Meðvituð eða ómeðvituð fáviska ráðherra

Framkoma sjávarútvegsráðherra minnir mjög á framkomu nýkjörins forseta Bandaríkjanna. Hún hljóp fram með staðlausa stafi, strax og gagnrýni kom á hana um afskiptaleysi vegna sjómannaverkfallsins. Þvermóðskan leyfir henni síðan ekki að snúa af villu síns vega, þrátt fyrir að allar staðreyndir segi að hún hafi rangt fyrir sér.

Sjálfur er ég verkamaður í landi og vinn þannig vinnu að ég fæ greidda fæðispeninga, að hluta til utan staðgreiðsluskatts en skatt þarf ég að greiða af hluta þessa fjár. Ég fæ ekki dagpeninga, enda fer ég til vinnu heiman frá mér og kem heim aftur í faðm fjölskyldunnar að vinnuvakt lokinni. Hjá henni er ég síðan þar til næsta vakt hefst.

Ef ég væri sendur út á land, af mínum vinnuveitanda, fengi ég að sjálfsögðu dagpeninga sem munu þá innihalda fæðispeninga að auki. Það eina sem ég þarf að gera er að passa upp á allar nótur vegna fæðis og uppihalds í þeirri ferð og þar með losna ég undan skattgreiðslu af þeim dagpeningunum.

Hjá ráðuneytunum er þessu aðeins öðruvísi farið. Auðvitað fá starfsmenn þeirra, einnig ráðherrar, dagpeninga þegar farið er út fyrir höfuðborgina, en þessir aðilar þurfa hins vegar ekki að hirða um nótudraslið. Þeirra dagpeningar eru utan staðgreiðslu. Nú er það svo að þegar ráðamenn þjóðarinnar gera svo lítið að láta sjá sig í hinum ýmsu byggðum landsins, er gjarnan slegið upp veislu þeim til handa, enda ekki á hverjum degi sem slíkt mektarfólk kemur í heimsókn. Hvort til slíkrar veislu var boðið í ferð sjávarútvegsráðherra á Vestfirði, síðustu daga, veit ég ekki, en þar sem vestfirðingar eru einstaklega gestrisið fólk má fastlega gera ráð fyrir að ráðherrann hafi fengið a.m.k. eina fría máltíð í ferðinni. Dagpeningar hennar minnka þó ekkert við það.

Það liggur því fyrir að allt launafólk, utan sjómenn, fær dagpeninga þegar það þarf að stunda vinnu fjarri heimili sínu. Svolítið er misjafnt hvernig farið er með fólk varðandi skattaskil af þessum peningum,sumir þurfa að sanna kostnað á móti meðan aðrir, t.d. starfsfólk ráðuneyta, fær skattafsláttinn sjálfkrafa. Eðli málsins samkvæmt er útilokað að krefja sjómenn um kostnaðarnótur til að fá skattafslátt af dagpeningum.

Ástæðu þess að sjómenn hafa ekki þessi fríðindi eru auðvitað þekkt. Frá árinu 1957 til ársins 2009 höfðu sjómenn svokallaðan sjómannaafslátt, þ.e. ákveðinn skattafslátt af sínum tekjum fyrir hvern dag sem verið var á sjó.

Það var svo hin eina tæra vinstristjórn sem afnám þennan afslátt með einu pennastriki og sjómenn sátu eftir, eina starfstéttin á Íslandi, sem engar bætur fær fyrir að stunda vinnu fjarri faðmi fjölskyldunnar svo dögum og vikum skiptir. Sjávarútvegsráðherra kallar þessa aðgerð vinstristjórnarinnar "einföldun á skattkerfinu". Sú ríkisstjórn hefur aldrei fyrri verið talin hafa einfaldað skattkerfið hér álandi, þvert á móti.

Fram hefur komið í máli ráðherra að skattleysi á dag og fæðispeninga sjómanna muni kosta ríkissjóð yfir 700 milljónir króna. Það er ekki stór upphæð miðað við mörg kúlulánin sem afskrifuð voru eftir hrun. Þá má einnig snúa dæminu við og segja að ríkissjóður sé að ofskattleggja sjómenn um þessa upphæð.

Það sem eftir stendur er að ráðherra vill ekki eða getur ekki skilið samhengi hlutanna. Krafa sjómanna er fjarri því að vera upp á marga milljarða, eins og ráðherra lét frá sér á fyrstu stigum málsins. Krafa sjómanna er ekki nein niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðarinnar, eins og margoft hefur oltið af vörum ráðherrans.

Krafa sjómanna er einungis að samræmis verið gætt. Að þeir fái það sama og allt annað launafólk í landinu, fái skattafslátt af dag- og fæðispeningum. Þar sem þeim er ómögulegt að leggja fram kostnaðarnótur móti þessum skatti, er eina leiðin að þetta verði tekið út fyrir staðgreiðslu, svona eins og hjá ráðuneytunum. Ef ráðherrann vill endilega að það gangi jafnt yfir allt launafólk má hæglega gera slíkt, án nokkurs kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Samningur liggur fyrir milli sjómanna og útgerða. Ekki verður þó skrifað undir fyrr en ráðherra brýtur odd af oflæti sínu! Verkfallið er því allt hennar, hér eftir.


mbl.is „Ætlumst til þess að þeir klári deiluna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband