Trú eða rök

Það er eitt að byggja sinn málflutning á trú, eins og Bryndís Haraldsdóttir gerir, annað að byggja málflutning á rökum, eins og Frosti Sigurjónsson.

Grein Frosta var vel rituð, eins og hans er von og vísa, allar hliðar málsins greindar og rök flutt fyrir hverju atriði.

Bryndís talar hins vegar um "vitrænan hátt" og að hún sé "sannfærð". Ansi lítill rökstuðningur í slíkum málflutningi.

Það er vissulega þörf á að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, samhliða fjölgun íbúa þar. En það má aldrei gera með því að skerða aðra umferð, það verður ekki byggt á óraunhæfum forsendum um gígatíska hlutfallsfjölgun þeirra sem almenningssamgöngur nota og enn óraunhæfari fjölgun þeirra sem hvorki nota einkabíl né almenningssamgöngur, til að komast milli staða. Þá er ljóst að kostnaður við verkefnið er svo ótrúlegur að útilokað er að hefja það nema með mikilli aðkomu ríkissjóðs. Og þá erum við að tala um þær áætlanir sem liggja fyrir, slíkar áætlanir hafa sjaldnast staðist hér á landi og ljóst að kostnaður mun verða mun hærri. Er einhver glóra í því að allir landsmenn verði látnir taka þátt í verkefni sem einungis hluti þeirra hefur möguleika á að nýta og enn færri munu síðan nýta?

Þetta eru forsendurnar fyrir borgarlínunni, skerðing annarrar umferðar, óraunhæfar áætlanir um fjölgun þeirra sem almenningssamgöngur munu nota, enn óraunhæfari áætlanir þeirra sem hvorki munu nota einkabíl né almenningssamgöngur, kostnaður að stórum hluta tekinn úr sjóði allra landsmanna. Kostnaður sem strax við fyrstu áætlun er svo hár að bygging nýs Landspítala bliknar í samanburðinum. Kostnaður sem sennilega mun tvöfaldast, sé tekið mið af öðrum framkvæmdum hér á landi, sem draumóramönnum hefur tekist að koma yfir á ríkissjóð!

Það á auðvitað að byrja á að fjölga akreinum þar sem umferð er hvað mest, gera mislæg gatnamót á þyngstu gatnamótin og almennt að fara í aðgerðir til að greiða fyrir ALLRI umferð. Þá minnka tafir, líka almenningsvagna. Mengun mun einnig minnka verulega. Síðan á að kaupa fleiri og minni strætisvagna og þannig að þétta kerfi þeirra. Rafmagnsvagna er mjög vel hægt að nýta innan höfuðborgasvæðisins og auðveldara að fá slíka vagna eftir því sem stærð þeirra er minni. Allt þetta væri hægt að gera fyrir mun minni pening en borgarlínu og ef rétt að málum staðið, má gera þetta á tiltölulega löngum tíma. Bara við það eitt að gera ein mislæg gatnamót, á réttum stað, getur greitt ótrúlega mikið fyrir umferð.

Og svo má auðvitað ekki gleyma þeirri staðreynd að ef 5000 manna vinnustaður, sem verið er að byggja niður í miðbæ, verður færðar utar í borgina, á betri stað, mun þörfin minnka á eflingu gatnakerfisins, þar sem slík efling er hvað erfiðust og dýrust, þ.e. á neðsta hluta Miklubrautar.

Það er alveg sama hvernig þetta mál er skoðað, forsendur þess og skipulag. Þetta kemur ekkert við eflingu almenningssamgangna, enda aðalforsenda borgarlínu, hlutfallslega minni notkun einkabílsins, að stórum hluta fundin með stóraukningu þeirra sem hvorki ætla að nýta almenningssamgöngur né einkabíl, heldur ferðast á annan veg. Þetta varð að gera þar sem forsendur um notkun almenningssamgangna var þá þegar komin yfir öll raunhæf mörk, en nauðsynlega að ná niður notkun einkabílsins, svo forsendur stæðust! Öll merki þessarar hugmyndar bera með sér andúð á einkabílnum!!

Áætlanir segja að 12% muni ferðast með almenningssamgöngum, sem er þreföldun miðað við daginn í dag, en að 30% muni hvorki nota almenningssamgöngur né einkabíl. Miðað við spár um fólksfjölgun á svæðinu, munu þá 450.000 manns daglega ferðast ýmist gangandi eða hjólandi um höfuðborgarsvæðið!! Trúir einhver svona andskotans bulli?!

Það er ótrúlegt að fólk sem vill láta taka sig alvarlega og velur sér pólitískan starfsvettvang, skuli vera ginkeypt fyrir þessu rugli. Ég hélt að slík fásinna væri bundin við hörðustu vinstrisinna.


mbl.is Segir grein Frosta rökleysu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Reykjavík höfuðborg allra landsmanna?

Endalaus áróður sóðanna sem stjórna höfuðborg okkar landsmanna, gegn nagladekkjum, er orðinn óþolandi. Ekki einungis að þarna séu stjórnvöld borgarinnar að ráðast með ofbeldi gegn öryggi á götum og vegum, ekki aðeins að taka ákvörðunarrétt af bíleigendum, heldur er með þessari tillögu verið að leggja stein í götu landsbyggðafólks, þurfi það að sækja sér þjónustu til sinnar eigin höfuðborgar!!

Vandinn er ekki nema að sáralitlu leyti vegna nagla í dekkjum bíla og mætti útrýma því með því einu að hætta þeim gengdarlausa saltaustri sem viðhafður er á götum Reykjavíkur. Saltið leysir upp malbikið, sér í lagi þegar gæði þess eru léleg, en borgin hefur valið að versla ódýrast og lélegast malbik sem hægt er að komast yfir hér á landi.

Aðalorsök svifryks er fyrst og fremst þeim sóðaskap sem borgaryfirvöld viðhafa, að kenna. Hreinsun gatna er langt fyrir neðan lágmark. Það veldur því að ryk safnast á göturnar, jafnt að vetri sem sumri, það ryk fer síðan á ferð þegar bílar aka um göturnar og sest í gras og gróður umhverfis þær, sem sóðarnir í ráðhúsinu við Tjörnina hafa verið einstaklega duglegir að láta vaxa villt. Þegar síðan vindur snýr sér, blæs hann sama rykinu aftur yfir göturnar.

Sóða- og slóðaskapur borgaryfirvalda er hreint út sagt með eindæmum!!

Síðan, þegar mengun fer yfir viðmiðunarmörk af allt annarri ástæðu, er tækifærið nýtt til að hnýta í bíleigendur! Kannski voru það bara þeir sem aka um á nagladekkjum sem skutu upp rakettum um síðustu áramót og alveg örugglega voru það þeir sem aka á nagladekkjum sem gerðu samning við veðurguðina um að hafa logn á höfuðborgarsvæðinu á nýársnótt, svo öruggt væri að mengunin sæti sem fastast!

En aftur að kröfu borgaryfirvalda um lagasetningu Alþingis um að færa sveitarfélögum verulega og afdrifaríka íhlutun um málefni sem, af ríkri ástæðu, er ekki er á þeirra valdi. Ef Alþingismenn eru svo skyni skroppnir að láta eftir slíkt ofurvald til borgarstjórnar, er komin upp ansi undarleg staða.

Sjálfur bý ég út á landi og eins og svo margir sem þar búa ek ég á nagladekkjum. Þetta geri ég ekki vegna þess að mér þyki svo gaman að hlusta á hávaðann í dekkjunum þegar ekið er eftir vegunum, ekki vegna þess að mér þyki nauðsynlegt að hreinsa sem mest af málningu innanúr hjólskálunum og enn síður vegna þess að mér þyki svo gaman að borga meira fyrir dekkin undir bílinn minn. Nei, ég ek um á nagladekkjum af þeirri einföldu ástæðu ég þarf að komast á milli staða eftir okkar yndislegu þjóðvegum, snemma á morgna og seint að kvöldi, í hvaða veðri sem er, til að sinna minni vinnu. Oft eru aðstæður til aksturs á þeim tímum þannig að nagladekk eru nauðsyn, þó auðvitað marga daga sé þeirra ekki þörf. Það er af öryggisástæðum einum sem ég vel að vera á nagladekkjum, svona eins og allir sem það velja. Vil taka það fram að ég bý þó á einu snjóléttasta svæði landsins, en á Íslandi! Margir landsmenn búa við enn erfiðari aðstæður.

Fái borgin það vald sem hún sækist eftir, verður ferðafrelsi mitt skert verulega. Þá verður það undir valdi borgarstjórnar hvort ég má aka minni bifreið innan borgarmarkanna!

Mun ég kannski þurfa að hringja í borgarstjóra og fá leyfi, þurfi ég að sækja þjónustu til minnar höfuðborgar, kannski alla leið vestur í bæ á minn nýja Landspítala, þá daga sem borgarstjórn telur ástæðu til að banna akstur á nagladekkjum? (sem verður þá alla daga ársins, verði þessir þverhausar áfram við völd). Eða á kannski Landsspítalinn bara að vera fyrir höfuðborgarbúa, þá sem vestast í borginni búa?

Ekki trúi ég að borgarbúar kjósi þessi skoffín aftur yfir sig!!


mbl.is Vilja geta takmarkað umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hin nýja, spenn­andi, kraft­mikla, fjöl­menn­ing­ar­lega para­dís"­

 

Fyrir ekki löngu síðan varð allt vitlaust innan sænsku stjórnmálaelítunnar vegna ummæla sem Trump lét frá sér um slæmt ástand í Svíþjóð, vegna stefnu þeirra í innflytjendamálum, eða öllu heldur stefnuleysis og þeirra vandamála sem því stefnuleysi fylgdi.´

Styttra er síðan norskum stjórnmálamanni var nánast vísað burt af sænskri grund, fyrir að nefna þennan vanda, sem Svíar hafa byggt sér.

Í báðum þessum málum varð sænska stjórnmálaelítan frávita af bræði, fullyrti að enginn vandi væri af innflytjendum þar í landi og fordæmdi alla þá sem efuðust.

Nú er ástandið orðið svo slæmt að forsætisráðherra landsins hótar að láta herinn í málið. Í umræðum á sænska þinginu sagði leiðtogi Svíþjóðardemókrata:

Þetta er hin nýja Svíþjóð; hin nýja, spenn­andi, kraft­mikla, fjöl­menn­ing­ar­lega para­dís ­sem svo marg­ir á þessu þingi hafa bar­ist fyr­ir svo lengi.“

Árið 2016, ári áður en þeir tveir stjórnmálamenn sem voguðu sér að nefna vandamál í Svíþjóð, voru 300 skotárásir og í þeim létust 106 manns. Hafi það ekki verið vandamál er ljóst að tíðni skotárása og dauðsfalla hefur aukist töluvert, úr því sænskir stjórnmálamenn, bæði innan og utan ríkisstjórnar, telji þörf á að kalla út herinn til að berjast gegn innflytjendum! Enn hafa tölur fyrir árið 2017 verið opinberaðar.

 


mbl.is Sænski herinn gegn glæpagengjum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfa þarf í báðar áttir

Það þarf að horfa í báðar áttir, þegar kemur að BrExit. Hér virðast stjórnvöld fyrst og fremst horfa til viðskipta við Bretland, eftir að það hefur gengið úr ESB og vissulega er mikilvægt að niðurstaða samninga okkar við Breta verði góð.

Norðmenn virðast hins vegar hugsa meir um hver áhrif á EES samninginn BrExit hefur. Og ekki skal vanmeta þau áhrif. Annars vegar er ljóst að nái Bretar sambærilegum viðskiptasamningum, eða betri, en EES samningurinn hljóðar upp á, án þeirra kvaða sem í EES samningnum liggja, þarf vissulega að endurskoða hann. Hins vegar er ljóst að þær breytingar sem munu eiga sér stað innan ESB, eftir BrExit, munu hafa veruleg áhrif á EES samninginn.

Því þurfa stjórnvöld hér að horfa til beggja átta, þegar hugað er að BrExit. Að góðum viðskiptasamningum verði náð við Breta og ekki síður að huga að endurupptöku EES samningsins, jafnvel uppsögn hans.

Það er ljóst að EES samningurinn er farinn að há okkur verulega og í raun er hann fallinn úr gildi gagnvart Íslandi, þar sem hann er farin að brjóta verulega á stjórnarskrá okkar. Fullveldið hefur verið skert verulega og hingað koma hinar ýmsu tilskipanir sem Alþingi virðist ekki hafa vald til að hafna. Þá er ljóst að dómstóll EFTA túlkar þennan samning á þann hátt að fullveldi okkar er haft að engu.

Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að á sínum tíma var þessi samningur samþykktur af Alþingi, án samráðs við þjóðina. Það samráðsleysi var rökstutt með því að EES samningurinn skerti ekki á neinn hátt ákvörðunarvald Alþingis og gengi ekki á nokkurn hátt gegn stjórnarskrá okkar.

Annað hefur komið á daginn. Það sem upphaflega átti að vera viðskiptasamningur er nú orðið að einhverju allt öðru. Samningur sem átti að snúast um gagnkvæm viðskipti, snýst nú um að samþykkja hinar ýmsu tilskipanir, settar einhliða af öðrum aðilanum og fjalla oftar en ekki um eitthvað allt annað en viðskipti.


mbl.is Brexit rætt í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppsögn eða framlenging

Máttur fjölmiðla er mikill og gegnum "rétt" orðfæri er hægt að afvegaleiða umræðuna.

Í viðtengdri frétt segir að stéttarfélög séu ósammála um uppsögn kjarasamninga, nú við endurskoðun þeirra þann 1. febrúar næstkomandi. Í þeim kjarasamningi eru ákveðin skilyrði, sem uppfylla þarf svo samningur gildi áfram. Við þessi skilyrði hefur ekki verið staðið og því kjarasamningurinn fallinn.

Því er rétt að tala um að stéttarfélög landsins séu ekki sammála um hvort framlengja eigi kjarasamninginn.

Reyndar er það svo að flest stéttarfélög eru á þeirri línu að svo skuli ekki gert, en sum landssamtök og einkum ASÍ telja rétt að framlengja. Samningsumboðið er hins vegar í höndum hvers stéttarfélags, en hvorki hjá landssamtökum þeirra né því skrímsli sem kallast ASÍ.

Þá er rétt að ítreka að enn hafa ekki verið lagðar fram neinar hugmyndir um hvað þurfi til og hvaðan, svo tilefni sé til að skoða framlengingu kjarasamninga.


mbl.is Ósammála um uppsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprengisérfræðingarnir á Akranesi

Sagan endalausa af Akranesi heldur áfram. Menn eru duglegir við að sprengja en sílóin neita að falla. Þetta er að verða nokkuð fyndið, svona í skugga hættuástandsins sem hefur skapast.

Ekki hefur niðurrifssvæðið verið afgirt, jafnvel þó nokkrir dagar sé frá því að fyrsta sprenging fór fram og sílóin skekktust verulega, svo stór hætta skapast. Bæjarstjórn lætur duga að framkvæmdaaðilinn kaupi einn mann frá öryggisfyrirtæki í Reykjavík til að vakta svæðið. Eins og einn maður geti eitthvað gert til varnar því að óviðkomandi, kannski börn, fari inn á hættusvæðið.

Í viðtali við visir.is sagði Þorsteinn Auðunn Pétursson, framkvæmdastjóri Work North ehf., að eftir mistök fyrirtækis hans, fyndist í landinu 10.000 sprengisérfræðingar. Ennfremur sagði hann að með fyrstu sprengingu væri búið að "stilla turnana af", svo nú myndu þeir falla í rétta átt við þá næstu! Fyrir það fyrsta áttu sílóin (turnarnir) að falla beint niður, samkvæmt fyrstu fréttum og í öðru lagi skeði ekkert við þá næstu! Sílóin standa enn jafn skökk og áður og hrunhættan ekki minni.

Ummælin um fjölda sprengisérfræðinga í landinu eru hins vegar umhugsnarverð. Auðvitað er hann þarna að skjóta á alla þá sem gagnrýnt hafa fyrirtæki hans. Hitt væri svo sem ágætt ef í landinu væru svo margir sprengisérfræðingar sem hann nefnir. Þá gæti hann væntanlega skipt út þeim manni sem hann réð til verksins fyrir alvöru sprengisérfræðing. Ljóst er að sá sem verkið vann hefur litla þekkingu á því starfi, ef nokkra!

Ekki hefur enn fengist skýring bæjarstjórnar á því hvers vegna verktakanum var heimilað að yfirgefa svæðið, eftir fyrstu sprengju. Skýr krafa átti auðvitað að vera um að verkinu yrði haldið áfram, dag sem nótt, þar til sílóin væru fallin og hætta liðin hjá. Enga undantekningu átti að gefa frá þeirri kröfu!! Þarna átti vinnueftirlit og lögregla einnig að koma að máli, til stuðnings bæjarstjórn.

Annars verður að segjast eins og er að framkvæmdarstjóra Work North ehf. hefur tekist snilldarlega að afvegaleiða umræðuna um þær framkvæmdir sem hann stendur að á Akranesi, hefur tekist að halda niðri allri umræðu um öryggismál á framkvæmdarsvæðinu. Þar má auðvitað einnig sakast við bæjarstjórn og löggilta eftirlitsaðila s.s. vinnueftirlitið og lögreglu.

Í hverju verki, sem telst til stærri framkvæmda, hverju nafni sem þær nefnast, er fyrsta verk að tryggja vinnusvæðið og girða það af. Þetta á ekki síst við þegar verið er að rífa niður byggingar. Eðli málsins vegna, þá skapast mun meiri hætta á slíkum vinnustöðum en flestum öðrum. Oftar en ekki er í lok vinnudag einhverjar byggingar hálfrifnar, styrkur þeirra verið skertur verulega og hætta á hruni veruleg.

Framkvæmdasvæði eru spennandi, einkum hjá börnum og því með öllu óskiljanlegt að verktaka hafi verið heimilað að hefja verk áður en tryggilega væri séð til að óviðkomandi kæmist ekki á svæðið. Reyndar er að skilja á bæjarstjóranum að verktakinn hafi farið nokkuð framúr heimildum bæjarins, þó þetta atriði hafi ekki verið nefnt í því sambandi.

Mikil gagnrýni hefur komið á verktakann vegna þessara mistaka og hvernig unnið hefur verið úr þeim. Þeir sem gagnrýna eru ekkert endilega sprengisérfræðingar, þó framkvæmdastjórinn haldi slíku fram. Það er hans ódýra og barnalega afsökun á eigin mistökum. Sjálfur tel ég mig mega gagnrýna þetta framferði verktakans, þó ég hafi aldrei unnið með sprengiefni, enda gagnrýnin ekki bara á vanmat við sprenginguna, heldur ekki síður hvernig unnið var að málinu eftir að mistökin áttu sér stað og hvernig staðið hefur verið að öryggismálum á framkvæmdasvæðinu í heild sér.

En gleymum ekki að fleiri bera ábyrgð, bæjarstjórn, vinnueftirlit og lögregla eru aðilar að þessu máli líka. Hver mun bera ábyrgð ef slys verður, kannski á barni sem fer inn á svæðið?


mbl.is Sílóin standa enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr dagur hjá Degi

Jón Karl Ólafsson er að íhuga framboð til borgarstjóra. Nefnt er að það sé í nafni Sjálfstæðisflokks, en það getur vart staðist. Samkvæmt því pólitíska framferði sem þessi maður hefur stundað og þeirri hugsjón sem hann hefur opinberað, á hann heima í Viðreisn eða Samfylkingu, alls ekki innan Sjálfstæðisflokks.

Málflutningur og hugsun Jóns Karls til ESB, evru, flugvallar í Vatnsmýri og fjöldi annarra mála, gerir honum útilokað að vera í framboði fyrir Sjálfstæðisflokk. Auðvitað getur hann afneitað trúnni um stund, svona eins og Júdas og Steingrímur J. en varla falla kjósendur fyrir því.

Samfylking fer vart að skipta út sínum Degi, þó að kveldi sé kominn, svo líklegast mun Jón Karl verða málssvari Viðreisnar.

Eitt er þó víst, að nái Jón Karl Ólafsson að plata kjósendur Sjálfstæðisflokks til að færa sér efsta sæti flokksins í Reykjavík, mun nýr dagur renna upp hjá Degi.

 


mbl.is Jón Karl að hugsa málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband