Loksins!

Loksins hefur þessu þingi verið slitið. Það var auðvitað galið af forseta að fela misvitrum alþingismönnum, sem hafa sýnt að þeir ráða ekki við starf sitt, hvenær þingi skyldi slitið. Þegar hann skrifaði undir þingrofið, dagsetti forsetinn það daginn fyrir kosningar og gaf því þingmönnum frítt spil til enn meiri forheimsku en áður hefur þekkst. Forsetinn átti að gefa þinginu að hámarki tvo virka daga til að klára nauðsynleg mál og slíta síðan þingi. Eftir að stjórn fellur og ákvörðun um þingslit liggja fyrir, hafa þingmenn ekkert umboð þjóðarinnar!

Síðustu dagar hafa verið svartir í sögu Alþingis. Þingmenn hafa keppst við að nýta þá í kosningabaráttu og í raun haldið þinginu í gíslingu. Þrjú mál hafa borið hæst meðal þingmanna og ljóst að fyrrverandi minnihluti á Alþingi ætlaði sér að nýta þetta þing til að koma fram sínum málum, án þess þó að taka þá ábyrgð að mynda starfhæfa meirihlutastjórn. Slíkt getur ekki talist annað en valdarán og það án ábyrgðar!

Og ekki er nú fyrir að fara skynsemi hjá þessu fólki. Þau mál sem þetta blessaða fólk setur á oddinn og hefur lagt ofur áherslu á, eru málefni innflytjenda, uppreyst æru og stjórnarskráin. Allt mál sem vissulega þarf að skoða og bæta, ekkert þeirra þó svo aðkallandi að umboðslaust Alþingi afgreiði þau. Allt mál sem vel geta beðið nýs þings. Halda mætti að fyrrverandi minnihluti Alþingis telji sig ekki ná neinu fylgi kjósenda í komandi kosningum og því nauðsynlegt að afgreiða þessi mál með hraði og flumbruskap.

Innflytjendavandinn er staðreynd og nauðsynlegt að finna lausn á honum. Það verður þó ekki gert á örfáum dögum. Enda ljóst að sú samþykkt sem Alþingi gerði fyrir slit, mun einungis auka þann vanda, í stað þess að minnka.

Lög um uppreyst æru voru vissulega tímaskekkja. Ekkert lá þó á að afgreiða það mál fyrir kosningar, allir flokkar sammála um málefnið og því engin fyrirstaða að bíða með það. Engin umsókn um uppreyst æru liggur fyrir ráðuneytinu, eftir að núverandi dómsmálaráðherra hafnaði slíkri umsókn í vor. Og ljóst er að enginn þingmaður, hvar í flokki sem hann situr, myndi þora að samþykkja slíka umsókn fyrr en ný lög um málið væri samþykkt. Til allrar lukku hóf dómsmálaráðherra vinnu við frumvarp um ný lög á þessu sviði snemma á þessu ári og það tilbúið fyrir Alþingi þegar stjórnarslit urðu. Það þurfti þó að eyða tíma í lögformlega meðferð Alþingis til að samþykkja þau lög. Tíma sem betur hefði verið varið til annars.

Þjóðin hefur aldrei samþykkt kollvörpun stjórnarskrárinnar. Í tengslum við umsókn að ESB þótti nauðsynlegt að fara í slíkan leiðangur og þeir flokkar sem þá sátu í ríkisstjórn boðuðu til kosningar stjórnlagaþings. Ekki var þátttaka þjóðarinnar í þeirri kosningu meiri en svo að sá sem flest atkvæði fékk á það þing, hafði rétt um 3% þjóðarinnar að baki sér. Framkvæmd þeirrar kosningar var með þeim hætti að Hæstiréttur sá ástæðu til að ógilda hana. Þar með hefði málið í raun átta að stoppa. En þáverandi valdhafar ákváðu að hafa dóm réttarins að engu og með nafnabreytingu (stjórnlagaráð) var þessu umboðlausa fólki falið að vinna að nýrri stjórnarskrá. Því var þessi vinna öll unnin án umboðs þjóðarinnar.

Síðan þegar ráðið skilaði af sér sinni afurð, fékk þjóðin loks færi á að segja sitt álit, eða svo var sagt. Raunin varð hins vegar sú að kjósendur fengu að kjósa um örfáar greinar svokallaðrar nýrrar stjórnarskrár. Ekki fékk fólk að segja álit sitt á þessari afurð í heild sér. Að vonum var kosningaþátttaka með eindæmum dræm, enda um fátt að kjósa.

Að kollvarpa stjórnarskrá er eins vitlaust og hugsast getur, sér í lagi þegar gildandi stjórnarskrá virkar að flestu leyti vel. Auðvitað þarf að skoða einstakar greinar stjórnarskrárinnar, taka út aðrar og jafnvel að bæta einhverju við hana. Þetta er eilífðarvinna sem á ekki að hafa neinn endir

Í öllu þessu fjaðrafoki hinna misvitru þingmanna, síðustu daga, gleyma þeir einu stóru máli. Í raun eina málinu sem þurfti nauðsynlega að leysa fyrir þingslit. Það er vandi sauðfjárbænda. Einungis einn þingmaður nefndi þetta mál og það gerði hann rétt undir lok þingsins, þegar séð var að slík umræða næðist ekki. Rétt eins og hann væri að bíða uns útilokað væri að gera nokkurn skapaðan hlut.

Ástæða þess að svo nauðsynlegt var að afgreiða þetta mál fyrir þinglok er einfaldlega sú að sláturtíð verður nánast lokið áður en þjóðin gengur til kosninga og örugglega lokið áður en nýr meirihluti verður myndaður á Alþingi. Því er ljóst að margur bóndinn mun neyðast til að hætta búskap. Þá ákvörðun verður hann að taka á allra næstu dögum. Að fara af stað með rekstur fyrirtækis, inn í nýtt ár, þegar ekki er til peningur til að greiða fyrir kostnað líðandi árs, er auðvitað galið. Mestar líkur eru á að þarna verði fyrst og fremst um yngri bændur að ræða, bændur sem hafa verið að byggja sín bú upp svo þeir geti lifað af þeim. Þessir bændur hafa fæstir að einhverju að hverfa og ljóst að upplausn fjölskyldna verður staðreynd. Sveitir munu veikjast og sumar leggjast í eyði. Stærsta ógnin er þó sú að svo stór skörð verði hoggin, að sauðfjárbúskapur muni nánast leggjast af í landinu.

Þegar fólki í einni stétt fækkar, leiðir það af sér fækkun fólks í öðrum stéttum. Sláturhús og kjötvinnslur munu laskast verulega, þjónustufyrirtæki í iðnaði munu mörg hver leggjast af. Þegar svo það fólk eltir bændurna suður á mölina verður lítil þörf á verslunum í tómum sveitum og kauptúnum, kennarar mun ekki hafa neina nemendur. Við erum að tala um hættu á algjörri eyðingu byggðar á stórum svæðum landsins, verði þetta látið stjórnlaust, eins og fráfarandi Alþingi hefur afrekað!

Hvað verður þá um ferðaþjónustuna?

Tillögur landbúnaðarráðherra eru þó ekki lausn vandans, þvert á móti yrðu afleiðingar þeirra svipaðar því sem að ofan segir.

Það sem þarf að gera nú strax er að tryggja bændum lágmarksverð miðað við framleiðslukostnað, sem vitað er hver er. Þetta var eina málið sem Alþingi þurfti að afgreiða fyrir þingslit. Síðan þarf að skoða hvort ríkið hafi kröfu á afurðastöðvar vegna þess, þar sem afurðaverðslækkun þeirra stenst ekki. Sáralitlar  umframbirgðir eru til í landinu, minni nú en í fyrra.

Að lokum þarf að koma því svo fyrir að afurðastöðvar geti aldrei fært sinn vanda niður til bænda. Það verður helst gert með því að ekki sé heimilt að greiða bændum lægra verð en sem nemur framleiðslukostnaði og að afurðastöðvar beri að öllu leyti ábyrgð á kjöti eftir slátrun. Einungis þannig myndast hvati hjá þeim til að efla sína vöruþróun og sölustarfsemi.

Nú hefur þingi verið slitið, án þess að nokkur þingmaður, utan einn, hafi svo mikið sem minnst á þennan vanda. Það sýnir best hversu utangátta þessir þingmenn eru. Því miður munu flestir þeirra gefa kost á sér aftur, sumir komnir langt yfir síðasta söludag og flestir svo gallaðir að þeir eru ekki söluhæfir!!

 

 


mbl.is Alþingi slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband