Er EES samningurinn enn í gildi?

Á öndverðum tíunda áratug síðustu aldar gerðist Ísland aðili að EES samningnum. Mjög skiptar skoðanir voru meðal landsmanna um þessa för og í skoðanakönnunum voru andstæðingar samningsins alltaf með töluverða yfirhönd yfir þeim sem samninginn vildu. Þá lá fyrir að yfir 75% þjóðarinnar vildi fá að kjósa um samninginn. Þrátt fyrir þetta tók Alþingi einhliða ákvörðun um að fullnusta þennan samning.

Eitt var það sem andstæðingar óttuðust mikið var framsal sjálfstæðis þjóðarinnar, að með þessum samning væri verið að gangast undir yfirþjóðlegt vald, sem væri Alþingi okkar og dómsvaldi æðra. Til að fá úr þessu skorið skipaði þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson nefnd sem ætlað var að leggja mat á hvort EES samningurinn og fylgiskjöl hans bryti á einhvern hátt í bága við stjórnskipan Íslands. Í þessa nefnd voru skipaðir; Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, Gunnar G Schram prófessor og Stefán Már Stefánsson prófessor. Að auki var Ólafur W Stefánsson skrifstofustjóri skipaður í nefndina af hálfu Þorsteins Pálssonar dómsmálaráðherra.

Í stuttu máli var niðurstaða nefndarinnar að EES samningurinn bryti ekki í bága við stjórnskipan Íslands né stjórnarskrá og nefndu nefndarmenn sérstaklega í því sambandi bókun 35 með samningnum, sem fjallar um að aðildarríkjum sé ekki gert að framselja löggjafarvald yfir til stofnana EB (ESB). Þá nefndu þeir einnig að engar tilskipanir eða lög sem stofnanir EB (ESB) sett, tækju gildi innan EES nema samhljóma samþykki allra aðildarríkja væri um slíkt, að hvert og eitt ríki samningsins hefðu neitunarvald gegn slíkum tilskipunum eða lögum.

Síðan EES samningurinn var innleiddur hér á landi hefur orðið mikil breyting í Evrópu. Evrópubandalagið (EB) var látið víkja fyrir Evrópusambandinu (ESB) árið 1993, þegar Maastrichtsamningurinn var tekinn upp og efldi það mjög stofnanir sambandsins gegn aðildarríkjunum. Evra var síðan lögleidd sem gjaldeyrir ESB um aldamót og þrátt fyrir að ströng skilyrði væri til aðildarríkja um upptöku þessa nýja gjaldeyris, bar ákafi framkvæmdastjórnarinnar til þess að dreifa þessum gjaldeyri sem víðast, hana ofurliði og mörg ríki sem fengu að taka upp evru þó þau uppfylltu ekki öll skilyrðin.

Stæðsta og veigamesta breytingin varð þó þegar Lissabon sáttmálinn tók gildi, 1. desember 2010. Í raun er þessi sáttmáli ígildi stjórnarskrá sambandsins en breytingarnar eru þó meiri en bara að þarna sé verið að gera ESB að einhverskonar ríki. Vægi stærri þjóða jókst verulega á kostnað þeirra sem minni eru og neitunarvald einstakra ríkja innan ráðherraráðsins var afnumið. Í kjölfar gildingu þessa sáttmála hefur framkvæmdastjórnin gert sig sífellt gildari og er farin að tala opinskárra um eina Evrópu, það er að þjóðríkin eigi ekki að fá neinu ráðið. Jafnvel er nú opinberlega talað um stofnun ESB hers, að ESB verði gert að hernaðarveldi.

Þrátt fyrir þessar dramatísku og kannski ekki svo huggulegu breytingar sem orðið hafa innan Evrópu, á ekki fleiri árum en raun ber vitni, hefur EES samningurinn aldrei verið endurskoðaður. Og það sem verra er, að yfirgangur framkvæmdastjórnar ESB nær út fyrir sambandið sjálft og yfir í EES samninginn. Þó hafa aðildarríki hans ekki átt neinn þátt í að búa til þá ófreskju sem ESB er orðið í dag og ekki neitt til unnið að yfirgangur framkvæmdastjórnar eigi erindi til okkar.

Eins og framkvæmd EES samningsins er orðin í dag er ljóst að hann er farinn að ganga freklega  á íslensku stjórnarskránna. Bæði er svo komið að framkvæmdastjórn telur sig geta sett hvaða tilskipanir sem þeim sýnist og skipað EES löndum að fullgilda þær hjá sér, sama hversu fávitalegar sem þær eru. Þá er Evrópudómstóllinn sífellt oftar farinn að skipta sér að innanríkismálum okkar, án allrar heimildar, samkvæmt bókun 35, sem fylgdi gerð EES samningsins.

Það vekur því vissulega upp spurningu hvort þessi samningur sé yfirleitt í gildi ennþá. Það má kannski líta framhjá þeirri staðreynd að gagnaðili okkar að þessum samningi er ekki lengur til, þar sem Evrópubandalagið var aflagt ári eftir undirskrift EES samningsins. Það má líta framhjá því að við hverja dramatíska eðlisbreytingu sem orðið hefur á samstarfi því sem nú kallast ESB, hefði kannski þurft að framselja þann samning. Þ.e. frá EB yfir til ESB og síðan aftur milli gamla ESB og þess nýja þegar Lissabon sáttmálinn tók gildi. Framhjá þessu er svo sem hægt að líta.

En það verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að samningnum er ekki lengur fram haldið samkvæmt því sem upphaflega var ætlað, þ.e. að hver þjóð innan samningsins hafi neitunarvald gagnvart tilskipunum og lagasetningum og um að framsal dómsvaldsins yrði ekki fært undir stofnanir sambandsins.

Eins og áður segir þá var langt frá því að eining væri meðal þjóðarinnar um upptöku EES samningsins, þó nokkuð góð eining væri um að þjóðin fengi að kjósa um þann samning. Alþingi kaus að líta framhjá þessum staðreyndum. Langt var frá því að raunverulegt mat hafi legið fyrir um hagnað okkar af samningnum, þó ýmsar upphæðir hafi verið nefndar. Þær byggðu bara á hagnaðnum, óhagræði og tapi af samningnum var haldið frá fólki. Á þessum tíma vorum við aðili að EFTA og erum reyndar enn. Vel má hugsa sér að megnið af þeim ágóða sem talið er að EES samningurinn hefur gefið okkur, hefði mátt ná í gegnum EFTA. Ekki er að sjá að Sviss, sem aldrei hefur samþykkt EES samninginn heldur látið EFTA duga sér, hafi glatað við það nokkru tækifæri innan Evrópu. Flest eða allt sem hefur komið EES ríkjum til góða í samskiptum við ESB, hefur fallið Sviss í hag einnig. Hins vegar hefur Sviss tekist að halda ýmsu ESB rugli, frá sínum landsmönnum.

Það er vissulega kominn tími til að endurskoða EES samninginn og koma honum í það horf sem hann var upphaflega. Ef ekki er vilji innan framkvæmdastjórnar til slíkrar endurskoðunar ættum við Íslendingar alvarlega að endurskoða aðild okkar að þessum samning og skoða hvort EFTA geti ekki dugað okkur, svona eins og Svisslendingum.

Hugmyndir fyrrverandi og núverandi stjórnvalda um að breyta stjórnarskránni til samræmis við virðingu framkvæmdastjórnarinnar á þessum samning er hins vegar út í hött!


mbl.is EES framar íslenskum lögum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Mæltu manna heilastur, svo sannarlega er kominn tími á slit okkar við EES.Því skyldum við litlir og smáir,líta framhjá breytingum sem európutröllið ákveður að leggja niður og við gerðum samning við.Þakka þér fyrir afbragðs pistil Gunnar. 

Helga Kristjánsdóttir, 4.2.2016 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband