Verðtryggingin í Nýju Jórvík

Eitt augnablik hélt ég að við andstæðingar verðtryggingar værum komnir með nýjan samherja, Samfylkinguna. En það augnablik stóð stutt.

Tveir þingmenn Samfylkingar lögðu fram frumvarp til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu, þar sem lagt var til afnám hennar. Í fyrstu hélt maður að einhverjar vikur hefðu farið framhjá manni og upp væri liðinn 1. apríl, enda þetta í algerri andstöðu við málflutning Samfylkingar um þennan málaflokk, til þessa. Eftir að hafa litið nokkrum sinnum á dagatalið og skoðað dagsetningar á tölvunni, sannfærðist maður um að dagsetningin var ekki 1. apríl, heldur 21. janúar. Þá loks gat maður glaðst, stutta stund. Það er sama hvaðan gott kemur og ef Samfylking gengur í lið með okkur andstæðingum verðtryggingar, er sú aðstoð vissulega vel þegin.

En Adam var ekki lengi í paradís. Ekki liðu nema tveir klukkutímar þar til einn flokksbundinn Samfylkingarmaður, sem titlaður er dósent í erlendum háskóla, ritaði gegn þessu frumvarpi. Þessi maður hefur löngum verið einlægur aðdáandi verðtryggingar og ekki legið á sinni skoðun með það. Reyndar er spurning hvort sá maður sem býr í Nýju Jórvík, í Ameríkuhreppi, sé þess megnugur að ræða verðtryggingu, hafandi lítið sem ekkert þurft að bera hana á baki sér. Og víst er að ef þessi dósent tæki upp á því að ræða verðtryggingu á sama hátt og skrif hans hér heima eru, við sína kollega þar ytra, væri hann litinn hornauga, enda verðtryggð lán með háum vöxtum til húsnæðiskaupa, sennileg talin til okurlána á þeim slóðum.

Fimm og hálfri klukkustund, eftir að þessi sjálfskipaði hagfræðingur Samfylkingar hafði lagt sinn stóradóm á málið, tók formaður flokksins undir, enda þessi hagfræðingur verið duglegur að mæra þennan flokk og störf hans með skrifum í blöðin hér heima. Mikið lið var af honum á þeim tíma sem Samfylking sat við stjórnvölinn. Þar má nefna einstaklega óeigingjarnt starf í þágu icesave og fleiri mála. Að sjálfsögðu launar formaðurinn honum fyrir allt þetta starf og stingur sínum hnífum í bak samflokksmanna, sem sitja með honum á Alþingi. Kannski spilar þar eitthvað inní að annar þeirra sem frumvarpið fluttu reyndi að steypa honum af stóli, fyrir um ári síðan.

En það má ekki vera óþakklátur og vissulega má fagna þessu frumvarpi, jafnvel þó það sé lagt fram af þingmönnum en ekki þingflokki. Það munar um hverja þá aðstoð sem hugsast getur, jafnvel þó einungis sé um tvö atkvæði að ræða. Reyndar á eftir að koma í ljós hversu margir muni fylgja formanninum og vini hans í Nýju Jórvík. Kannski eru fleiri atkvæði innan Samfylkingar með þessu frumvarpi.

 


mbl.is Styður ekki eigin þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvers vegna að banna verðtryggingu úr því að óverðtryggð lán eru í boði?

Með verðtryggingarbanni munu margir sem nú geta keypt íbúð ekki geta það vegna mikillar greiðslubyrði fyrstu árin auk þess sem greiðslubyrðin hækkar upp úr öllu valdi i verðbólguskoti.

Afleiðingar af banni verða þær að mikill fjöldi íbúða kemst í hendur fasteignafélaga sem kaupa íbúðir í hrönnum á kostakjörum.

Vandamálið er íslenska krónan. Hún er ónýtur gjaldmiðill. Með evru verður verðtrygging óþörf. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.1.2016 kl. 11:25

2 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Mig grunar að þessi Ásmundur sé einn af þessum heilaþvegnu sem sjá ekkert nema góða hluti við verðtryggingu.

Annars er það þannig að ef verðtrygging verður bönnuð þá erum við komin á par við öll siðmenntuð ríki. Verðtrygging þekkist hvergi nema hér og svo kanski hjá einhverjum örfáum þriðjaheimsríkjum sem er svo gott að bera sig saman við. ;)

Alstaðar eða því sem næst þá er maður spurður hverskonar glæpastarfsemi fer hér fram þegar maður sýnir reikninga frá húsnæðismálastofnun og þeirra verðtryggingu.

Það er því svo að ekkert gott er um verðtrygginguna að segja nema þá ef vera skildi að maður væri að lána öðrum verðtryggt.

Það að Árni Páll sé á móti svona frumvarpi egin flokksmanna segir meira um hve óhæfur hann er, en í þessu tilfelli segi ég að það sé sama hvaðan gott kemur.

Ég vona að þetta frumvarp nái fram að ganga.

Með kveðju

Ólafur Björn Ólafsson, 22.1.2016 kl. 11:40

3 identicon

Ólafur, segðu okkur hvers vegna þú vilt koma í veg fyrir að þeir, sem hafa ekki efni á að taka óverðtryggð lán, geti tekið verðtryggð lán.

Ef þú getur það ekki, ertu einfaldlega ekki marktækur.

Ásmundur (IP-tala skráð) 22.1.2016 kl. 11:51

4 identicon

Ég held að menn séu algerlega að misskilja þetta. Að tala um að banna verðtryggingu er líkt því að banna vetur. Slíkt bann á vetri hefði ekkert gildi þar sem veturinn kemur eftir sem áður.

Sama gildir um verðtrygginguna. Menn skulu ekki láta sér detta í hug að ef verðbólga sé 4% og vextir 2% þá þurfi þeir ekki að borga nema 2% vexti. Ef verðbólga er 4% og vextir þeirra 2% má gera ráð fyrir að vextir svokallaðra óverðtryggðra lána verði einhvers staðar um 6,5%. Það er nefnilega þannig að þeir sem eru að lána peninginn sinn þeir vilja alltaf fá verðgildi hans til baka aftur og svo einhverja ávöxtun fyrir að hafa lánið viðkomandi peninginn. Þannig myndu menn hafa vextina af "óverðtryggða" láninu 4% vegna verðbólgunnar, 2% sem endurgjald fyrir lánið og um 0,5% vegna áhættunnar á því að verðbólga gæti orðið meiri en 4%.

Verðtrygging er nefnilega ekkert annað en endurspeglun á verðbólgunni. Þess vegna eru allir vextir meira eða minna verðtryggðir (nema hjá þeim heimsku sem eru að spara á óverðtryggðum sparnaðarreikningum), spurningin er bara sú hvað við köllum verðtrygginguna.

Þetta sá meira að segja nefnd velferðarráðherra sem átti að koma með tillögu að niðurlagningu verðtryggingarinnar. Það sjá menn ef þeir skoða skýrslu þeirra, en þar leggja þeir til að verðtrygging verði "bönnuð" og í staðinn tekin upp lán með "hraðbreytilegum vöxtum".

Menn skulu því ekki láta sér detta í hug að bann við verðtryggingu muni eitt og sér leiða til lægri vaxta. Vextir munu alltaf taka tillit til verðbólgu. Ástæðan fyrir því að í boði eru lán með lægri vöxtum erlendis er því ekki sú að þar sé verðtrygging ekki leyfð, heldur einfaldlega vegna þess að þar er verðbólga lægri.

Siggi (IP-tala skráð) 22.1.2016 kl. 13:05

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er magnað hvað margir eiga erfitt með að hugsa án verðtryggingar, rétt eins og heilinn á þeim sé verðtryggður við ruglið.

Það er vissulega rétt sem Siggi segir hér fyrir ofan, vextir munu alltaf miðast við verðbólgu. En þegar stæðsti og versti verðbólgugjafi íslensku krónunnar er fjarlægður, sjálf verðtryggingin, ætti verðbólgan að hjaðna.

Það þarf ekki stórann heila, né verðtryggðan, til að sjá tengsl verðtryggingar við verðbólguna og hvernig sú trygging hefur þar bein áhrif.

Ef hveiti, eða hver önnur sú vara sem við kaupum erlendis frá hækkar, eykst verðbólga hér á landi. Það leiðir af sér að verðtrygging hækkar afborganir lána. Þeim kostnaði verða síðan fyrirtæki landsins að velta út í verð sinnar vöru og þá hækka lánin aftur, vegna verðtryggingarinnar. Þetta er vítahringur sem ekki verður komist út úr nema með banni á verðtryggingu lána.

Vissulega mun fólk þá þurfa að borga hærri vexti, til að byrja með, þ.e. til jafns við verðtryggingu plús vexti. En þegar sjálfvirknin hefur verið stöðvuð er einsýnt að verðbólga lækkar og vextir lækka. 

Ég veit að verðtryggðu heilarnir skilja ekki svona einfalda hluti, enda þeir eins og verðtryggðu lánin, flókinn óskapnaður.

Gunnar Heiðarsson, 22.1.2016 kl. 15:59

6 identicon

Ég held nú menn séu nú farnir að búa til grýlu úr öllu. Ef almennar neysluvörur hækka þá hækkar verðbólga og þá hækka líka afborganir verðtryggðra lána vegna verðbólgunnar, svo mikið er rétt. En ég er ekki að sjá hvernig hækkun á greiðslubyrði verðtryggðra lána hækkar svo aftur verðbólguna. Hringur er alltaf óbrotinn og það gildir líka um vítahring. En þessa tengingu er ég alls ekki að sjá.

Það eru engar neysluvörur mér vitanlega sem eru tengdar vísitölu lána. Verðtrygging var tekin upp hér á landi upp úr 1970 þó svo að þá hafi verið um hlutaverðtryggingu að ræða. 1979 var síðan full verðtrygging tekin upp. Við erum því búin að búa við verðtryggingu núna í 37 ár. Tvisvar veit ég til þess að verðtrygging lána hafi orðið vandamál. Ananrs vegar upp úr 1980 þegar bannað var að verðtryggja laun, enda fylgdu þá launin engan veginn hækkun lánna og einmitt á þessum sama tíma varð verðbólga sennilega sú hæsta sem um getur í íslandssögunni. Síðara skiptið var upp úr 2008 þegar bankahrunið var og orsakaðist það af því að menn töpuðu launum sínum vegna atvinnumissis eða urðu fyrir tekjulækkun á sama tíma og almennt verðlag hækkaði. Athugum það þó, að á þeim tíma vorum við að tala um ca 19% verðbólgu en upp úr 1980 vorum við hins vegar að tala um 100 - 150% verðbólgu þegar verst var. Hvorugt þessara tilfella verður rakið til þess að verðtryggingin sem slík hafi leitt til aukinnar verðbólgu.

Nú er ég ekki sérstakur talsmaður verðtryggingar, heldur frekar talsmaður þess að landsmönnum standi til boða sem fjölbreyttast úrval fjármögnunarleiða. Verum ekki alltaf að hafa vit fyrir öðrum eins og við séum sérstaklega af guði gerð til að vita allt betur en aðrir og lofum fólki að taka sínar eigin ákvarðanir. 

Af þeim sökum hefur mér fundist rétt að koma með ábendingar í þá veru að afnám verðtryggingar er engin töfralausn eins og svo margir virðast halda. Verðtrygging í hvaða formi sem það verður mun halda áfram. Menn munu alltaf halda áfram að miða við áætlaða þróun verðbólgu þegar þeir eru að ákveða vexti.

Menn hér á landi virðast halda það að þessi svokallaði verðbólguhugsun sé séríslenskt fyrirbæri. Svo er bara alls ekki. Það er alveg sama hvar við berum niður, alls staðar líta menn til þess hver er áætluð þróun verðlags þegar þeir eru að ákveða vext til framtíðar. Eftir því sem vextir eru fastsettir til lengri tíma þeim mun hærra er áhættuálagið vegna óvissu um þróun verðlags. Þetta gildir líka í löndunum hér í kringum okkur sem allir virðast vera að taka mið af. Þar er verðbólga lág og það er ekki skorti á verðtryggingu að þakka heldur mun betri efnahagsstjórnun en er hér á landi.

Eitt verð ég síðan að nefna til viðbótar en það er að aðstæður hér á landi voru ekki til fyrirmyndar hvað verðbólgu varðar þegar verðtrygging var tekin upp. Þá var svokölluð óverðtrygging ríkjandi. Samt var verðbólga talin í tugum prósenta og mun hærri en hún er t.d. í dag. Ekki er því hægt að segja að verðtryggingin hafi þá verið að valda þessari verðbólgu. Verðtryggingin á þeim tíma var tekin upp vegna þess að ekki var í boði að menn fengju tilbaka þá peninga sem þeir lánuðu, hvorki innlánseigendur né heldur þeir sem voru að veita lán. Sparnaður var því nánast að hverfa hér á landi og efnahagslega horfðu menn fram á gjaldþrot með því framhaldi. Verðtryggingin var því tekin upp til þess að byggja hér upp eðlilegan fjármagnsmarkað.

Aðstæður í dag eru allt aðrar og af hinu góða að í dag geta menn valið hvort þeir vilji hafa lán sín verðtryggð eða óverðtryggð. Af hverju að taka það val af mönnum og skylda þá í einn og sama farveginn?

Siggi (IP-tala skráð) 22.1.2016 kl. 16:49

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ekki ætla ég að reyna að rökræða þetta við þig Siggi. Þetta er greinilega allt of einfalt fyrir þinn flókna hugsanahátt.

Eftir sem áður ættu jafnvel þeir sem mest vilja flækja hlutina að geta áttað sig á því að þegar afborganir lána hækka þá neyðast fyrirtækin til að setja þann kostnaðarauka út í verðlagið, sem þá hækkar og afborgun lána hækkar og fyrirtækin neyðast til að setja þá hækkun út í verðlagið, sem þá hækkar og afborganir lána hækka og fyrirtæki neyðast til að setja þann kostnað út í verðlagið sem þá hækkar og .......

Það er til lítils að reyna að rökræða við menn sem ekki skilja þessa einföldu hringekju dauðans, hringekju knúna áfram af verðtryggingunni.

Gunnar Heiðarsson, 22.1.2016 kl. 18:14

8 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Gunnar það er líka hægt að reikna verðtryggingu á skynsamlegri máta en gert er. Það er alger óþarfi að láta hana virka framvirkt á vaxtahlutann. Eitt er að verðtryggja höfuðstól, það er allt annað að verðtryggja allt heila klabbið.

Ekki það að ég sé ósammála því sem þú heldur fram, einfaldlega að benda á að framkvæmd og formúla fyrir uppreikningi lánanna er í meiralagi vafasöm og meira í ætt við okurlánastarfsemi en heilbrigð lánaviðskipti.

Sindri Karl Sigurðsson, 22.1.2016 kl. 21:57

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Siggi. Þessi vítahringur sem þú þykist ekki sjá, er útskýrður rækilega í þessari rannsóknarskýrslu hérna:

[1302.4112] An examination of the effect on the Icelandic Banking System of Verðtryggð Lán (Indexed-Linked Loans)

Varðandi það sem þú nefndir um að fyrir tíma verðtryggingar, sem þú tilgreindir reyndar ekki hvnær hafi byrjað, hafi hér verið ríkjandi óðaverðbólga. Það er alveg réttt en útfrá því er ekki hægt að fullyrða neitt um orsakasamband því aðstæður voru að mörgu leyti ólíkar. Verðbólguna á fyrri áratugum og lengi framan af lýðveldistímanum má einfaldlega rekja til peningalegrar óstjórnar og jafnvel beinnar peningaprentunar. Það lagaðist hinsvegar ekkert við lögfestingu verðtryggingar, enda felur fyrirbærið beinlínis í sér sjálfvirka peningaprentun. Það var ekki fyrr en með breytingum á bókhaldsaðferðum sem gerðu bönkum kleift að auka peningamagn með því að lána hvorum öðrum sem verðbólga varð tímabundið lág á meðan bankakerfið fyllti upp í þetta nýja svigrúm, og það var svo aukið smám saman með einkavæðingu bankanna og stækkun fjármagnsmarkaða sem hámuðu í sig alla peningaprentunina og þöndust út eins og púki á fjósbita. Þetta frestaði verðbólguáhrifunum af svo mikilli prentun en þau raungerðust svo þegar bólan sprakk og bankarnir hrundu með þeim afleiðingum að verðbólgan varð 20% árið 2008 og í kjölfarið urðu áralangar efnahagslegar hörmungar sem enn sér ekki fyrir endann á. Verðtrygging kom ekki í veg fyrir neitt af þessu og það er ekkert merkjanlegt orsakasamband á milli hennar og aukinnar hagsældar, það eina sem hún gerir er bara að færa afleiðingar óstjórnarinnar til og breyta því á hverjum þær lenda. Ábyrg hagstjórn er nauðsynleg, hvort sem þú vilt svo hafa verðtryggingu eða ekki eða hvaða gjaldmiðil þú vilt nota, en með ábyrgri hagstjórn verður verðtrygging líka ónauðsynleg.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.1.2016 kl. 22:36

10 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Væri ekki ráðlegra fyrir ykkur framsóknarmenn að afnema þessa andskotans verðtryggingu ykkar frekar en gapuxast svona?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.1.2016 kl. 12:15

11 identicon

Sagan segir okkur að það sé er algjör firra og nánast öfugmæli að verðtryggingin valdi verðbólgu.

Á áttunda áratugnum var engin verðtrygging. Árleg verðbólga var þá  oftast upp á marga tugi prósenta. Verðtrygging var sett á 1980 til að vinna gegn verbólgunni.

Það tókst en tók nokkur ár meðan óverðtryggðu lánin voru enn stór hluti lána.

Verðtryggingin er lausn á vanda sem fylgir því að hafa krónu sem gjaldmiðil þó að best væri að þurfa hana ekki. Háir vextir ofan á verðtrygginguna eru einnig vegna krónunnar.

Háir vextir eru nauðsynlegir til að koma í veg fyrir að fé streymi úr landi í stórum stíl vegna þess hve ótraustur gjaldmiðill krónan er. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.1.2016 kl. 13:55

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ásmundur. Lastu athugasemd nr. 9 og rannsóknina sem þar er vísað til? Þar er sýnt fram á hvernig verðtrygging veldur verðbólgu. Ef þú ætlar að halda öðru fram, ef þér velkomið eins og öllum öðrum að reyna hrekja rannsóknina eða birta þína eigin. Reyndar þá skora ég á þig að gera það, til þess var hún birt opinberlega, en hingað til hefur enginn gert raunverulega tilraun til að hrekja hana. Þess vegna væri fínt ef þið sem allt þykist vita mynduð þá byrja á því að sýna fram á það hvað sé rangt í niðurstöðum rannsóknarinnar. Það er að segja ef þið ætlist til að einhver taki mark á ykkur.

Verðtrygging leysir engan vanda heldur færir bara afleiðingar hans til og breytir því á hverjum þær lenda.

Háir vextir eru ekki nauðsynlegir fyrir nokkurn skapaðan hlut. Á árunum 2004-2007 veittu fjármálafyrirtæki fjöldan af allan af lánum til einstaklinga og fyrirtækja, sem skiluðu neikvæðri raunávöxtun, og jafnvel neikvæðri nafnávöxtun í sumum tilvikum. Samt gátu þau haldið áfram að veita fleirum samskonar lán og samt skiluðu þau hagnaði. Þetta veit ég því ég hef unnið við að reikna út ávöxtun slíkra lána. Þetta er raunveruleikinn, alveg sama hvaða ranghugmyndir sumt fólk gengur með í hausnum á sér.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.1.2016 kl. 14:10

13 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þegar verðtrygging var sett á hafði verðbólgan sveiflast á milli 20 og 40%, áratuginn á undan. Eftir að verðtryggingin var sett á æddi verðbólgan upp og innan þriggja ára hafði hún sprengt 100% múrinn. Þá var verðtrygging launa afnumin en verðtrygging lána látin halda sér. Við þetta lækkaði verðbólgan, en náði þó ekki að komast niður á sama plan og síðasta áratuginn fyrir verðtryggingu, var reyndar nokkuð langt frá að komast svo "neðarlega".

Það var ekki fyrr en einum og hálfum áratug síðar sem loks náðist að koma henni undir tveggja stafa tölu og það var af allt öðrum ástæðum en verðtryggingunni. Stæðsta hjálpin var svokölluð þjóðarsátt, en með henni tókst að koma böndum á hagstjórnina. Eftir þetta lækkaði verðbólgan hægt og örugglega og hélst lág allt þar til óprúttnir menn náðu yfirhöndinni á peningaprentun bankanna.

Þessar upplýsingar liggja öllum opnar á vef Hagstofunnar og getur hver sem vill leitað þeirra þar og fengið þetta staðfest. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur ættu einnig að muna ástandið á fyrstu árum verðtryggingar og þeirri skelfingu sem þjóðin stóð frammi fyrir.

Ef verðtrygging launa er svona gífurlegur áhrifavaldur á verðbólgu gildir auðvitað það sama um verðtryggingu lána, ekki síður. Hvers vegna einungis var afnumin verðtrygging launa, innan þriggja ára frá því verðtrygging var sett á, en ekki afnumin verðtrygging lána, er spurning sem enginn hefur enn viljað svara.

Gunnar Heiðarsson, 23.1.2016 kl. 16:08

14 identicon

Þessi rannsókn er auðvitað afskaplega takmörkuð og tekur greinilega ekki með í reikninginn að hagsmunaaðilar við afnám verðtryggingar munu vinna að aukinni verðbólgu til að lækka raunskuldir sínar. Reynslan er betri leiðbeining en rannsóknir sem byggja á ákveðnum forsendum.

Það eru háir vextir sem hafa áhrif á verðbólguna. Það skiptir engu máli hvort þeir vextir séu vegna verðtryggingar eða ekki.

Þeir sem vilja afnema verðtryggingu verða að geta svarað tveimur spurningum. 1) Hvers vegna vilja þeir afnema verðtryggingu úr því að óverðtryggð lán eru í boði? 2)Hvers vegna vilja þeir útiloka þá, sem sjá sér ekki fært að taka verðtryggð lán, frá því að geta yfirleitt tekið lán?

Verðtryggð lán hafa þann kost að greiðslubyrðin er miklu jafnari. Fólk með þröngan fjárhag hefur því frekar efni á að taka þau.

Hvort fé streymir óhóflega úr landi fer eftir vaxtastiginu. Vegna þess að evran og fleiri gjaldmiðlar njóta miklu meira traust en krónan er nauðsynlegt að hafa mun hærri vexti hér í því frjálsa flæði fjármagns sem EES-samningurinn áskilur.

Einnig þarf vaxtamunurinn að vera meiri vegna lítils markaðar. Mundir þú geyma sparifé hér á landi ef sömu vaxtakjör byðust erlendis?

Auðvitað væri best að geta verið án verðtryggingar en krónan býður ekki upp á það. Því miður gera fæstir sér grein fyrir hve gífurlegir hagsmunir fyrir almenning eru fólgnir í því að taka upp evru. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 11:58

15 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ásmundur þessi klausa þín sem segir að vaxtamunur þurfi að vera meiri er stór hluti vandamálsins. Ef ekki Vandamálið.

Getur einhver komið með haldgóð rök fyrir því af hverju við erum með 10% vexti á meðan öll lönd í kringum okkur eru með því sem næst 0%?

Króna, króna hvað, það eru aðrir með krónu einnig.

Sindri Karl Sigurðsson, 24.1.2016 kl. 12:09

16 identicon

Vandamálið með krónuna er hve fáir nota hana sem eigin gjaldmiðil. Aðrar krónur hafa ca 15-30 sinnum meiri útbreiðslu. Fámennið gerir krónuna mjög viðkvæma fyrir sveiflum. Það þarf því lítið til að hún hrynji niður úr öllu valdi eða rjúki upp úr öllu valdi. 

Hér eru innlánsvextir háir nema á veltureikningum ekki síst vegna lítils trausts á krónunni. Vaxtamunurinn er einnig hár vegna fámennis. Niðurstaðan verður því óhjákvæmilega miklu hærri lánsvextir hér en í nágrannaríkjunum.

Ádmundur (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 13:17

17 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Gjaldmiðill hefur ekki sjálfstæðan vilja.

Það kostar hins vegar að vera lítil sjálfstæð þjóð, um það deilir enginn. Með sjálfstæðum gjaldmiðli er það þó mögulegt.

Þannig er hægt að stjórna hagkerfinu eftir því hvernig vindar blása og takmarka þann skaða sem þjóðin verður fyrir. Og engum skal detta til hugar að vindar umhverfis okkur hætti að blása, þó við tækjum upp gjaldeyri stórþjóða. Afleiðingarnar yrðu bara verri. Þetta ættu allir jarðarbúar að vera búnir að átta sig á, svo oft hefur verið reynt að taka upp gjaldmið fleiri þjóða í einn og alltaf mistekist. Síðast nú með evruna. Afleiðingar svona tilrauna hafa oftast verið skelfilegar og við búið að svo verði einnig nú meðal evrulanda. Við skulum átta okkur á að enn erum við bara búinn að sjá efsta toppinn af skelfingum evrunnar, allur ísjakinn eftir. Þó er ástandið orði ískyggilegt.

Vel getur verið rétt hjá þér Ásmundur að vaxtamunur þurfi að vera meiri hjá fámennri þjóð en fjölmennri, en það breytist ekkert við gjaldmiðlaskipti. Hagkerfið verður nákvæmlega eins og fámennið það sama.

En þetta kemur ekkert verðtryggingunni við, eða umræðunni um hana. Þetta er einungis leifar þeirrar umræðu hvort við ættum að taka upp evru. Þeirri umræðu má auðveldlega sleppa, enda líftíma evrunnar í þeirri mynd sem hún hefur verið, lokið.

Þetta eru einnig leifar þeirrar umræðu hvort við göngum í ESB. Þar sem dómstóll sambandsins hefur nú dæmt verðtryggð lán lögmæt, mun innganga í ESB engu breyta um verðtrygginguna. Hún getur haldið áfram og fitnað fyrir því.

En blogg mitt var bara hvorki um krónur, evrur né ESB. Það var eingöngu um verðtrygginguna, sem er hinum þrem þáttunum með öllu óviðkomandi. Það væri skemmtilegra að menn héldu sig efni bloggsins, í stað þess að fabúlera um allt aðra hluti. Til þess að skrifa um þá geta menn nýtt eigið blogg!

Gunnar Heiðarsson, 24.1.2016 kl. 17:14

18 identicon

Það væri léttvæg umræða um verðtryggingu sem kæmi ekki inn á hvernig er hægt að losna við hana af einhverju viti. 

Evran hefur reynst afar vel eins og þróunin á gengi hennar frá upphafi hefur sýnt. Spillingin í Grikklandi og flóttamannavandinn breytir engu um það enda hafa þau vandamál hvorki með evru né ESB að gera.

Það kemur ekki óvart að enginn geti svarað því hvaða tilgangi það á að þjóna að koma í veg fyrir að stór hluti þjóðarinnar geti tekið lán með því að banna verðtryggingu úr því að þeir sem vilja og geta stendur til boða óverðtryggð lán.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband