Að gráta Björn bónda

Björn Bjarnason grætur Moggann sinn sárt á bloggi sínu. Honum þykir sárt að formenn stjórnmálaflokka fái þar ekki heiðurssess um áramót og helst heilsíðu mynd einnig.

Nú er það svo að lítil sem engin eftirspurn er eftir hugleiðingum formanna stjórnmálaflokka hér á landi, enda marg sýnt að þær hugleiðingar eru lítils virði. Kosningaloforð þeirra, sem sumir taka trúanleg, eru fljót að gleymast eftir að atkvæði hafa verið talin og því vart meira að marka hugleiðingar þeirra við áramót.

Þetta vita ritstjórar Moggans og eru því ekki að sóa pappír í slíka vitleysu.

Formenn stjórnmálaflokka eru svo sem ekkert í vandræðum með að koma sínum misvitru hugleiðingum á framfæri, þó mogginn, einn fréttamiðla, átti sig á tilgangsleysi þess boðskapar.

Hitt væri fersk, ef formenn stjórnmálaflokka hér á landi tækju upp á þeirri nýlundu að standa við orð sín, að standa vörð lands og þjóðar og bara yfirleitt sýna einhvern minnsta vott af því að þeir séu að reyna að vinna sína vinnu!!

 


Siggi og Nonni, eða bara Dagur

Enn bætist á óráðslistann, nú skal byggja jarðgöng í Hafnafirði. Það mætti halda að Dagur væri búinn að taka yfir óstjórn landsins.

Björn Leví, Pírati, hefur bent á að dæmið gangi bari alls ekki upp, að 100-140kr dugi engan veginn fyrir öllum þeim framkvæmdum sem boðaðar hafa verið. Komst hann að þessu áður en göng í Hafnafirði voru boðuð, framkvæmd upp á eittþúsund og tvöhundruð miljónir króna!

En kannski misskilur Björn þetta og við hin líka, kannski er nóg að rukka 100-140 krónur við hvert skatthlið, bara hafa þessi skatthlið nógu andskoti mörg og þétt!

Fyrst þarf 10 til 15 skatthlið,til þess eins að borga stofnkostnað vegna skattsins, síðan þarf 15 til 20 skatthlið til að greiða rekstrarkostnað ruglsins og innheimtu skattsins. Þá er hægt að snúa sér að því að reikna út allan kostnað við þá draumóra sem pjakkarnir hafa lagt fram og finna út hversu mörgum skatthliðum þarf að bæta við.Vandinn er hins vegar sá að nánast daglega dettur þeim eitthvað nýtt í hug, sem framkvæma má. Það gæti því orðið nokkuð tafsamt fyrir okkur landsbyggðafólk að komast til borgarinnar, þegar aka þarf gegnum hvert tollahliðið af öðru, að svo þéttriðið net þeirra verði að vart verði bíllengd á milli.

Það er ekki að undra þó manni detti Dagur í hug, í hvert sinn sem Siggi og Nonni opna á sér munninn. Peningavitið ekkert og raunveruleikinn þeim öllum jafn fjarlægur.

Siggi og Nonni geta þó ekki búist við að fá þá silki meðferð sem Dagur fær, þegar allt fer í hundana. Þeir munu ekki stjórna rannsóknarnefnd um eigið vanhæfi og enn síður nefnd sem rannsakar rannsóknarnefndina.

 


mbl.is Jarðgöng í Hafnarfirði á listanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eyða lottovinningnum áður en dregið er

Enn bætist við vegskattafarsann. Nú skal byrjað á að eyða skattinum áður en hann hefur verið lagður á! Þvílíkt bull!!

Maður er eiginlega orðinn svolítið ruglaður á þessu máli öllu og erfitt orðið að fylgjast með því. Hver talar í sínu horni innan stjórnarinnar og enginn virðist vita hvað hinn er að gera. Minnir nokkuð á ævintýrið um jólasveinanna.

Oft hafa draumóramenn á Alþingi nefnt vegskatta, gegnum tíðina. Alltaf hafa þeir verið kveðnir niður, hið snarasta. Um nokkurn tíma heyrðist ekkert svona óráðshjal frá löggjafasamkomunni.

Það var svo fyrir tveim árum síðan að ný ríkisstjórn tók hér völdin, undir stjórn Sjálfstæðisflokks, þess flokks sem predikar lægri skatta og minna bákn, eða gerði það a.m.k. hér á árum áður. Það kom því eins og skrattinn úr sauðaleggnum þegar nýskipaður samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, fór að tala fyrir vegsköttum. Satt að segja hélt maður í fyrstu að um grín væri að ræða hjá ráðherranum, að áramótagleðin væri ekki alveg farin úr kolli hans. Því miður bráði þessi vitleysa ekki af manninum og hélt hann uppteknum hætti allt þar til þessi ríkisstjórn sprakk, nokkrum mánuðum síðar. Þar sem rökstuðningur þessa ráðherra var nokkuð ruglingslegur og erfitt að henda reiður á hvað hann var raunverulega að hugsa og segja, varð þetta mál aldrei meira en einskonar bull hjá honum.

Svo komu kosningar. Fyrir þessar kosningar voru sumir kjósendur nokkuð forvitnir um hvar frambjóðendur stæðu í þessu máli. Sem von var áttu frambjóðendur nokkuð erfitt með að tjá sig um málið, enda það allt svo óljóst og í raun á engu að byggja nema röfl eins fyrrverandi ráðherra, röfl sem betur átti kannski heima á einhverri ölstofu borgarinnar. Ein frambjóðandi steig þó fram og tók skýra afstöðu, veggjöld eða vegskattar yrðu aldrei lagðir á ef hann kæmist til valda. Enginn vafi var á að maðurinn meinti það sem hann sagði, enda var sama hvar hann kom fram, á þessu hnykkti hann í hvert sinn sem hann opnaði á sér kjaftinn. Þetta var formaður Framsóknarflokks, Sigurður Ingi Jóhannesson. Víst er að mörgum stuðningsmanni þessa flokks létti mjög, þarna var maður sem þorði og engin tvímæli voru um þetta mál af hans hendi.

Eftir nokkuð jaml var mynduð var ný ríkisstjórn. Að vísu ekki alveg í samræmi við niðurstöðu kosninga, þar sem þeir flokkar sem töpuðu tóku sig saman og mynduðu meirihluta og settu þannig þá flokka sem mest unnu á varamannabekkinn. En hvað með það, íslenskir stjórnmálamenn eru svo sem ekki í neinum sérstökum tengslum við þjóðina, svo þetta kom ekkert endilega á óvart. Nú var formaður Framsóknar orðinn samgönguráðherra. Málið var því í höfn, svo lengi sem þessi ríkisstjórn tórir. Þetta áréttaði hann í sínu fyrsta viðtali sem ráðherra, þegar hann enn einu sinni afaneitaði vegsköttum.

Og svo komu aftur áramót. Eitthvað leggjast áramót illa í þingmenn, einkum ráðherra. Kannski fer skaupið svona illa í þá, kannski eitthvað annað. Í það minnsta varð hinn nýi samgönguráðherra jafn ruglaður og forveri hans, ári áður. Í fyrsta viðtali í fjölmiðlum, eftir þessi áramót, kom í ljós að hann hafði sýkst illa af sömu sótt og forveri sinn. Nú voru vegskattar komnir í stöðu þess heilaga!

Málflutningur hins nýja ráðherra var þó ekkert skárri en forverans, ævintýralegt rugl þar sem engu var líkast en að hann væri ekki alveg viss um hvað hann segði, væri haldinn einskonar andsetningu. Svo hélt fram eftir ári, sumir gerðu góðlátlegt grín að þessu, aðrir tóku þessu heldur verr. Vandinn var að framsetning ráðherrans og málflutningur var svo ruglingslegur að erfitt var að fest hönd á hann, mótmæli voru því frekar taktlaus. Svona gekk fram á haust.

Um mitt sumar varð stór dagur í lífi landsmanna, þegar gjaldskyldu um Hvalfjarðargöng lauk. Að sjálfsögðu var samgönguráðherra látinn greiða síðasta gjaldið, í beinni útsendingu fjölmiðla. Á eftir var haldinn blaðamannafundur þar sem ráðherrann ásamt bæjarstjórn Akraness fögnuðu þessum áfanga ákaft. Þarna hélt maður að eitthvað væri að brá af ráðherranum, en það var tálsýn. Verra er að bæjarstjórn hefur sennilega verið hellst til lengi í grennd við hann, þar sem hún er nú illa haldin af sjúkdómnum!

Á haustdögum urðu kaflaskil. Vegna ólöglegrar upptöku á bar í borginni, þar sem tveir þingmenn viðhöfðu frekar ljót orð, fór landinn á hliðina. Annar þessara þingmanna var formaður samgöngunefndar Alþingis og hafði verið einn helsti hemill þessa óráðshjals ráðherrans. Við tók nýr formaður þessarar nefndar, Jón Gunnarsson, fyrrum samgönguráðherra og uppvakningur vegskattadraugsins!

Nú var ekki verið að viðhafa nein vettlingatök, enda engin fyrirstaða lengur. Ekki batnaði þó röksemdin fyrir þessum sköttum, þvert á móti varð málflutningurinn nú ofsafengnari en áður og ruglstigið náði nýjum hæðum. Gjaldið var nú sagt verða  lágt, nánast ekki neitt. Hvar eða hvernig átti að innheimta þetta gjald var nokkuð á reyki. Talað um einhverskonar myndatökur og umferðamestu stofnleiðir, umhverfis borgina, allt þó óljóst. Einnig hefur heyrst að greiða skuli gegnum öll jarðgöng landsins, en það er með það eins og annað, allt eitthvað óljóst. Og allt átti að gera, hellst í gær. Varla til sú hugmynd um bót á vegakerfinu sem ekki átti að framkvæma, fyrir þennan skatt sem átti að verða svo smár að enginn yrði hans var.  

Þannig tókst þeim félögum að fífla sveitarstjórnir umhverfis höfuðborgarsvæðis og fá þær hverjar af annarri til að sýna velþóknun sína í fjölmiðlum. Þetta afrekuðu þeir pjakkar Nonni og Siggi á aðeins einni viku og geri aðrir betur. Ekki fer hins vegar sögum af líðan þessara sveitarstjórna, eftir hrekkinn!

Hvort gjaldið er hátt eða lágt fer ekki eftir grunngjaldinu, heldur hversu oft þarf að greiða það þegar ekið milli tveggja staða. Ef greiða skal gegnum hver göng og ef ekið er yfir ákveðna þverlínu á öllum stofnbrautum umhverfis borgina, mega Skagamenn búast við að greið þrisvar slíkt gjald til borgarinnar. Ljóst er að þá erum við farnir að greiða mun meira en meðan Spölur rukkaði okkur. Hversu oft ætli Akureyringar þurfi að greið, þurfi þeir að fara til Keflavíkur?

Auðvitað er það svo að slíkur vegskattur telur lítið á fáförnum vegum, yrði t.d. seinlegt að gera ökufæran veginn fyrir Vatnsnes ef umferð um hann ætti að greiða þann kostnað, gegnum vegskatt. Því er kostnaður við viðhald og endurnýjun vegakerfisins haft á einskonar samfélagslegum grunni, þó þannig að enginn greiðir til þess nema þeir sem nýta kerfið. 

Það er svo sem ekki undarlegt þó horft sé til stofnbrauta til og frá höfuðborginni, þ.e. ef menn vilja breyta þessu nú eða totta eins mikið út úr bíleigendum og hægt er og hellst nokkuð meira. Ef umferðaþyngstu leiðir landsins eiga að greiða fyrir vegakerfi landsins, nú eða safna auknu fé í ríkisbáknið, á auðvitað að setja slíkan skatt á stofnbrautir 40, 41 og 49. Það eru umferðaþyngstu stofnbrautir landsins þannig að gjald þar gæti verið mun lægra en annarsstaðar, til að ná sömu heildarupphæð, eða verið jafn hátt og safnað miklu meira fé til ríkissjóðs, allt eftir því hvernig hugsun manna er. Að vísu fylgir sá galli að borgarbúar þurfa þá að greiða gjaldið í stað dreifbýlisbúa og auðvitað væri slíkt stílbrot.

Alls óljóst er með hvernig skal innheimta skattinn. Talað um myndavélar, sem væntanlega eiga bara að vaxa sjálfar upp úr jörðinni. Ekkert verið rætt um vinnslu gagna frá þeim vélum, útsendingu reikninga og innheimtu þeirra. Allt kallar þetta á útgjöld, mikil útgjöld. Báknið mun bólgna og blýantsnögurum fjölgar, ekki kannski alveg í stíl við stefnu Sjálfstæðisflokks, fellur hins vegar vel að hugsjón vinstri flokka. Ljóst er að fljótt mun kostnaður vegna þessa verða svo yfirdrifinn að óvíst verður hvort nokkuð situr eftir til vegamála.

Og nú ætlar ráðherra að veðsetja ósómann, áður enn hann hefur verið vakinn til lífsins. Þetta er alveg nýr vinkill á málinu. Taka skal lán upp á 50 til 60 þúsund milljónir króna. Eitthvað þarf að greiða í vexti af því láni og þarf ekki djúpa hugsun til að ætla að verkefnið sé þá komið í stórann mínus fyrir ríkissjóð, nema því aðeins að skatturinn sé hafður svo hár að erfitt reynist fyrir landsmenn að ferðast yfir þær þverlínur sem skattlagðar verða á vegakerfinu!!

Því miður óttast ég að verið sé að vaða með þjóðina út í kviksyndi sem erfitt verður að komast úr aftur, vegna óráðshjals tveggja þingmanna sem komist hafa til valda, þingmanna sem vita greinilega ekkert hvað þeir segja eða gera. Sjálfstæðisflokkur er nú kominn í þá stöðu að lítið þarf útaf að bregða svo þessi höfuðflokkur Íslands verði að örflokk. Þó einn þingmaður hans ruglist í rýminu og hverfi frá stefnunni, hefur það í sjálfu sér ekki afgerandi áhrif, en ef aðrir þingmenn taka undir er þetta óráðshjal er víst að skaðinn er skeður. Formaður Framsóknar hefur þegar gengið frá sínum flokk og því verður vart breytt. Reyndar eru Framsóknarmenn einstök ólíkindatól og vel gæti svo verið að foringjadýrkun þeirra fyrirgefi óráðið!

Sú aðferð sem hingað til hefur verið notuð hér á landi, að rukka skatt til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins gegnum eldsneytið, er einföldust, öruggust og ódýrust. Vandinn er að orkuskipti setja strik í reikninginn, eðli málsins samkvæmt. Þann vanda á þó ekki að leysa með því að skattleggja enn frekar þá sem þegar borga, heldur leggja skatt á þá sem eru utan skatts, þ.e. leggja skatt til þessara nota á rafbíla. Þar má hugsa sér skatt sem innheimtur væri eftir eknum kílómetrum, sem í raun er jafn réttlátur og skattur gegnum eldsneyti, en eitthvað meiri kostnaður liggur í innheimtu hans. Þó mætti vel hugsa sér að þar mætti samnýta skoðunarskyldu bíla. Að lokum væru þá allir bílar landsins undir sama skatti, einhvertímann í framtíðinni, þegar rafbílar hafa yfirtekið markaðinn að fullu.

Að ætla að leggja skatt þar sem ekið er yfir ákveðnar þverlínur á vegakerfinu er svo frámunalega vitlaust að magnað er að nokkrum manni skuli láta sér detta slíkt til hugar. Að ætla að rökstyðja slíkt með því að vitna til gjaldskyldu Hvalfjarðargangna eða annarra landa sem slíkt þekkist, sýnir vanþekkingu manna á málinu. Þar er fyrst framkvæmt, síðan er lagður á tímabundinn skattur til að greiða þá framkvæmd. Hugmyndir pjakkanna Nonna og Sigga eru allt aðrar. Þeir vilja skattleggja strax og til allrar framtíðar og framkvæma einhvertímann seinna. Og nú bætist við að fyrst af öllu skal óskapnaðurinn veðsettur!!

Óska öllum lesendum gleðilegrar hátíðar.

 

 

 

 

 


mbl.is Lán Vegagerðarinnar greidd með vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kemur næst í borgarstjóra bragga blús

Braggi 267 milljónir, Sundhöll Reykjavíkur 350 milljónir, Mathús Hlemmi 201 milljón, Félagsbústaðir 300 milljónir og þrenging Grensásvegar ásamt hjólastígum 30 milljónir. Samtals gerir þetta 1.178 milljónir króna eða sem nemur launum verkamanns í rúm 368 ár!! Þarna er verið að tala um frammúrkeyrslu Reykjavíkurborgar í einungis 5 verkefnum, fleiri eiga eftir að koma, eins og t.d. viðhald Vesturbæjarskóla.

Brot á landslögum, brot á sveitarstjórnarlögum og brot á eigin reglum borgarinnar. Þetta kemur fram í fyrstu skýrslunni sem Innri endurskoðun Reykjavíkur hefur opinberað. Fleiri hafa verið boðaðar. Nokkuð harður dómur, sér í lagi þegar um er að ræða dóm innri endurskoðunar yfir sínum yfirmanni. Hvernig hefði dómurinn orði ef um óháða úttekt hefði verið að ræða. Og nú vill sá seki sjálfur rannsaka eigið afbrot.

Það er misjafnt í hvaða ljósi stjórnmálamenn sjá réttlætið. Einn gerist brotlegur um kynferðislegt ofbeldi. Flokkur hans tekur nokkra mánuði til að skoða málið í kyrrþey og úrskurðar. Annar sóar fjármunum á báða bóga, eða kannski bara í rétta vasa. Hann vill sjálfur fá að rannsaka brot sitt. Allt á þetta að fara hljótt og sjálfsagt hefði enginn fengið fréttir af kynferðisbrotinu nema fyrir óvarlega færslu þess seka. Svo fá nokkrir þingmenn sér í glas á bar. Einhverjir þeirra viðhafa ósæmilegt orðbragð og þjóðin ætlar að ganga af göflunum. Þegar þessir þingmenn óska eftir því við dómara að málið verði rannsakað, er því hafnað og nú lítur út fyrir að þeir þurfi að leita atbeina æðra dómstigs til að fá opinbera rannsókn á eigin broti!!

Hvort Dagur segi af sér eða ekki skiptir í sjálfu sér litlu máli, hann er jafn ómarktækur eftir sem áður og pólitískur ferill hans á enda kominn. Hitt ber að skoða, hvert þessir fjármunir fóru. Það er algerlega útilokað annað en að telja að rán hafi farið fram, að þjófar hafi þarna verið að verki. Hvort þar var um að ræða þjófnað með vitund og velvild embættis- eða stjórnmálamanna og þá hverra, þarf að upplýsa. Síðan að draga þá seku fyrir dómstóla. 

Tökum bara eitt lítið dæmi er úr þessum farsa öllum, plönturnar við braggann. Það má vera að hægt sé að kaupa nokkrar plöntur út í Danmörku og flytja þær til landsins fyrir tæpa milljón króna, þó erfitt sé að sjá hvernig. Hitt er aftur algerlega útilokað að kostnaður við að koma þeim plöntum niður í jörðina hafi kostað aðra eins upphæð. Opinber skýring á uppgerð braggans var að þarna væri verið að vernda söguna, nokkuð sem vissulega má alltaf gera meira af. Melgresi fellur vissulega að þeirri hugsun enda lítið um runna á Íslandi á þeim tíma er bragginn var upphaflega byggður. En hvers vegna Danskt melgresi? Við eigum gnógt af melgresi í landinu. Þetta er bara eitt dæmi um flónskuna, dæmi sem sýnir þó svart á hvítu að einhver eða einhverjir voru að fylla vasa sína af illa fengnu fé úr sjóðum borgarinnar!!

Dagur kemur fram í fjölmiðla bláeygður. Þórdís Lóa stendur sem klettur að baki hans. Hvernig Dagur hagar sér kemur ekki á óvart, hann hefur ávallt verið duglegur við að koma erfiðum málum yfir á aðra. Ef sést til myndavélar og kannski einhver stunguskófla er í nánd, er hann fljótur að stökkva fram úr fylgsni sínu. Það vefst hinsvegar nokkuð fyrir manni hvernig Þórdís Lóa hagar sér. Kannski eru einhverjir hagsmunir sem krossleggja þau?!!

Hvað kemur næst í borgarstjóra bragga blús?!!


mbl.is Víkur sjálf ef Dagur víkur ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skal engan undra

Það ætti enginn að vera undrandi yfir því þó mengunarský myndist yfir Reykjavík á lygnum dögum. Þetta er auðvitað mannanna verk, ekki þó þeirra sem voga sér að aka um á einkabílnum, heldur hinna, sem hafa staðið gegn allri eðlilegri framþróun á gatnakerfi borgarinnar í samræmi við þarfir.

Umferðarmannvirki, viðhald þeirra og viðbætur, eru eitthvað sem vinstrimenn skilja ekki, ekki frekar en meðhöndlun peninga, eins og fréttir síðustu daga bera skýrt merki. Því hafa þessi mál verið til vansa um nokkuð langt skeið í borginni og mengun því orðin meiri en ella hefði þurft.

Það er auðvitað alveg sjálfsagt að efla almenningssamgöngur, en það má þó ekki bitna á eðlilegu viðhaldi og endurnýjun gatnakerfisins. Tilraun til eflingar almenningssamgangna hefur nú staðið yfir í um einn áratug, með miklum fjármunum úr ríkissjóð. Samhliða því hefur viðhald gatna verið í algjöru lágmarki og í stað eflingar gatnakerfisins hefur verið markvisst skert af því, götur þrengdar, tvístefnugötum breytt í einstefnur og götum heilu hverfanna verið lokað.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að ráðist hafi verið gegn einkabílnum á báða vegu, með auknum fjárútlánum til almenningssamgangna samhliða því að gera notkun hans fólki enn erfiðari, hefur þetta átak engu skilað, enn er sama hlutfall borgarbúa sem ferðast með almenningssamgöngum og við upphaf átaksins. Því vilja borgaryfirvöld ganga enn lengra, fá martgfallt meira úr sjóðum landsmanna og sjálfsagt skerða gatnakerfið enn frekar. Það mun ekki skila sér í hlutfallslegri aukningu þeirra sem ferðast með almenningssamgöngum en alveg örugglega mun mengun margfaldast!

Greiðfærara gatnakerfi, regluleg þrif á því og svo almenn snyrtimennska af hálfu yfirvalda í umhverfi þess, er leiðin til að minnka mengun. Rafbílar eru vissulega framtíðin, en það er nokkuð langt í þá framtíð og á meðan þarf að gera það sem hægt er. Hlutfall þeirra sem ferðast með almenningssamgöngum er ekki lausnin. Jafnvel þó tækist, með einhverjum göldrum, að fjölga þeim um 100%, sem er jú eitthvað sem þeir allra dreymnustu þora að hugsa, væri það hlutfall enn innan við 10% þeirra sem um borgina ferðast.

Sjálfur bý ég ekki í Reykjavík, en eins og aðrir landsmenn neyðist ég stundum til að heimsækja þessa höfuðborg okkar allra. Ég hef því ekkert raunverulegt val á milli almennings- eða einkasamgangna, fer á mínum bíl til borgarinnar og þær leið sem ég þarf að fara innan hennar. Fyrir nokkrum dögum þurfti ég að fara slíka háskaferð og er það svo sem ekki frásögufærandi, utan þess að vegna þeirra þrengsla sem yfirvöld borgarinnar hafa búið til, tók mig næstum hálfa klukkustund að komast leið sem að jafnaði ætti að vera hægt að aka á örfáum mínútum. Þar var umferðin með þeim hætti að hægt var að komast eina bíllengd í einu og síðan beðið í nokkurn tíma. Ég ek á bíl sem að jafnaði eyðir um eða innan við 5L/100. Eftir að hafa setið í þessari umferðarteppu, sem n.b. var ekki niðri í miðbæ, heldur mun austar í borginni, skoðaði ég eyðslumælinn í bílnum. Hann stóð þá í 11L/100. Hef aldrei áður séð bílinn hjá mér eyða svo miklu eldsneyti. Eyðsla og mengun haldast nokkuð í hendur og þarna var bíllinn minn, sem fyrir tveim árum uppfyllti mengunarreglur borgarinnar fyrir fríu bílastæði, farinn að menga eins og amerískur pick up!! Að því er mér skilst, af þeim sem eru heimavanari en ég innan borgarmarkanna, var þessi umferðarteppa alls ekki neitt einsdæmi, jafnvel frekar í minnikantinum á mælikvarða Reykjavíkur.

Þetta skýrir kannski hvers vegna í smáborg norður á hjara veraldar, þar sem sjaldnast er logn, skuli vera meiri mengun en í stórborgum Bandaríkjanna, þar sem allir íbúar Íslands kæmust fyrir í einni lítilli götu.


mbl.is Segir þokuna í gær mengunarþoku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Túkallinn frá ömmu

Þvílíkt happ fyrir ríkisstjórnina að ung kona skyldi mæta á Klausturbar og nenna að sitja þar í fjóra klukkutíma til að taka upp fyllerísröfl nokkurra þingmanna, þar sem tveir þeirra urðu orðljótir. Annar þeirra þingmanna gengdi þá stöðu formanns samgöngunefndar og þurfti nú að yfirgefa það embætti. Við formennskunni tók fyrrverandi samgönguráðherra og höfundur þeirrar vegskattahugmynda sem núverandi samgönguráðherra andmælti harðlega fyrir síðustu kosningar en var síðan fljótur að samþykkja eftir að hafa fíflað kjósendur. Þessi upptaka á Klausturbar ætlar því að verða afdrifarík fyrir þjóðina.

Ekki líður sá dagur að þessi nýorðni formaður samgöngunefndar fái ekki heiðurssess í fjölmiðlum, þar sem hann heldur uppi látlausum áróðri fyrir vegsköttum, svo miklum að einn daginn las ég að sjálfur væri ég orðinn þeim hliðhollur. Sem betur fer fyrir sálarlíf mitt, þá var ég ekki orðinn svo forfallinn, heldur hafði bæjarstjórinn minn bara sýnt þessari tillögu áhuga. Engan annan hef ég fundið í mínu bæjarfélagi sem er sama sinnis og bæjarstjórinn, nema auðvitað nokkrir Framsóknarmenn, sem fylgja sínum formanni til heljar, þurfi þess.

Það er hins vegar hvernig málflutningur þessa nýorðna formanns samgöngunefndar sem kemur á óvart. Annað hvort er maðurinn svona víðáttu heimskur eða hann telur þjóðina heimska. Hvort heldur er, þá er ekki sæmandi þingmanni að flytja mál með þeim hætti er hann gerir. Þar talar hann eins og þriggja ára barn, sem ætlar að kaupa allt í heiminum fyrir túkallinn sem amma gaf því.

En hvað eru vegskattar? Enn sem komið er virðist enginn vita um hvað málið snýst, ekki annað en að þeir eigi að gera alla vegi betri, tvöfaldanir helstu leiða munu koma eins og ekkert sé, vegstyttingar verða svo örar að erfitt mun verða að rata um landið, einbreiðar brýr hverfa sem dögg fyrir sólu, malarvegir munu heyra sögunni til, jafnvel áður en gjaldtaka hefst og gott ef ekki verður bara borað gegnum öll fjöll sem fyrirfinnast á landinu. Ef málflutningur nýorðins formanns samgöngunefndar eru tekinn gildur, eru þetta svokallaðir vegskattar. Fyrir trúgjarna er þetta auðvitað hrein draumsýn!!

Ekkert hefur þó verið útfært hvar né hvernig skuli innheimta þessa skatta, ekkert gefið út hverjar tekjur ríkissjóðs skuli verða af þeim og enn síður hversu mikið landsmenn muni borga.

Talað er með óljósum hætti einhverskonar myndavéla rukkun á skattinum og að "stofnbrautir" verði skattlagðar. Ekkert hvaða stofnbrautir, hvort þarna er verið að tala um stofnbrautir ríkissjóðs innan sveitarfélaga eða utan, hvort menn megi búast við að verða rukkaðir oft á sömu leið, t.d. hringveginum. Hvort Akureyringur sem ætlar til Keflavíkur þurfi kannski að greiða allt að tíu sinnum skatt á leiðinni!

Ríkið ætlar auðvitað að fá einhverja X upphæð í sinn sjóð, en til að svo megi verða mun fólkið í landinu þurfa að borga XX til ríkissjóðs. Umsýslukostnaður, sem ríkisstjórnin hefur með öllu látið ógert að reikna, er töluverður. Kaup, uppsetning og viðhald myndavéla er hreint ekki ókeypis og svo þarf auðvitað vel mannaða skrifstofu til að lesa úr því sem frá kerfinu kemur og sjá um innheimtuna.

Málið er allt vanreifað og alls ekki klárt til samþykktar. Muni Alþingi samþykkja þetta í upphafi nýs árs er ljóst að verið er að gefa út óútfylltan víxil, sem síðan landsmenn þurfa að greiða. Virðing Alþingis er ekki með þeim hætti að því sé treystandi fyrir slíkum víxli. Þá þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að þeir fjármunir sem þarna eiga að innheimtast með nýjum skatti, mun fráleitt allir fara til vegabóta, ekki frekar en þau gjöld sem sett hafa verið í eldsneytið í sama tilgangi. Það eru engir sem greiða eins mikið til ríkissjóðs en einmitt bíleigendur, langt umfram þann kostnað sem ríkissjóður þarf að leggja til og þarna skal hoggið enn frekar í sama knérunn!!

Þá má ekki gleyma þeirri stóru staðreynd að landsbyggðafólk verður harðast fyrir þessum skatti. Í því Íslandi sem við lifum í dag er staðan með þeim hætti að heilsuþjónusta hefur að mestu færst til höfuðborgarinnar og því þarf það fólk að sækja slíka þjónustu að stæðstum hluta þangað. Þá mun auðvitað aukinn skattur á bílaumferð valda því að vöruverð mun hækka enn frekar á landsbyggðinni og er það nógu hátt fyrir. Fyrirtæki út á landi munu svo standa enn verr að vígi, þegar aukinn skattur leggst á flutning vöru þeirra á markað. Það mun leggja mörg fyrirtæki.

Enginn efast um að með fjölgun rafbíla mun skattheimtu ríkissjóðs til vegamála minnka. Þann vanda á þó ekki að færa á þá sem af einhverjum ástæðum geta ekki nýtt sér þá tækni. Þann vanda á að leysa með því að setja einhverskonar vegskatt á rafbíla, eins og þegar er gert á bíla sem nota eldsneyti. Vöruflutningar verða seint stundaðir með rafbílum, a.m.k. meðan tæknin er ekki meiri en nú er.

Hitt mætti alveg skoða, að skipta út skatti á eldsneyti og færa yfir á ekna kílómetra. Að allir borguðu ákveðinn skatt af akstri en ekki eldsneyti. Ekki þegar ekið er eftir ákveðnum vegum, heldur eftir eknum kílómetrum.

Tvísköttun vegna þessa málefnis, eins og stjórnvöld ætla sér með vegsköttum, má aldrei verða.

Skattlagning sem mismunar fólki eftir búsetu má heldur aldrei verða.

Túkallinn sem nýorðinn formaður samgöngunefndar ætlar að fá frá ömmu sinni, mun ekki duga honum til að kaupa allt í heiminum!!

 

 

 

 


mbl.is Veggjöld samþykkt eftir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á jólaföstu

Þróun umræðunnar um Klaustursmálið hefur verið nokkuð undarleg.

1.Í fyrstu voru klipptar einstaka setningar úr upptöku af tali þingmanna sem sátu að sumbli á Klausturbar og þær settar í fjölmiðla. Þjóðin fór á annan endann.

2.Næst kom í ljós að þeir sem stóðu að opinberuninni voru ekki vissir um hver sagði hvað og rugluðust á mönnum, eignuðu jafnvel sumum sem löngu voru farnir af samkomunni, einstök orð og setningar. Nú fór að renna tvær grímur á suma, þ.e. þá sem leifðu sér að nota eigin heila.

3.Þá kom að því að fólk fékk að vita að fleira hafði verið sagt í þessa fjóra klukkutíma en það sem Stundin ákvað að opinbera og að skilja mætti opinberuðu orðin í öðru ljósi. Einhverjir fleiri vöknuðu nú og sáu að einhver maðkur var í mysunni.

4.Svo opinberaðist að ljótu orðin komu úr barka tveggja þeirra sex sem sátu að sumbli. Hinir fjórir höfðu ekki haft sig í frammi í þeim leik. Allraheilaga fólkið var fljótt að kveða þetta niður og töldu að þeir fjórir væru jafnsekir. Þeir hefðu átt að stoppa tal sóðakjaftanna. Hvað þá með upptakarann? Hann sat á næsta borði og hefði hæglega getað staðið upp og lýst óánægju sinni og þannig stöðvað sóðatalið. En nei, upptakarinn var of upptekinn við að taka upp.

5.Svo kom stóra bomban. Einn þeirra sem mest hneykslaðist og stæðstu orðin hafði gegn þeim er Klaustrið sátu, sendi nú fréttamiðlum tilkynningu um að hann hygðist fara í frí frá Alþingi og tiltók ástæðu þess, hann hafði gerst kynferðislega brotlegur við kvenmann. Allir fjölmiðlar nema Stundin þögnuðu nú um Klaustursmálið, í nokkra klukkutíma. Ekki þó til að kryfja þetta kynferðislega brot þingmannsins eða segja nánar frá því. Nei, þar var einhliða útlistun hans látin ráða, enda ekki í sama flokki og þeir sem fengu sér glas á Klaustrinu. Stundin hélt þó dampi um Klaustursmálið. Fréttatilkynning kynferðisafbrotamannsins var þó ekki flutt á þeim miðli.

6.Og í dag kom svo enn einn vinkill á þetta svokallaða Klaustursmál. Þingmennirnir sem þar sátu að sumbli voru ekki sex, heldur átta! Einn þingmaður VG og einn þingmaður Viðreisnar sátu einnig við þetta borð!

7.Hvað kemur fram á morgun?!

 

Það er annars ótrúlegt að hluti þjóðarinnar, þ.e. þeir sem stjórna eða hafa aðgang að fjölmiðlum skuli velja svona skítkast fram og til baka, skítkast sem á köflum slær ljótu orð þingmannanna tveggja út, til að fagna komu jólanna. Menn geta haft mismunandi skoðanir á málum, menn geta rökrætt þær skoðanir afturábak og áfram, sjaldnast þó til niðurstöðu.

Mál þeirra tveggja þingmanna Miðflokksins sem ljót orð létu falla á Klausturbar og kynferðislegt afbrot eins þingmanns Samfylkingar eru þó ekki til þess fallin að rífast um. Allir þessir þrír þingmann hafa óskað eftir leyfi frá Alþingi. Hvað svo verður er enn óvitað en þó er ljóst að enginn þeirra mun ná trausti kjósenda í næstu kosningum.

Skömm þessara þriggja þingmanna mun ætíð fylgja þeim.

Virðing Alþingis má ekki við meiru. Framkoma nokkurra þingmanna í þessum málum, þó sérstaklega Klaustursmálinu, hefur verið með þeim eindæmum að með ólíkindum er. Að nota slík mál sér sjálfum til framdráttar í pólitík er síst skárra en talið á Klausturbar. Þingmenn eiga að vinna hug og hjörtu þjóðarinn með því að sýna eigin kosti og getu, ekki með því að níða náungann.

Látum þessi mál nú kyrr liggja og snúum okkur að friðarhátíðinni!!


mbl.is Hvernig munu spilin leggjast?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ofbeldi eða Ofbeldi

Er ég kom heim úr vinnu í morgun renndi ég yfir Fréttablaðið. Sem fyrr var þar lítið að sjá nema auglýsingar og spurning hvenær eigendur þess taka á sig rögg og kalli það réttnefninu Auglýsingablaðið. Þegar ég var að fletta síðustu blaðsíðunni áttaði ég mig á að eitthvað vantaði. Því var ekki um annað að ræða en pæla sig gegnum allar auglýsingarnar aftur til að fullvissa sig um að ekki hefði verið hlaupið yfir þær fáu fréttir sem enn eru birtar í þessu blaði. En nei, engin frétt um Klaustursmálið!

Hins vegar var lítil frétt, eða öllu heldur tilkynning í blaðinu. Sú tilkynning kom frá þingmanni Samfylkingar, þar sem hann var að tjá þjóðinni að hann væri að fara í leyfi frá Alþingi og ástæðu þess. Kannski sú tilkynning, eða öllu heldur efnislegt innihald hennar, hafi verið ástæða þess að ekkert var nú fjallað um Klaustursmálið. Þó varla, þar sem engin "fréttaskýring" var vegna þessarar tilkynningar, ekki leitað neitt frekar skýringa og alls engar uppökur til að vitna í. Og svo var þessi þingmaður auðvitað hvorki í Flokki fólksins né Miðflokki og því ekkert fréttnæmt við ástæðu þess frís sem þingmaðurinn var að fara í. 

Þingmaður þessi hafði, á síðustu vordögum, gerst brotlegur um kynferðislega áreitni við konu og er hún kastaði honum frá sér hafi hann látið "særandi orð falla". Þarna er sagan auðvitað sögð af geranda, saga fórnarlambsins kemur þar ekki fram og ekki eru til neinar upptökur af þessum "særandi orðum" þingmannsins. Trúnaðarráð Samfylkingar tók málið fyrir og gaf út sinn "dóm" fyrir viku síðan, eða áður en nokkrir þingmenn tveggja annarra flokka fengu sér ölkrús á Klaustursbarnum og samtal þeirra þar tekið upp.

Það er því nokkuð undarlegt, svo ekki sé tekið sterkara til orða, hvernig þingmenn Samfylkingar hafa hagað orðum sínum í fjölmiðlun síðustu daga, þar sem þeir gagnrýna orðfæri þingmanna annarra flokka harðlega, vitandi að félagi þeirra, í þeirra eigin flokki, hefur orðið uppvís að nauðgunartilraun. Þarna hafa formaður flokksins og þingmaður hans sem gegnir formennsku í Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd Alþingis, verið einna orðhvatastir.

Nú er það auðvitað svo að kynferðislegt ofbeldi þingmanns eins flokks réttlætir ekki ljótan munnsöfnuð tveggja þingmanna annars flokks, alls ekki.

En því miður hafa árásir þeirra sem mest hafa látið í Klaustursmálinu ekki snúið að þeim tveim þingmönnum Miðflokks sem þessa ljótu orðræðu stunduðu, enda þeir báðir komnir í leyfi frá Alþingi. Árásirnar hafa snúist gegn tveim öðrum þingmönnum Miðflokksins og tveim fyrrverandi þingmönnum Flokks fólksins, einkum hefur þó einn þessara fjögurra þingmanna orðið fyrir barðinu á "hinum réttlátu". Þarna er verið að hengja bakara fyrir smið. Þessir þingmenn tóku ekki þátt í þessari ljótu umræðu, þó þeir hafi verið á staðnum er hún fór fram. Sumir segja að það hafi verið í þeirra verkahring að stöðva hana, en slíkt gerist nú ekki í raunveruleikanum, því miður. Þetta sést kannski best á því að orðfæri þeirra sem nú ganga um götur og torg og jafnvel hafa aðgengi að ræðupúlti Alþingis, orðfæri sem er síst betra orðfæri en það sem þeir eru að gagnrýna. Enginn stoppar þá af.

Við þykjumst stolt lifa í réttarríki, þar sem allir eru saklausir þar til sekt sannast, þar sem ákveðnum aðilum er gert að rannsaka og upplýsa mál og öðrum gert að dæma um sekt eða sakleysi. Þar sem bæði meintur gerandi og meintur þolandi fá að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Samfylkingin valdi í þessu tiltekna máli að láta siðanefnd eigin flokks rannsaka og kveða upp dóm. Það er þeirra ákvörðun að fara þá leið og þekki ég ekki forsendur fyrir því.

Nú eru hins vegar sumir fjölmiðlar leynt og ljóst að breyta þessu réttarkerfi okkar, að rannsóknar og úrskurðarvald færist til þeirra. Þetta er geigvænleg þróun.

Þegar þessi tvö mál eru borin saman, annarsvegar mál þar sem einstaklingur gerist brotlegur um kynferðislega áreitni og hin vegar tveir einstaklingar sem viðhafa ljótt orðfæri, vaknar hjá manni vissulega spurning um hvort sé meira ofbeldi, ofbeldi eða Ofbeldi.

Svo er spurning hvaða skilgreiningu á að setja á þann munnsöfnuð sem "hinir réttlátu" stunda gegn fólki sem hefur sér það eitt til saka unnið að sitja við sama borð og tveir orðljótir menn.

 


mbl.is Óviss hvort málið eigi erindi við siðanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband