Verðtryggingin?

Það er umhugsunarvert að enn skuli vera svo mikill fjöldi fólks sem velur að flytja úr landi, umfram þá sem til baka koma. Hvað veldur?

Ekki er hægt að kenna atvinnuleysi um. Hvergi í hinum vestræna heimi mælist minna atvinnuleysi en hér á landi og má með sanni segja að það sé minna en ekkert, þar sem erlent vinnuafl hér á landi er mun meira en nemur þeim fjölda sem skráðir eru atvinnulausir. Það er því ekki hægt að kenna því um að fólk sé að flytja út til að eiga meiri möguleika á atvinnu.

Varla er hægt að kenna lágum launum um, þó alltaf vilji fólk hafa hærri laun. Eftir síðustu kjarasamninga, sem reyndar er ekki að fullu lokið, voru laun hækkuð nokkuð. Menntun var ríflega metin, þar sem fólk í menntastéttum fékk vel ríflega þær hækkanir sem ómenntað fólk náði. Nú er svo komið að sumar menntastéttir eiga erfitt með að fá hærri laun erlendis, þó vissulega það sé ekki algilt. Laun menntafólks hér á landi er að nálgast það sem best þekkist umhverfis okkur, þó enn vanti nokkuð á að laun þeirra ómenntuðu nái því marki.

Eitt höfum við íslendingar sem engar aðrar þjóðir hafa, sem við miðum okkur við, en það er blessuð verðtryggingin. Allir þurfa þak yfir höfuðið og verðtryggingin veldur því að slík þök verða einstaklega dýr í byggingu, þannig hvort sem fólk velur að kaupa eða leigja þá er kostnaðurinn meiri en viðunnandi getur talist. Þarna er kannski fundin ástæða þess að fólk velur að flytja úr landi, jafnvel þó atvinnumöguleikar þess skerðist verulega og þó launamunur sé vart marktækur, hjá þeim sem eru svo heppnir að fá vinnu erlendis.

Þeir sem mæra verðtrygginguna segja gjarnan að hún virki þannig að sá sem fær lán borgi jafngildi þess til baka, að fái maður eitt epli lánað þá skili maður einu epli. Erfitt getur reynst að reikna slíkt út en ljóst að mikill munur er á verðtryggðu láni og óverðtryggðu, samkvæmt reiknivélum bankanna, kannski vegna þess að einhverjar skekkjur eru í útreikningi verðtryggingar hjá bönkunum, enda óskiljanlegar með öllu, jafnvel fyrir bankamennina sjálfa.

Hvergi annarstaðar hafa menn fundið sig knúna til að verðtryggja lán til bygginga og kaupa á íbúðarhúsnæði. Hafa látið duga að láta vexti sjá um að tryggja það lánsfé. Sum staðar haf síðan stjórnvöld sett hámörk á vexti slíkra lána, svo bankar geti ekki haft af fólki meira en gott þykir. Hér á landi er þessu öfugt farið og bönkum gefið algert frjálsræði í að arðræna fólk.

Verðtrygging er vissulega slæm, gefur lánara pening sem hann annars gæti ekki komist yfir, pening sem sóttur er í vasa lántaka. Tvær fréttir síðustu daga staðfesta þetta svo ekki þarf um að deila.

Á vefsíðu mbl.is, þann 9.11. er frétt um að ríkissjóður hafi sparað sér 35 milljarða króna, á árunum 2003 til 2014. Ástæðan var að flest eða öll ríkisbréf sem gefin voru út á þessum tíma voru óverðtryggð. Ef um verðtryggð bréf hefði verið að ræða, hefði ríkissjóður þurft að greiða 35 milljörðum meira fyrir sína fjármögnun.

Í gær, þann 10.11, birtist á visir.is viðtal við Ásgeir Jónsson, sem nú er titlaður dósent við Háskóla íslands. Í þessu viðtali kemur fram að bankarnir hagnist um 3 milljarða króna við hvert 1% sem verðbólga hækkar! Þetta þakka bankarnir verðtryggðum lánum og kalla það "verðtryggingarjöfnuð". Nú er þessi liður í bókhaldi þeirra upp á 300 milljarða í plús. Hvaðan skyldu þeir peningar koma?

Það er lítill vandi að reka fyrirtæki sem hefur slíkan sjálfvirkan tekjustofn. Varla er mikill vilji hjá bönkum að halda niðri verðbólgu meðan svo varir, þó þeir séu í raun þau fyrirtæki landsins sem mestu geta ráðið um hvort verðbólgudraugurinn vakir eða sefur. Engin önnur fyrirtæki hafa slíkan tekjustofn og alls ekki fjölskyldur landsins, þvert á móti kemur það í hlut þessara aðila að greiða tekjustofn bankanna, fari verðbólgan af stað. Hvar í veröldinni þekkist slíkt fyrirkomulag? Jafnvel hörðustu mafíósar hefðu ekki þorað að beita slíkum aðferðum, þó innheimtuaðferðir þeirra hafi verið nokkuð skilvirkari en íslenskra banka, þó þar muni kannski ekki miklu.

Og ekki er stjórnun Seðlabankans betri. Þar er kynnt undir enn frekari verðbólgu með látlausum stýrivaxtahækkunum. Þær gera ekkert annað en að bragðbæta fóður verðbólgudraugsins. 

Verðtrygging er af hinu illa, verkfæri Mammons. Það er útilokað að fólk geti með sómasamlegum hætti komið sér upp þaki yfir höfuðið, meðan þetta fyrirkomulag ræður ríkjum. Vissulega eru bankar farnir að bjóða óverðtryggð lán, svona að nafni til. En meðan þeirra hagnaður kemur fyrst og fremst af verðtryggðum lánum, er framlagning þeirra á óverðtryggðum lánum gerð óaðlaðandi, jafnvel gerð þannig að þau virðist mun verri. Því verður að banna verðtryggingu neyslulána með öllu. Fjármálafyrirtæki mega sín á milli nota þessa aðferð, telji þau það borga sig. Af einhverjum ástæðum velja þau þó að fjármagna sig sem mest með óverðtryggðum lánum.

En það dugir ekki að banna verðtryggingu lána. Bankakerfið hér á landi hefur sýnt einstakt þroskaleysi, síðastliðin áratug. Jafnvel hefur þetta þroskaleysi enn aukist eftir hrun kerfisins. Það hefur sannast svo ekki verður um villst að bankakerfinu er ekki treystandi, sama undir hverri stjórn sem það er. Enginn munur virðist vera á rekstri þess banka sem frá hruni hefur verið í eigu þjóðarinnar og hinum sem voru gefnir hrægammasjóðunum. Siðleysið á öllum sviðum heltekur alla þessa banka.

Því þarf að koma því svo fyrir að bankar geti ekki sett slíkar hengingarólar á fólk að það velji frekar að yfirgefa landið, jafnvel þó atvinnumöguleikar erlendis séu mun verri. Það þarf að koma böndum á bankana og reka siðleysið þar á dyr!

Ef þetta verður gert, að banna verðtryggingu lána og koma á bankanna böndum, mun ekkert land í víðri veröld verða eftirsóknarverðara fyrir alla Íslendinga. Næg atvinna, launakjör þokkaleg og færu batnandi og heilbrigt fjármálakerfi.

 


mbl.is Fjöldi Íslendinga flytur úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Gunnar, líklega flýr fólk oft úr landi þar sem háskólamenntun er illa metin í landinu miðað við í vestrænum löndum.  Það kemur fram neðst í greininni að vís­bend­ing­ar séu um að margt há­skóla­fólk flytji úr land­inu.

Elle_, 11.11.2015 kl. 11:58

2 Smámynd: Elle_

Það er líka eitt, ófaglærðir hafa verið að taka yfir á vinnustöðum, eins og á hjúkrunarheimilum.  Þar er stór hluti vinnandi fólks ófaglært og verður að vinna á miklum hraða með gamla fólkið okkar sem skilur það oft alls ekki.  Þetta er hrikaleg þróun meðan læknar mega standa undirmannaðir á hættulega löngum vöktum, enda hafa flúið land.

Elle_, 11.11.2015 kl. 12:13

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Elle, í kjarasamningum á almenna markaðnum, síðasta vetur, voru flestir sammála því að þeir sem allra lægstu launin hefðu fengju einhverja aukahækkun, enda launakjör þess fólks langt undir framfærslugetu. Að meðaltali gáfu þeir kjarasamningar launahækkanir upp á um 10% á þessu ári. Þeir sem á eftir komu, flestir eða allir hluti af því sem kallaðar eru menntastéttir, hafa fengið frá 17% og allt upp í 50% launahækkanir.

Þetta hljómar illa við það að menntun sé ekki metin til launa, ekki annað séð en hún sé bara ríflega metin!

Ef það er staðreynd að ófaglegt fólk sé farið að taka yfir þá vinnu sem faglært fólk hafði áður, er það ekki vegna þess að laun þess ófaglærða hafi hækkað meira en þess faglærða. Það segir ekki heldur að laun þess faglærða sé sérstaklega lág miðað við sambærilegar stéttir erlendis. Það segir okkur það eitt að þeir sem stjórna stofnunum komast upp með að ráða ófaglært fólk í stöður faglærðra. Þar er sökin fyrst og fremst viðkomandi stéttarfélaga, en þau eiga auðvitað að standa vörð um störf sinna félagsmanna, svona eins og vlf Hlíf í Hafnafirði gerir.

Eftir launahækkanir lækna síðasta haust geta þeir sennilega hvergi fengið hærri laun en á Íslandi. Annað menntað starfsfólk í heilbrigðisgeiranum fékk mun minni hækkanir en þeir, en alveg ágætar samt og mun meiri en ómenntaða launafólkið. Þó er það svo að hæðsti taxti ófaglærðs verkamanns eru enn langt undir framfærslumörkum og þeir sem eru á neðstu töxtum eiga enga von til að lifa, nema með botnlausri yfirvinnu.

En það er þó ekki það fólk sem flýr land, hefur einfaldlega ekki efni á slíkum flutningum. Það eru hinir sem flýja, þeir sem hafa það ágætt hér á landi og fengu launahækkanir langt umfram aðra. Það er það fólk sem flýr, telur víst grasið grænna hinu megin lækjarins. Það sér ekki kalblettina.

Gunnar Heiðarsson, 11.11.2015 kl. 14:18

4 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Það verður verðtrygging á Íslandi þangað til að Sjalfstæðisflokkurinn og Samfylkingin gufa upp í skítalykt.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 12.11.2015 kl. 04:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband