Misjafnt hafast þingmenn að

Meðan þingmaður Framsóknarflokks hefur áhyggjur af því að norskir stórútgerðamenn fái ekki að að stunda laxeldi við strendur okkar og óskar eftir eftir fundi í atvinnuveganefnd til að reyna að bæta þeim norsku skaðann, þá vill annar þingmaður, einnig í sömu nefnd en öðrum flokki, kalla nefndina saman til að ræða nýjasta útspil landbúnaðarmála. Í því útspili sínu ætlar ráðherra að demba íslenskum landbúnaði ofaní skúffu, svo hann þurfi nú ekkert að velt þeirri atvinnugrein meira fyrir sér.

Ef einhver hefði sagt við mann, fyrir nokkrum árum síðan, að ráðherra úr Sjálfstæðisflokki myndi leggja niður íslenskan landbúnað, bara rétt sí svona og það með einu pennastriki, hefði maður samstundis talið þann mann eitthvað undarlegan, jafnvel ekki heilann á geði. Kratar jú og þau æxli sem frá þeim hefur vaxið, eins og t.d. Viðreisn, væru vissulega trúandi til þessa, jafnvel varlegt að treysta VG til að standa vörð um hagsmuni landbúnaðarins eftir að Jón Bjarnason stimplaði sig út af Alþingi. En ekki móðurflokkur landsmanna. Ekki er neinu að treysta hjá Framsókn lengur, þó þeirra aðal vígi hafi alla tíð verið á landsbyggðinni. Þar er nú við völd fólk sem erfitt eða útilokað er að treysta, enda með meiri huga við að hjálpa norskum stórútgerðum en íslenskum bændum.

Að setja íslenskan landbúnað undir skrifstofu alþjóðamála sýnir annað af tvennu; þekkingarleysi ráðherrans á landbúnaði eða vísvitandi niðurlæging hans gegn þessum málaflokk. Hvort heldur er skiptir í sjálfu sér litlu máli, ráðherrann er greinilega ekki hæfur til síns starfs! Hann hefði allt eins getað afhent SVÞ yfirráð yfir þessum málaflokk.

Það fer að verða fátt um fína drætti fyrir okkur kjósendur. Þegar þessi ríkisstjórn loks fellur getur landsbyggðafólk afskrifað strax 6 af 8 stjórnmálaflokkum sem hafa menn á þingi. Þingmenn þessara sex flokka eru svo órafjarri fólkinu í landinu, sérstaklega því fólki sem býr utan borgarmarkanna, að óhjákvæmilega mun kvarnast verulega úr fylgi þeirra í næstu kosningum, sem vonandi verða haldnar sem fyrst svo ekki hljótist enn frekari skaði af.

 


mbl.is Hætt við ráðningu skrifstofustjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

20 ára óréttlæti að ljúka

Á morgun lýkur loks skattalegu óréttlæti sem viðgengist hefur í 20 ár. Hluti landsmanna hefur verið skattlagður sérstaklega fyrir það eitt að eiga erindi til sinnar höfuðborgar. Hvort þetta stenst lög ætla ég ekki að tjá mig um, enda enginn þorað að láta á slíkt reyna.

Stundum hefur verið sagt að enginn sé neyddur til að fara göngin, að hægt sé að aka fyrir Hvalfjörð. Vissulega er nokkuð til í þessu, en þó ekki. Staðreyndin er sú að viðhald vegarins um Hvalfjörð hefur verið í skötulíki síðustu tuttugu ár, auk þess sem lítil snjóhreinsun vegarins gerir það að verkum að þessi möguleiki er fjarri því að vera raunhæfur, yfir vetrarmánuðina.

Hér á landi hefur verið valin sú leið að innheimta sérstakan skatt til vegabóta gegnum eldsneyti. Þannig greiða þeir sem nota vegakerfið sjálfir fyrir viðhald þess og endurbyggingu. Þeir sem ekki eiga eða nota bíla, hafa verið undanþegnir þeirri kvöð að bæta og halda við vegakerfi landsins. Þetta er í sjálfu sér réttlátt kerfi, þeir borga sem nota.

Einn hængur hefur þó verið á þessari skattlagningu, en hann er sá að misvitrir stjórnmálamenn haf sífellt sótt í þetta fé, til annarra nota. Því hefur sá skattur sem bíleigendur greiða í formi gjalds á eldsneyti, ekki skilað sér til vegabóta og stundum einungis lítill hluti þess verið nýttur til þeirra nota. Því er sú staða komin upp núna að vegakerfi landsins er orðið úr sér gengið og víða stór hættulegt.

Það var við lok níunda áratugar síðustu aldar og upphafi þess tíunda, sem nokkrir góðir menn fóru að vinna að því hörðum höndum að skoða hvernig mætti þvera Hvalfjörðinn. Hugmyndir um göng undir fjörðinn komu út úr þeirri vinnu, eftir að brú eða ferja voru ekki talin raunhæfar lausnir.

Um miðjan tíunda áratuginn var ákveðið að stofna félag um byggingu gangnanna og Spölur varð til. Göngin voru gerð og þau opnuð í júlí 1998, eða fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Skiptar skoðanir voru um framkvæmdina, en fljótt kom í ljós hversu þörf hún var.

Þó að um einkaframkvæmd væri að ræða var að einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákveðið að leggja skatt á hvern þann sem um göngin fóru og þannig átti að greiða hana upp. Þessi aðferðarfræði var vægast sagt undarleg. Vel mátti fá einkafyrirtæki til framkvæmdanna og reksturs gangnanna, en ríkið átti einfaldlega að greiða fyrir það, kannski á tuttugu árum, kannski styttri tíma, kannski lengri, allt eftir því hvernig um hefði samist.

Þann pening sem ríkið þurfti, til að greiða fyrir göngin, eignaðist það sjálfkrafa við opnun gangnanna, í formi sparnaðar annarsstaðar. Það gleymdist nefnilega að gera ráð fyrir því hvað göngin myndu spara ríkissjóð í viðhaldi á veginum fyrir Hvalfjörð. Ljóst er að spár um aukningu umferðar myndu leiða til þess að byggja þyrfti upp hver einasta metir af Hvalfjarðarvegi og halda honum síðan við, að ógleymdum stór auknum snjómokstri yfir vetrarmánuðina.

Hvað ríkissjóður hefur sparað á þessum tuttugu árum sem liðin eru, get ég ekki sagt til um, en ljóst er að búið væri að greiða göngin fyrir þá aura, fyrir nokkru. Þeir sem hafa ekið fyrir Hvalfjörð, á síðustu tuttugu árum, vita að þar þyrfti að kosta miklu til svo sá vegur gæti annað þeirri umferð sem um göngin fara, á hverjum degi.

Ég ætla rétt að vona að enginn stjórnmálamaður sé svo skini skroppinn að hann samþykki slíka staðbundna skattlagningu sem við Hvalfjarðargöng hafa verið. Það er með ólíkindum að sumir landsmenn þurfi að greiða aukaskatt til að ferðast milli landshluta, meðan aðrir þurfa þess ekki. Slíka mismunun mun enginn kjósandi láta bjóða sér aftur og refsa þeim stjórnmálamönnum harðlega sem að slíku stæðu.

Auðvitað er það svo að skattlagning í gegnum eldsneyti er ekki endilega rétta aðferðin, til að fjármagna viðhald vegakerfisins. Til eru aðrar leiðir, sem eru alveg jafn réttlátar. Hvergi þekkist þó tvöfalt kerfi, eins og þeir sem um Hvalfjarðargöng hafa ekið, síðust tuttugu ár, hafa þurft að búa við.

Víða erlendis eru tollhlið algeng og ökumenn greiða þar sinn hlut í mannvirkjum. Eðli málsins samkvæmt gengur slíkt ekki upp hér á landi, vegna þess hversu dreifbýlt landið er. Það myndi leiða af sér að fjölmennustu vegirnir yrðu þá greiðir og beinir, meðan minna eknir vegir væru verri. Minnst eknu vegirnir yrðu þá væntanlega bara moldarslóðar. Ætla mætti að þeir sem væru búnir að þvælast um nánast vegleysur, af Austurlandi eða Vestfjörðum, kæmu inn á nánast gullslegna vegi umhverfis höfuðborgina!

Þungaskattur, þar sem menn greiða skatt eftir eknum kílómetrum, er önnur leið. Þetta var í gildi gagnvart díselbílum hér á landi fyrir nokkrum áratugum, eða þar til farið var að lita díselolíu. Þá var þessi skattur færður í hana. Með fjölgun rafbíla má þó gera ráð fyrir að þetta fyrirkomulag verði ofaná í framtíðinni, það þarf nefnilega að viðhalda og endurbæta vegakerfið, þó við rafbílavæðum bílaflotann. 

En frumforsenda þess er auðvitað að afnema þá gjaldið úr eldsneytinu.

Það er sorglegt að hlusta á vegamálaráðherra tala fyrir skattskýlum, nánast við hver gatnamót. Þessi maður, sem fyrir kosningar sagði að ekki kæmi til greina að taka upp slíkt kerfi, var varla búinn að setjast í stólinn þægilega, þegar hann skipti um skoðun!

Ég trúi á hið góða í mannskepnunni, þó erfitt sé að hafa einhverja trú á ráðherranum. Ég trúi því að meðal þeirra 63 manna og kvenna, sem þjóðin kaus til stjórnunar landsins, séu a.m.k 32 sem hafa þá skynsemi sem þarf til að sinna þeim skildum sem þeir sóttust eftir. Þá þarf ekki að óttast þó einhverjir misvitrir eða jafnvel óvitrir, sitji í stól ráðherra!!


mbl.is Gjaldtöku hætt um kl. 13 á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgöngubót

Nú geta íbúar norðanverðra Vestfjarða farið að hlakka til, það styttist í að Dýrafjarðagöng opni.

Þá mun verða greiður vegur suður í Arnarfjörð, aldeilis ágæti sunnudagsrúntur. Vonandi sér Vegagerðin sóma sinn í að gera síðan hringtorg Arnarfjarðar megin við göngin, til að auðvelda mönnum að snúa við. Það er víst einhver bið eftir áframhaldi á vegabótum og nýjustu fregnir herma að bensín og díselbílar verði löngu úreltir, þegar loks næst að klára tenginu gangnanna við umheiminn, að sunnan verðu.

Vegamálaráðherra hefur nú gengið til liðs við hreppstjóra Reykjavíkurhrepps og ætlar að vera honum innan handar við að koma fjármunum í lóg. Borgarlína er nú fremst á dagskrá þeirra félaga svo kannski má ætla að ekki einungis bensín og díselbílar verði úreltir, heldur verði rafbílar búnir að fá sinn heiðurssess á byggðasöfnum landsins, þegar loks er hægt að klára þjóðveginn um Vestfirði!

 

 


mbl.is Lengd ganganna orðin 3.658 metrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er hoggið í sama knérunn

Aldrei hefur þjóðin verið spurð að því hvort hún vilji að framsal valdheimilda verði rýmkað í stjórnarskránni. Þó ætla þingmenn að standa saman sem einn um slíka breytingu. Hvers vegna?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur upp. Eftir hrun var farið í ítarlega vinnu um breytingu stjórnarskrár, þar sem tilgangurinn var fyrst og fremst að afnema þennan varnagla úr henni, enda þáverandi stjórnarflokkar búnir að afreka að kljúfa þjóðina í tvennt með umsókn að ESB. Frumskilyrði slíkrar umsóknar var auðvitað að þurrka úr stjórnarskránni þau ákvæði sem hömluðu aðild að erlendu ríkjasambandi.

Þá hefur stundum heyrst að vegna þess að EES samningurinn er sífellt farinn að brjóta meira á þessu ákvæði stjórnarskrár, þurfi að afnema það. Svona rétt eins og ef breyta ætti lögum til samræmis við þarfir afbrotamanna. Þvílíkt bull!

Nú er staðan hins vegar sú að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum vilja stjórnvöld endilega afhenda öll yfirráð yfir stjórn raforkumála til ESB og svo slíkt megi gerast verður auðvitað að laga stjórnarskránna aðeins til. Auðlindin verður ekki framseld með núgildandi stjórnarskrá og henni skal því breytt!

Auðvitað er það svo að stjórnarskrá er ekkert heilagt plagg og henni þarf að viðhalda. Breyta og bæta það sem þarf, miðað við þróun og þarfir. Slíkt hefur verið gert gegnum tíðina. Þegar núgildandi stjórnarskrá var samin voru hugtök eins og mannréttindi túlkuð á annan hátt en í dag og því lítið eða ekkert um það nefnt í frumútgáfunni. Í dag fjallar stór hluti stjórnarskrár um mannréttindi. Fleira mætti telja sem talist getur breyting til batnaðar á stjórnarskránni, frá því hún fyrst var skrifuð.

Framsali valdheimilda úr landi má þó ekki breyta í stjórnarskrá. Stjórnmálamönnum er fráleitt treystandi fyrir slíku. Það verður alltaf að vera í valdi þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort eða hversu mikið af valdheimildum verði afhent erlendum aðilum, hvort sem þar er um að ræða erlend ríki, ríkjasambönd eða jafnvel erlendum auðkýfingum!!

Störf íslenskrar stjórnmálastéttar sanna svo ekki verður um villst, að hún hefur ekki vit til að fara með slíkt vald!!

Það versta er þó, að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá, til að færa hana nær nútíma, gætu verið hafnað af þjóðinni. Ekki er ákvæði um að kosið sé um hverja efnislega breytingu stjórnarskrár fyrir sig, einungis kosið um breytinguna í heild sér. Því gætu nauðsynlegar breytingar hennar fallið af þeirri einu ástæðu að verið er að læða með afnámi til varnar afsali á valdheimildum til erlendra aðila. Taka varnagla þjóðarinnar og færa hann til misvitra og mis heiðarlegra stjórnmálamanna!


mbl.is Stjórnarskrárvinnan gengur vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einræðistilburðir ráðherra

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er vissulega minnst á nýja heilbrigðisstefnu. Þar er talað um samráð heilbrigðisstétta, eflingu nýsköpunar, minni þátttöku sjúklinga og fleira í þeim dúr. Kaflinn er nokkuð langur, þó efnislega sé hann rýr. Hvergi er minnst á að kommúnistavæða eigi kerfið, enda ljóst að þingmenn Sjálfstæðisflokks hefðu aldrei samþykkt aðild að ríkisstjórn með slíka stefnu. Ekki verður sama sagt um Framsókn, þar var markmiðið eitt og einungis eitt, að komast í ríkisstjórn. Hefðu jafnvel gengið til slíks samstarfs þó ætlunin væri að leggja niður heilbrigðiskerfi landsins! 

Eitthvað virðist orðið "samráð" vefjast fyrir heilbrigðisráðherra. Í hennar augum eru hennar orð samráð og allir verði að hlýða. Svo sem ekki neitt nýtt, sást vel þegar sama persóna var umhverfisráðherra um árið, enda þurfti atbeina dómstóla til að kveða hana niður.

Sú ætlun ráðherra að öll læknisþjónusta sé á höndum ríkisins og að mestu leyti framkvæmd við Landspítalann, er ekki einungis hugmynd, heldur er hún farin að framkvæma hana. Það þrátt fyrir að það brjóti í bága við lög. Væntanlega mun aftur þurfi dómstóla til að fá hana til að skilja hlutina.

Að ætla að færa alla heilbrigðisþjónustu undir Landsspítalann er auðvitað galið. Jafnvel þegar búið verður að klastra upp kofunum við Hringbraut, ef það þá einhvertíma tekst, mun sú stofnun vera fjarri því að geta tekið við allri heilbrigðisþjónustu landsins. Þeir kofar hafa einfaldlega ekki nægt rými til þess, þar sem svokallaður nýr spítali er allt of lítill og engin leið til að stækka hann!

Það kerfi sem við höfum í dag hefur leitt til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi er talið eitt hið besta í heimi. Hvers vegna þá að breyta því? Eðlilegra er að efla það kerfi sem fyrir er og bæta þannig aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu. Það kerfi sem við búum við er byggt á sama kerfi og nágrannalöndin hafa, stæðsta einingin er á vegum ríkisins en ýmsar aðrar í einkarekstri. Jöfnun til landsmanna er síðan fengin með stýringu á fé úr ríkissjóð. Þannig fæst fjölbreyttara og skilvirkara heilbrigðiskerfi, öllum til framdráttar.

Það skal því engan undra þó einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokk velji að tjá skoðanir sínar um málið í fjölmiðlum. Annan kost hafa þeir ekki, enda eins og áður sagði tilburðir ráðherra til einræðis öllum kunnir.

Hins vegar er stór undarlegt að Rósa Björk Brynjólfsdóttir skuli velja að kalla þessi skrif þingmannanna árás á ráðherra. Orðfæri hennar og framkoma í Silfrinu bendir til að hennar tilgangur sé einn og einungis einn, að sprengja stjórnarsamstarfið.

Vonandi gengur það upp hjá henni svo komist verði hjá enn frekari skaða af hálfu VG!!

 


mbl.is Ræði álitamálin ekki í fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þingmenn og ráðherrar almennt með skerta greind?

Það er hreint með ólíkindum hvernig þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkanna geta hagað sér. Þeir láta sem þeir einir viti og allir aðrir séu ekki marktækir. Jafnvel þegar málflutningur þeirra er svo yfirmáta heimskulegur að hvert mannsbar með lágmarks skynsemi sér ruglið. Því er von að maður velti fyrir sér hvort virkilega einungis fólk sem hefur litla eða enga skynsemi og mjög takmarkaða greind, veljist á þing.

Nú hefur um nokkurra mánaða skeið verið rædd tilskipun frá ESB um orkumál, oftast nefnd 3. orkumálapakki sambandsins. Umræðan hefur eingöngu snúist um hvort og þá hversu mikinn skaða fyrir okkur sem þjóð, þessi tilskipun mun leiða af sér. Enginn hefur nefnt hvort eitthvað gott er í þessari tilskipun fyrir Ísland og íslenska þjóð, enda ekki hægt að finna neitt af því tagi í henni. Einungis er því deilt um hversu slæm hún er, mikið eða mjög mikið.

Þetta hefði að öllu venjulegu átt að duga til að þingmenn, allir sem einn, segðu einfaldlega að þessi tilskipun kæmi okkur ekkert við og hún því ekki samþykkt. Punktur.

Það atriði sem mest hefur verið rætt um er hvort og þá hvenær tilskipunin tekur gildi hér á landi. Auðvitað tekur hún gildi um leið og Alþingi hefur samþykkt hana. Allt tal um sæstreng kemur því í sjálfu sér lítið við, þó hugsanlega áhrifin verði ekki mjög mikil fyrr en slíkur strengur hefur verið lagður. Þá munu áhrif tilskipunarinnar birtast landsmönnum af fullum þunga og vandséð hvernig hægt verður að halda landinu í byggð. Minni áhrif, sem þó gætu orðið veruleg, munu koma fram fljótlega eftir samþykkt tilskipunarinnar. Má kannski helst þar nefna að nánast öruggt er að skipun um að Landsvirkjun verði skipt upp í mörg fyrirtæki, til að mynda hér "samkeppnismarkað", mun koma fljótt.

Með tilskipuninni er valdið yfir því hvort sæstrengur verði lagður yfir hafið ekki lengur í höndum íslenskra stjórnvalda, nema kannski að nafni til. ACER mun setja reglur um hvað þurfi að uppfylla til að fá leyfi fyrir slíkum streng og komi einhver fram sem getur uppfyllt þær kröfur, verða íslensk stjórnvöld að samþykkja strenginn. Að öðrum kosti mun málið fara fyrir eftirlitsstofnun ESA og þaðan fyrir EFTA dómstólinn, sem getur ekki annað en dæmt samkvæmt þeim reglum sem ESB/ACER hafa sett.

Eitthvað eru ráðherrar farnir að óttast þar sem þeim dettur nú sú barnalega lausn í hug að byrja á að setja lög um að ákvörðun um lagningu á slíkum streng verði í höndum Alþingis. Þvílíkur barnaskapur!! Þekkja ráðherrar virkilega ekki EES samninginn, hafa þeir ekki séð hvernig framkvæmd hans er háttað?!!

Um leið og Alþingi samþykkir tilskipanir frá ESB hefur það samþykkt að þau lög eða reglur sem þeirri tilskipun fylgja, verði þau íslenskum lögum um sama efni yfirsterkari. Því er algerlega tilgangslaust að samþykkja nú einhver lög um að vald yfir því hvort strengur verði lagður, muni vera hjá Alþingi. Jafn skjótt að sjálf tilskipunin hefur verið samþykkt mun hún yfirtaka þau lög. Það er í besta falli barnalegt að trúa öðru.

Þegar svo frámunalega vitlaus tilskipun, fyrir okkur Íslendinga, kemur frá ESB á auðvitað að hafni henni strax. Auðvitað eru til stjórnmálaflokkar, sem óska þess heitast að við göngum í ESB, sem sjá ekkert athugavert við þetta, en jafnvel aldraðir stjórnmálamenn innan þeirra geta ekki sætt sig við þessa tilskipun.

Tveir af þrem stjórnarflokkanna eru með nýsamþykktar ákvarðanir um að framselja ekki frekara vald yfir orkulindum til ESB og þriðji stjórnarflokkurinn hefur hingað til talað um að yfirráð ESB yfir Íslandi séu nú þegar meiri en gott þykir. Þetta ætti að róa fólk, þar sem þessir flokkar eru jú með meirihluta á Alþingi, auk þess sem a.m.k. tveir stjórnarandstöðuflokkar eru á sama máli. Því er í raun svipað fylgi fyrir samþykkt tilskipunarinnar á Alþingi og á meðal þjóðarinnar, eða innan við 20%. Lýðræðið virðist því virka þarna fullkomlega og ætti þjóðin því ekki að óttast.

Það sem hins vegar veldur hugarangri er hvernig ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna tala og haga sér. Sér í lagi ráðherrar og þingmenn þeirra tveggja flokka sem nýlega samþykktu í sínum æðstu stofnunum, að ekki skuli samþykkja þessa tilskipun. Það er alls ekki óþekkt að þingmenn hafi þurft að beygja sig undir vald flokksforustunnar, jafnvel þó þeir fari gegn eigin samvisku og samþykktum flokks síns. Svo virðist vera að einhvern slíkan leik eigi að spila á Alþingi, á komandi vetri.

Þegar gerður er samningur er ætið farið bil beggja. Þegar annar aðilinn er orðinn dómerandi yfir hinum, er ekki lengur um samning að ræða, heldur kúgun. Þegar EES samningurinn var gerður, var farið að mörkum þessa og fljótlega var ljóst að við máttum okkar lítils gegn hinum samningsaðilanum. Þessi tilskipun er í raun prófsteinn á hvort lengur er hægt að tala um EES samning eða hvort við verðum að fara að tala um EES kúgun. Tilskipun sem gerir okkur einungis illt, bara spurning um hversu illt, getur aldrei orðið hluti samnings, hún er hrein og klár kúgun!

Framtíð EES samningsins mun því verða ljós á þessu þingi, lifi ríkisstjórnin það lengi. Verði tilskipunin samþykkt er ljóst að krafan um uppsögn EES samningsins verður algjör, enda framtíð lands og þjóðar að veði!!

 

 

 


mbl.is Þriðji orkupakkinn í febrúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver skelfilegasta falsfrétt sögunnar

Það er með ólíkindum að einum manni hafi tekist að fífla alla heimsbyggðina. Donald Trump er sem smákrakki við hlið þessa manns og sjálfur Kristur einungis hálfdrættingur hans. Þessi maður heitir Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna.

Al Gore ferðaðist þvers og kruss um heimsbyggðina, á sinni einkaþotu og kom fram hvar sem nægilega hátt gjald var greitt, til að boða falsfréttir sínar. Ekki leið á löngu þar til misvitrir sérfræðingar voru tilkippilegir til að taka undir málstað hans og setja einhverskonar stimpil á hann. Ein helstu rök Gore og reyndar þau einu sem hann hafði fram að færa, voru að fylgni væri milli hækkandi hitastigs og losunar ýmissa efna sem fengu viðurnefnið gróðurhúsalofttegundir. Loftegundir sem í raun eru skilyrði lífs á jörðinni.

Reyndar er það rétt hjá Gore, það er vissulega fylgni þarna á milli. Það sem honum yfirsást var að fyrst hlýnaði loftslag og við það jukust þessar loftegundir nokkru síðar, sem í raun er eðlilegt þar sem freðmýrar, einhver stæðsti geymslubanki þessara lofttegunda, þiðna upp við aukna hlýnun jarðar. Þannig slapp út gígatíst magn þessara loftegunda.

Af þessu brölti sínu varð Al Gore vel auðugur maður. Og hvað notaði hann sinn auð í? Lagði hann sitt af mörkum til minnkunar svokallaðra gróðurhúsalofttegund? Fór auður hanns til að þróa eitthvað sem gæti komið í staðinn fyrir þá orku sem nú er mest notuð? Nei, hann nýtti mest af sínu fé til kaupa á hlutafé í olíufélögum og olíhreinsistöðvum. Hann flýgur enn um heiminn á sinni einkaþotu og heldur enn fyrirlestra um falsfréttina, þar sem nóg er borgað.

Auðvitað er þetta nokkur einföldun á málinu, þó Al Gore hafi verið iðinn þá á hann ekki allan heiðurinn af falsfréttinni. Fyrsta fræi hennar var sáð í byrjun áttundu aldar, þegar Margaret Thatcher stóð í illvígum deilum við kolanámumenn. Þá fékk hún nokkra "vísindamenn" til að koma fram með þá falfrétt að kol væru stór hættuleg umhverfinu. Þetta gerði hún til að réttlæta sigur sinn í þeirri deilu, sigur sem byggði á að leggja niður flestar kolanámur í Bretlandi. Síðan þá hafa margir stjórnmálamenn notað þessa aðferð, til ýmissa verka. Enginn náði þó eins miklum árangri og Al Gore.

Í dag er staðan orðin sú að enginn hefur kjark til að mótmæla, enda búið að fjármagna heilu vísindasamfélögin til að réttlæta falsfréttina. Þó ber nokkurn skugga á að engar spár þessa svokallaða vísindasamfélags hafa staðist, enda rökvillan algjör. Stjórnmálamenn, sem flestir hugsa fyrst og fremst um eigin hag, þora ekki að mótmæla og má segja að það gildi um allan heim. Þó vissulega einhverjir þeirra séu með efasemdir, þá er kjarkurinn ekki nægur til að spyrja spurninga. Það er bara hlýtt í blindni.

En snúum okkur aðeins að kjarnanum, hlýnun jarðar. Það efast enginn um að loftslag á jörðinni hefur hlýnað nokkuð frá byrjun tuttugustu aldar, eða frá lokum litlu ísaldar. Hvert æskilegt hitastig jarðar er hefur engum tekist að upplýsa. Víst er þó að mannkynið myndi sennilega ekki vilja fá hér sama meðalhita og á síðustu öldum fyrir iðnbyltinguna. Sagan segir okkur að hitastig jarðar hefur sjaldan verið langi eins, heldur skiptast á köld og heit tímabil, allt frá mjög heitum tímabilum til alvöru ísalda. Þessar upplýsingar hafa vísindamenn fengið úr borkjörnum, m.a. á Grænlandsjökli. Þeir borkjarnar ná tugi þusund ára aftur í tímann og sýna t.d. að fyrir um 3 til 4000 árum var mjög hlýtt á jörðinni og stóð það hlýskeið yfir í nokkrar aldir. Annað hlýskeið var fyrir og um landnám hér á landi. Bæði þessi hlýskeið voru mun hlýrri en nú, jafnvel þó engir dísilbílar væru á ferðinni. Allt tal um að Grænlandsjökull muni hverfa er því hreinar falsfréttir. Það eitt að borkjarnar úr jöklinum tugi þúsund ára aftur í tímann segja svo ekki verður um villst að jökullinn lifði af þessi síðustu hlýskeið, sem við eigum enn mjög langt í land með að ná.

Eldri loftlagsfræðingar, þeir sem vinna fyrir vísindin en ekki peninga, hafa um nokkuð langt skeið haldið því fram að hitastig jarðar skýrist fyrst og fremst af tvennu. Sólinni og sporbaug Jarðar um hana. Sólgos senda hingað orku. Á ellefu ára fresti minnka sólgos og aukast síðan aftur. Þessi sveifla stækkar og minnkar af einhverjum ástæðum og vitað er að á litlu ísöld fóru sólblettir úr engi yfir í mjög litla. Um síðust aldamót var þessi sveifla hins vegar frá því að vera töluvert af sólblettum yfir í mikla. Sporbaugur jarðar er sporöskjulagaður, sem færist til á nokkrum öldum. Þessir vísindamenn telja að þegar saman kemur óvenju mikil fjarlægð frá sólu og lítil sem engin sólgos, þá kólni hratt á jörðinni og þegar fjarlægðin er lítil samhliða miklum sólgosum, hlýni. Þessi ferli geta staðið yfir í hundruð eða þúsund ár. Í versta falli kemur ísöld og í besta falli gott hlýskeið. Fram til þessa hafa þeir haldið því fram að við værum á leið í hlýskeið, sem myndi hækka hita jarðar enn frekar, en nú sjá þeir blikur á lofti og eru farnir að tala um að kólna muni á jörðinni næstu ár og áratugi. Hvort um tímabundna kólnun er að ræða eða hvort við stefnum í alvöru ísöld, er ekki enn hægt að sjá. Eitt eru þessir vísindamenn sammála um og það er að svokallaðar gróðurhúsalofttegundir eru ekki til og að mengun mannskepnunnar kemur ekki hitastig jarðar við, enda hlutur hennar svo ofboðslega lítill í heildar samhenginu. Til þess þarf eðlisfræðin að finna sér leið gegn sjálfri sér, þar sem vitað er að hlýnun jarðar leiðir til aukinna lofttegunda sem almennt ganga undir nafninu gróðurhúsaloftegundir. Því er útilokað að þær lofttegundir leiði til hlýnunar, þar sem jörðin væri þá fyrir löngu bráðnuð niður!!

Það er erfitt að hugsa sér fáránlegri aðgerðir en íslensk stjórnvöld boða nú. Að ætla að kasta fleiri milljörðum króna í súginn til þess eins að þóknast einhverjum falsspámönnum, er eins vitlaust og hugsast getur. Og hvert fara þessir peningar, hver mun græða?! Almenningur borgar, svo mikið er víst og þetta mun leiða til verri lífskjara.

Mengun, sóun og jafnvel í sumum tilfellum þurrkun mýra, getur haft slæm áhrif. Ekki þó á hitastig jarðar, heldur almennt. Því er sjálfsagt að vinna gegn slíku, en einungis á réttum forsendum. Loftmengun hefur slæm áhrif á fólk og á að minnka þess vegna. Þó er loftmengun einungis ein gerð mengunar og í heildinni ákaflega lítill hluti hennar. Stæðsta mengunarógn sem að mannskepnunni stafar nú, er af allt öðrum toga og ekkert minnst á hana í aðgerðum stjórnvalda, en það er plastmengun. Sóun er á allan hátt óafsakanleg, hverju nafni sem hún nefnist. Ekkert í þessum tillögum tekur á sóun. Þurrkun mýra getur haft slæm áhrif á fuglalíf og þess vegna á að stuðla að því að einungis land sem ætlað er til nota sé þurrkað upp. Endurheimt votlendis hefur engin áhrif á hitastig jarðar, en ef svo væri ætti frekar að stuðla að því að þurrka sem mest! Að breyta landi sem engin raunveruleg vísindi sanna að sleppi út co2, yfir í land sem sannarlega mun framleiða mikið magn af metan gasi, er auðvitað algjörlega galið! Fleira mætti telja upp sem mannskepnan þarf að laga hjá sér, en kannski er stæðsta váin sú gengdarlausa fjölgun hennar. Með sama áframhaldi skiptir ekki máli hvernig loftslag verður á jörðinni, né neitt annað. Fjölgun mannskepnunnar mun leiða af sér hrun hennar.

Þegar peningar fá að tala óáreittir, er ljóst að illa er komið. Peningar stjórna stórum hluta vísindasamfélagsins, peningar stjórna fréttamiðlun heimsins, peningar stjórna stjórnmálastéttinni. Peningarnir eru sóttir til almennings og lenda í örfáum vösum þeirra sem mesta auðinn hafa og stjórna heiminum.

Og nú hefur íslenska ríkisstjórnin stigið enn eitt skrefið í fórn þegna landsins á altari Mammons!!

https://www.youtube.com/watch?v=oYhCQv5tNsQ

 


mbl.is 6,8 milljarðar til loftslagsmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítt með lögin

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur gjarnan átt erfitt með að gera skil á milli pólitíkusar og laga. Hennar sýn á pólitík er, að hennar mati, æðri lögum.

Í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var Svandís umhverfisráðherra. Í því embætti tók hún pólitíska ákvörðun er stangaðist á við lög. Henni var bent á þetta á sínum tíma, en þverskallaðist við og stóð föst fyrir. Hennar sýn var æðri lögum. Að lokum fór þetta mál fyrir dómstóla, sem að sjálfsögðu dæmdu eftir lögum. Ráðherrann var dæmd sek af glöpum í starfi. Í eðlilegu pólitísku umhverfi hefði þetta átt að leiða til þess að pólitískum ferli Svandísar væri lokið og að hún yrði útilokuð frá ráðherraembætti um lífstíð.

Það kom því verulega á óvart, þegar Katrín Jakobsdóttir opinberaði ráðherralista sinn, er núverandi ríkisstjórn var mynduð, að sjá að þar færi Svandís Svarsdóttir með eitt af "stóru" ráðuneytum ríkisstjórnarinnar.

Enn á ný ætlar þessi siðleysið að ráða för Svandísar, hennar pólitíska sýn á nú að ráða för. Skítt með lögin!


mbl.is Segist ekki brjóta lög með synjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband