Kosningadagur

Það var nokkuð merkileg útsending fréttastofu rúv í gærkvöldi, kvöldið fyrir kjördag. Ekki hægt að tala um að hún hafi verið hefðbundin.

Kannski kom mest á óvart að þáttastjórnendur ætluðu að hefja þessa útsendingu á myndun ríkisstjórnar. Nokkuð merkilegt, þar sem kjósendur eru jú ekki búnir að kjósa! Að sjálfsögðu var einungis ein ríkisstjórn í huga stjórnenda þáttarins, vinstri stjórn undir forsæti Kötu Jak.

Tveir formenn báru af öðrum, fyrir kurteisi og faglega framkomu. Fluttu mál sitt af festu og öryggi. Það voru Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð. Aðrir voru æstir og á stundum langt úr jafnvægi. Bjarni var einnig í þokkalegu jafnvægi, þó hann hafi þurft að sýna nokkra ákveðni um tíma.

Logi var eins og hani á haug, grípandi frammí og missti stjórn á skapi sínu. Eldar brenna oft glatt en lognast síðan útaf. Stutt kosningabarátta mun hugsanlega verða Samfó til bjargar.

Kata Jak. krafðist þess að fá að útskýra hvaðan hún ætlaði að sækja 50 milljarðana, sem flokkur hennar hefur lofað. Og að sjálfsögðu fékk hún leifi þáttastjórnenda til að tala lengi um það mál. Þrátt fyrir langa og orðfagra ræðu, kom ekkert nýtt frá henni um hvert þetta fé skuli sótt. Sömu loðnu útskýringarnar og áður, hækkun skatta án þess að hækka skatt og þar fram eftir götum. Algjörlega óútskýrt!

Í sambærilegum þætti, vorið 2009, spurðu þáttastjórnendur þáverandi formann VG um afstöðu til umsóknar að ESB. Svar hans var skýrt og svikin tveim dögum síðar, enn skýrari. Það var því snjallt af Bjarna Ben, þegar séð var að þáttastjórnendur nú ætluðu ekki að spyrja núverandi formann VG sömu spurningar, að kasta henni fram. Auðvitað vafðist svarið nokkuð fyrir Kötu, en eftir nokkuð jaml og orðskrúð var svar hennar á svipaða lund og forverans, þó ekki alveg jafn afgerandi. VG er víst enn á móti inngöngu í ESB, eða þannig sko. Hvers vegna ætti að treysta núverandi formanni betur en forveranum?! Í ljósi fréttar fyrir fáeinum dögum síðan, á maður erfitt með að trúa og treysta þessum formanni.

Það er annars merkilegt að fyrir kosningar finnast alltaf einhverjir "faldir" peningar. Kannski er rétt að stytta bara kjörtímabilið í eitt ár. Þá væri sennilega alltaf til nægt fé til hinna ýmsu verka. Reyndar var ekki fyrr en hið nýja framboð Miðflokksins var boðað sem aðrir flokkar fóru að tala um að sækja mætti fé til bankanna, fé sem enginn sá meðan þing starfaði í vetur og fé sem ekki virtist vera til þegar fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár var lagt fram, fyrir nokkrum dögum síðan.

Það er auðvitað gott að stjórnmálamenn allra flokka skuli vera farnir að átta sig á gífurlegri auðsöfnun bankanna. Hvaðan ætli það fé sé tilkomið? Kannski úr vösum kjósenda, gegnum hávaxtastefnu Seðlabankans að ógleymdri hinni "dásamlegu" verðtryggingu?

Reyndar gleyma allir flokkar nema einn að þetta fé verður einungis sótt til tveggja banka, að óbreyttu. Auðsöfnun þriðja bankans mun flytjast úr landi, í vasa eigenda vogunarsjóða.

Ég veit hvað ég ætla að kjósa!

 


mbl.is „Geturðu aðeins haldið þér rólegum?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband