Landsbyggðaskattur

Ekki trúi ég að nokkur þingmaður eða frambjóðandi þori að taka undir þessar tillögur starfshópsins, svo skömmu fyrir kosningar. Nema auðvitað Jón Gunnarsson, samgönguráðherra. Hann getur ekki svarið þessar tillögur af sér, svo mjög sem hann hefur talað fyrir þeim.

Þarna er auðvitað verið að leggja til aukinn skatt, sem í sjálfu sér er í algjörri andstöðu við stefnu flokks samgönguráðherra. Það sem meira er, þá eru auknar skattaálögur einnig í andstöðu við stefnu samtaka atvinnulífsins. Eða á það eingöngu við um skattlagningu á fyrirtæki? Að allt í lagi sé að skattleggja þá sem af nauðsyn þurfa að eiga og reka einkabíl, meðan fyrirtæki landsins geti grætt á slíkri skattheimtu?

Árið 2016 voru heildartekjur ríkisins af bílaflota landsmanna um 70 milljarðar króna (70.000.000.000.kr.). Á þessu ári un þessi upphæð verða enn hærri, aukinn innflutningur bíla, aukinn akstur landsmanna og stór aukinn fjöldi ferðafólks sem komast þarf um landið, sér til þess. Ekki kæmi á óvart þó tekjur ríkissjóðs næðu allt að 100 milljörðum króna á þessu ári, af þessum stofni einum.

Enn meiri hækkun tekna ríkissjóðs er sjáanleg á næsta ári. Fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar verður auðvitað ekki samþykkt. Samkvæmt því átti að stór hækka álögur á eldsneyti, auk þess afnema undanþágur bílaleiga á innflutningsgjöldum. Þetta mun gefa ríkissjóð einhverja milljarða í kassann. Að auki er ljóst að krónan mun veikjast og innflutningsverð eldsneytis því hækka. Það mun einnig fita ríkissjóð á aurum bíleigenda.

Auðvitað er ljóst að fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp hægri stjórnarinnar, með öllum sínum skattahækkunum, mun ekki ná fram að ganga, en ljóst er að ef vinstri flokkar ná völdum munu þessar skattahækkanir verða enn meiri. Viðbrögð þeirra á Alþingi, þegar frumvarpið var lagt fram, sannar það.

Starfshópurinn telur að það þurfi 56 milljarða króna á næstu átta árum, til að koma vegakerfinu í þokkalegt stand. Það gerir þá nálægt 7 milljörðum á ári, að jafnaði. Það er þá væntanlega viðbót við þá 18 milljarða sem ætlaðir eru í málaflokkinn á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Að samtals þurfi sem svarar 25 milljarða á ári til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins.

Liggur nærri að það samsvari 1/4 þess sem ríkið innheimtir í dag af bílaflota landsmanna. Hinir 3/4 hlutar þess fjár fer þá væntanlega í annan rekstur ríkissjóðs, eða nálægt 75 milljörðum króna. Þennan skatt bera þeir einir sem þurfa að eiga og reka einkabíl. Undan þeim skatti getur fólk auðvitað komið sér, með því að sleppa því að eiga bíl. Það er mögulegt fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðafólk hefur ekki val. Því er þetta hreinn landsbyggðaskattur, skattur sem að stærstum hluta er nýttur til greiðslu hinna ýmis rekstrar ríkissjóðs, að mestu innan marka höfuðborgarsvæðisins. 

Bíleigendur borga í dag sannanlega fyrir allt viðhald og endurnýjun vegakerfisins, c.a. fjórfallt! Og nú skal enn sótt í vasa þeirra. Þá 56 milljarða sem starfshópurinn telur þurfa, vill hann rukka af bíleigendum á næstu 20 árum. Það gerir 2,8 milljarðar á ári, sem sóttur verður beint í vasa bíleigenda, ofaná alla aðra skatta sem þeir þegar borga!  

Það er vissulega sjónarmið hvernig staðið skuli að fjármögnun á viðhaldi og endurnýjum vegakerfisins. Mismunandi er eftir þjóðum hvernig að slíku er staðið og vegtollar orðið ofaná hjá sumum ríkjum. Önnur nota skattkerfið til þessarar fjármögnunar.

Við Íslendingar völdum að hafa þessa fjármögnun inn í eldsneytisverði. Vandinn er bara að misvitrir stjórnmálamenn hafa gegnum tíðina sælst æ meir í það fjármagn, þannig í dag fer hluti þess skatts á eldsneyti, sem ætlaður var til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins, inn í ríkishítina. Ástæða þess að eldsneytisgjald var valið umfram vegskatts, var auðvitað stórt og strjálbýlt land. Hætt er við að vegakerfið okkar væri ansi fátæklegt, ef vegskattur hefði átt að greiða hvern vegspotta, sér í lagi í dreifðustu byggðum landsins. Eldsneytisgjaldið var talið vænna út frá byggðasjónarmiðum og væri það vissulega, ef stjórnmálamenn stunduðu ekki massíf lögbrot með því að nota hluta þess fjár í annað!!

Forsenda fyrir vegsköttum er auðvitað að fólk hafi val, geti ekið aðra og kannski lakari vegi en þá sem skattur er innheimtur af. Önnur forsenda er að önnur skattheimta, í sama tilgangi, sé þá afnumin. En frumforsenda er að vegskattur sé ekki innheimtur fyrr en hægt er að aka um viðkomandi vegkafla. Hvergi í víðri veröld er innheimtur vegtollur af "væntanlegum" vegi, enda sennilega hvergi í víðri veröld sem hægt er að treysta stjórnmálamönnum fyrir slíkri fyrirfram skattheimtu!!

Eins og áður segir, eru tekjur ríkissjóðs af bíleigendum, hér á landi, gífurlegar. Hluti þeirrar skattheimtu er svokallað eldsneytisgjald og hann ætlaður til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins. Einungis hluti þess gjalds fer til þeirra nota, þar sem stjórnmálamenn hafa ráðstafað hluta eldsneytisgjaldsins til annarra nota. Væri allt eldsneytisgjaldið nýtt í þeim tilgangi sem til stóð, væri vegakerfi okkar ekki að hruni komið!

Engin ástæða er til að ætla að vegskattur verði eitthvað betur varinn fyrir misvitrum stjórnmálamönnum. Þeir munu ásælast hann, rétt eins og eldsneytisgjaldið!!


mbl.is Gjald verði lagt á helstu stofnvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband