"Getum við ekki öll verið sammála um það"

Þegar fólk gengur til kosninga velur það væntanlega þann flokk sem hugmyndafræðilega liggur næst viðkomandi. Kýs málefnin.

Nokkuð er ljóst að kjósendur VG kusu ekki þann flokk til að taka upp stefnu Sjálfstæðisflokks, að hluta eða alveg. Líklegt er að kjósendur Sjálfstæðisflokks hafi hugsað á svipaðan veg.

Það er aftur erfiðara að spá í hvað kjósendur Framsóknar hugsuðu, þegar þeir munduðu blýantinn á kjörseðilinn. Eitt er víst að slagorð flokksins var einfalt; "getum við ekki öll verið sammála um það". Síðan komu ýmis mál sem voru spyrt við þessa setningu, mál sem flestir eða allir flokkar eru sammála um. Hvernig farið skuli að því marki greinir þó flokkanna í sundur. Þar skilaði Framsókn passi.

Það er ljóst að allir kjósendur Framsóknar eru sammála um eitthvað. Hvað það er er aftur á huldu. Kannski eru þeir allir sammála um það eitt að halda SDG utan stjórnar. Í það minnsta væri ekki slík ofuráhersla lögð á þá stjórnarmyndun sem nú er í gangi, ef kjósendur flokksins væri sammála um að fylgja eftir stefnuskrá flokksins. Þá hefði verið horft í aðra átt.

Frasarnir velta af miklum móð af vörum þeirra stjórnmálamanna sem nú reyna stjórnarmyndum. "Breið sátt frá hægri til vinstri", "samræðustjórnmál", "að sýna pólitíska ábyrgð", "pólitísk sátt" og fleira í þessum dúr. Saman við þessi slagorð koma svo yfirlýsingar um að allir verði að gefa eftir, að ná þurfi sátt um mikilvægustu málin.

Þessi slagorð hafa oft heyrst áður og fulltrúar allra flokka einhvertímann tekið sér þau orð í munn. En einn er sá flokkur sem stofnaður var beinlínis um slíka pólitík, samræðustjórnmál og breiða sátt milli flokka. Sá flokkur þurrkaðist út af þingi í síðustu kosningum. Það verður því ekki séð að vilji kjósenda sé í þessa átt. Kannski er það einmitt vandinn, kjósendur vilja sterka flokka, ekki eitthvað samsull og moð. Að skilningur stjórnmálamanna og geta þeirra til að lesa niðurstöður kosninga sé ekki nægur.

Hvað sem því líður, þá uppskera samræðustjórnmál ekkert annað en moð. Vandanum er ýtt til hliðar og einungis horft til þeirra mála sem allir eru sammála um. Engar lausnir, engar niðurstöður og engar stórar og erfiðar ákvarðanir. Eftir sitja kjósendur og klóra sér í hausnum, "til hvers í andskotanum var ég að kjósa?"

Það er nefnilega svo að þegar stjórnmálaflokkar, þvert yfir hið pólitíska litróf, verða sammála, er ekki lengur þörf á nema einum stjórnmálaflokk. Kosningarnar myndu þá snúast um það eitt hvaða persónur færu á þing, fyrir þann eina flokk. Stjórnarmyndun væri einföld, einungis spurning um hvaða persónur fengju stólanna! Lýðræðinu væri í raun útrýmt!

Forsenda lýðræðis er að vilji kjósenda sé virtur, að þeir flokkar sem vinna stæðstu sigrana í kosningum fái sæti í stjórn næsta kjörtímabil. Að þeir flokkar sem hafa pólitíska stefnu sem næst þeim sigurvegurum gangi til þeirrar stjórnar. Síðan kveður þjóðin sinn dóm að fjórum árum liðnum. Nú virðist vera, í annað sinn á skömmum tíma, sem þessum gildum lýðræðisins skuli kastað fyrir róða. Aftur á að mynda ríkisstjórn um málefni sem allir flokkar aðhyllast og aftur skal frestað að skilgreina hvað leið verður farin að því marki. Aftur munu erfiðu málin verða sett í salt og enn og aftur er vilji kjósenda hundsaður.

Þegar mynduð verður stjórn flokka sem ýmist rétt náðu að halda í horfinu eða töpuðu umtalsverðu fylgi, meðan flokkar sem sannarlega áttu hug kjósenda er haldið utan stjórnar, er verið að afskræma lýðræðið. Eftir kosningarnar 2016, var mynduð ríkisstjórn þriggja flokka. Af þeim þrem flokkum gat þó einn titlað sig sigurvegara kosninganna. Nú getur enginn þeirra þriggja sem eru í viðræðum skreitt sig slíkri fjöður.

 

Lýðræðið er hornsteinn okkar þjóðfélags, getum við ekki öll verið sammála um það.


mbl.is „Þessu miðar hægt en örugglega“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband