Vegatollar

Hugmyndin um vegatolla er ekki ný af nálinni, umræðan um þá leið hefur alltaf dúkkað upp aftur og aftur. Að mörgu leyti er þessi hugmynd ekki fjarstæðukennd, enda hugsunin að þeir sem nýta sér vegakerfið greiði fyrir þá notkun.

Því er hugmyndin um vegatolla alls ekki svo vitlaus, nema fyrir þá einföldu staðreynd að þeir sem um vegina fara eru þegar að greiða vel fyrir, reyndar svo vel að erfitt er að sjá hvaða rök réttlæta vegatollana. Bifreiðaeigendur, en það er jú í flestum tilfellum bílar sem um vegina aka, eru að greiða um 70 milljarða á ári til ríkisins. Ekki er hægt að sjá í fjárlögum ársins 2017 nákvæmlega hversu mikil útgjöld ríkisins eru til vegamála, þar sem fjarskipum er þar spyrt saman við vegamál. Til þeirra tveggja málaflokka er áætlað að nýta tæpa 29 milljarða, af þeim 70 sem innheimtast. Frekar lélegar endurheimtur!  

Ráðherra bendir réttilega á að víða erlendis séu vegtollar þekktir. Það er vissulega rétt, en hann lætur vera að nefna þá staðreynd að þar sem slíkt er gert eru aðrar álögur á bíleigendur mun minni en hér á landi og sumar álögur hér með öllu óþekktar þar ytra. Bíleigendur þurfa þar ekki að greiða til ríkisins nánast jafn háa upphæð og framleiðandinn, flutningsaðilinn og dílerinn fær, þegar keyptur er nýr bíll. Þar þurfa bíleigendur ekki heldur að greiða til ríkisins nánast sömu upphæð fyrir eldsneytið og framleiðandi þess, flutningsaðilar og dreifingaraðilar fá. Svona mætti lengi telja.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að taka upp vegtolla og fráleitt að halda því fram að með því væri verið að brjóta einhverja jafnræðisreglu. Ekki frekar en sú innheimta sem nú er stunduð á bíleigendur.

En frumforsenda vegtolla hlýtur að vera að aðrir tollar og gjöld séu þá lækkuð eða afnumin. Það er sjálfsagt að bera sig saman við erlendar þjóðir og taka upp það sem vel reynist þar, ef við teljum það gera okkur gagn. Þá verðum við að sjálfsögðu að horfa til heildarmyndarinnar, ekki bara einn þátt.


mbl.is Brýtur ekki gegn jafnræði íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband