Að berja hausnum við stein

Það hefur aldrei þótt merki um heilbrigði að berja hausnum við stein. Þeir sem standa samtökunum "Spítalinn okkar" eru þó duglegir við þessa iðju. Allir landsmenn geta sett sig undir nafnið "Spítalinn okkar" og fagnað byggingu á nýjum spítala, en eins og þessum samtökum er stjórnað forðast flestir að láta bendla sig við þau. Heilbrigða skynsemi vantar sárlega inn í þessi samtök!

Engin haldbær rök koma frá þessu fólki, enn fabúlerað um hluti sem koma þessu máli ekkert við og sannleikanum snúið á haus.

Fyrir það fyrsta fagna samtökin þeim framkvæmdum sem þegar eru hafnar. Sjúklingarnir, sem spítalinn er þó fyrst og fremst fyrir, eru ekki eins ánægðir og sumir sjúklingar útskrifa sig sjálfir af spítalanum, í ótíma, vegna þess ónæðis sem þar er.

Samtökin leggja áherslu á að uppbyggingin gangi hratt fyrir sig. Það er úrtilokað að hafa hraðann framkvæmdahraða þegar verið er að vinna við þröng skilyrði, milli húsa og fast við hús. Slíkar framkvæmdir eru seinlegar og viðkvæmar og taka mun lengri tíma en ef byggt er á opnu svæði.

Samtökin telja staðsetninguna mikilvæga. Hvers vegna? Jú nálægð við Háskólann! Er verið að byggja þennan spítala fyrir háskólasamfélagið eða sjúklinga? Þessi spurning kemur alltaf upp í hugann þegar þessi samtök senda eitthvað frá sér. Fyrir einum og hálfum áratug má kannski segja að þessi rök hafi haft eitthvað gildi, en varla þó. Í dag eru þau haldlaus með öllu!

Spítalann á fyrst og fremst að byggja fyrir sjúka og slasaða, háskólarnir geta síðan fengið aðgengi að honum fyrir sýnar tilraunir, rannsóknir og þróun. Því hlýtur staðsetningin að miða að þörfum sjúkra og slasaðra. Varðandi háskólana skiptir staðsetningin engu máli, enda tæknin kominn á það stig að samskipti þar á milli geta verið með ágætum, þó vegalendir séu meiri. Enn þurfa sjúklingar og slasaðir að treysta á sömu tækni til að komast á spítalann og verið hefur síðustu áratugi og engin von á að það breytist. Sé ekki fyrir mér að hægt verði að senda þá eftir ljósleiðara á sjúkrahús.

Það má hins vegar taka undir með Klöru Guðmundsdóttur, læknanema. Það er mikið óhagræði af því að reka bráðaþjónustu á tveim stöðum í borginni og aðstaðan fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk er óviðunnandi.

Að klastra saman mörgum húsum á þröngu svæði, með óteljandi óralöngum göngum, er þó vart til að leysa þann vanda. Að flytja síðan alla bráðamóttöku á stað þar sem aðgengi er verulega takmarkað, er ávísun á stórslys.

Leggjum niður allar deilur um þetta mál. Háskólasamfélagið verður að sætta sig við að landspítali er ekki byggður fyrir það, heldur sjúklinga, þó að sjálfsögðu háskólarnir eigi að hafa aðgengi að þeim spítala. Pólitíkusar verða að draga þetta mál burtu frá skotgröfum pólitíkunnar og sameinast um nýja og betri staðsetningu. Það er allt of mikið í húfi fyrir þjóðina til að láta þetta mál halda áfram á þeirri feigðarför sem það er.

Með því að byggja á betri stað má stytta byggingartíma veruleg, mun meira en nemur þeim tíma er tekur að undirbúa framkvæmdina. Því mun það skila nýjum spítala til þjóðarinnar mun fyrr en ef haldið verður áfram að berja haus við stein. Ný staðsetning yrði auðvitað valin þar sem aðgengi er mun betra og nægt landrými er. Þannig er hægt að tryggja að bráðaþjónustan kemst á einn stað mun fyrr en ella, tryggja að aðgengi fyrir sjúka og slasaða verður mun betra, hægt að tryggja að hægt verður að koma á einn stað allri þeirri þjónustu sem landspítali þarf að geta veitt og síðast en ekki síst tryggður möguleiki á að stækka og bæta eftir því sem tækninni fleytir áfram.

Viðhald og endurbætur á núverandi húsnæði þarf eftir sem áður að framkvæma, svo viðunnandi ástand verði á spítölunum meðan framkvæmdir standa yfir. Sá kostnaður skilar sér aftur.

Ef haldið verður áfram á þeirri feigðarför sem mörkuð hefur verið, munu framkvæmdir á Landspítalalóðinni standa yfir í a.m.k. 10 ár. Þegar sjúklingar eru farnir að flýja stofnunina áður en heilsa þeirra leifir, núna strax í upphafi framkvæmda, ættu augu fólks að opnast fyrir því að lengra verður ekki haldið á þessari leið, að endurskoða þarf kúrsinn.

Hvar nákvæmlega skal byggja nýjan spítala ætla ég ekki að segja til um. Til þess verks á að fá dómbæra menn sem þekkja vel til slíkra mála og þeir eiga að hafa fullt frjálsræði um hvaða staðsetning er best. Engar kvaðir eða skilyrði á að setja þeim mönnum.

 

 


mbl.is Fagna uppbyggingu við Hringbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband