Hrææturnar

Þær eru margar hrææturnar í íslenskum stjórnmálum. Það eru þeir sem fara á stjá þegar einhver er felldur, þegar illa árar hjá einhverjum.þá sjá þessir menn sér möguleika á að koma sjálfum sér á framfæri, enda hafa þeir ekki burði til að koma fram á eigin verðleikum.

Fréttamiðlar hafa verið duglegir að draga mannorð fjölda manns í svaðið og eigra þar engum. Engu máli skiptir hvort um sekt eða sakleysi er að ræða, orðrómi er dreift og innan tíðar verður hann að "sannleik". Ekki verður annað séð en fjölmiðlar geri þetta með skipulegum hætti og gegn ákveðnum hópum og einstaklingum. Jafnvel er þessum sóðaaðferðum plantað inn í forsetakosningarnar. Og sumir forsetaframbjóðendur kætast. Nýta sér þetta ástand, enda ekki menn til að tefla fram eigin verðleikum.

Framsóknarflokkur hefur orðið verulega fyrir barðinu á fjölmiðlum og fáum þar eigrað. Stjórnmálamenn hér á landi eru svo sem ekki neinir englar, svona flestir og skiptir þar engu máli hvaða flokki þeir tilheyra. En fjölmiðlarnir, dregnir áfram af sjálfum ríkisfjölmiðlinum, hafa engan áhuga á brestum stjórnmálamanna, nema þeir tilheyri Framsókn. Og vissulega hafa þeir ekki legið á liði sínu í þeim óhróðri, ekki frekar en í baráttunni um Bessastaði. Fjölmiðlaklíkan vill ná völdum, öllum völdum!

Það eru víða hrææturnar sem skríða nú fram úr fylgsnum sínum, sumar ekki í fyrsta sinn.

Jón Sigurðsson, sem fjölmiðlar gjarnan kalla "fyrrverandi formann Framsóknarflokks", jafnvel þó leitun sé að nokkrum manni um gjörvalla veröldina sem hefur gengt slíku virðingarheiti í styttri tíma en hann og örugglega enginn annar titill sem sá maður skreytir sig með, enst honum jafn stutt. Nú, eins og þegar hann náði að skreyta sig þeirri páfuglsfjöður að kallast formaður Framsóknarflokks, skríður þessi maður undan steini þegar flokkurinn á í vök að verjast. Eigin verðleikar hans eru ekki meiri en svo að honum er ómögulegt að þrífast nema á óförum annarra.

Sumarið 2006 náði Jón þeim merka áfanga að verða formaður Framsóknarflokks. Ekki vegna þess að hann væri svo góður stjórnmálamaður, ekki vegna þess að hann hafi sýnt merki mikillar visku eða skörungsskap. Nei, hann náði að komast í það embætti vegna þess að þáverandi formaður, Halldór Ásgrímsson var útbrunninn og yfirgaf opinberann stjórnmálavettvang. Það sannaðist síðan tæpu ári síðar hversu miklum mannkostum Jón Sigurðsson var gæddur. Þá leiddi hann flokkinn í gegnum kosningar, þar sem flokkurinn hlaut afhroð og formaðurinn sjálfur náði ekki kjöri á Alþingi. Þá sagði hann af sér embætti og við þjóðin höfum verið að mestu laus við afskipti þessa manns af pólitík frá því, eða allt þar til nú.

Nú þykist þessi maður getað mokað flórinn. Hann telur sig sennilega bestan til þess verks. Hann hefur svo sem ekki legið á skoðunum sínum, eftir að árásirnar á núverandi formann Framsóknar hófust og verið duglegur að taka undir með niðurrifsöflunum. Á því virðist hann þrífast.

Það er stórt nafn að bera, "Jón Sigurðsson". Margir gegnir og góðir Íslendingar hafa borið og bera þetta nafn, þó enginn jafnist til hálfs við þann Jón Sigurðsson sem fæddist á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 17. júní 1811. Sá Jón Sigurðsson sem fjölmiðlar velja að titla "fyrrverandi formann Framsóknarflokks" ber þó síst það nafn, jafnvel þó hann geti skreytt sig með öðrum titli, þ.e. "fyrrverandi Seðlabankastjóri". En því embætti gegndi hann örlítið lengur en formannstöðu Framsóknar.

Eitt er víst að fylgi Framsóknar hefur beðið hnekki, enda umræða fjölmiðla gegn flokknum með þeim hætti að fæstir þora að viðurkenna opinberlega fylgi við flokkinn, þó viðhorfið breytist kannski þegar komið er inn í kjörklefann. Hitt er á kristaltæru, að ef margnefndur Jón Sigurðsson, sem fjölmiðlar titla "fyrrverandi formann Framsóknarflokks", heldur áfram að kroppa í það sem hann telur vera orðið hræ, mun honum sennilega verða að ósk sinni og fá hræ til að kroppa í.

Meðan þessi maður skreytti sig með skrautfjöður formanns Framsóknar, tókst honum að fæla frá flokknum hörðustu stuðningsmenn hans. Eftir sátu örfáir kjósendur sem voru óánægðir með eigin flokk og kusu því Framsókn, enda þessi skrautfjöður flokksins á þeim tíma mun nær þeirra eigin flokk í málflutningi sínum en hinum gamla og gróna Framsóknarflokk. Og enn er málflutningur hans fjarlægur þeim kjósendum sem hafa haldið tryggð við Framsókn, þó margur laumukratinn gleðjist.

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband