Hinum fögru markmiðum um aðkomu þjóðarinnar kastað á glæ !!

Nú hefur verið ákveðið að hætta við stjórnlagaþing og stofna þess í stað stjórnlagaráð. Þetta segir svo ekki verði um villst að þau fögru sjónarmið að þjóðin fengi að ráða framtíð sinni eru fokin út í veður og vind.

Það er mikill munur á þjóðkjörnu stjórnlagaþingi og handvöldu stjórnlagaráði, þó bæði séu einungis ráðgefandi. Sátt um störf þessa ráðs mun aldrei verða meðal þjóðarinnar. Deilur og illindi munu ríkja um störf þess og líkur á að niðurstöður verði til að sætta þjóðina eru minni en engar.

Menn halda því fram að með því að velja þá 25 sem kosningu hlutu, sé verið að fara að vilja kjósenda. Það er þó fjarri lagi. Kosningin var úrskurðuð ólögmæt vegna lögbrota. Sú niðurstaða hæstaréttar hefur sáð efa í hugum landsmanna um það hvort þetta fólk hafi verið réttkjörið! Réttlátum efa, þar sem rök hæstaréttar voru mjög sannfærandi. Enginn hefur sagt að svindl hafi átt sér stað, en efinn er fyrir hendi! Efinn er enn verri en sannleikurinn, hann er sem krabbamein.

Með þessari afgreiðslu er enn verið að vinna samkvæmt því sem niðurstöður hrunskýrslunnar er talið vera á versta veg. Að ekki sé farið eftir lögum landsins, að ekki sé unnið að málum af yfirvegun, að ekki sé farið að vilja þjóðarinnar og að ekki sé tekið tillit til þeirra eftirlitsaðila sem um mál eiga að fjalla, er einmitt talið hafa verið helsta mein stjórnsýslunnar fyrir hrun. Nú er enn verið að vinna með þeim hætti!!  

Þessi niðurstaða er þinginu til skammar og ekki að sjá að þar sé neinn áhugi til að læra af því sem miður fór í undanfara bankahrunsins!

Skömm er af þeim þingmönnum sem að þessari afgreiðslu stóð og skömm er af þeim þingmönnum sem þessari niðurstöðu eru sammála!

Að breyta stjórnarskrá er á valdi þingsins. Þingið hefur þó ekki mikið traust almennings og því fagurt sjónarmið að þjóðin fái að koma að þessu verki, með því að stofna stjórnlagaþing sem gæfi þinginu leiðarvísir um vilja hennar. Þetta er göfugt markmið.

Því miður tókst stjórnvöldum að klúðra þessu. Vegna of mikinns ákafa stjórnvalda, var allt of stuttur tími gefinn til undirbúnings. Lög voru samin með hraði sem leiddi til þess að ekki reyndist unnt að fara eftir þeim. Framkvæmdaraðilum kosningarinnar var gefinn of stuttur tími til að geta unnið sitt verk af yfirvegun og ábyrgð. Frambjóðendum var gert gjörsamlega ófært að kynna sig, vegna of stutts tíma, enda sést það vel á niðurstöðunni þar sem þjóðþekktir Íslendingar höfðu mikið forskot á aðra frambjóðendur. Þetta allt olli því að svo mörg álitamál komu upp, að nauðsynlegt reyndist að fara á svig við lög og jafnvel brjóta þau, til að tímarammi gæti staðist. Það leiddi aftur til kæru til hæstaréttar, sem komst að þeirri niðurstöðu að kosningin væri marklaus! Þó var ekki kærð ýmis önnur atriði sem hugsanlega voru brotin, eins og sá örskammi tími til utankjörfundar. Það tók kosningarréttinn af fjölda manns í landinu!

Ef vilji þingsins er til þess að fá aðstoð þjóðarinnar við þetta verk, á að sjálf sögðu að kjósa aftur! Hvort kosið verði um þá 524 frambjóðendum sem voru í framboði síðast og kjósa að gefa kost á sér aftur, eða hvort byrjað verði frá grunni, skiptir ekki svo miklu máli. Þó væri að mínu mati réttast að taka málið alveg upp frá grunni. Ástæðan er einkum sú að fjöldi meðmælenda sem frambjóðendur þurftu var allt of lágur. Því komu fram svo mörg framboð, sem var hluti þess vandamáls sem upp kom.

Í öllu falli á að vanda til verka. Gefa á málinu þann tíma sem þarf, vanda vel til löggjafarinnar, hafa kosningarnar á þann veg að ekki verði deilt um framkvæmdina og gefa öllum frambjóðendum góðan tíma til að kynna sig og fyrir hvað þeir standa!

Ef þessum skilyrðum er uppfyllt, má gera ráð fyrir að sátt náist um stjórnlagaþingið, að þjóðin hafi þá tilfinningu að hún sé höfð með í ráðum við gerð eða breytingu á stjórnarskránni!

Hitt er svo annað mál hvort réttlætanlegt sé að vinna að þessu máli núna, hvort réttlætanlegt sé að nota um eða yfir einn miljarð af því lánsfé sem ríkissjóður er rekinn á, til þessa verks, hvort ekki væri rétt að fresta þessu máli þar til við höfum efni á að vinna þetta mál á þennan veg!

Sú aðferð sem nú er áætlað að fara er þinginu til skammar og mun einungis leiða til enn frekari deilna um þetta mál!!

 


mbl.is Ekki kosið til stjórnlagaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Gunnar, núverandi ríkisstjórn er mikið í mun að breyta stjórnarskránni.  Margir halda að málið snúist um 26. greinina, 40. greinina eða jafnvel 11. greinina.   Sú grein stjórnarskrárinnar sem enginn minnist á er þó líklega sú sem málið snýst um fyrst og fremst; 21. greinin. 

Það má vel vera að ef ríkisstjórninni tekst að þvinga þjóðina í ESB apparatið þá muni forsetavald í umboði þjóðarinnar ekki skipta máli þaðan í frá, en það er greinilegt að áður en ESB innlimun er möguleg þá er fyrsta skrefið að gera forsetann og alþýðuvaldið óvirkt.

Hjálpi þjóðinni heilagur, ef hún eftir þá aðgerð hafnar ESB aðild og situr samt uppi með að hafa verið svipt lýðræðinu.

Kolbrún Hilmars, 24.2.2011 kl. 20:42

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er hárrétt hjá þér Kolbrún að ástæða þess að Jóhanna leggur svo mikla áherslu á breytingu stjórnarskrárinnar er ekki til að auka lýðræðið í landinu. Hennar markmið er fyrst og fremst að gera þjóðina ófæra um að standa gegn inngöngu í ESB.

Þetta kom skýrt fram hjá Þorvaldi Gylfasyni fyrst eftir kosningar, þegar hann sagði að best væri að gera bráðabirgðastjórnarskrá. Fyrir honum og Jóhönnu er það nóg, þar sem íslensk stjórnarskrá má sín lítils eftir að við erum komin inn í ESB og því óþarfi að vera að eyða miklum tíma í svoleiðis plagg, nóg að breyta því sem breyta þarf til að auðvelda innlimun Íslands í ESB!

Við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því að verða án lýðræðis og utan ESB, þar sem tilgangur þess að afnema lýðræðið er einmitt til að koma okkur þangað inn, kosning breytir engu þar um.

Gunnar Heiðarsson, 24.2.2011 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband