Veldur sá er á heldur

Mikil snilld var gerð við samningu stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og ekki að undra þó tíma hafi tekið að setja þennan sáttmála saman. Snilldin sem gerð var felst í því að þessi sáttmáli getur fallið öllum í geð, fer eftir hvernig hann er lesinn og hvaða skilning menn setja í það sem fram er sett. Marinó G Njálsson fer vel yfir þennan sáttmála á bloggsíðu sinni og gerir það vel, eins og annað. Þessi úttekt hans er mjög góð og litlu við hana að bæta.

Þó langar mig til að taka einn kafla sáttmálans upp hér, þ.e. kaflann um landbúnað. Þó þetta sé ein að burðarstoðum samfélags okkar er kaflinn um landbúnað ansi rýr.

Úr stjórnarsáttmálanum:

Landbúnaður

Áfram skal lögð áhersla á framleiðslu heilnæmra, innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði. Velferð dýra verði í hávegum höfð. Skilvirkt eftirlit með dýrum og matvælaframleiðslu verði tryggt, sem og gætt að neytendavernd.

Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. Jafnframt verði horft til samkeppnisstöðu landbúnaðar á Íslandi vegna legu landsins, veðurfars og takmarkaðra landgæða. Hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verður ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Leggja ber áherslu á að draga ekki úr hagkvæmni og styðja áfram við jafna stöðu bænda eins og kostur er.

Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Verður af hálfu stjórnvalda hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum. Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

Við fyrsta lestur þessa kafla virðist þarna vera vel hugað að landbúnaðnum. Talað um heilnæmi, fjölbreytni, skilvirkt eftirlit, hagsmuni bænda og fleira fallegt í þeim dúr. Semsagt hið besta mál. En þarna er einungis hálfur sannleikurinn.

Ekki kemur á óvart, með tilliti til hvaða flokkar mynda þessa ríkisstjórn, að vægi þeirra sem sjá um að höndla með landbúnaðarvörurnar er þarna aukið verulega og er það kallað "valfrelsi neytenda". Enginn fer í grafgötur með að þarna er fyrst og fremst verið að huga að hag verslunar í landinu og ætti engum að láta sér detta til hugar að hún skili neinu til neytenda. Verslunin í landinu hefur ekki sýnt þroska til að huga að hag neytenda á neinu sviði, eins og umræða síðustu vikna hefur sannað svo áþreifanlega. Álagning verslunarinnar er hvergi í hinum vestræna heimi hærri en hér og bera ársreikningar hennar merki þess.

Í málsgreininni um endurskoðun á búvörusamningi eru sett fram markmið. Þar er m.a. talað um auknar greiðslur til nýliðunnar og er það hið besta mál. Hins vegar er talað um að draga úr framleiðsluframlögum og auka landnýtingarframlög. Allir sem til þekkja kannast við fingraförin á þessari leið og að hún er ættuð frá landbúnaðarstefnu ESB, landbúnaðarstefnu sem sigldi í strand fyrir mörgum árum síðan, þó stjórnendur sambandsins hafi ekki áttað sig á þeirri staðreynd.

Auðvitað er gott að vera opinn fyrir því sem aðrar þjóðir eru að gera, en þá á auðvitað að leita til þeirra sem eru að gera hlutina betur en við, ekki þeirra sem hafa undanfarin ár og áratugi markvisst unnið að rústun landbúnaðar í sínum löndum, s.s. löndin innan ESB! Við eigum að sækja það sem gott er til annarra, en láta hið slæma eiga sig.

Reyndar er nokkuð undarlegt að koma fram með einhliða markmið. Þetta er jú endurskoðun á gildandi samningi og slík endurskoðun hlýtur að verða samningsatriði. Eða til hvers var ráðherra að skipa 13 manna hóp í slíka umræðu, ef niðurstaðan liggur fyrir?!

Loks er svo imprað á innflutningskvótana og samkeppnislög, í lok kaflans um landbúnaðarmál. Þar er maður engu nær. Þar er algerlega opinn tékki.

Hið snilldarlega orðalag þessa kafla, sem og flestra eða allra kafla sáttmálans, gerir það að verkum að ekki verður komið hönd á neitt haldbært um stefnu í landbúnaðarmálum.

Þar veldur sá er á heldur. Og því miður verður að segja að sá sem á heldur er kannski ekki sá sem bændur treysta best til þess að valda. Ekki að Þorgerður Katrín sé heimskari en annað fólk, þvert á móti er hægt að gera ráð fyrir að gáfnafar hennar sé í góðu lagi.

Hitt er staðreynd að hún á engar rætur til sveita landsins, leikaradóttir alin upp á mölinni. Það er einfaldlega til of mikils mælst að skilningur hennar á landbúnaði sé með þeim hætti að hún geti tekið réttar ákvarðanir í þeim málaflokki, sér í lagi þegar stjórnarsáttmálinn gefur henni svo frítt spil sem raunin er. Því miður.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hvað ætli séu margir 13 manna, færri eða fleiri, hópar að störfum, fyrir hið opinbera, um nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut, sem ekki hefur þegar verið ákveðinn? Báknið burt! var einu sinni slagorð ungra sjálfstæðismanna. Aldrei í sögu okkar hefur báknið hinsvegar vaxið meir, en í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, síðustu þrjátíu ár. Annað tveggja, er stefnan úrelt, eða fyrrum og núverndi forkólfar starfi sínu ekki vaxnir og villtir í einhverju miðju, vinsælda eða ráðleysisforaði kratismans. Þorgerður gekk út, ásamt fleiri villuráfandi sauðum úr ólíklegustu áttum, sem á einni nóttu breyttust í krata, svo varla var hugsjónin mikil, frá uppqhafi, önnur en sú að skara eld að eigin köku, eins og kúlulánin sýndu.

Uppgjör er nauðsynlegt, svo mikið er víst!

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 4.2.2017 kl. 05:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband