður hækkar kílómetratalan og er komin upp í það óendanlega eftir 40 ár.

Sömu forsendur og skýrslan er byggð á, er stuðst við þegar um heildarlosun Íslands er reiknað. Það er því mikilvægt að endurreikna þessa hluti til samræmis við raunveruleikann. Allt bókhald, líka bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda, þarf að byggjast á staðreyndum. Og það er til mikils að vinna, með því að færa það til raunveruleikans má lækka opinbera losun hér á landi verulega, svo fremi að ekki gjósi.

Nú er það svo að ég hef ekkert á móti því að skurðum sem ekki eru í notkun sé lokað. Þannig má fá meira kjörland fyrir fugla. Því fylgir reyndar einn galli, en það er lélegri gróður og því minni framleiðsla á súrefni.

Allt þarf þó að gera á réttum forsendum og að baki öllum ákvörðunum, sér í lagi þegar verið er að tala um að ausa fé úr sameiginlegum sjóðum okkar, þurfa að liggja staðreyndir.

 


mbl.is Einar ráðinn fram­kvæmda­stjóri Vot­lend­is­sjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótleiki stjórnmálanna

Orkupakki 3 er farinn að bíta í hæla stjórnarflokkanna og ljóst að í þeim flokkum er fólk farið að ókyrrast, bæði þingmenn þeirra sem og hinir almennu kjósendur. Þingmennirnir, sumir hverjir, eru að átta sig á að kannski geti þeir ekki gengið að kjósendum sínum vísum í næstu kosningum og kjósendur þessara flokka eru farnir að horfa á önnur mið, sumir þegar yfirgefið sinn flokk. Nú er því leitað logandi ljósi að einhverju sem friðað gæti kjósendur.

Það fer ekkert á milli mála að með 0p3 flyst hluti stjórnunar orkumála úr landi. Þetta vita stjórnvöld og viðurkenndu þegar svokallaðir fyrirvarar voru settir. Og nú á að efla þessa fyrirvara enn frekar og viðurkenna þar endanlega hvert valdið fer, samkvæmt op3. Vandinn er bara sá að fyrirvarar við tilskipunum frá esb fást einungis í gegnum sameiginlegu ees/esb nefndina. Einhliða fyrirvarar einstakra þjóða er ekki gildir og hafa aldrei verið, enda gengur það einfaldlega ekki upp. Það myndi leiða til upplausnar esb/ees. Þetta vita stjórnvöld mæta vel, eða ættu a.m.k. að vita. Því mun Alþingi standa frammi fyrir því að samþykkja tilskipun esb um op3 með öllum kostum og göllum, líka þeim að ákvörðun um lagningu sæstrengs mun flytjast úr landi. Heimagerðir fyrirvarar munu þar engu breyta. Eina vörnin felst í að vísa tilskipuninni aftur til sameiginlegu nefndarinnar.

Það liggur í augum uppi og þarf enga snillinga til að sjá, að fari svo að Alþingi samþykki tilskipun esb um orkupakka3 og setji síðan einhverja fyrirvara, jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu, um einhverja tiltekna gildistöku eða framkvæmd, samkvæmt þeirri tilskipun, mun landið ekki einungis lenda í dómsmáli fyrir samningsbrot heldur gæti skapast skaðabótakrafa á ríkissjóð, þar sem upphæðir væru af þeirri stærðargráðu að útilokað væri fyrir okkur sem þjóð að standa skil á. Það er alvarlegt þegar stjórnarherrar leggja til slíka lausn, enn alvarlegra af þeim sökum að þeir eiga að vita afleiðingarnar.

Allt er þetta mál hið undarlegasta. Fyrst þurfti nauðsynlega að leggja streng til útlanda og samþykkja op3 vegna þess að svo mikil umframframleiðsla er í landinu og nauðsynlegt að koma henni í verð. Nú er það bráð nauðsyn vegna þess að það stefnir í skort á orku, innan stutts tíma. Þegar umræðan um op3 fór á skrið í þjóðfélaginu þurfti í raun ekkert að óttast. Stór hluti Sjálfstæðismanna og nánast allur þingflokkur Framsóknar voru á móti og þingmenn þessara flokka ekkert ósínkir á þá skoðun sína. Um VG var minna vitað, en samkvæmt þeirra stefnumálum áttu þeir góða samleið með hinum tveim stjórnarflokkunum. Til að festa þetta enn frekar í sessi samþykktu æðstu stofnanir Framsóknar og Sjálfstæðisflokks afgerandi ályktanir um málið.

Það var svo nánast á einni nóttu sem þetta breyttist. Þingmenn Sjálfstæðisflokks kepptust nú um að réttlæta fyrir þjóðinni þá skoðun sína að samþykkja bæri op3 og þingmenn Framsóknar fylgdu á eftir. Frá VG heyrist lítið nema frá formanninum.
Jafn skjótt og þessi sinnaskipti stjórnarþingmanna urðu ljós, hófst alvöru barátta gegn op3. Við sem tjáð okkur höfum um málið höfum þurft að þola svívirðingar og uppnefningar vegna þess og kölluð öllum illum nöfnum. Fyrir suma hefur þetta reynst erfitt, aðrir hafa sterkari skráp. Jafnvel þingmenn og ráðherrar hafa tekið þátt í slíkum uppnefningum. Verst hefur mér þótt þegar andstæðingar op3 eru afgreidd sem "rugluð gamalmenni sem ekkert er mark á takandi". Slíkar uppnefningar lýsa kannski frekar þeim sem sendir þær, hver hugsun þess fólks er til eldri borgara landsins. Önnur uppnefni hefur verið auðveldara að sætta sig við, jafnvel að vera kallaður "fasisti", "einangrunarsinni", "afturhaldssinni" eða "öfgasinni". Allt eru þetta orð sem þingmenn og ráðherrar hafa látið frá sér fara á undanförnum mánuðum og mörg fleiri í sama stíl. Ætti það fólk að skammast sín!!

Ljótleiki stjórnmálanna opinberast þarna í sinni verstu mynd.

Enn hafa stjórnvöld möguleika á að snúa af rangri leið. Það gæti reynst einhverjum stjórnarþingmanninum eða ráðherranum erfitt, en öðrum yrði það frelsun.

Ég skora því á þingmenn stjórnarflokkanna að hafna orkupakka 3 og vísa málinu aftur til sameiginlegu ees/esb nefndarinnar. Dugi það ekki, er eina leiðin að vísa málinu til þjóðarinnar.

 


mbl.is Útilokar ekki þjóðaratkvæði um sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að kunna að lesa vilja kjósenda

Samkvæmt skoðanakönnun er kjarnafylgi Sjálfstæðisflokks farið að gefa sig. Þegar gengur á kjarnafylgið er stutt í endalokin.

Málflutningur þingmanna flokksins í orkupakkamálinu hafa verið með þeim hætti að jafnvel hörðustu stuðningsmenn hans, til margra ára og áratuga, hafa nú yfirgefið flokkinn. Það litla fylgi sem eftir stendur er vegna fólks sem enn telur sér trú um að hægt verði að snúa forustunni til réttra vegar. Ef það ekki tekst, ef þingmenn Sjálfstæðisflokks halda sig við sama keip og samþykkja orkupakka 3, eftir rúman mánuð, mun fylgið hrapa enn frekar, jafnvel svo að ekki verði lengur hægt að tala um stjórnmálaflokk.

Vissulega eru margir innan Sjálfstæðisflokks sem ekki eru sáttir við forustuna, svona almennt. Slíkt hefur oft gerst áður og flokkurinn jafnað sig aftur. Aldrei hefur þó fylgið farið niður í slíka lægð sem nú.  Ástæðan er einföld, nú er óánægjan fyrst og fremst bundin við ákvarðanatöku í máli sem skiptir landsmenn miklu. Máli sem kemur inn á sjálfstæði þjóðarinnar og hag fólksins sem hér býr. Það er nefnilega tiltölulega auðvelt að skipta um forustu, en sjálfstæðið verður ekki endurheimt ef því er fórnað.

Þegar niðurstöður þessarar skoðanakönnunar lá fyrir fylltust netmiðlar af ýmsum "spekingum", sem sögðu að nú hefði Sigmundur Davíð veðjað á réttan hest, að með staðfestu gegn op3 gæti hann aflað sér og sínum flokk atkvæða. Betur væri að fleiri stjórnmálamenn kynnu að lesa þjóðina jafn vel og SDG. Fylgið fer nefnilega til þeirra sem vinna að vilja og hag þjóðarinnar. Sumir kalla það popppúlisma, en í raun er það bara eðlilegur hlutur. Þegar síðan stjórnmálamenn blindast svo gjörsamlega að þeir ekki einungis hafna vilja þjóðarinnar, heldur einnig vilja þeirra eigin kjósenda og samflokks manna, getur niðurstaðan einungis farið á einn veg.

Ekki ætla ég að fjalla um alla þá galla sem op3 fylgir, né að reyna að finna einhverja kosti við þann  pakka, enda skiptir það í raun ekki máli lengur. Þjóðin er upplýst um málið og hefur gert upp hug sinn. Það er hins vegar merkilegt, svo ekki sé meira sagt, ef forusta þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem með völd í landinu fara, ætla að láta þann pakka verða til þess að flokkar þeirra stór skaðist eða jafnvel þurrkast út.

Það verður skarð fyrir skildi ef Sjálfstæðisflokkur, þessi höfuð flokkur landsins, hverfur af svið stjórnmálanna, fyrir það eitt að forusta flokksins hefur ekki vit né getu til að lesa vilja kjósenda.


mbl.is „Auðvitað erum við óánægð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herjólfur

Nú er kominn til landsins og reyndar nokkuð síðan, nýr Herjólfur. Ekki reyndist unnt að fá notað skip í stað eldri Herjólfs og því var ákveðið að byggt skyldi nýtt skip, sem hannað yrði sérstaklega til siglinga milli Landeyjarhafnar og Vestmanneyja. Vissulega var þetta mun dýrari lausn en talin nauðsynleg. Skipið kom til landsins fyrir rúmum mánuði síðan og átti að hefja siglingar skömmu síðar. En þá kom babb í bátinn. Þetta skip, sem sérstaklega var hannað fyrir þessar tvær hafnir, passaði bara alls ekki.

Nú er spurning hvað misfórst. Hafnirnar eru jú eins og þær voru þegar skipið var hannað, engin breyting orðið þar. Fyrst kom í ljós að ekjubrúin var allt of brött, síðan að landgangur passaði bara alls ekki og nú er komið í ljós að viðlegukantur er fjarri því að passa fyrir þetta skip. Er hægt að gera stærri hönnunarmistök?

Að vísu hefur það verið frekar regla en undantekning að sérfræðingum vegagerðarinnar mistekst í hönnum og má nefna fjölmörg dæmi þar um. En að skip sem sérstaklega er hannað fyrir tvær ákveðnar hafnir skuli ekki passa, er nokkuð kómískt.

Og nú segir fjölmiðlafulltrúi vegagerðarinnar að þetta sé bara allt í lagi, að ekkert liggi á að bæta úr. Gamli Herjólfur sinni þessu bara ágætlega! Til hvers í and... var þá verið að láta byggja nýjan?!!

Vestamanneyingar hafa verið nokkuð utan kerfis þegar að samgöngumálum kemur. Stjórnvöld hverju sinni hafa verið ótrúlega dugleg að humma fram af sér bætur fyrir þetta sveitarfélag, sem telur jú á fimmta þúsund íbúa. Allar lausnir miðast við að kostnaður sé sem minnstur og leiðir það gjarnan til að úrbætur verða í mýflugumynd. Þegar upp er staðið eru lausnir fáar og lélegar og kostnaður fer langt fram úr hófi.

Engan hefði þó grunað að sérhannað skip fyrir þessar tvær hafnir myndi ekki passa þegar það loks kom til landsins.


mbl.is Segir þolinmæði á þrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband