Landsbyggðaskattur

Ekki trúi ég að nokkur þingmaður eða frambjóðandi þori að taka undir þessar tillögur starfshópsins, svo skömmu fyrir kosningar. Nema auðvitað Jón Gunnarsson, samgönguráðherra. Hann getur ekki svarið þessar tillögur af sér, svo mjög sem hann hefur talað fyrir þeim.

Þarna er auðvitað verið að leggja til aukinn skatt, sem í sjálfu sér er í algjörri andstöðu við stefnu flokks samgönguráðherra. Það sem meira er, þá eru auknar skattaálögur einnig í andstöðu við stefnu samtaka atvinnulífsins. Eða á það eingöngu við um skattlagningu á fyrirtæki? Að allt í lagi sé að skattleggja þá sem af nauðsyn þurfa að eiga og reka einkabíl, meðan fyrirtæki landsins geti grætt á slíkri skattheimtu?

Árið 2016 voru heildartekjur ríkisins af bílaflota landsmanna um 70 milljarðar króna (70.000.000.000.kr.). Á þessu ári un þessi upphæð verða enn hærri, aukinn innflutningur bíla, aukinn akstur landsmanna og stór aukinn fjöldi ferðafólks sem komast þarf um landið, sér til þess. Ekki kæmi á óvart þó tekjur ríkissjóðs næðu allt að 100 milljörðum króna á þessu ári, af þessum stofni einum.

Enn meiri hækkun tekna ríkissjóðs er sjáanleg á næsta ári. Fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar verður auðvitað ekki samþykkt. Samkvæmt því átti að stór hækka álögur á eldsneyti, auk þess afnema undanþágur bílaleiga á innflutningsgjöldum. Þetta mun gefa ríkissjóð einhverja milljarða í kassann. Að auki er ljóst að krónan mun veikjast og innflutningsverð eldsneytis því hækka. Það mun einnig fita ríkissjóð á aurum bíleigenda.

Auðvitað er ljóst að fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp hægri stjórnarinnar, með öllum sínum skattahækkunum, mun ekki ná fram að ganga, en ljóst er að ef vinstri flokkar ná völdum munu þessar skattahækkanir verða enn meiri. Viðbrögð þeirra á Alþingi, þegar frumvarpið var lagt fram, sannar það.

Starfshópurinn telur að það þurfi 56 milljarða króna á næstu átta árum, til að koma vegakerfinu í þokkalegt stand. Það gerir þá nálægt 7 milljörðum á ári, að jafnaði. Það er þá væntanlega viðbót við þá 18 milljarða sem ætlaðir eru í málaflokkinn á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Að samtals þurfi sem svarar 25 milljarða á ári til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins.

Liggur nærri að það samsvari 1/4 þess sem ríkið innheimtir í dag af bílaflota landsmanna. Hinir 3/4 hlutar þess fjár fer þá væntanlega í annan rekstur ríkissjóðs, eða nálægt 75 milljörðum króna. Þennan skatt bera þeir einir sem þurfa að eiga og reka einkabíl. Undan þeim skatti getur fólk auðvitað komið sér, með því að sleppa því að eiga bíl. Það er mögulegt fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðafólk hefur ekki val. Því er þetta hreinn landsbyggðaskattur, skattur sem að stærstum hluta er nýttur til greiðslu hinna ýmis rekstrar ríkissjóðs, að mestu innan marka höfuðborgarsvæðisins. 

Bíleigendur borga í dag sannanlega fyrir allt viðhald og endurnýjun vegakerfisins, c.a. fjórfallt! Og nú skal enn sótt í vasa þeirra. Þá 56 milljarða sem starfshópurinn telur þurfa, vill hann rukka af bíleigendum á næstu 20 árum. Það gerir 2,8 milljarðar á ári, sem sóttur verður beint í vasa bíleigenda, ofaná alla aðra skatta sem þeir þegar borga!  

Það er vissulega sjónarmið hvernig staðið skuli að fjármögnun á viðhaldi og endurnýjum vegakerfisins. Mismunandi er eftir þjóðum hvernig að slíku er staðið og vegtollar orðið ofaná hjá sumum ríkjum. Önnur nota skattkerfið til þessarar fjármögnunar.

Við Íslendingar völdum að hafa þessa fjármögnun inn í eldsneytisverði. Vandinn er bara að misvitrir stjórnmálamenn hafa gegnum tíðina sælst æ meir í það fjármagn, þannig í dag fer hluti þess skatts á eldsneyti, sem ætlaður var til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins, inn í ríkishítina. Ástæða þess að eldsneytisgjald var valið umfram vegskatts, var auðvitað stórt og strjálbýlt land. Hætt er við að vegakerfið okkar væri ansi fátæklegt, ef vegskattur hefði átt að greiða hvern vegspotta, sér í lagi í dreifðustu byggðum landsins. Eldsneytisgjaldið var talið vænna út frá byggðasjónarmiðum og væri það vissulega, ef stjórnmálamenn stunduðu ekki massíf lögbrot með því að nota hluta þess fjár í annað!!

Forsenda fyrir vegsköttum er auðvitað að fólk hafi val, geti ekið aðra og kannski lakari vegi en þá sem skattur er innheimtur af. Önnur forsenda er að önnur skattheimta, í sama tilgangi, sé þá afnumin. En frumforsenda er að vegskattur sé ekki innheimtur fyrr en hægt er að aka um viðkomandi vegkafla. Hvergi í víðri veröld er innheimtur vegtollur af "væntanlegum" vegi, enda sennilega hvergi í víðri veröld sem hægt er að treysta stjórnmálamönnum fyrir slíkri fyrirfram skattheimtu!!

Eins og áður segir, eru tekjur ríkissjóðs af bíleigendum, hér á landi, gífurlegar. Hluti þeirrar skattheimtu er svokallað eldsneytisgjald og hann ætlaður til viðhalds og endurnýjun vegakerfisins. Einungis hluti þess gjalds fer til þeirra nota, þar sem stjórnmálamenn hafa ráðstafað hluta eldsneytisgjaldsins til annarra nota. Væri allt eldsneytisgjaldið nýtt í þeim tilgangi sem til stóð, væri vegakerfi okkar ekki að hruni komið!

Engin ástæða er til að ætla að vegskattur verði eitthvað betur varinn fyrir misvitrum stjórnmálamönnum. Þeir munu ásælast hann, rétt eins og eldsneytisgjaldið!!


mbl.is Gjald verði lagt á helstu stofnvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins!

Loksins hefur þessu þingi verið slitið. Það var auðvitað galið af forseta að fela misvitrum alþingismönnum, sem hafa sýnt að þeir ráða ekki við starf sitt, hvenær þingi skyldi slitið. Þegar hann skrifaði undir þingrofið, dagsetti forsetinn það daginn fyrir kosningar og gaf því þingmönnum frítt spil til enn meiri forheimsku en áður hefur þekkst. Forsetinn átti að gefa þinginu að hámarki tvo virka daga til að klára nauðsynleg mál og slíta síðan þingi. Eftir að stjórn fellur og ákvörðun um þingslit liggja fyrir, hafa þingmenn ekkert umboð þjóðarinnar!

Síðustu dagar hafa verið svartir í sögu Alþingis. Þingmenn hafa keppst við að nýta þá í kosningabaráttu og í raun haldið þinginu í gíslingu. Þrjú mál hafa borið hæst meðal þingmanna og ljóst að fyrrverandi minnihluti á Alþingi ætlaði sér að nýta þetta þing til að koma fram sínum málum, án þess þó að taka þá ábyrgð að mynda starfhæfa meirihlutastjórn. Slíkt getur ekki talist annað en valdarán og það án ábyrgðar!

Og ekki er nú fyrir að fara skynsemi hjá þessu fólki. Þau mál sem þetta blessaða fólk setur á oddinn og hefur lagt ofur áherslu á, eru málefni innflytjenda, uppreyst æru og stjórnarskráin. Allt mál sem vissulega þarf að skoða og bæta, ekkert þeirra þó svo aðkallandi að umboðslaust Alþingi afgreiði þau. Allt mál sem vel geta beðið nýs þings. Halda mætti að fyrrverandi minnihluti Alþingis telji sig ekki ná neinu fylgi kjósenda í komandi kosningum og því nauðsynlegt að afgreiða þessi mál með hraði og flumbruskap.

Innflytjendavandinn er staðreynd og nauðsynlegt að finna lausn á honum. Það verður þó ekki gert á örfáum dögum. Enda ljóst að sú samþykkt sem Alþingi gerði fyrir slit, mun einungis auka þann vanda, í stað þess að minnka.

Lög um uppreyst æru voru vissulega tímaskekkja. Ekkert lá þó á að afgreiða það mál fyrir kosningar, allir flokkar sammála um málefnið og því engin fyrirstaða að bíða með það. Engin umsókn um uppreyst æru liggur fyrir ráðuneytinu, eftir að núverandi dómsmálaráðherra hafnaði slíkri umsókn í vor. Og ljóst er að enginn þingmaður, hvar í flokki sem hann situr, myndi þora að samþykkja slíka umsókn fyrr en ný lög um málið væri samþykkt. Til allrar lukku hóf dómsmálaráðherra vinnu við frumvarp um ný lög á þessu sviði snemma á þessu ári og það tilbúið fyrir Alþingi þegar stjórnarslit urðu. Það þurfti þó að eyða tíma í lögformlega meðferð Alþingis til að samþykkja þau lög. Tíma sem betur hefði verið varið til annars.

Þjóðin hefur aldrei samþykkt kollvörpun stjórnarskrárinnar. Í tengslum við umsókn að ESB þótti nauðsynlegt að fara í slíkan leiðangur og þeir flokkar sem þá sátu í ríkisstjórn boðuðu til kosningar stjórnlagaþings. Ekki var þátttaka þjóðarinnar í þeirri kosningu meiri en svo að sá sem flest atkvæði fékk á það þing, hafði rétt um 3% þjóðarinnar að baki sér. Framkvæmd þeirrar kosningar var með þeim hætti að Hæstiréttur sá ástæðu til að ógilda hana. Þar með hefði málið í raun átta að stoppa. En þáverandi valdhafar ákváðu að hafa dóm réttarins að engu og með nafnabreytingu (stjórnlagaráð) var þessu umboðlausa fólki falið að vinna að nýrri stjórnarskrá. Því var þessi vinna öll unnin án umboðs þjóðarinnar.

Síðan þegar ráðið skilaði af sér sinni afurð, fékk þjóðin loks færi á að segja sitt álit, eða svo var sagt. Raunin varð hins vegar sú að kjósendur fengu að kjósa um örfáar greinar svokallaðrar nýrrar stjórnarskrár. Ekki fékk fólk að segja álit sitt á þessari afurð í heild sér. Að vonum var kosningaþátttaka með eindæmum dræm, enda um fátt að kjósa.

Að kollvarpa stjórnarskrá er eins vitlaust og hugsast getur, sér í lagi þegar gildandi stjórnarskrá virkar að flestu leyti vel. Auðvitað þarf að skoða einstakar greinar stjórnarskrárinnar, taka út aðrar og jafnvel að bæta einhverju við hana. Þetta er eilífðarvinna sem á ekki að hafa neinn endir

Í öllu þessu fjaðrafoki hinna misvitru þingmanna, síðustu daga, gleyma þeir einu stóru máli. Í raun eina málinu sem þurfti nauðsynlega að leysa fyrir þingslit. Það er vandi sauðfjárbænda. Einungis einn þingmaður nefndi þetta mál og það gerði hann rétt undir lok þingsins, þegar séð var að slík umræða næðist ekki. Rétt eins og hann væri að bíða uns útilokað væri að gera nokkurn skapaðan hlut.

Ástæða þess að svo nauðsynlegt var að afgreiða þetta mál fyrir þinglok er einfaldlega sú að sláturtíð verður nánast lokið áður en þjóðin gengur til kosninga og örugglega lokið áður en nýr meirihluti verður myndaður á Alþingi. Því er ljóst að margur bóndinn mun neyðast til að hætta búskap. Þá ákvörðun verður hann að taka á allra næstu dögum. Að fara af stað með rekstur fyrirtækis, inn í nýtt ár, þegar ekki er til peningur til að greiða fyrir kostnað líðandi árs, er auðvitað galið. Mestar líkur eru á að þarna verði fyrst og fremst um yngri bændur að ræða, bændur sem hafa verið að byggja sín bú upp svo þeir geti lifað af þeim. Þessir bændur hafa fæstir að einhverju að hverfa og ljóst að upplausn fjölskyldna verður staðreynd. Sveitir munu veikjast og sumar leggjast í eyði. Stærsta ógnin er þó sú að svo stór skörð verði hoggin, að sauðfjárbúskapur muni nánast leggjast af í landinu.

Þegar fólki í einni stétt fækkar, leiðir það af sér fækkun fólks í öðrum stéttum. Sláturhús og kjötvinnslur munu laskast verulega, þjónustufyrirtæki í iðnaði munu mörg hver leggjast af. Þegar svo það fólk eltir bændurna suður á mölina verður lítil þörf á verslunum í tómum sveitum og kauptúnum, kennarar mun ekki hafa neina nemendur. Við erum að tala um hættu á algjörri eyðingu byggðar á stórum svæðum landsins, verði þetta látið stjórnlaust, eins og fráfarandi Alþingi hefur afrekað!

Hvað verður þá um ferðaþjónustuna?

Tillögur landbúnaðarráðherra eru þó ekki lausn vandans, þvert á móti yrðu afleiðingar þeirra svipaðar því sem að ofan segir.

Það sem þarf að gera nú strax er að tryggja bændum lágmarksverð miðað við framleiðslukostnað, sem vitað er hver er. Þetta var eina málið sem Alþingi þurfti að afgreiða fyrir þingslit. Síðan þarf að skoða hvort ríkið hafi kröfu á afurðastöðvar vegna þess, þar sem afurðaverðslækkun þeirra stenst ekki. Sáralitlar  umframbirgðir eru til í landinu, minni nú en í fyrra.

Að lokum þarf að koma því svo fyrir að afurðastöðvar geti aldrei fært sinn vanda niður til bænda. Það verður helst gert með því að ekki sé heimilt að greiða bændum lægra verð en sem nemur framleiðslukostnaði og að afurðastöðvar beri að öllu leyti ábyrgð á kjöti eftir slátrun. Einungis þannig myndast hvati hjá þeim til að efla sína vöruþróun og sölustarfsemi.

Nú hefur þingi verið slitið, án þess að nokkur þingmaður, utan einn, hafi svo mikið sem minnst á þennan vanda. Það sýnir best hversu utangátta þessir þingmenn eru. Því miður munu flestir þeirra gefa kost á sér aftur, sumir komnir langt yfir síðasta söludag og flestir svo gallaðir að þeir eru ekki söluhæfir!!

 

 


mbl.is Alþingi slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskrá

Allir eru sammála um að endurskoða þarf stjórnarskránna okkar, hún á að vera í sífelldri endurskoðun. Það verk á þó ekki að vinna með flaustri eða af hraði og alls ekki þegar þingi hefur verið slitið og þingmenn því í raun umboðslausir.

Nokkuð skiptar skoðanir eru um hvernig staðið skuli að endurskoðun stjórnarskrár. Flestir vilja að það verk verði unnið með þeim hætti að skoða fyrst hvar helst þurfi að færa hana til nýrra tíma, hvar vantar inní hana ákvæði og hverju má henda út. Að því loknu verði ráðist í breytingar þar sem mest þörf er og síðan koll af kolli. Mestu skiptir þó að þessari vinnu ljúki aldrei, að stöðug skoðun stjórnarskrár sé við lýði.

Aðrir vilja taka niðurstöðu svokallaðs stjórnlagaráðs og setja hana sem stjórnarskrá yfir landið, telja það plagg vera lokaniðurstöðu sem aldrei má breyta. Helstu rök þess fólks er að þjóðin hafi kallað eftir slíkri stjórnarskrá og sumir eru jafnvel svo forskammaðir að segja að þjóðin hafi kosið um það plagg.

Reyndar var þjóðin aldrei spurð, þegar ákveðið var að stofna til þessa stjórnlagaráðs. Engar kosningar fóru fram um hvort breyta ætti stjórnarskránni, né undirskriftasöfnun. Fámenn klíka tók þá ákvörðun, klíka sem hafði náð yfirráðum á stjórnarheimilinu.

Þegar síðan kom að því að kjósa á þetta blessaða ráð, var þátttaka kjósenda svo dræm að í raun hefði átt að láta þar staðar numið. Þeir fulltrúar sem kosnir voru, til ráðsins, fengi fylgi 3% þjóðarinnar og þaðan af minna.

Loks er þessir fulltrúar skiluðu afurð sinni, var þjóðinni veitt heimild til að segja sína skoðun. Reyndar var þjóðinni skammtað örfá atriði þessarar afurðar og mátti segja sinn hug um þau. Ekki fékk þjóðin að láta álit sitt í ljósi um afurðina í heild sér. Og eins og við var að búast, var þátttaka þjóðarinnar í þeirri könnun vægast sagt dræm, enda í raun lítið sem hægt var að kjósa um.

Það liggur ljóst fyrir að þjóðin hefur í raun aldrei fengið að segja hug sinn um hvort bylta skuli stjórnarskrá Íslands. Tvennar kosningar hafa farið fram til Alþingis, síðan afurð stjórnlagaráðs var lögð fram og í þeim báðum hafa þeir flokkar sem mest tala um byltingu stjórnarskrár, fengið vægast sagt lélega kosningu. Kannski segir það meira en flest annað um hug þjóðarinnar til afurðar ráðsins.

Er ekki rétt, þar sem nú skal kosið til Alþingis innan fárra vikna, að kanna um leið hug fólks til breytinga á stjórnarskrá. Það mætti t.d. spyrja kjósendur hvort þeir vilji frekar afurð stjórnlagaráðs sem stjórnarskrá eða vandlega endurskoðun á lengri tíma sem síðan lyki með sífelldri endurskoðun og bótum.

Megin stefið ætti þó að vera einföld stjórnarskrá, vel skiljanleg, þar sem einungis er tekið á þeim þáttum sem nauðsynlegt er að hafa yfirlög um.

Aldrei má þó breyta frá þeirri reglu að breytingar á stjórnarskrá kalli á samþykkt tveggja þinga, með samþykki þjóðarinnar á milli, ásamt endurnýjun þingmanna á umboði sínu. Þetta er eini varnaglinn gegn því að misvitrir og kannski valdasjúkir menn getir yfirtekið stjórn á landinu. Eini varnaglinn gegn því að einræði geti náð fótfestu.


mbl.is Tillaga Bjarna „óásættanleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttastofa ruv er hreinn brandari

Í fréttum ruv, kl 01:00 í nótt, var eina fréttin fall ríkisstjórnarinnar, eðlilega.

Og auðvitað kallaði fréttastofan til færasta "sérfræðing" til að fjalla um málið, Baldur Þórhallsson, titlaður stjórnmálafræðingur, en þekktastur fyrir framboð sitt í Samfylkingu, auk einlægrar aðdáunnar á ESB!

Auðvitað þótti "fræðingnum" þetta stórfrétt, vonar sjálfsagt að hans dauði stjórnmálaflokkur getir unnið einhvern stórsigur í væntanlegum kosningum. Eftir að hafa velt fyrir sér framtíð næstu daga, hafði þó "fræðingurinn" mestar áhyggjur af því hvort hin fallna ríkisstjórn gæti setið áfram sem starfsstjórn, sá ekki fyrir sér að hún gæti aflað sér nægs stuðnings til að verjast falli!

Hvernig Baldur sér fyrir sér veröldina veit ég ekki, en ljóst er að fallin ríkisstjórn, sem situr sem starfsstjórn, getur vart fallið aftur!! 


Ríkisstjórnin fallin

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar er fallin. Náði ekki meðgöngutíma í starfi.

Fall stjórnarinnar er þó heldur síðar en ég hélt að yrði, var búinn að spá kosningum síðasta vor. Í staðinn fáum við haust- eða vetrarkosningu.


mbl.is Slíta samstarfi við ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veisla ríkisstjórnarinnar súr

"Sjáið ekki veisluna?" Þannig tala ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Þeir sem ekki "sjá veisluna" eru eitthvað undarlegir, að þeirra mati. Veislumatur ríkisstjórnarinnar er súr og farið að slá í hann!

Þeir sem minnst hafa, aldraðir og öryrkjar, eiga að gleðjast yfir því sem kemur einhvertímann í framtíðinni. Þó vænn afgangur sé af fjárlögum, að mati fjármálaráðherra, verður þetta fólk að bíða enn um sinn. Á meðan telja ráðherrar og þingmenn enn þá peninga sem bættust í veski þeirra, daginn eftir síðustu kosningar og munu sennilega verða uppteknir við þá talningu um eitthver misseri enn. A.m.k. er ekki að sjá að nokkur þeirri hafi tíma til að sinna vinnu sinni!

Fjárlagafrumvarpið er með þeim hætti að jafnvel hörðustu Marxistar myndu sennilega skammast sín. Skattahækkanir sem aldrei fyrr og að venju er ráðist fyrst og fremst á þá sem verr standa í þjóðfélaginu. Hækkun eldsneytisgjalds, sú stærst hingað til, lendir fyrst og fremst á landsbyggðinni. Peningana á þó ekki að nýta þar né til samgangna yfirleitt. Til þeirra framkvæmda skal annar skattur lagður á, svokölluð veggjöld. Ekki bæta þessir skattar vanda bænda!

Skattleggja skal ferðaþjónustuna enn frekar með hækkun virðisaukaskatts á gistingu og afnámi afsláttar bílaleigna. Þessar skattálögur á ferðaþjónustuna nú, þegar farið er að falla undan henni, getur orðið hennar banabiti. Þar breytir engu hvort menn telji rétt eða rangt að hækka þessa skatta, áhrifin eru augljós.

Fjárlagafrumvarpið ber merki þess að fyrir því stendur maður sem annað hvort þekkir ekki þau mál sem honum er treyst fyrir eða hann lýgur að þjóðinni. Nú síðast í kvöld, í eldhúsdagsumræðum, gat þessi maður ekki setið á sér að ljúga. Að vísu ekki stór lygi, en lygi samt. Hann sagði m.a. að hér á landi væru sveitarfélög með allt niður í tíu íbúa. Það sveitarfélag sem fæsta íbúa telur, Árneshreppur á Ströndum, hefur 46 íbúa, hafa fækkað um 4 á síðasta áratug.  

Ráðherra landbúnaðarmála leggur ofuráherslu á að fækka sauðfé í landinu um 20%, þó nú sé vitað að engin offramleiðsla er til staðar, að minni birgðir voru til af kjöti nú í haust en fyrir ári síðan og heildarbirgðir svo litlar að í slæmu árferði yrði kjötskortur.

Það er von að forsætisráðherra óttist annað hrun hér á landi. Með þetta fólk sér við hlið mun sannarlega verða annað hrun og það fyrr en síðar. Með fjármálaráðherra sem lýgur að þjóðinni, sem kemur fram með tært vinstra skattafjárlagafrumvarp og talar niður þjóðarmyntina, með atvinnumálaráðherra sem ræðst með afli gegn þeim atvinnuvegum sem henni ber að standa vörð um, er einsætt að það mun verða hrun.

Forsætisráðherra er verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Það er í hans valdi að hafa hemil á þessu ofstopafólki sem hann valdi með sér í ríkisstjórn. Hann ber ábyrgðina.

Þó matur veislunnar sé gómsætur fyrir ráðherra og þingmenn, þeirra vinum og menntaelítuna, er hann súr fyrir þjóðina, einkum þá sem verr standa í þjóðfélaginu og landsbyggðina!!

 


mbl.is „Ætlum að sækja fram“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er nóg komið

Ráðherra landbúnaðarmála ber að segja af sér og það strax. Hún ræður ekki við það verkefni sem henni var falið. Kemur þar fyrst og fremst til þekkingarleysi á málaflokknum, en pólitísk "rétthugsun" spilar einnig stórt.

Tillögur ráðherrans, sem hún kemur með án samráðs við þau hagsmunasamtök sem um ræðir, eru í stuttu máli þessar:

Fækkun sauðfjár í landinu um 20%

Greiðslur vegna kjaraskerðingar

Aðgerðir vegna skuldamála

Hagræðing í slátrun

Birgðir

Auk þessa bætir hún við umhverfismálum, sem í raun kemur vandanum ekkert við og hnýtir síðan við sínar tillögur tilmælum til endurskoðunarnefndar búvörusamningsins, þar sem lokadagur er færður verulega fram ásamt efnislegri tilskipun um hvað skuli þar skoða.

Forgangsröðun ráðherrans lýsir best vanþekkingu hennar á málinu. Þegar síðasti liðurinn, birgðatalning, á auðvitað að vera fremst á blaði og fyrsti liðurinn, fækkun sauðfjár, að markast af niðurstöðu þeirrar talningar.

 

En skoðum þessar tillögur hennar nánar.

Fækkun sauðfjár í landinu um 20%, án þess að vita raunverulega hver umframframleiðslan er, er auðvitað stór hættuleg aðgerð og gæti hreinlega orðið banabiti sauðfjárræktar þegar til lengri tíma er litið.

Þetta leiðir til gífurlegra oframleiðslu nú í haust. Ef einungis helmingur markmiðs ráðherra nær fram að ganga, fækkun sauðfjár um 10%, mun aukast birgðir kindakjöts af fullorðnu um ca. 1.400 tonn og aukning lambakjöts vegna minni ásetnings verða nálægt 100 tonnum. Þetta eru bara áhrif vegna þeirra sem þá bregða búi og m.v. að helming markmiðs ráherra náist. Við bætist síðan krafa um minni ásetning þeirra bænda sem ætla að halda áfram búskap. Þá eru tillögurnar settar þannig fram að hvati til að hætta strax er mikill, mjög mikill. Á það við um prósentur beingreiðslna og tímalengd þeirra auk þess sem svokallað sláturálag stendur einungis til boða nú í haust.

Hversu margir bændur muni nýta sér þetta tilboð ráðherra er auðvitað óljóst. Mestar líkur eru á að þar verði fyrst og fremst um yngri bændur að ræða, þá sem stefnt hafa að því að hafa sauðfjárbúskap sem sitt lífsviðurværi og því gjarnan með stærri búin. Eldri bændur eru skuldlausir og smærri sauðfjárbændur halda fé sem aukabúgrein eða jafnvel hafa aðra vinnu sem sitt lífsviðurværi. Þessir hópar eru best staddir til að standa þessar hörmungar af sér. 

 

Greiðslur vegna kjaraskerðingar. Skerðing afurðaverðs til bænda nú, nema tæpum 2 milljörðum króna og leggst það við skerðingu á síðasta ári upp á nærri 600 milljónir. Til að bæta þetta tap bænda býður ráðherra 250 milljónir, sem skiptast annars vega til allra bænda sem hafa fleiri vetrarfóðraðar kindur en 150 og hins vegar einhverskonar svæðisbundins verkefnis. Um þetta er margt hægt að segja, en engin ástæða til að orðlengja það nánar. Allir sjá að auk þess sem upphæðin mun litlu skipta, þá eru þær forsendur sem lagðar eru fram vægast sagt undarlegar.

 

Aðgerðir vegna skuldamála. Það fyrsta sem fór um huga manns var hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir því að bændur geti fengið kúlulán, sem síðan verði afskrifuð.

En að alvörunni. Lítið hald er í þessum tillögum ráðherrans, enda ekki með lögsögu yfir bönkum landsins. Kannski er það þess vegna sem orðalag þessarar tillögu segir í raun ekkert. Byggðastofnun verður falið að skoða málið og leggja mat á þörf. Punktur.

 

Hagræðing í slátrun. Síðustu 45 ár hefur markvisst verið unnið að svokallaðri "hagræðingu" í sláturhúsum landsins. Enn bólar ekkert á árangri. Sjálfsagt má hagræða enn frekar, fækka sláturhúsum enn meira, en sennilega verður árangurinn svipaður og hingað til, enginn. Enda vandinn ekki í sjálfri slátruninni, heldur úrvinnslu og markaðssetningu. Þar má vissulega taka til hendinni. Kannski hefur ráðherra verið að meina vinnsluna, en vegna vankunnáttu nefnt slátrun!

 

Birgðatalning. Neðst á blaði ráðherrans er birgðatalning, sem auðvitað ætti að vera efst. Raunar ætti þessi þáttur ekki að vera inn í tillögum ráðherrans, af þeirri einföldu ástæðu að þetta verk á að vera búið að vinna fyrir löngu síðan, átti að vinnast strax eftir fyrsta fund bænda með ráðherra um vandann. Til að leysa vanda verður auðvita að byrja á að greina hann. Ráðherra velur að "leysa" vandann fyrst og greina hann síðan!

Mikill munur er á tölum um hver raunveruleg birgðasöfnun er í landinu, allt frá 2000 tonnum niður fyrir 1000. Ekki hefur verið greint hversu mikill uppsöfnun er milli ára, einungis talað um heildar uppsöfnun. Ekki hefur verið greint hvernig afurðir það eru sem safnast hafa saman.

Offramleiðsla reiknast út frá söfnun milli ára, heildar uppsöfnun er allt annar handleggur.

Auðvitað þarf að fá staðfestingu á hver raunveruleg birgðasöfnun kjöts er í landinu, hversu mikið hefur safnast á milli ára og hvaða kjöt liggur í frystigeymslum. Vitað er að hryggir eru fyrir nokkru upp ornir og lítið til af lærum.

Kannski er uppsöfnun kjöts mun minni en talað er um, kannski er uppsöfnun milli ára sáralítil eða engin. Kannski er það kjöt sem til er í frystigeymslum fyrst og fremst slög og kjöt af gamal ám. Þetta verður ekki vitað nema með talningu og greiningu, vinnu sem hefjast átti strax og bændur höfðu af því spurnir að afurðarstöðvar hygðust lækka afurðaverð verulega og höfðu þá samband við ráðherra. Fyrir nokkrum mánuðum síðan!  Út frá þeim upplýsingum átti ráðherra að vinna og ráðast gegn vandanum þar sem rót hans er.

Mestar líkur eru á að sú aðferð að leysa "vandann" fyrst og greina hann síðan, muni skapa enn meiri vanda. Kannski svo mikinn að ekki verði við ráðið.

 

Þessar aðgerðir ráðherrans eru sagðar muni kosta ríkið um 650 milljónir. Ekki kemur fram hvort beingreiðslur til þeirra sem hætta séu inn í þeirri tölu.

Allir landsmenn vilja stríðshrjáðu fólki alls hins besta. Skiptar skoðanir eru um hvernig beri að hjálpa þeim. Nú er það svo að stórar og miklar tjaldbyggðir stríðshrjáðs flóttafólk er í Mið Austurlöndum. Þetta fólk berst við að hafa í sig og á, hvern einasta dag.

Fyrir þær 650 milljónir sem tillögur ráðherrans eru sagðar kosta, væri hægt að kaupa upp allar kjötbirgðir af afurðastöðvum. Það kjöt gætum við síðan, sem þjóð, sent til stríðshrjáðs fólks í Mið Austurlöndum. Það kann vel að meta lambakjöt og við gætum þannig satt hungur þess um einhverja daga.

Auðvitað yrði að fylgja þessari aðgerð að afurðastöðvar borgi bændum fullt afurðaverð, enda "vandinn" verið leystur. 

En þetta eru auðvitað draumórar. Það er enginn vilji til að hjálpa bágstöddum þar sem þörf þeirra er mest, mikið betra að láta það fólk stofna lífi sínu í hættu með löngum ferðalögum og hjálpa þeim sem þau lifa af.

 

Það er annars merkilegt hve þingmenn eru tregir til að tjá sig um aðgerðir ráðherrans. Hoppa í kringum þær eins og heitan graut. Enginn þorir að segja það sem allir hugsa, að þessar aðgerðir muni ekki hjálpa bændum og kannski aldrei verið ætlaðar til þess. Tilgangur þeirra er kannski allt annar!!

 


mbl.is Kennir Þorgerði um verðlækkunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sparka í liggjandi mann

Í tilefni þeirrar umræðu sem verið hefur um vanda bænda, ritar Margrét Jónsdóttir pistil í Fréttablaðið, þann 31. ágúst, síðastliðinn. Ekki kemur hún með neinar hugmyndir um lausn vandans, vill einfaldlega að bændur taki hann á sig og rúmlega það. Hún vill að beingreiðslum til bænda verði hætt að fulli. Ástæða þessa er að hennar trú er að sauðféð sé að éta upp landið okkar. Auðvitað má Margrét hafa sína trú og auðvitað má hún tjá sig um hana. En að koma með slík skrif núna, þegar bændur standa í ströngu við að leita sér leiða til að lifa af næsta ár, samhliða smalamennskum og réttum og því lítill tími til að svara trúboði Margrétar, er einna helst hægt að líkja við spörkum í liggjandi mann.

Allir vita að trúarbrögð ræna fólk of réttu ráði og ekki dettur mér til hugar að ég geti snúið Margréti og þeim sem henni eru samsinna, til rétts vegar. Nokkur atriði vil ég þó nefna, sem afsanna þessa trú.

 

Veðurfar

Við landnám var hlýrra hér á landi en nú og hafði verið svo um einhverjar aldir á undan. Upp úr 1200 fór að kólna og hélt svo áfram allt fram á tuttugustu öldina. Kaldast var frá sextándu öld og fram undir 1920. Það tímabil gjarnan nefnt litla ísöld. Frá lokum litlu ísaldar til dagsins í dag, hefur hlýnað. Það er ekki liðin ein öld síðan kuldinn hér á landi var svo mikill að hægt var að ganga milli Akraness og Reykjavíkur á ís!

Klárt mál er að meiri gróður var á landinu við landnám, enda við lok hlýtímabils á jörðinni, þó vísindamenn efist um að skógur hafi þakið landið milli fjalls og fjöru. Loftslag hefur mikil áhrif á gróður og því ekki undarlegt að honum hafi hrakað verulega á þeim öldum sem litla ísöld stóð yfir. Nú hefur gróður aukist aftur, samhliða hlýnandi loftslagi. Sem dæmi hefur sjálfsprottinn gróðurþekja, sem telst vera mikil þekja, aukist um 30% frá árinu 2002, á Skeiðarársandi.

Veðurfar er stór áhrifavaldur gróðurfars.

 

Eldgos

Frá landnámi hafa orðið 174 skráð eldgos á Íslandi. Sum stór önnur minni. Mörg þessara gosa hafa valdið miklum skaða á búpeningi og jafnvel fólki. Þar hafa Katla og Hekla verið duglegastar.

Tvö eldgos bera þó af í Íslandssögunni. Það fyrra varð árið 1362, í Hnappafellsjökli og lagði heila sveit í eyði, Litla Hérað. Þessi sveit var blómleg fyrir gos, fjölmenn og fjölbreyttur búskapur. Bar þó hæst mikil kornrækt í þessari blómlegu sveit, enda grasgefin milli fjalls og fjöru. Stór hluti búpenings drapst og fjöldi fólks fórst, í þessu eldgosi.

Þegar þeir sem eftir lifðu sneru til baka, til að byggja bú sín aftur, blasti við þeim auðn, öræfi. Sveitin hefur síðan borið nafnið Öræfasveit og eldfjallið sem eyðileggingunni olli, nafnið Öræfajökull.

Árin 1783-84 geisuðu Skaftáreldar. Þá sögu ættu allir Íslendingar að þekkja. Er þeim lauk, hafði 70% af búpening í landinu fallið og um 20% þjóðarinnar látist. Stór sá á gróðurfari um mest allt land og næst eldunum var hann ekki til

Eldgos er annar áhrifavaldur gróðurfars og saman með kólnandi veðurfari átti gróður hér á landi erfitt uppgangs.

 

Mannfjöldi, bústofn

Byggð var nokkuð fljót að komast á um allt land, efir landnám. Talið að fjöldi landsmanna hafi fljótlega náð einhverjum þúsundum. Lengi framanaf er talið að fjöldinn hafi legið á milli 10 og 20 þúsund manns, sveiflast eftir árferði og hvernig eldar loguðu.

Landnámsmenn fluttu með sér til landsins ær, nautgripi, hross, geitur, svín og hænsni. Nautgripir voru uppistaðan í kjötframleiðslunni, ásamt svínum, en ær voru lítið nýttar til þess, fyrst um sinn. Sauðfjárstofninn var lítill. Þegar tók að kólna varð svínabúskapur nánast útilokaður. Nautgripabúskapur varð erfiðari, en auðveldara var að halda sauðfé. Því jókst hlutur þess í kjötframleiðslu og nautgripir fyrst og fremst nýttir til framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða. Talið er að frá Sturlungaöld fram að 19. öld, hafi sauðfé í landinu verið nálægt 50.000 fjár, sveiflast í hlutfalli við fólksfjölda.

Þegar líða tók á 19. öldina fjölgaði fólki og samhliða því búpeningi, þó ekki í sama hlutfalli. Undir lok 19. aldar og fyrstu tvo áratugi þeirrar tuttugustu, voru miklir kuldar, eldgos og fjárfellir. Þetta er talin vera helsta ástæða vesturfaranna. Þá var mannfjöldi í landinu kominn upp í 70.000 og talið að a.m.k. 15 til 20.000 manns hafi flutt búferlum vestur um haf.

Frá 1920 til dagsins í dag, hefur landsmönnum fjölgað mjög hratt, Samhliða því fjölgaði sauðfé í landinu, þó hægar og undir lok áttunda áratugarins náði fjöldi sauðfjár hámarki, um 800.000 fjár. Síðan hefur fé fækkað um rúmlega 40%.

Þegar skoðað er hvernig fjöldi fjár á Íslandi skiptist milli landshluta, kemur í ljós að flest fé er á vestan verðu norðurlandi, en fæst á eystri hluta norðurlands. Kannski finnst einhverjum þetta undarlegt, þar sem gróðurfar finnst vart betra í nokkrum landshluta en vestanverðu norðurlandi og að landfok er vart hægt hægt að finna meira á landinu en einmitt eystri hluta norðurlands. Rétt er að benda á að vestari hluti norðurlands hefur sloppið best gegnum þau 174 eldgos sem orðið hafa frá landnámi og því nær eingöngu þurft að berjast við kuldann á litlu ísöld, meðan eystri hluti norðurlands hefur þurft að glíma við báða þessa vágesti, gegnum aldirnar.

Mikið átak hefur verið unnið í landgræðslu. Þar eiga bændur stærstan heiðurinn, enda verið erfitt að sækja fé í ríkissjóðs til slíkra verka, gegnum tíðina. Það sem ríkið hefur lagt fram er fyrst og fremst stjórnun og utanumhald landgræðslu. Verkin og hráefni hafa bændur að mestu lagt fram og oftast í sjálfboðavinnu og fyrir eigin reikning

Það er ljóst að sauðfé á minnstan þátt í gróðureyðingu, enda fátt fé í landinu allt fram undir síðustu öld. Náttúruöflin spila þar stærstan sess. Auðvitað má einnig segja að koma mannskepnunnar til landsins spili þar eitthvað inní, sér í lagi fyrstu ár byggðar. Sjálfsagt hafa landnámsmenn sótt sér sprek í eldinn og unnið eitthvað timbur. 

Þó er erfitt að fullyrða að gróðurþekja landsins væri meiri, þó landið hefði aldrei byggst.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband