Færsluflokkur: Bloggar

Að eiga banka - eða ekki

Okkur landsmönnum er talin trú um að við eigum Landsbankann og vissulega er ríkið skráð fyrir nánast öllum hlutum hans. Fjármálaráðherra er síðan með yfirumsjón yfir þessum hlut, sem þjóðin á.

En málið virðist nokkuð flóknara en þetta. Til að slíta tengsl milli pólitíkur og bankans, að ráðherra hafi ekki beint umboð til afskipta af rekstri hans, var stofnuð Bankasýsla ríkisins. Henni er ætlað að vera fulltrúi eigenda bankans. Reyndar ekki kosin af eigendum, heldur skipuð af ráðherra. Því kannski ekki hægt að tala um slit milli pólitíkur og reksturs bankans.

En þetta dugir þó ekki. Bankastjóri og bankaráð telur sig eiga þennan banka okkar. Að afskipti ráðherra eða bankasýslunnar skipti bara engu máli. Bakastjóri Landsbankans hefur sagt að bankinn muni halda áfram við fyrirhuguð kaup á TM, þrátt fyrir mótmæli eigandans, þ.e. ráðherra.

Þegar þetta er skoðað verður maður virkilega efins um hver á Landsbankann. Klárlega ekki almenningur, enda hefur hann enga aðkomu að bankanum aðra en að greiða til hans okurvexti og óheyrileg þjónustugjöld af minnsta tilefni. Ekki virðist ráðherra ráða miklu, eins og orð bankastjóra bera með sér. Og bankasýslan, jú henni hefur tekist að fresta aðalfundi bankans um einn mánuð, en mun sjálfsagt ekki hafa kjark til að rifta kaupunum. Enda ekki séð að BS sé með hugann við verkið. Lætur afskiptalaust að bankastjóri og bankaráð stundi vafasöm viðskipti, viðskipti sem kemur bankarekstri ekki við á nokkurn hátt.

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Það fyrirkomulag sem um þennan banka ríkir, banka sem sannarlega er í eigu landsmanna, þó erfitt sé að sjá það á framkvæmd eða stjórnin hans, er kjörið að endurskoða við þessi tímamót. Ef um einkafyrirtæki væri að ræða myndu eigendur hans reka samstundis alla þá er telja sig vera æðri en eigandinn, bankastjóra, bankaráð og Bankasýsluna og taka yfir reksturinn með nýju fólki.

Þannig gæfist gullið tækifæri til að endurskipuleggja rekstur bankans. Að hætta að reka hann sem gróðafyrirtæki, eða jafnvel okurstofnun og gera hann að samfélagsbanka. Slíkt bankaform er þekkt víða, þó sennilega þekktast í Þýskalandi. Þar er bankastarfsemi að stærstum hluta rekin sem samfélagsbankar og það voru þessir samfélagsbankar sem björguðu Þýskalandi frá hruni, haustið 2008. Banki sem rekinn er eftir lögmáli Mammons er veikari fyrir ef áföll skella á. Áhætturekstur er eitt aðalsmerki þeirra. Banki sem rekinn er eftir þörfum samfélagsins og ekki er drifinn áfram af græðgi, er fastari fyrir og þolir betur utanaðkomandi áföll.

Eftir bankahrunið hér haustið 2008, þegar landinu var steypt í fen skulda og hörmunga, ætti fólk að vita að einkavæðing bankakerfisins er ekki að ganga. Slík einkavæðing er átrúnmaður á Mammon. Ekkert að því að einhverjir einkavæddir bankar séu starfandi hér, ef einhver vill reka þá og bera ábyrgð á þeim. En samfélagsbanki verður að vera til staðar í landinu, þó ekki sé til annars en að halda niðri þeirri óheyrilegu okurstefnu sem bankakerfið stundar og er að draga lífið úr þjóðinni, hvort heldur þar er um einstaklinga eða fyrirtæki að ræða.

Framkvæmdin á stofnun slíks samfélagsbanka er einföld. Öllum hlutum hans sem ríkið hefur undir höndum, væru einfaldlega deilt á hvert mannsbarn í landinu. Ekki væri heimilt að selja þá hluti, heldur myndu þeir erfast til afkomenda. Allar meiriháttar ákvarðanir, s.s. ráðning bankaumsjónar og jafnvel bankastjóra færu fram með rafrænni kosningu þjóðarinnar. Frambjóðendur þyrftu auðvitað að standast eitthvað mat til þátttöku. Þeir sem hlytu kosningu hefðu enga heimild til að taka ákvarðanir um breytingu á rekstri bankans. Jafnvel þó þeir teldu að það væri "til haga fyrir eigendur".

Þannig færi ekkert á milli mála að við ættum öll Landsbankann og sennilega myndu flestir færa sín viðskipti yfir í hann.


mbl.is Aðalfundi Landsbankans frestað um mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö stríð, mismunandi fréttir

Á Gasa er fólk drepið í stríði, en í Úkraínu fellur fólk eða lætur lífíð. Þegar talað er um hversu margir láta lífið í þessum tveim stríðum, er aldrei gerður greinarmunur á saklausu fólki og hermönnum á Gasa, ein heildartala fallinna sögð og gefið í skyn að þar séu allir saklausir, jafnt kornabörn sem skæruliðar Hamas. Fréttir frá Úkraínu eru hins vegar nokkuð öðruvísi. Þar er gerð góð skil á því hvort hermenn eru drepnir eða saklausir íbúar.

Þetta er ein birtingarmynd þess hvernig fréttaflutningur er notaður til að móta hugsanir fólks, hvernig athyglin er dregin frá stríðsátökum Rússa gegn Úkraínu og hún færð yfir í að réttlæta hryðjuverk Hamasliða. Til þess var leikurinn gerður.

Það liggur alveg ljóst fyrir að Hamasliðar vissu nákvæmlega að hverju þeir gengu er þeir hófu hryðjuverkin þann 7. október síðastliðinn. Vissu að Ísrael myndi svara af hörku. En þeim hafði verið talin trú um að þeir hefðu bakhjarl, þann sem skaffaði þeim vopnin, Íran. En kjarkur Írana er ekki upp á marga fiska. Þeir beita öðrum fyrir sig, skaffa vopn en ekki meira. Þannig er einnig gagnvart Hútum í Jemen. Íran dælir þangað vopnum en lætur Húta um að skaffa kjötið.

Svo merkilegt sem það er þá hittust ráðamenn Rússa og Írans skömmu fyrir hryðjuverk Hamas. Margir telja þarna beina tengingu á milli. Pútín þekkir hernaðarsögu Rússa nokkuð vel. Veit hvernig seinni heimstyrjöldin vannst. Þegar Þjóðverjar áttu í raun ekki annað eftir en að yfirtaka Moskvu, náðu Rússar viðspyrnu. Ekki vegna herkænsku, enda Stalín þá búinn að slátra flestum hæfum hershöfðingjum sínum og ekki vegna góðra hergana, áttu fá og léleg tæki til stríðsrekstrar. Nei, viðspyrnan náðist vegna mikilla herganaflutninga frá Bandaríkjunum til Rússlands. Þar spilaði Ísland stórt hlutverk. Rússar áttu hins vegar nægt kjöt til að fóðra fallbyssur Þjóðverja á.

Þannig tókst Rússum að ná fótspyrnu og í framhaldinu að snú stríðinu sér í hag. Tóku að reka Þjóðverja til síns heima. Ekki þó fyrr en vesturríkin höfðu náð að hrekja Þjóðverja á brott úr norðanverðri Afríku og leggja stórann hluta Ítalíu undir sig. Það ásamt innrás inn í Frakkaland og miklum hergagna flutningum frá Bandaríkjunum, gerði Rússum kleyft að snúa við stríðinu á heimaslóð.

Það er þekkt í hersögunni að tefla fram á tveim stöðum, til að veikja andstæðing sinn. Þetta virkaði vel fyrir Rússa í seinni heimstyrjöldinni, með hjálp vesturlanda og virðist ætla að virka nú í innrás þeirra í Úkraínu. Það er reyndar ótrúlegt að þeir sem styðja Ísrael í sinni baráttu skulu styðja Rússa. Vilja jafnvel bera saman Palestínuaraba við Úkraínubúa. Þvílík fjarstæða! Ef einhvern samanburð er hægt að gera þá er það Rússlandsher við hryðjuverkasamtökin Hamas.

Það voru Rússar sem réðust með hörku inn í Úkraínu, Það voru Rússar sem hertóku landsvæði nágrannaríkis síns. Rétt eins og hryðjuverkasamtök Hamas réðust inn í Ísrael. Því má að einhverju leyti jafna þetta tvennt saman. Munurinn er þó örlítill og ekki Rússum í hag. Rússar og Úkraína hafa samþykkt ríki hvors annars, meðan hvorki Ísrael hefur samþykkt ríki Palestínuaraba né þeir samþykkt ríki Ísraels.

Nokkrum sinnum hefur tekist að ná viðræðum um slíka gagnkvæma viðurkenningu, svokallaða tveggja ríkja lausn og a.m.k. einu sinni verið skrifað undir slíkan samning. Arabar hafa ætíð hafnað honum þegar á hólminn er komið, þó Ísrael hafi allt fram til þessa stríðs er nú herjar þar, verið tilbúið í gagnkvæma viðurkenningu þessara ríkja.

Það er skelfilegt til þess að vita að meðan Rússar herja miskunnarlaust á nágrannaþjóð sína, skuli samúð vesturlanda vera að þverra. Ekki aðeins er þetta skelfileg hugsun vegna úkraínsku þjóðarinnar, heldur einnig vegna þess að Rússar munu ekki láta staðar numið við að innlima Úkraínu. Þeir munu halda lengra til vesturs. Það er barnalegt eða vanþekking að halda öðru fram.

Verst er þó að þetta samúðarleysi okkar til Úkraínu skuli stafa af því að allir fjölmiðlar og ráðafólk á vesturlöndum hafi fært samúðina yfir á hryðjuverkasamtök. Um það vitnar umræðan, hvort heldur á fréttamiðlum eða innan hinnar vestrænu stjórnmálastéttar.

Í Úkraínu falla eða deyja börn í stríði en í Palestínu er fólk drepið, hvort heldur það er saklaust af stríðátökunum eða ekki. Þannig er umræðan!


"Ekki bæði sleppt og haldið"

Loks ratast fjármálaráðherra rétt orð af munni, smá glæta í hennar málflutningi. Auðvitað kalla orkuskiptin á frekari nýtingu náttúruauðlinda og auðvitað veldur slík nýting raski. Hitt er svo annað mál hvaða auðlindir eigi að nýta, bæði með tilliti til rasks á náttúrunni en kannski ekki síður með tilliti til þess hversu miklu það rask skilar þjóðinni til hagsbóta.

Vatnsorka og jarðhiti eru orkugjafafar sem gefa stöðuga og trygga orku og valda til þess að gera litlu raski á náttúrunni. A.m.k. ef reiknað er út frá hagnaði versus skaði á náttúru. Vindorkan er hins vegar bæði óstöðug og veldur mjög miklum skaða á náttúrunni. Þar má hellst nefna mjög mikla sjónmengun, sem væntanlega mun gera útaf við brothættan ferðaiðnaðinn, örplastmengun sem þegar hefur verið staðfest að er mjög mikil frá vindtúrbínum og er þar vart á bætandi fyrir náttúruna. Margt fleira má telja gegn vindorkunýtingu sem of langt mál er að telja nú.

Því ættum við að láta nýtingu vindorkunnar bíða um stund. Kannski mun tæknin til þeirrar nýtingar batna með öðrum aðferðum en nú eru notaðar. Núverandi tækni er ekki hægt að bæta.

Þá fer ráðherra aðeins inn á stofnun þjóðarsjóðs. Eitthvað kunnuglegt? Jú, vissulega hefur þetta heyrst áður. Það er gott að leggja til hliðar, ef geta er til þess. En betra er þó að greiða skuldir fyrst. Það hefur ríkisjóð reynst erfitt, sama hvaða stjórn er við völd.

Talandi um þjóðarsjóð þá er sennilega einungis ein þjóð í heiminum sem hefur tekist að byggja sér slíkan sjóð,  svo einhverju nemi. Það eru auðvitað Norðmenn. Þeir nýttu ævintýralegan gróða af vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis til uppbyggingar þessa sjóðs. Settu um hann strangar kröfur um úttekt, þannig að hann óx og dafnaði. Nú er sagan hins vegar önnur. Farið er að greiða úr sjóðnum á sama tíma og innkoman hefur minnkað verulega. Þar kemur einkum til röng orkustefna Norðmanna, orkustefna sem íslenskir stjórnmálamenn og ráðherrar eru svo æstir í að taka upp. Hætt við að erfitt reynist að byggja upp slíkan þjóðarsjóð, fái sú stefna ráðið.

"Ekki bæði sleppt og haldið" segir ráðherra og er þá að tala um orkuskipti versus orkunýtingu. Þennan frasa má einnig nota yfir hugmyndir um stofnun þjóðarsjóðs. Það verður ekki bæði sleppt og haldið þar heldur.

Þjóðarsjóð er ekki hægt að stofna ef valin er röng orkustefna.


mbl.is Orkuskiptin kalla á nýtingu og rask á náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Diet coke og land tækifæranna

Ísland er sannarlega land tækifæranna. Menn geta náð að vaxa frá örbyrgð til álna á stuttum tíma. Einn okkar "dáðadrengja" sagðist fyrir tæpum fimmtán árum eiga fyrir einni diet coke og taldi það nóg fyrir sig. Í dag er þessi "dáðadrengur" orðinn einn af umsvifamestu kaupsýslumönnum landsins. Hefur frá engu náð að komast yfir miklar eignir.

Reyndar náði þessi sami maður að falla úr sínu hásæti kaupsýslunnar á Íslandi, niður í eina diet coke, á enn styttri tíma og draga landið niður í svaðið með aðstoð sinna kumpána. Margir eru enn að berjast við að ná fótum eftir þá meðferð þessara manna. Það á þó ekki við um "dáðadrengina". Þeir blómstra sem aldrei fyrr. Enda er Ísland land tækifæranna, er það ekki?

Það sem kannski varð þessum diet coke-ista að falli, var að hann veðjaði á rangann stjórnmálaflokk. Þegar mest á reið og mesta þörfin á aðstoð stjórnmálakerfisins reyndi, sveik flokkurinn sem hann hafði veðjað á. Kom ekki diet coke-istanum til hjálpar.  Það er sjaldnast hægt að treysta Samfylkingu, en menn gera jú ráð fyrir einhverri hjálp eftir mikinn austur fjár inn í sinn stjórnmálaflokk.

En coke-istinn hefur lært á þessu. Nú stefnir hann á annan og tryggari flokk fyrir gróssera, Sjálfstæðisflokkinn. Réð til sín ráðherrabróðir. Væntanlega hafa ættartengsl ráðið þar meiru en gjörvileiki bróðurins, enda von til að ráðherrann verði nýr formaður flokksins. Það væri nú ekki ónýtt fyrir diet coke-istann að eiga góð tök í formanni Sjálfstæðisflokksins!

Svo er fólk að halda því fram að hér á Íslandi grasseri spilling. Þvílík ósvinna að nefna slíkt.

Ísland er bara land tækifæranna, eða þannig!


Bókun 35

Þegar EES samningurinn var samþykktur af Alþingi í byrjun tíunda áratug síðustu aldar, var ákveðið að láta bókun 35 sitja eftir. Að öðrum kosti var ekki hægt að samþykkja þennan samning. Hann vó þegar það nærri stjórnarskránni okkar, að með bókun 35 hefði Alþingi ekki getað samþykkt hann. Þó náðist einungis minnsti mögulegi meirihluti á þingi fyrir samþykktinni.

Þessi samningur var fyrst og fremst um svokallað fjórfrelsi, þ.e. frjáls vöru og þjónustuviðskipti, frjálsir fjármagnsflutningar, sameiginlegur vinnumarkaður og frjáls för fólks milli landa aðildarríkja samningsins. Samningurinn var gerður milli EFTA ríkja og Evrópubandalagsins, sem var bandaleg nokkurra Evrópuríkja um sömu málefni. Skömmu síðar var síðan bandalaginu breytt og stofnar Evrópusambandið, þar sem þau ríki er innan þess voru juku mjög stjórnmálaleg samskipti sín. Sú þróun hefur síðan haldið áfram og nú svo komið að ríki sambandsins geta hvorki hreyft hönd né fót án samþykkis sambandsins. EES samningurinn var þó aldrei tekinn upp og endurskoðaður, þó þessi eðlisbreyting hafi orðið á öðrum aðila hans.

Fljótlega eftir að sambandið var stofnað fór að bera á vilja þess til að Ísland innleiddi bókun 35. Lengi framanaf var þessu haldið niðri og borið við stjórnarskrá. Margar ríkisstjórnir höfðu tilburði til að gera breytingar á stjórnarskránni, svo innleiða mætti þessa bókun. Hæst náði þessi viðleitni er ríkisstjórn Jóhönnu sat við völd. En hafðist ekki, sem betur fer.

Það er síðan fyrir um ári síðan sem varaformaður Sjálfstæðisflokks og þáverandi utanríkisráðherra, vekur upp þetta ólánsmál. Við ráðherraskiptin síðasta haust færðist svo málið á borð formanns Sjálfstæðisflokks. Það sætir furðu að formaður og varaformaður þess flokks er kennir sig við sjálfstæði, skuli vekja upp þennan draug, skuli vinna að því að skerða sjálfstæði þjóðarinnar. Engar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni svo hægt sé að innleiða þessa bókun, heldur látið sem svo að þetta komi henni ekkert við. Stjórnarskráin okkar er þó enn í fullu gildi og bókun 35 brýtur enn jafn mikið í bága við hana og á upphafsárum EES samningsins. Þar hefur engin breyting orðið önnur en sú að þingmenn og ráðherrar telja stjórnarskránna ekki lengur skipta máli.

Þeir sem eru komnir til vits og ára muna sjálfsagt hvernig umræðan var í þjóðfélaginu, áður en Alþingi samþykkti EES samninginn. Mikil umræða var um hann og eðli hans og innihald. Margir bentu á að þessi samningur gengi of nærri stjórnarskrá meðan aðrir töldu það sleppa. Auðvitað voru netmiðlar af skornum skammti á þeim tíma og ekki almennir eins og í dag. Því þurfti að treysta á prentmiðla og meta umræður og kappræður um málið á ljósvakamiðlum. Fáa landsmenn fann maður sem mæltu með þessum samningi, fylgið við hann var fyrst og fremst í sal Alþingis, auk þess sem menntaelítan sá þarna einhverja kosti. Þessi umræða var á stundum nokkuð hatrömm og óvægin og átti ekki að fara framhjá nokkrum manni.

Sá ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem endurvakti bókun 35 hefur auðvitað sér til varnar að vera enn í leikskóla er þessi umræða fór fram og því kannski ekki mikið tekið eftir henni. Annað mál gegnir með formann Sjálfstæðisflokk. Hann var kominn á þrítugsaldur og þar sem hann var nú einu sinni erfðaprins flokksins, hlýtur hann hafa verið farinn að fylgjast með pólitíkinni á þessum tíma. Hann ætti því að þekkja umræðuna, vita hvers vegna bókun 35 var haldið frá samningnum, vita að þessi samningur var samþykktur með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi og vita það að ráðamenn þorðu ekki að leggja þennan samning fyrir þjóðina, vitandi að hann yrði kolfelldur, rétt eins og í Sviss. Það var eina EFTA ríkið þorði að láta samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er eina EFTA ríkið sem stendur utan hans.

 EES samningurinn var aldrei hugsaður sem stjórnmálalegt samband við Evrópubandalagið, síðar Evrópusambandið. Þessi samningur var fyrst og fremst um fjórfrelsið og þá aðallega um frjálsa verslun við ríki innan EES/EB(ESB). Það hjákotlegasta við þetta er þó það að af fjórfrelsinu er það einmitt sá leggur er við vorum að sækjast eftir, frelsi með viðskipti, sem síst hefur staðist. Okkar útflutningsvörur eins og fiskur og matvæli er fjarri því að vera frjáls til sölu innan þeirra ríkja er að samningnum standa, eru reyndar mjög heft. Önnur atriði fjórfrelsisins eru hins vegar opnari en við getum ráðið við. Frjáls fjármagnsflutningur gerði landið gjaldþrota eftir að stórglæpamenn náðu höndum á bankakerfinu okkar og spiluðu rassinn úr buxunum. Frjáls för fólks er svo óheft að hingað koma hverjir þeir sem vilja, hvort sem við teljum þá velkomna eða ekki, Jafnvel stórglæpamenn í sumum tilfellum. Frjáls vinnumarkaður hefur sjálfsagt hjálpað einhverjum ævintýramönnum að fá vinnu erlendis, en á móti flæðir hingað ódýrt vinnuafl hvaðanæva úr Evrópu, oftar en ekki á vegum erlendra vinnumiðlara sem borga skammarleg laun.

Það sem þó verst er, er að ESB hefur sífellt verið að auka allskyns reglusetningar hér á landi, sem koma okkur í sjálfu sér ekki við en kosta okkur mikla peninga. Þar er af nógu að taka og of langt mál að telja. Þetta gerist þrátt fyrir að EES samningurinn hafi aldrei verið hugsaður sem stjórnmálaleg tengsl.

Verði þessi bókun samþykkt á Alþingi, eins og allt bendir til, mun sjálfstæði þjóðarinnar falla. Stjórnarskráin, sem á að verja okkur fyrir misvitrum þingmönnum, verður einskinýtt plagg. Alþingi verður stofnun sem tekur við tilskipunum frá ESB og gerir að lögum. Dómskerfið fer í uppnám.

Við verðum aftur hjálenda erlendra ríkja. Til hvers var þá barist fyrir sjálfstæði? Og hvers vegna var Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður?!


Alveg ga, ga ....

Þegar Alþingi samþykkti samgöngusáttmálann við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og stofnaði í framhaldinu betri samgöngur ohf. lágu ákveðnar tölur fyrir um áætlaðan kostnað við verkefnið. Í þeim tölum var talað um að kostnaður við brú yfir Fossvoginn myndi kosta um 2,25 milljarða króna, eða svipað og brúin yfir Þorskafjörð. Að lagt hafi verið upp með að kostnaðurinn yrði um 5 milljarðar, eins og forstjóri Vegagerðarinnar heldur fram, er því hrein sögufölsun. Vel getur verið að á einhverjum tímapunkti hafi áætlanir um kostnað brúarinnar verið um 5 milljarðar, enda virðist þetta mannvirki hækka í hvert sinn sem minnst er á það. Sem dæmi voru áætlanir um kostnað brúarinnar um 7,5 milljarðar á haustdögum síðasta árs, en kominn í 8,8 milljarða eftir áramót.

Hækkun frá 5 milljörðum í tæpa 9 er mikil hækkun, en staðreyndin er hins vegar sú að hækkunin er frá rúmum 2 milljörðum króna upp í tæpa 9 milljarða nú. Og það er ekki enn farið að bjóða verkið út. Hver endanlegur verðmiði á þessari brú verður er enn skrifað í skýin, en þó ljóst að hann verður töluvert hærri en núverandi áætlun hljóðar uppá.

Brúin yfir Þorskafjörðinn er ætluð allri umferð, verður öllum opin. Brúin yfir Fossvoginn er hins vegar ætluð mjög litlum hluta fólks, eða einungis borgarlínuvögnum auk hjólandi og gangandi fólki. Ef bjartsýnustu spár rætast varðandi borgarlínu munu um 10 - 12% fólks sem ferðast um höfuðborgarsvæðið, ferðast með borgarlínu. Hversu stór hluti þess mun svo aftur fara um þessa tilteknu brú er ráðgáta. Öll umferð um sunnanverða Vestfirði mun hins vegar fara um brúnna yfir Þorskafjörðinn.

Því er spurning; hvers vegna er ríkið og vegagerðin að vasast í rándýrri framkvæmd sem kemur einungis örlitlum hluta landsmanna að gagni og einungis ef ferðast er á tiltekinn hátt. Allir þeir fjármunir er ríkið leggur til framkvæmda, ekki síst ef þeir fara gegnum einhverja undirstofnun þess, eiga að nýtast öllum. Að allir geti nýtt sér bót þeirrar framkvæmdar. Og allar framkvæmdir sem ríkið fjármagnar eiga að vera gerðar á þann hátt að öryggi sé framar fagurfræðinni. Ég er ekki að segja að Fossvogsbrúin uppfylli ekki skilyrði um öryggi, þekki það ekki. Hins vegar er ljóst að langstærsti hluti kostnaðar við brúnna kemur til af fagurfræði. Það er ekki ásættanlegt, þegar verið er að höndla með þá fjármuni sem okkur er skylt að leggja í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar, ríkiskassann.

Varðandi sjálfan samgöngusáttmálann, þá er hann fallinn, löngu fallinn. Þar hefur ekki ein einast framkvæmd staðist þann kostnað er upp var lagt með er Alþingi samþykkti hann. Reyndar langt frá því. Undrun sætir hvað þingmenn eru hljóðir. Virðist sem einungis einn flokkur á Alþingi láti sér þetta mál varða, standi vörð um hvernig okkar fjármunum er ráðstafað.

Samningur er samningur og ef annar aðilinn ekki stendur við sinn þátt þess samnings, fellur hann sjálfkrafa. Því er næsta verk Alþingis að slíta því opinbera hlutafélagi er það stofnaði, til að sjá um framkvæmd þess fallna samnings.


mbl.is Útlit brúarinnar kostar skildinginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttur eða rangur flokkur?

Stjórnunarstíll Kristrúnar er nokkuð sérstakur og ekki beinlínis í anda jafnaðarstefnu. Fyrst kastar hún aðildarumsókn í esb í ruslakörfuna og nú kollvarpar hún stefnu og gerðum flokksins í innflytjendamálum. Þetta gerir hún án alls samráðs við flokk sinn.

Gamlir og rótgrónir kratar, sem eiga jafnvel rætur allt aftur til gamla Alþýðubandalagsins, forvera VG, reyna nú að bera í bætifláka fyrir hinn nýja formann sinn. Jafnvel tekist að fá yngra áhrifafólk flokksins með sér í lið. Þetta fólk veit sem er að án Kristrúnar væri þessi flokkur harla lítill og því að miklu að vinna til að láta aðra þingmenn og flokksmenn hlýða hennar kalli.

Reyndar verður að segjast eins og er að orð sumra þessara gömlu fáka flokksins eru nokkuð tvíræð, gera minna úr þeirri stefnubreytingu sem formaðurinn hafi boðað. Tala um að ekki sé um stefnubreytingu að ræða, svona yfir höfuð. Dulbúin skilaboð til Kristrúnar að fara sér aðeins hægar?

Kristrún kom sem stormsveipur inn í íslensk stjórnmál. Lagði til hliðar vel launuð bankastörf, mjög vel launuð, og skellti sér í pólitíkina. Ekki voru allir sáttir við hennar innkomu í Samfylkinguna, töldu sér nær að taka við keflinu af hendi Loga. Nokkur órói hefur verið innan flokksins vegna þessa en meðan Kristrún heldur mældu fylgi flokksins í hávegum er erfitt fyrir þetta fólk að andmæla henni.

Hitt er svo aftur spurning hvort Kristrún valdi sér réttan flokk þegar hún ákvað að yfirgefa vel launuðu bankastörfin. Miðað við hvað hún var að yfirgefa, átti hún kannski betur heima innan Sjálfstæðisflokks, en þegar skoðuð eru þau mál sem hún beitir sér fyrir og þann kjark sem hún hefur til að koma þeim áfram, á hún auðvitað heima í Miðflokknum, innan um réttsýnt og kjarkað fólk hans.

En Kristrúnu til málsbóta þá var mælt fylgi þess flokks nokkuð lágt er hún ákvað að söðla um og því kannski ekki á vísan að róa með tryggt þingsæti þar.

En það stendur hins vegar til bóta.


mbl.is Logi sammála Kristrúnu um útlendingamálin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófremdarástand

Það setur um mann hroll að lesa viðhengda frétt. Af einhverjum ástæðum hefur Samfylkingin snúist um 180 gráður varðandi innflytjendamál. Um þetta fjallar formaður flokksins í spjallþætti og ekki laust við að margir rækju upp stór augu.  En þetta er vissulega góð stefnubreyting og ber að fagna. Reyndar hefur komið í ljós að málið er enn órætt innan flokksins.

Nú kemur varaformaðurinn í fréttaviðtal og segir þetta í raun enga breytingu hjá flokknum. Að komið sé upp ófremdarástand í málaflokknum og það sé fyrst og fremst Sjálfstæðisflokk að kenna. Það má svo sem taka undir það að sá flokkur, sem hefur haft með þessi mál að gera um nokkuð langa hríð, ber sök að nokkru leyti. Ekki þó því að hafa ekki viljað breyta, heldur sök á því að láta stjórnarandstöðuna stöðva slíkar breytingar trekk í trekk.

Þar hefur Samfylkingin verið dugleg að vinna að því að halda opnum landamærum fyrir hvern sem er, hvort sem þörf er á eða ekki. Hefur verið dugleg við að standa gegn öllum breytingum í átt til að ná tökum á vandanum.

Og vissulega er komið upp ófremdarástand í þessum málaflokk. Þar ratast varaformanninum rétt orð af munni, aldrei þessu vant. Blóðugir bardagar eru háðir milli innflytjenda, íslenskar sem erlendar konur eru komnar í hættu, þeim nauðgað og limlestar. Enda eru konur annars flokks í hugum karlkyns múslima. Þegar svo glæpamenn eru fluttir úr landi og meinuð innganga í landið, birtast þeir á götum borgarinnar jafnvel áður en fylgdarlið þeirra kemst til baka. 

Kostnaður ríkisins vegna málaflokksins er orðinn af stærðargráðu sem útilokað er að lítil og fámenn þjóð ráði við. Heilbrigðiskerfið er að grotna niður, bæði vegna skorts á fjármunum, sem betur væri varið til þess en í ólöglega innflytjendur, sem og vegna þess að þessi mikli fjöldi innflytjenda fær forgang fram yfir íslendinga á heilbrigðisstofnunum.

Það má sannarlega segja að um ófremdarástand sé að ræða, ef til eru sterkari orð má nota þau. Þannig verður þegar hleypt er hingað fólki sem enginn veit deili á, fólki sem er alið upp við hatur frá blautu barnsbeini, fólk sem er alið upp við að annað fólk sé réttdræpt vegna trúarskoðana, fólki sem jafnvel nánustu nágrannar og trúbræður vilja ekki hleypa inn í sitt land, heldur byggir varnarveggi til að halda því burtu. 

Það er gott að Samfylkingin sé farin að sjá að sér. Það breytir þó ekki því að þingmenn og fylgisfólk þess flokks hefur barist einna harðast gegn því að tekið skuli á málinu, allt til þessa. Sök Sjálfstæðisflokks er einungis aumingjaskapur, að þora ekki að standa í lappirnar gegn minnihluta Alþingis.

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingar, er kominn á efri ár. Þetta viðtal við hann er þvílíkt bull að jafnvel elliglöp geta vart afsakað hann. Sögufölsun hefur sannarlega verið eitt aðalsmerki krata, fyrst Alþýðuflokks og síðan Samfylkingar. Þessi saga er þó svo ný að honum er ófært að reyna að falsa hana.


mbl.is „Ófremdarástand“ í útlendingamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrt gæluverkefni

Mr. Mathiesen vill kenna því um að áætlanir hafi ekki verið í lagi þegar Alþingi samþykkti samgöngusáttmálann. Þess vegna séu svo miklar hækkanir í áætlunum nú. Svo sem engin ný sannindi, en hins vegar spurning hvort þessi sáttmáli hefði yfir höfuð verið lagður fyrir þingið, ef þær upphæðir sem nú eru ræddar hefði fylgt með honum.

Hitt er aftur rétt að benda á, að jafnvel þó sáttmálinn hafi verið hressilega vanáætlaður, verður ekki séð annað en að áætlanir Betri samgangna ohf. eigi erfitt með að standast. Hækka í sumum tilfellum um milljarða milli mánaða. Ekki beint merki um að þar sé hæft fólk í starfi. Sorgarsagan um Fossvogsbrúnna segir þar alla sögu.

Samgöngusáttmálinn, sem er að stærstum hluta um borgarlínuna svokölluðu, var samþykktur af Alþingi út frá ákveðnum forsendum. Ein aðal forsendan var að þessi sáttmáli myndi kosta um 160 milljarða króna og ber ríkið ábyrgð á 75% þeirrar upphæðar. Nú eru áætlanir komnar í um 300 milljarða króna, eða nærri tvöfaldast. Af þeirri upphæð þarf ríkið að taka á sig um 225 milljarða. Til að setja þetta í samhengi þá kostaði ríkissjóð, árið 2022: sjúkratryggingar, atvinnuleysistryggingasjóður, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fæðingarorlof, barnabætur og húsnæðis og leigubætur, samtals um 170 milljarða króna. Vantar enn um 55 milljarða króna til að jafna kostnað ríkisins við samgöngusáttmálann, eins og hann reiknaðist út síðast. 

En þessu er ekki lokið. Sáttmálinn á eftir að hækka enn frekar. Ef við nefnum aftur Fossvogsbrúnna þá er talið að endanlegur kostnaður við hana verði mun hærri en nýjustu áætlanir segja til um, jafnvel helmingi hærri. Því er ekki ótrúlegt að ætla að samgöngusáttmálinn eigi einnig eftir að hækka í heild sér, kannski tvöfaldast eins og brúin.

Það yrði dýrt gæluverkefni. Hvenær er nóg, nóg. Alþingi samþykkti verkefni upp á 160 milljarða króna. Verðmiðinn stendur nú í 300 milljörðum og því í raun sáttmálinn fallinn. Hver endanlegur kostnaður verður er svo einungis skrifað í skýin.

 


mbl.is Áætlanir voru ekki í lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáviska SA

Það er alvarlegt mál þegar framkvæmdastjóri SA hefur ekki meiri þekkingu á kjarasamningum en virðist vera nú. Hún hleypir kjaragerð í uppnám á þeirri stundu er nánast er lokið samningsgerð, lætur stranda á endurskoðunarákvæði. Hún virðist ekki átta sig á að verkalýðshreyfingin hefur einungis eitt vopn í sínum fórum og ef ekki næst samningur verður því vopni auðvitað beitt.

Samningur sem á sér vart sögulegar forsendur liggur á borðinu. Þar hefur forusta verkalýðshreyfingarinnar teygt sig lengra en nokkurn tíman áður, jafnvel svo að ærlegt verk verður að fá þann samning samþykktan af launafólki. Kjarabætur eru langt frá því að bæta það tap er verðbólgan hefur stolið af launafólki,  þó ekki æðstu stjórn landsins. Þeirra laun eru verðtryggð. Og auðvitað ekki heldur forstjórum og þeirra næsta fólki. Það skammtar sér laun sjálft. En almennt launafólk hefur tapað miklu á verðbólgunni og eins og áður segir, þá er fjarri því að sá samningur sem nú liggur á borði bæti það tap, þó ástæða þessarar verðbólgu sé fjarri því launþegum að kenna.

Ástæða þess að forusta launþega hefur valið þessa leið, þá leið að gefa verulega eftir í því að fá bætt verðbólgutapið, er auðvitað sú viðleitni að kveða niður verðbólgudrauginn. Að sína í verki að launþegar leggi sitt af mörkum í þeirri baráttu, enda stærsta kjarabótin að verðbólgan lækki og vextir samhliða. Um þetta hefur forustan talað frá upphafi þessarar kjaragerðar.

En það eru ekki allir sem tapa á verðbólgudraugnum. Bankar græða á tá og fingri, fyrirtæki geta auðveldlega fært kostnaðinn út í verðlagið og fóðrað drauginn. Eins og áður segir eru æðstu stjórnendur með sín laun verðtryggð og þeir sem ofar eru í launastiganum, margir hverjir í þeirri stöðu að skammta sér laun. 

Því er eðlilegt að forusta launafólks setji fram kröfu um endurskoðunarákvæði í samninginn. Það er forsenda þess að samningurinn fáist samþykktur af launafólki. Það er ekki tilbúið að semja til langs tíma um lág laun, í baráttu við drauginn, ef ekki er hægt að skoða hvort aðrir taki þátt í þeirri baráttu og ef svo er ekki, þá falli samningurinn. Krafan um slíka endurskoðun er eftir eitt ár, en þá liggur fyrir hverjir standa við sitt. Boð SA er hins vegar að slík endurskoðun verði ekki fyrr en undir lok samningsins, eitthvað sem launþegar munu aldrei samþykkja, hvað sem forusta þeirra gerir.

Ef framkvæmdastjóri SA áttar sig ekki á þessum staðreyndum er hún óhæf í starfi. Þá mun hún baka sínum umbjóðendum miklum skaða, sem og þjóðfélaginu. Verkfallsvopnið mun verða virkjað.

Ég vona innilega að vinnuveitendur framkvæmdastjórans geri henni grein fyrir alvarleik málsins, eða skipi annan í hennar stað við samningsborðið. Það má ekki verða að launþegar neyðist til að beita sínu eina vopni, vegna fávisku fulltrúa SA.

 


mbl.is Segir fullyrðingar Vilhjálms rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband