Vextir?

Hægt er að líta sem svo að þessir 4 milljarðar, sem ríkisstjórnin samþykkti sem "aukafjárveitingu" til vegamála, sé einungis lítill hluti af þeim vöxtum sem ríkissjóður skuldar til málaflokksins.

Bílaeign landsmanna skilar ríkissjóði hátt í 100 milljarða tekjum á ári hverju. Stór hluti þess fjár er skattekja sem beinlínis er eyrnamerkt vegakerfi landsins. Aldrei hefur þó það fé allt skilað sér til málaflokksins, hefur verið nýtt til annarra þátta í rekstri ríkissjóðs. Yfir allan þjófabálk tók þó í kjölfar hrunsins, þegar fjármagn til viðhalds og endurbóta vegakerfisins var skert svo hressilega að vegakerfið beið stór skaða af. Enn hefur ekki náðst að koma fjárframlögum til vegamála á sama grunn og fyrir hrun, jafnvel þó ríkissjóður standi nú enn betur en nokkurn tíma áður. Enda er sá hluti vegakerfisins sem enn tórir, að hruni kominn. Ekki finnst sá vegspotti í vegakerfi landsins sem hægt er að segja að sé í lagi!! Um 70% vegakerfisins nær einungis einni til tveim stjörnum af fimm, samkvæmt úttekt EuroRAP og enginn vegspotti nær fimm stjörnum!!

4 milljarðar nú til viðbótar við þá 8 milljarða sem eru á fjárlögum, til viðhalds og endurbóta vegakerfisins, er lítið brot af þeim 100 milljörðum sem ríkissjóður aflar af bíleigendum. Það er því stór skattur sem þeir þurfa að greiða til reksturs ríkisbáknsins, umfram aðra skattgreiðendur, eða hátt í 90 milljarðar króna. Það gerir að meðaltali aukaskatt upp á vel yfir 400.000 kr. á hvern bíl í landinu, ár hvert, auk alls kostnaðar við viðhald og endurbætur vegakerfisins.

Það má nefna fleira, sem rökstyður þá kenningu að þessir 4 milljarðar séu einungis vextir af láni ríkisins frá bíleigendum. Hvalfjarðargöng voru byggð fyrir réttum tuttugu árum síðan. Allan kostnað af þeirri framkvæmd hafa þeir greitt sem um göngin hafa ekið og vel það. Auk auðvitað að greiða ríkinu fullan skatt af þeim sama akstri.

Við tilkomu Hvalfjarðargangna var öll uppbygging og endurbætur vegarins fyrir fjörðinn stöðvuð og viðhald þess vegar skert fram úr hófi. Við þetta sparaði ríkissjóður slíka upphæð, sem ökumenn um göngin greiddu, að næsta víst má telja að 4 milljarðarnir séu rétt vextir þeirrar upphæðar!

Það er ljóst að ríkissjóður hefur tekið einhliða lán hjá bíleigendum þessa lands, án þess þeir hafi getað rönd við reyst og er enn að stunda þessa iðju. Á þessu ári mun fara til málaflokksins 12 milljarðar, eins og áður sagði. Þetta er einungis brot þess fjár sem eyrnamerkt er til viðhalds og endurbóta vegakerfisins, af þeim sköttum sem bíleigendum er gert að greiða.

Eðli málsins samkvæmt, bitna skattar á bíleigendur fyrst og fremst á landsbyggðafólki. Það býr ekki við sama lúxus og höfuðborgarbúar, að hafa kost á að sleppa einfaldlega bílaeign. Þar koma til fjarlægðir við öll aðföng, sækja sér vinnu og ekki síst við að sækja sér þjónustu. Mörg er sú þjónusta sem landsbyggðafólk þarf að sækja, er einungis veitt á höfuðborgarsvæðinu. Þá valda óhóflegir skattar á rekstur bílaflotans því að öll vara verður dýrari á landsbyggðinni og samkeppni fyrirtækja verður erfiðari við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er því landsbyggðaskattur.

Að ráðherra skuli hæla sér að því að honum hafi tekist að kría út 4 milljarða úr ríkissjóð, af þeim hundruðum milljarða sem ríkissjóður hefur stolið frá málaflokknum gegnum tíðina, tugum milljarða á þessu ári, er lítilmannlegt!!


mbl.is Fjórir milljarðar í brýnar vegaframkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað hvort, eða

Annað hvort samþykkir Alþingi tilskipun ESB um þriðja orkupakka sambandsins, eða ekki. Engar undanþágur eru í tilskipuninni, þannig að ef Alþingi samþykkir hana er verið að færa völd yfir orku okkar úr landi. Svo einfalt er það!!

Það kemur hins vegar ekki á óvart þó ESB aðildarsinnar finni sig knúna til að tala um einhverja ímyndaða fyrirvara, fyrirvara sem þó eru hvergi nefndir í tilskipuninni. Fyrir þeim er sjálfstæði okkar lítils virði og stjórnarskráin einungis til óþurftar.

Það er í hæsta máta undarlegt að ráðherra skuli leita álits "sérfræðings" sem er illa haldinn af ESB veikinni og ekki annað að sjá en að ráðherra sjálfur sé eitthvað smitaður.

En til hvers var ráðherra að leita eftir slíku áliti? Dugir henni ekki leiðbeiningar landsfundar eigin stjórnmálaflokks? Er hún kannski svo illa smituð, að hún telji nauðsyn að finna, með öllum tiltækum ráðum, leið framhjá samþykkt landsfundar? Á maður virkilega að trúa því að ráðherrar og kannski þingmenn Sjálfstæðisflokks ætli að stika út í það forarsvað?!!

Og sannarlega mun það verða stjórnarskrárbrot, samþykki Alþingi tilskipunina. Í Noregi er þegar hafin vinna við málsókn vegna stjórnarskrárbrots Stórþingsins, vegna sömu tilskipunar.

Málflutningur ESB sinnans og álitsgjafa ráðherra, fjallar í stuttu máli um að samþykkt tilskipunarinnar hafi engin áhrif hér á landi og færð fátækleg og jafnvel lygarök fyrir því máli. Þá mætti spyrja þennan ágæta mann þeirrar spurningar; til hvers að samþykkja eitthvað sem kemur okkur ekkert við og skiptir engu máli?!!

Staðreyndin er einföld. Ef við viljum halda yfirráðum yfir auðlindum okkar, má aldrei rétta litla fingur út fyrir landsteinana. Nú eru það orkuauðlindir, á morgun kannski fiskveiðiauðlindirnar!

 

 


mbl.is Gæti falið í sér stjórnarskrárbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spámaðurinn mikli

Hinn mikli spámaður Eiríkur Bergmann Einarsson, evrópufræðingur, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi frambjóðandi Samfylkingar, hefur nú fellt sinn dóm. Öllum til huggunar er einstaklega sjaldgæft að spádómar þessa mikla spámanns rætist.

Skoðanakannanir eru ekki kosningaúrslit og því fráleitt að velta sér upp úr hugmyndum um meirihlutasamstarf samkvæmt þeim. Það eru getgátur einar sem engu máli skipta. Eftir að talið hefur verið upp úr kjörkössum kemur tími svokallaðra stjórnmálafræðinga, að segja sitt álit. Þar til eiga þeir að hafa vit á að þegja, nema auðvitað þeir séu að hygla einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokk.

Svo oft höfum við gengið að kjörborðinu síðastliðinn áratug, með tilheyrandi flóði skoðanakanna, að allir landsmenn ættu að vita að slíkar kannanir eru ekki marktækar. Jafnvel kannanir sem gerðar hafa verið örskömmu fyrir kosningadag, hafa verið svo fjarri raunveruleikanum að furðu sætir.

Hitt er annað mál að útgáfa skoðanakanna er vissulega skoðanamyndandi, þó sérstaklega þegar "vitringar" eru látnir blása í kjölfarið. Þessu hefur verið mjög haldið á lofti á fréttstofu ruv, jafnvel svo vel að verki staðið þar að túlkun skoðanakanna hefur á stundum verið teygð vel til, svo réttur álitsgjafi geti gefið rétt álit.

Og nú ætlar útvarp K100, í eigu moggans, að feta sömu leið og nýta sömu "sérfræðingana". Það er mogganum til minnkunar.


mbl.is Viðreisn í oddastöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað ekki

Það bæri nýrra við ef VG tækju upp á því að vera á móti skattlagningu. Þessi flokkur, með þáverandi formann í stól fjármálaráðherra, setti einstakt met í fjölgun og hækkun skatta á einungis einu kjörtímabili. Katrín gæti því með engu móti staðið gegn frekari álagningu á landsmenn.

Það er gilt sjónarmið að þeir sem njóta greiði. Þetta á ekki síður við um bíleigendur sem aðra.

Og vissulega er það svo, bíleigendur greiða fyrir það sem þeir njóta, af hendi ríkisvaldsins, reyndar fjórfalt. Í dag eru álögur á þá sem þurfa að nota eigin bíl mjög miklar, meir en fjórum sinni hærri en það fjármagn sem skaffað er til vegamála. Stór hluti þessarar álagningar er eyrnamerkt viðhaldi og endurnýjun vegakerfisins. Því miður skilar það sér ekki þangað, heldur hverfur í ríkishítina.

Það er því með algerum ósköpum að nú séu ráðamenn að tala um að leggja enn meiri álögur á bíleigendur. Þó Katrín hafi ekki útilokað frekari skattlagningu á bíleigendur er ekki sama sagt um núverandi samgönguráðherra. Fyrir kosningar og reyndar eftir þær líka, eftir að hann fékk lykilinn að ráðuneytinu, hafnaði sá maður með öllu öllum hugmyndum um vegaskatt. Ekki að sjá að honum sé annt um mannorð sitt. Eftir að hafa skaddað það verulega fyrir tæpum tveim árum síðan, hefur hann nú endanlega gengið af því dauðu!! Undarlegast af öllu er þó að rótin að þessari hugmynd um vegaskatt kemur úr Sjálfstæðisflokki, þeim flokk sem hvað duglegastur er að tala um lækkun skatta, a.m.k. fyrir hverjar kosningar.

Menn geta deilt um með hvaða hætti ríkisvaldið skattleggur bíleigendur, svo þeir greiði fyrir viðhald og endurnýjun vegakerfisins. Hvort greiddir eru vegatollar eða hvort eldsneyti sé skattlagt. Það ætti þó ekki að þurfa að deila um að ekki verði gert hvoru tveggja!!

Það er ærinn sá skattur sem landsbyggðafólk þarf að greiða, þó ekki bætist á stór aukinn aksturskostnað, með tilheyrandi auknum kostnaði við öll aðföng. Og ekki má gleyma þeirri augljósu staðreynd að slíkur skattur mun auka verðbólguna með tilheyrandi hækkun vaxtakostnaðar. Ekki mun það hjálpa unga fólkinu að eignast húsnæði!

 


mbl.is „Við höfum aldrei útilokað gjaldtöku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeirra ær og kýr

Það er borgarstjórnarmeirihlutans ær og kýr að láta aðra þrífa eftir sig skítinn, að kenna öðrum um það sem miður fer. Sóðaskapur þessa borgarstjórnarmeirihluta er þvílíkur að engu tali tekur.

Ekki er hugsað um að þrífa götur svo sómi sé af og þegar í óefni er komið er bíleigendum kennt um. Auðvitað verður til einhver sóðaskapur vegna bílnotkunar, svona eins og af flestum mannanna verkum. Það er hins vegar hvernig sveitarstjórn stendur að þrifum þess sóðaskaps sem skilur á milli sóðanna og hinna sem snyrtilegri eru.

Þegar skólpkerfi borgarinnar bilar er ekki einungis reynt að þegja slíka bilun í hel, meðan skólpið fyllir fjörur borgarinnar, heldur er reynt að koma sökinni yfir á aðra, að venju. Ekki er sóðaskapurinn þar þrifinn upp, frekar en götur sópaðar. Þegar svo borgarbúi kvartar ætlast stjórn borgarinnar til að íbúar þrífi upp skítinn! Aldeilis hreint ótrúlegt!!

Þar sem megnið af því rusli sem er í fjörum borgarlandsins er notaður klósettpappír, mætti Eiríkur Hjálmarsson gjarnan svar því hvort hann ætlist til að klósettpappírinn sé settur í ruslatunnurnar, eftir notkun!

Svo ætla borgarbúar að kjósa þessa endemis sóða yfir sig í fjögur ár til viðbótar!!

 


mbl.is Vesturbæingum boðið í skólphreinsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jakkalakkar

Jakkalakkar með leðurgljáandi stresstöskur eru nú vaknaðir til lífsins, enda stórir hlutir að gerast.

Það er auðvitað með ólíkindum að hér á landi skuli vera slitið milli framleiðslu og sölu orkunnar, að búinn sé til milliliður sem gerir ekkert annað en að hækka verð orkunnar til landsmanna. Enn ótrúlegra er að hver sem er geti gengið á þennan markað, stofnað fyrirtæki til sölu orku og grætt á því peninga. En þetta var okkur fært með einni tilskipun frá ESB, sem kjarklausir aumingjar Alþingis samþykktu. Og allt er þetta gert í nafni frelsis, frelsis til að græða!

Þessi tilskipun getur átt rétt á sér á stórum raforkumarkaði, þar sem samkeppni ríkir, en hér á landi, dreifbýlu landi 340.000 íbúa, er þetta næsta hjákátlegt.

En nú eru bjartir tímar framundan, hjá jakkalökkunum. Á næstu dögum mun Alþingi, enn jafn illa mannað og áður, ef ekki verr, samþykkja enn eina tilskipunina frá Brussel, tilskipun sem mun opna jakalökkunum nýja leið til að græða. Tilskipun sem mun stækka raforkumarkaðinn hér á landi úr 340.000 notendum upp í 500.000.000 notendur. Þá er gott að eiga sölufyrirtæki með rafmagn frá Íslandi!

Það dettur engum heilvita manni að stofna sölufyrirtæki um rafmagn á Íslandi, þessum litla markaði sem nánast útilokað er að komast inná og algerlega útilokað að geti boðið orkuna á lægra verði. Þessir menn eru ekki að stofna einhver góðgerðasamtök, einungis að hugsa að eigin hag, eins og viðskiptamenn ætið gera. Þeir veðja á aumingjaskap og kjarkleysi íslenskra stjórnmálamanna, enda sterkar líkur á vinningi þar.

Á nýliðnum landsfundum tveggja stjórnarflokka var samþykkt að Ísland gæfi ekki eftir yfirráð yfir orkuauðlindum okkar til ESB. Í því felst að samþykkja ekki þriðja hluta orkumálabálks ESB. Það var ekki liðin nóttin frá landsfundi Sjálfstæðisflokks, þegar menn í æðri stöðum innan flokksins fóru að túlka þessa samþykkt á allt annan hátt en hún raunverulega var og síðan hafa menn innan dyra Valhallar leitað logandi ljósi að undankomuleið frá þessari samþykkt.

Formaður flokksins lét hafa eftir sér, við fréttastofu ruv, að tilskipunin hefði engin áhrif hér á landi, ekki fyrr en að og ef við legðum sæstreng til meginlandsins. Þvílík fyrra!!

Staðreyndin er einföld. Ef alþingi samþykkir tilskipun um þriðja orkumálabálk ESB, tekur hún strax gildi. Þar eru engar undanþágur. Þessari tilskipun fylgir að ný stofnun ESB, ACER, með staðsetningu í Slóveníu, mun yfirtaka alla stjórnun raforkumála í löndum ESB. Einnig mun ACER taka yfir alla stjórnun orkumála í löndum EES ef öll lönd þess samþykkja tilskipunina. Þessi yfirtaka verður strax og tilskipunin hefur verið samþykkt. Noregur er þegar búinn að samþykkja hana og víst að Lictenstein mun einnig gera slíkt hið sama. Við stöndum því ein eftir.

ACER mun því, strax að lokinni samþykkt tilskipunarinnar, taka yfir orkumál okkar Íslendinga og eftir það mun Alþingi ekkert hafa að segja, né við landsmenn. Ofarlega á forgangslista ACER er lagning sæstrengs milli Íslands og Bretlands. Gera má ráð fyrir að innan árs frá samþykkt tilskipunarinnar muni framkvæmdir við strenginn vera hafnar. Ef upp kemur deila um kostnaðarskiptingu lagningar þessa strengs, mun ACER úrskurða um hversu mörg hundruð milljörðum okkur ber að greiða. Alþingi og við landsmenn munum ekkert geta við því gert!

Þetta þýðir að orkuverð hér á landi mun hækka svo að tala má um hamfarir. Fyrirtæki sem byggja á notkun raforku munu leggjast af, með tilheyrandi atvinnuleysi. Önnur gætu hugsanlega skipt yfir í olíu.

Sú orka sem ætlað er að flytja gegnum strenginn er næsta lítil á evrópskan mælikvarða, þó stór sé á íslenskan, enda þar verið að tala um orku sem svarar meira en þeirri orku sem Kárahnjúkavirkjun framleiðir. Og víst er að vilji ACER er til að flytja enn meiri orku úr landi, að leggja annan streng, þann þriðja og jafnvel fjórða! Til að fæða þá alla þarf auðvitað að virkja og þá munu umhverfissjónarmið lítils metin. Enda mun það verða á valdi ACER að ákveða hvar virkjað er, ekki Alþingis. Jafnvel helgi Gullfoss gæti orðið rofin!!

Það er því von að jakkalakkarnir rumski, enda óendanlega miklir fjármunir í boði, bara ef maður er nógu fljótur að grípa þá. Leðurglansandi stresstöskurnar munu bólgna, aftur og aftur, endalaust!!


mbl.is Hrista upp í samkeppni á orkumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband