Gruggugt prinsipp ?

Það er vissulega gruggugt vatn sem bankakerfið liggur í og því má til sanns vegar færa að öll umræða um það sé eins og að fiska í gruggugu vatni. Kannski væri rétt að láta setjast aðeins til í því, svo menn sjái til botns og sigli ekki á sker.

Bjarni segir að um "prinsipp" spurningu sé að ræða hvort bankarnir verði einkavæddir. Eiga slík "prinsipp" að ráða för, eða skynsemi? Er það rétt stjórnun að pólitísk "prinsipp" séu látin ráða? Síðast þegar maður heyrði þetta orð nefnt af ráðherra, var þegar Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, tók sér það vald sem ráðherra að láta "prinsipp" ráða för í lagagerð. Þegar hún tók frumvarp sem samið hafði verið í sátt og breytti því til samræmis við sínar "prinsipp" hugsjónir. Ekki man ég hvort Bjarni andmælti því á þeim tíma, en það gerði sannarlega margir aðrir þáverandi stjórnarandstöðu þingmenn. Meðan það eru einungis pólitísk "prinsipp" sem ráða för við einkavæðingu bankanna, er engin ástæða til að fara þá vegferð.

Ekki ætla ég að taka afstöðu til þess hvort betra sé að bankar séu í ríkiseigu en einkaeigu. Þó má sannarlega segja að þau rök sem eru fyrir einkavæðingu þeirra haldi skammt. Af því höfum við bitra reynslu. Sumir vilja kenna um "rangri" aðferð við einkavæðinguna, meðan aðrir kenna sjálfri einkavæðingunni um. Hvort heldur er skiptir í sjálfu sér engu máli, meðan ekki hefur verið komist að niðurstöðu um hvað fór úrskeiðis í fyrstu einkavæðingu bankanna. Hrossakaup eða flokkshliðhollusta eða einhver spilling á þeim sviðum, standast þó ekki rök, þar sem sá banki sem fyrst féll var aldrei í eigu ríkisins og því á hendi einkaaðila alla tíð.

Allir vita að yfir bankana komust siðlausir menn, sumir strax þegar þeir voru einkavæddir og aðrir síðar. Ekki hefur verið sýnt fram á að hægt sé að tryggja að svo verði ekki aftur. Þegar þessir menn keyptu bankana, bæði þá tvo sem voru í ríkiseigu sem og þann þriðja sem var í einkaeigu, hvarflaði ekki að nokkrum manni að til væru slíkir siðleysingjar hér á landi, hvað þá að þeir hefðu tök á að komast yfir allt bankakerfi landsins. Nú vitum við betur og því miður virtum við að nægt framboð af siðleysingjum er til á Íslandi. Hvernig ætlar Bjarni að koma í veg fyrir að slíkir menn nái aftur yfirtökum á bönkum landsins? Meðan það er ekki ljóst er engin ástæða til einkavæðingar.

Það er kannski súrrealískt að stjórnarandstaðan skuli nú mæla mót einkavæðingu bankanna, þar sem sú ákvörðun var tekin í tíð síðustu ríkisstjórnar og bak við hana skýlir Bjarni sér. Hitt er gleðilegt, þegar þingmenn sjá að sér og viðurkenna fyrri mistök. Fyrir það má þakka.

En hvað liggur á? Hvers vegna verður að selja hlut ríkisins í bönkunum, hellst á þessu ári? Má ekki skoða málið aðeins og velta fyrir sér öðrum kostum. Ef við horfum framhjá þeirri staðreynd að sala bankanna nú er bein ávísun á minna fé í ríkissjóð, en ella og horfum einungis á hvort selja eigi bankanna og þá hvernig. Hvernig tryggja megi að sú sala verði þjóðinni til hagbóta og að óprúttnir menn komist ekki yfir þá aftur.

Enn hafa ekki fengist nein rök, önnur en "prinsipp" fyrir því að betra sé að bankakerfið sé á höndum einkaaðila. Ekki hefur verið lagðar fram neinar tillögur um hvernig standa skuli að slíkri einkavæðingu. Ekki hefur verið lögð fram rök fyrir því að það sé þjóðinni til hagsbóta að bankakerfið sé á höndum einkaaðila. Ekkert hefur verið rætt né tillögur komið fram um hvernig tryggja megi að óprúttnir siðleysingjar ná ekki að koma sínum krumlum yfir bankana.

Það er því með öllu ótímabært að einkavæða bankana, hvað sem öll "prinsipp" sjónarmið eins ákveðins stjórnmálaflokks segja. Prinsipp hafa aldrei verið góð til stjórnsýslu, hvorki til vinstri né hægri. Meðalvegurinn, byggður á upplýstri ákvörðun, hefur alltaf verið vænlegri og full ástæða til að skoða málflutning Frosta Sigurjónssonar vel, varðandi bankakerfið og næstu skref varðandi það. Það er ekki oft sem þjóð auðnast að fá tvö tækifæri til að laga sitt fjármálakerfi, en það fáum við Íslendingar. Fyrst eftir að bankarnir voru reistir upp úr öskustó sinni. Því tækifæri glutruðum við. Núna, þegar stór hluti bankakerfisins er komið í hendur ríkissjóðs. Vonandi ber okkur gæfa til að vinna vel úr því tækifæri.

Vatnið umhverfis bankanna er enn of gruggugt og hætt við að siglt verði á sker, ef óvarlega er farið.


mbl.is Fiskað í gruggugu vatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það er mikið skrifað og skrafað um þetta mál núna,ég ákvað byrja að líta á þína færslu því ég er þér oftast (eða bara alltaf)sammála. Eins er það núna og hreint með ólíkindum að ráðamenn geti ekki greint almenningi frá hver akkurinn er með því að selja bankana. Auðvitað er maður óánægður með svo margt hjá stjórninni,en mér er engin launung að láta það flakka,að mér þykja þau Vigdís og Guðlaugur Þór,þau allra ákveðnustu í að fylgja þeirri stefnu sem þau voru kosin til,að vinna fyrir land og þjóð.Ólíkt þeim sem eru með ónýta Esbéið á heilanum.

Helga Kristjánsdóttir, 1.2.2016 kl. 21:51

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er erfitt að tilgreina hver akkur af einkavæðingu bankanna er, sérstaklega þegar einhver prinsipp sjónarmið eru látin ráða, Helga.

Víst er að Vigdís og Guðlaugur Þór fara vaxandi og eru fylgin sér. Margir eru hræddir við Vigdísi, eins og umræðan gegn henni sannar. Guðlaugur Þór er einn fárra atvinnupólitíkusa sem virðist hafa lært af hruninu. Fyrir hrun var hann harður í prinsippum unggæðinga Sjálfstæðisflokks. Eftir hrun og þá útreið sem hann fékk í því, hefur Guðlaugur mannast mikið og tekur nú afstöðu til mála með meiri yfirvegun og skynsemi en áður. Hann hefur vaxið mikið.

Gunnar Heiðarsson, 1.2.2016 kl. 23:56

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það er einmitt í gruggugu vatni, sem ákveðin öfl í þjóðfélaginu kjósa að starfa í. "Einkavæðing banka" er hugtak sem fær hroll til að hríslast niður bakið á hverjum almennum Íslendingi. Það liggur ekkert á einkavæðingu bankanna. Hagnaðurinn er góður, jafnvel ötrúlega góður og því með öllu óskiljanlegt að ráðherra fjármála vilji losa ríkið við þessar mjólkurkýr. Ekki teldist  Bjarni góður bóndi, svo mikið er víst. Það er fnykur mikill af þeim rembingi sem nú virðist í þá veru að afhenda bestu kýrnar einkaaðilum. Barasta verulegur óþefur og spurning hvað býr þar að baki. Sem hluthafi í Landsbanka Íslands, með tæplega einn þrjúhundrasta hlut, mótmæli ég hér með öllum tilburðum í þá veru að selja, eða afhenda eignarhlut minn í gírug gin glefsandi siðleysingja.

 Göðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 2.2.2016 kl. 20:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband