Bændur láta hafa sig að fíflum

Formaður Landsamtaka sláturleyfishafa fullyrðir að offramleiðsla á lambakjöti sé um 2000 tonn, að um þessi mánaðarmót verði umframbirgðir um 1800 tonn.

Í lítilli frétt á vefmiðli ruv, þann 25. júlí síðastliðinn, þar sem fréttamaður hafði samband við nokkrar afurðastöðvar, kemur fram að birgðasöfnun frá síðasta ári er um 200 tonn, eða sem nemur nálægt 10 daga neyslu Íslendinga. Ekki gefa allar afurðastöðvarnar upp heildaruppsöfnun, en út frá því sem upp er gefið er það langt frá að vera 2000 tonn.

SS; birgðir 80 tonnum meira en í fyrra, ekki gefið upp heildarbirgðir.

KS; engin birgðaaukning frá því á síðasta ári, segjast eiga "nógu miklar" birgðir.

Norðlenska; engin birgðaaukning frá því í fyrra, ekki gefið upp heildarmagn en segjast eiga nokkuð af "röngum bitum".

Fjallalamb; 100 tonnum meiri birgðir en í fyrra, sagt vera helmingi meira en vanalega.

SAH; birgðir 20 tonnum meiri en í fyrra, heildarbirgðir um 100 tonn.

Sláturfélag Vopnafirðinga; engin birgðasöfnun frá því í fyrra, heildarbirgðir um 200 tonn.

Einnig kemur fram í þessari frétt að engin afurðastöð á til hryggi og bendir Gísli Garðason, sláturhússtjóri SAH á að ef sauðfjárstofninn verði dreginn saman um 20%, vanta um 450 tonn af hryggjum á markað hér á landi! Sumar afurðastöðvar eiga ekki heldur læri og birgðir af þeim langt komnar hjá öðrum. Þar sem lítið er til af lærum má ætla að mikill skortur verði einnig á þeirri afurð, við slíkan samdrátt sem ráðherra boðar.

Þær upplýsingar sem fram koma í þessari frétt á vefmiðli ruv, þann 25. júlí síðastliðinn, eru svör forsvarsmanna sláturleyfishafa við spurningum fréttamanns. Þetta eru þeirra orð, engin birgðatalning né staðfesting á að þau séu rétt. Vel getur verið að birgðir séu enn minni!

Það hlýtur að vera krafa bænda að fram fari strax birgðatalning hjá afurðastöðvum. Ráðherra virðist ekki ætla að hafa manndóm til slíkrar kröfu. Arkar bara áttavillt um flóann!

Fá þarf staðfestu á hverjar raunverulegar birgðir af kjöti eru í frystigeymslum afurðastöðva. Ef þær eru minni en formaður Landsamtaka sláturleyfishafa segir, jafnvel mun minni, er auðvitað út í hött að stíga slíkt ógæfuskref að fækka sauðfé í landinu. Ef það er rétt að slíkt leiði til skorts á hryggjum upp á 450 tonn og lambalærum um svipað magn, er ljóst að skaðinn af slíkri skerðingu getur orðið mjög mikill. Það mun þá ekki leysa vanda afurðastöðva, heldur auka hann og það mun leiða áður óþekktar skelfingar yfir sauðfjárbændur og byggð í landinu. Sveitir munu fara í eyði.

Til að leysa vanda verður að finna rætur hans. Vandinn virðist ekki vera til kominn vegna offramleiðslu. Hver er hann þá?

 

 


mbl.is Tvö þúsund tonna offramleiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt eða auglýsing?

Það er undarlegt að fréttamenn séu að ræða við hobbýbændur vegna alvarlegs vanda sauðfjárbænda. Nema auðvitað að um auglýsingu sé að ræða.

Bændur í Árdal, Kelduhverfi, ætla að taka allt sitt kjöt heim og selja beint til viðskiptavina, alls um 140 skrokka. Til framleiðslu á 140 lömbum þarf innanvið 80 vetrarfóðraðar ær, þ.e. ef arðsemin er 1,8 á kind, sem þykir lágmark í dag. Um slíkt fjárbú verður ekki talað öðru vísi en hobbýbúskap.

Fyrst hélt ég að þarna væri prentvilla, að eitt núll hefði vantað uppá tölu um innlegg. Þegar fréttin er lesin er þó hægt að ætla að um rétta tölu sé að ræða, ef mið er tekið af kostnaði við áburð og plast. Hann getur passað fyrir 80 kinda bú ásamt slatta af hrossum.

Hvers vegna ræðir ekki fréttamaður við alvöru bónda, bónda sem hefur sitt lífsviðurværi af sauðfjárbúskap. Bónda sem er með 600 - 800 vetrarfóðraðar kindur. Fréttamaður gæti spurt hann hvort hann hafi hugsað sér að taka allt sitt kjöt heim, til sölu beint til viðskiptavina, alla sína 1100 til 1500 skrokka!

Vandinn sauðfjárbænda er mikill, en hobbýbændum er þó ekki vorkunn. Mun frekar spurning hvort slíkir bændur eigi að vera á beingreiðslukerfinu og þannig skerða kjör þeirra sem hafa sauðfjárbúskap sem sitt lífsviðurværi!


mbl.is Taka allt kjötið heim og selja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjallið tók sótt og lítil mús fæddist

Kjötfjallið svokallaða er bara lítil þúfa. Í lítilli frétt á vefmiðli ruv, þann 25 ágúst, fyrir fjórum dögum síðan, er athyglisvert viðtal fréttamanns við forsvarsmenn afurðastöðva. Ekki fylgdi fréttamaðurinn þessari frétt eftir, ekki var hún flutt á ljósvakamiðlum ruv og enginn annar fréttamiðill hefur séð ástæðu til að skoða þessa frétt nánar.

Í þessari frétt kom fram að byrgðir af lambakjöti eru næsta litlar, talið að um 5-600 tonn muni verða til við upphaf sláturtíðar, eða sem nemur eins mánaða byrgðum. Það kom einnig fram að þessir forsvarsmenn telji það vera eðlilegar byrgðir, svipaðar og verið hafa um langt skeið.

Það kemur einnig fram að byrðaaukning frá því í fyrra samsvarar innan við 10 daga neyslu. Hjá flestum eru lambahryggir upp ornir, sumar afurðastöðvar hafa einnig klárað lambalærin en eitthvað af frampörtum enn til hjá flestum.

Það er sem sagt ekki neitt kjötfjall til, einungis örlitlar byrgðir af því kjöti sem síst selst en skortur á hinu sem vinsælla er, að sögn forsvarsmanna afurðastöðva.

Þetta skítur nokkuð skökku við, þar sem afurðastöðvar hafa boðað allt að 35% verðlækkun til bænda, auk lengingu á útgreiðslutíma. Ástæðan var sögð mikil byrðaaukning á lambakjöti!

Hvernig stendur á því að enginn veitir þessari frétt athygli? Hvar eru ráðamenn? Hvar er forusta bænda?

Rétt er að taka fram að þetta eru svör forsvarsmanna afurðastöðva til fréttamanns. Þetta er ekki byrðatalnig, einungis orð forsvarsmannanna. Byrgðir gætu allt eins verið mun minni. Reyndar má frekar gera ráð fyrir að svo sé, þar sem afurðastöðvar hafa skert heimtökurétt bænda enn frekar og bendir það til kjötskorts frekar en byrðasöfnunnar!

Legið er á stjórnvöldum að grípa inní þann vanda sem bændur standa frammi fyrir, enda útilokað að þeir geti tekið á sig 35% launalækkun nú, eftir 10% launalækkun á síðasta ári. Ætti þá ekki að vera fyrsta verk stjórnvalda að fá staðfestingu á hver vandinn virkilega er? Hvernig er hægt að leysa vanda sem ekki hefur verið skilgreindur og staðfestur? Það liggur nú ljóst fyrir, eftir svör forsvarsmanna afurðastöðva til fréttamanns, að vandinn liggur ekki í offramleiðslu á lambakjöti. Hver er vandinn þá?

Að leysa vanda á röngum forsendum er rétt eins og pissa í skó sinn. Vandinn mun standa eftir og nýr vandi verður til.

Krafa stjórnvalda um 20% skerðingu sauðfjárstofnsins er því arfavitlaus og beinlínis hættuleg. Það mun ekki leysa vanda afurðastöðva heldur auka hann. Það mun setja sauðfjárbændur í áður óþekktan vanda og sveitir landsins í uppnám.

Ég er nú svo saklaus að ég hélt virkilega, eftir að þessi frétt var birt, að allir fjölmiðlar færu á flug. Ég hélt líka að landbúnaðarráðherra myndi strax senda skipun um byrðatalningu hjá afurðastöðvum. Veglegt verkefni fyrir MAST, þeir gera þá ekkert af sér á meðan.

Fyrst og fremst hélt ég að forsvarsmenn bænda myndu láta heyra í sér og krefjast þess að málið yrðu skoðað í kjölinn. Það eru jú bændur sem eiga að taka á sig skellinn!!

 

 

 


Draugagangur í afurðastöðvum?

Allir sem komir eru til efri ára, muna þá tíð er ríkið keypti umframbirgðir kjöts af afurðastöðvum. Því var síðan eytt og landsmenn borguðu brúsann. Þegar uppvíst var að afurðastöðvar voru að fá greitt fyrir mun meira kjöt en þær eyddu, var ruglið stöðvað. Draugurinn var svæfður.

Ég, eins og flestir landsmenn, trúi yfirleitt því sem ábyrgir aðilar segja. Því hafði ég ekki ástæðu til að ætla annað en að afurðastöðvarnar væru að segja satt, þegar þær sögðu mikla uppsöfnun á kjöti vera ástæðu þess að lækka þyrfti afurðaverð til bænda. Fannst reyndar nokkuð skrítið að til lausnar þeim vanda, sem afurðastöðvar töldu nema einum milljarði króna, þyrfti að skerða greiðslu til bænda um tvo milljarða.

Á netmiðlum undanfarið, hafa komið frásagnir fólks af því að erfiðlega gangi að fá lambakjöt, jafnvel verið sýndar myndir af tómum hillum. Nokkuð merkilegt í ljósi umræðunnar! Í lítilli frétt á vefmiðli ruv, sem reynda finnst hvergi annarstaðar og fréttastofan hefur algerlega haldið utan ljósvakamiðla sinna, kemur fram að uppsöfnun afurðastöðva sé nánast engin, frá fyrra ári. Skortur er á lambahryggjum en eitthvað til af stærri lærum og frampörtum.

Getur verið að afurðastöðvarnar séu að vekja upp 45 ára gamlan draug? Getur verið að afurðastöðvarnar séu að búa til vanda, til þess að sækja meira fé í ríkissjóð? Er það kannski ástæða þess að þær skerða verð til bænda um sem nemur tvöfaldri þeirri upphæð sem vinnslustöðvarnar telja sig vanta? Sé svo, er málið grafalvarlegt og þarfnast skoðunar strax!

Í fyrri pistlum mínum gekk ég út frá að vandinn væri raunverulegur og skellti skuldinni á rússabann og sterka krónu. Auðvitað má segja að þessir tveir faktorar séu sökudólgar, ekki þó fyrir vanda vinnslustöðva, heldur sem hamlandi á enn frekari framleiðslu lambakjöts, sterkari stöðu sauðfjárbúskapar. Rússabannið er sennilega varanlegur vandi, jafnvel þó því verði aflétt. Mörg ár mun taka að vinna þá markaði aftur. Sterkt gengi krónunnar er tímabundinn vandi, sem þegar er farið að sjá fyrir endann á. Ekki hvarflaði að mér að afurðastöðvarnar væru í einhverjum sóðalegum leik!

Forsvarsmenn afurðastöðva hafa nokkuð haldið því fram að stór læri sé vandi. Þó hafa þessir sömu aðilar hvatt til þess gegnum árin, að bændur framleiddu stærri lömb. Stór læri eru ekki vandamál, vandinn liggur í framsetningunni.

Fyrir það fyrsta þá selst auðvitað ekki það sem ekki er til sölu. Stór læri finnast ekki í kjötborðum stórverslana.

Í öðru lagi eru stærri lærin best til fallin til framleiðslu lærissneiða, í stað þess að sóa "seljanlegri" lærunum í það. Stórar lærissneiðar eru vandfundnar í verslunum.

Í þriðja lagi má úrbeina stærri lærin og skipta í tvennt. Úrbeinuð læri eru vandfundin í verslunum og alls ekki hálf.

Í fjórða lagi má taka stærri lærin og brytja niður í gúllas. Betra hráefni fæst ekki í slíkan rétt.

Svona mætti lengi telja, vandinn liggur í framsetningunni, liggur hjá afurðastöðvunum. Þetta á við um flest er snýr að framsetningu lambakjöts.

Merkingar er annað sem kostar ekkert nema vilja. Erlendir ferðamenn sem hingað koma vilja að sjálfsögðu kynnast íslenskum mat, rétt eins og við viljum kynnast matarmenningu þeirra þjóða sem við heimsækjum. Erlent ferðafólk talar yfirleitt ekki íslensku. Það kaupir ekki það sem það veit ekki hvað er, eða hvernig skuli handera. Þetta má laga með því einu að bæta merkingar.

Það má margt gera til að auka söluna,bæði hér innanlands sem og erlendis. Nú um stundir er gengi krónunnar sterkt, en það mun láta unda og þá eykst salan úr landi.

Í ljósi þessara fréttar á vefmiðli ruv, hlýtur að vera forgangsatriði að gera birgðatalningu hjá afurðastöðvum. Það hlýtur að verða að kryfja vandann, áður en lengra er haldið. Stjórnvöld hafa opnað á að eitthvað skuli gert fyrir bændur, þó enn sé þetta óttaleg baun og fjarri því að leysa vandann.

En þessu fylgir böggull, skerða skal sauðfjárstofninn um 20%! Nú þegar er skortur á sumum sauðfjárafurðum og hann mun aukast. Aðrar munu ekki þola svo mikla skerðingu sauðfjárstofnsins. Með 20% skerðingu mun verða búinn til kjötskortur í landinu. Kannski er það sú stefna sem unnið er að?!

Ráðherrar eins stjórnarflokksins hafa mikið hamrað á að endurskoða þurfi búvörusamninginn, að það sé forsenda alls. Sú endurskoðun er þegar hafin og reyndar ákvæði um hana í sjálfum samningnum. Og vissulega þarf þessi samningur endurskoðun. Það er út í hött að ein atvinnugrein skuli þurfa ár eftir ár að taka á sig skerðingar, upp á tugi prósenta, álíka margar prósentur og ráðamenn þjóðarinnar taka sér í launahækkanir. Það er engin atvinnugrein sem getur tekið við slíkum álögum, allra síst þegar vandinn er alls ekki þeirri atvinnugreina að kenna, heldur stjórnvaldsákvörðunum og kannski vélbragða næsta hlekks í virðiskeðjunni!!

Hér þarf að koma á einhverskonar kerfi sem tryggir bændum það sem þeim ber. Bændur hafa farið í einu og öllu eftir því sem búvörusamningar hafa boðið þeim og því út í hött að láta þá taka á sig birgðar og óstjórn einhverra annarra.

Ég ætla ekki að ræða verslunina, en margt má laga í vinnslunni. Réttast væri  að gefa vinnslunni afarkosti. Að hún fái eitt ár til að sýna sig og sanna og þau fyrirtæki sem ekki ná tökum á sínum rekstri verði einfaldlega lögð af. Það er nægt fólk sem tilbúið væri að taka við kefli þeirra, fólk sem hefur metnað og vilja til að gera betur.

Það fer um mann hrollur að sjá formann Landssamtaka sauðfjárbænda nánast fagna því að hún og sveitungar hennar sunnan heiða, skuli "einungis" þurfa að taka á sig 26% launalækkun, meðan kollegar hennar norðan heiða verða að sætta sig við 35% lækkun.

Hvar er kjarkurinn? Hvar er dugurinn?

 

 


mbl.is Verðhrunið ægilegt áfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snillingurinn á Höfðanum

Mann rekur í rogastans þegar snillingar eins og forstjóri OR tjáir sig, svo langt frá raunveruleikanum sem sá maður virðist vera.

Eitthvað leikur vafi um hver kostnaður við viðgerð á húsi OR muni verða, stundum talað um 1,7 milljarða og stundum yfir 2 milljarða. Virðist fara eftir skapi þeirra sem rætt er við, hverju sinni. Það er auðvitað galið að leggja þurfi upp í slíkan kostnað til viðgerða á nánast nýju húsi. Reyndar miðast þessi viðgerðakostnaður við að glerklæðning verði sett á allt húsið. Væntanlega má finna ódýrara og jafnvel betra efni en gler til viðgerðanna og lækka þannig kostnaðinn verulega. Menn geta haft sínar skoðanir á þessu húsi, tilurð þess og tilgangi. Um það má endalaust deila, en staðreyndin er sú að húsið var reist, það lekur og það þarfnast viðgerða.

Innskot forstjóra OR, um að hugsanlega væri best að rífa húsið, gerir flesta kjaftstopp! Þvílíkt og annað eins!

Kostnaður við að rífa húsið er talinn eitthvað örlítið meiri en viðgerð, þ.e. viðgerð með glervegg. Jafnvel þó hægt væri að reikna niðurrif eitthvað ódýrara en viðgerð, er hugmyndin gjörsamlega galin. Fyrir það fyrsta á OR ekki húsið, seldi það fyrir nokkrum misserum síðan. Í þeim sölusamningi var ákvæði um að OR sæi um viðhald hússins og tekið skyldi tillit til kostnaðar í útreikningi húsaleigu. Því mun kostnaður við viðhaldið skiptast milli OR og eigenda.

Það er því eigenda hússins að ákveða hvort það skuli rifið eða ekki. OR getur engu þar ráðið.

En skoðum aðeins ruglið. Hvort heldur húsið er rifið eða gert við það, mun kostnaðurinn liggja nálægt tveim milljörðum. Þ.e. samkvæmt tölum OR.

Því er spurningin hvort kasta eigi tveim milljörðum til að rífa húsið og standa eftir með ekkert, eða hitt að leggja heldur lægri upphæð til viðgerða á því og standa þá eftir með stórt og gott húsnæði.

Það þarf einstaka "snillinga" til að jafna þessu saman!!


mbl.is Tjón á húsi OR nemur 1,7 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eggið, hænan og Már

Á kynningarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans upplýsti Már Guðmundsson að búið væri að leysa aldagamla gátu; eggið kemur ekki á undan hænunni.

Auðvitað tók fjármálaheimurinn dýfu við þessa tilkynningu, enda tímamóta uppgötvun að ræða!

Nú þarf Már bara að finna út hvernig hænan verður til. Þegar hann hefur svarið við þeirri spurningu, gæti verið að hann hafi öðlast næga reynslu til að stjórna hér ákvörðunum um vexti til handa okkur mörlandanum!!


Komið verði til móts við verslunina

Tillögur landbúnaðarráðherra, með samþykki fjármálaráðherra, munu ekki hjálpa bændum en hins vegar mun verslunin græða verulega. Þar liggur hundurinn grafinn, ráðherra vill ekki styggja verslunina í landinu og velur því þá lausn sem mun kosta ríkissjóð mikla fjármuni án nokkurs árangurs, í stað þess að velja þá leið sem kostar minna og er leið út úr vandanum.

Uppkaup kvóta um 20% mun einungis auka á vanda sauðfjárbænda. Þetta mun leiða til enn frekari uppsöfnunar á kindakjöti strax í haust og fyrirséð að næsta haust munu byrgðir verða enn meiri en nú!

Þá eru einungis tveir kostir til fækkunar sauðfjár í landinu, annars vegar að bændur hætti búskap eða að bændur dragi úr framleiðslu. Sennilega verður þetta blanda af báðu.

Fækki búum enn frekar mun byggð skerðast, jafnvel svo að sveitir leggist í eyði.

Dragi bændur úr framleiðslu, mun það auðvitað leiða til enn frekari skerðingar á launum þeirra, til viðbótar við þá skerðingu sem þegar hefur orðið. Það má því segja að sú aðkoma sem ríkið er tilbúið að leggja til bænda muni sjálfkrafa hverfa úr höndum þeirra, vegna minni búa og lægri tekna!

Þarna er verið að færa fé úr einum vasa bænda yfir í annan, og allir tapa. Eftir stendur mikill vandi strax að ári!

Bent hefur verið á að útflutningsskylda kosta ríkið ekki krónu. Einu  fjárframlögin þar yrðu til mjög illa stæðra bænda, fyrst og fremst yngri bænda sem nýlega hafa hafið búskap. En þessi leið þóknast ekki versluninni í landinu og því er hún slegin út af borðinu af lágtvirtum ráðherrum Viðreisnar. Sorglegt er að svokallaður formaður Framsóknar skuli láta leiða sig í vitleysunni.

Ísland er ekki sjálfbært í matvælaframleiðslu. Auðvitað munu sum matvæli seint verða framleidd hér á landi, en við getum framleitt nógu mikið af nógu fjölbreyttum matvælum til að geta talist sjálfbær. Ekki síst í kjötframleiðslu.

Nú er verið að berjast við "offramleiðslu" upp á 1000 tonn af kjöti. Árið 2015 voru flutt inn 3000 tonn af kjöti. Eftir stendur að í raun vantar 2000 tonn upp á að við gætum talist sjálfbær í kjötframleiðslu. Þegar Rússabannið var sett á lokuðust markaðir fyrir norskt kindakjöt. Þeirra svar var að loka á innflutning á móti. Hvers vegna má ekki beita sömu meðulum hér á landi?!

Verslunin heldur því fram að mun ódýrara sé að flytja þessi matvæli til landsins. En er það svo? Ekki er svo að sjá í kjötborðum verslana. Til dæmis bjóða Hagar upp á reyktar svínakjötsneiðar, ágætar á grillið. Þegar lesið er á pakkningarnar má finna, ef vel er leitað, upplýsingar um upprunaland. Merkingar eru að öllu leyti eins, nema með mjög litlum stöfum má finna þessar upplýsingar. Enginn verðmunur er þó á því hvort varan er með danskt eða íslenskt upprunaland!

Þá má ekki gleyma þeirri einföldu staðreynd að verð á matvælum erlendis er eftir að ríkisstyrkir hafa verið greiddir. Ekki þarf nokkrum manni að detta til hugar að aðrar þjóðir séu tilbúnar til að niðurgreiða kjöt til okkar, til lengdar. Víst er að fljótlega kæmi krafa um að framleiðsluverð verði greitt. Hver er hagnaðurinn þá?

Ekki ætla ég að tala um heilnæmi innfluttra matvæla, nægir að benda á að hvert hneykslið af öðru hefur dunið á eftirlitsstofnunum Evrópu, þar sem svindl í matvælaframleiðslu uppgötvast. Sjaldnast vegna þess að viðkomandi stofnanir uppgötvi svindlið.

Svo virðist sem ráðherrum Viðreisnar ætli að takast að grafa svo undan íslenskum landbúnaði að vart verið við snúið. Sorglegt er að þeir flokkar sem staðið hafa vörð um þá eðlilegu stefnu að landið verði sjálfbært í matvælaframleiðslu, svo langt sem slíkt er hægt, skuli taka undir með fulltrúum verslunar í ríkisstjórn.

Takist þetta markmið Viðreisnar mun verslunin kætast, en neytendur gráta!!


mbl.is Komið verði til móts við bændur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáviska ráðherra

Auðvitað verður staðið við búvörusamninginn, annað kemur vart til greina. Menn standa jú við gerða samninga!

ÞAð er magnað að heyra hvernig ráðamenn þjóðarinnar hafi talað um vanda sauðfjárbænda. Reyndar hefur lítið heyrst frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, nema Viðreisnar og satt best að segja er sorglegt hvernig þeir hafa opinberað fávisku sína um málið. Nú stígur sjálfur forsætisráðherranna, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, fram og sussar á samráðherra sína. Því miður er þó að sjá að hans þekking sé litlu meiri en hinna, þó hann átti sig á þeirri staðreynd að gerðir samningar skuli standa. Þegar menn gagnrýna eitthvað, er gerð krafa um að viðkomandi hafi aðra lausn og láti hana í ljósi. Þetta er enn ríkara þegar gagnrýnin kemur frá hendi ráðmanna þjóðarinnar.

Fram til þessa hefur ómað frá ráðherrum Viðreisnar að vandinn liggi í nýgerðum búvörusamningi, að ekkert sé hægt að gera umfram þann samning og þegar þeir lenda í rökþrotum, er talað um að ekki megi fara út fyrir fjárlög.

Nýgerður búvörusamningur tók gildi síðasta haust, framleiðsla þessa árs af lambakjöti er að öllu leyti fjármögnuð utan þess samnings og framleiðsla næsta árs að stórum hluta einnig. Því er með öllu fráleitt að tala um að vandinn sé þeim samningi um að kenna. Margt má segja um þennan samning og víst að lítil sátt var um hann, á báða bóga. Í honum er þó ákvæði um endurskoðun innan ákveðins tíma og sú vinna þegar hafin, eftir að ráðherra landbúnaðamála var nánast búin að rústa því ákvæði með því að skipa nýja nefnd um þá endurskoðun. Það er því nánast grátlegt að heyra fjármálaráðherranefnuna tala um að endurskoða þurfi samninginn!

Að ekkert sé hægt að gera umfram það sem samningurinn heimilar er í raun ávísun á að lítið sem ekkert skuli gera. Vandi sauðfjárbænda er ekki vegna búvörusamninga, hvorki nýrra né gamalla. Vandi sauðfjárbænda er til komin af öflum sem þeir ekki ráða við né hafa nokkur áhrif á. Vanda sauðfjárbænda má fyrst og fremst rekja til pólitískrar ákvörðunar Alþingis um að fylgja ESB í refsiaðgerðum á Rússa. Hátt gengi krónunnar eykur síðan þann vanda. Það er ekkert sem bændur hafa gert sem veldur þeim vanda sem nú mun leggja margar sveitir landsins nánast í eyði, þeir hafa fylgt þeirri línu sem búvörusamningar hafa á þá lagt gegnum árin.

Það er vissulega gott þegar ráðherrar sýna slíka ábyrgð að vilja halda sig innan fjárlaga. Það væri betra að það ætti þá við um öll útlát ríkissjóðs, ekki bara þegar kemur að ákveðnum hópum í þjóðfélaginu. Upp koma ófyrirséð fjárútlát, þau fara síðan í aukafjárlög. Skýrasta dæmið er að einn málaflokkur er nú þegar komin fram yfir fjárlög um nokkra milljarða króna og líklegt að þegar ári lýkur muni sú framúrkeyrsla verða jafnvel meiri en búvörusamningur greiðir til sauðfjárframleiðslu landsins. Þó fjalla fjölmiðlar næsta lítið um þessa umframkeyrslu á fjárlögum!!

Nú loks, þegar verkstjóri ríkisstjórnarinnar hastar á sína samráðherra, eftir að þeir hafa í alltof langan tíma fengið að básúna fávisku sína í öllum fjölmiðlum landsins, kemur á óvart að hann virðist ekki heldur skilja vandann. Talar um að "ýta vörum út af markaði" og "minnka sauðfjárstofninn".

Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á hvað hann á við um að "ýta vörum af markaði". Er hann þar að tala um að eyða matvælum? Hélt reyndar að slíkt væri bannað.

Um hitt atriðið að "fækka sauðfjárstofninum" þá má kannski segja að það atriði eigi heima í viðræðum um upptöku samningsins, þ.e. ef menn vilja fara þá leið að hér verði einungis framleitt fyrir innanlandsmarkað og engu skeytt um matarþörf hins ört stækkandi sveltandi heim. En það er ekki nóg að tala um að "fækka í sauðfjárstofninum" nema menn hafi einhverja hugmynd um hvernig það skuli gert. Síðustu fjörutíu ár hefur búfjárstofni fækkað verulega hér á landi, einnig sauðfé, þó afurðir hafi aukist verulega. Þetta kallast framþróun og verðmætaaukning. Samhliða fækkun í bústofni hafa bú stækkað, einnig í nafni framþróunar og verðmætaaukningar. En þessu fylgir böggull hildar. Það er útilokað að fækka bústofni og stækka búin án þess að byggð raskist og það hefur vissulega gerst. Heilu byggðarlögin hafa lagst í eyði á þessu tímabili og önnur ramba á barmi þess að falla sömu leið. Vill forsætisráðherra halda lengra á þeirri leið, eða hefur hann einhverja patent lausn á því hvernig hægt er að fækka enn frekar í bústofni landsmanna, án þess að byggð raskist frekar en orðið er.

En hvað um það, þessar hugmyndir forsætisráðherra koma ekkert við þeim vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir nú. Það er bráðavandi sem þarf að leysa og það ekki síðar en strax. Á morgun getur það orðið of seint. Verði ekkert að gert mun fjöldi bænda taka ákvörðun um að hætta búskap á allra næstu dögum, með tilheyrandi enn meiri of framleiðslu á kjöti nú í haust. 

Það þarf að viðurkenna orsakir þessa vanda og leysa hann út frá því. Það þarf að klára það mál sem hófst þegar Alþingi Íslendinga ákvað að fara í þá för með ESB að setja á refsiaðgerðir á Rússa. Það er ekki nóg að samþykkja slíkar aðgerðir nema stjórnvöld séu tilbúin að bæta þeim skaða sem af hljóta. Hvers vegna eiga bændur að taka á sig það tjón sem stjórnvöld stofna til?!

Bráðavandann þarf að leysa strax, endurskoðun búvörusamningsins er svo allt annað mál. Þá þurfa menn að hafa einhverja sýn á framtíðina og hvernig við viljum stjórna okkar matvælaframleiðslu til framtíðar. Þar þíðir ekki að horfa á daginn í dag og þau tímabundnu vandamál sem steðja að nú.

Reyndar þarf enginn að óttast framtíðina í íslenskum landbúnaði, þ.e. ef ráðamönnum ber sú gæfa að leysa vandamálin út frá raunverulegum vanda. Þessa stundina er hins vegar íslenskur landbúnaður í þröngri stöðu og auðvelt að velta honum af kolli. Þá munum við verða upp á aðrar þjóðir komin með mat. Þegar svo annað hrun dynur á þjóðinni, eins og haustið 2008, nú eða upp kemur stríðsástand í löndum nærri okkur, munum við einfaldlega svelta!

 

 

 


mbl.is Staðið verður við búvörusamninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi landbúnaðar

Vandinn

Það er ljóst að sauðfjárbændur standa frammi fyrir miklum vanda. Sláturleyfishafar hafa boðað miklar verðlækkanir til bænda auk lengingu útborgunar. Fyrir marga bændur mun þetta verða náðarhögg en aðra verulega skerðing. Rekja má þennan vanda til uppsafnaðra byrgða á lambakjöti.

Nú eru byrgðir taldar vera nálægt 1500 tonnum, nánast sem svarar samdrætti í útflutningi. Þann samdrátt má að öllu leyti rekja til aðstæðna sem íslenskum bændum er óviðkomandi, viðskiptaþvingana á Rússland. Hefðu íslenskir stjórnmálamenn ekki samþykkt að taka þátt í þeim þvingunum, væri sennilega kjötskortur nú!

Erlendis tóku stjórnmálamenn upp þá stefnu að styrkja þá aðila, innan sinna landa, sem sköðuðust af þessum viðskiptaþvingunum. Íslenskir stjórnmálamenn hafa annan hugsanahátt, þeir eru viljugir að taka þátt í alls kyns alþjóðlegum skuldbindingum, en skeyta engu um afleiðingarnar fyrir land og þjóð.

Fyrir einungis örfáum árum var mikið rætt um kjötskort í landinu. Verslunin (SVÞ) stóð fremst í þeirri umræðu og nýtti sér hana í sínum eilífa áróðri fyrir frjálsum innflutningi á matvælum. Skorturinn var þó ekki meiri en svo að til voru byrgðir upp á 300 tonn, er sláturtíð hófst. En skaðinn var skeður og misvitrir stjórnmálamenn féllu fyrir málflutningi SVÞ. Slakað var á hömlum á innflutningi á kjöti. Árið 2015 var flutt inn 3000 tonn af kjöti til landsins, eða sem nemur tvöföldu því magni sem nú er sagt vera í frystigeymslum úrvinnslustöðva.

Eðli matvælaframleiðslu er að nokkurn tíma tekur að breyta framleiðslumagni, sérstaklega á þetta við um mjólkur og kjötframleiðslu. Ekki er hægt að skrúfa fyrir júgur kúnna og lömbin fæðast ekki fullvaxta. Því er nauðsynlegt að vera með einhvern "stuðpúða", þ.e. nauðsynlegt að á hverjum tíma sé einhver umframframleiðsla svo hægt sé að taka á utanaðkomandi og óviðráðanlegum uppákomum. Slæmt árferði getur minnkað framleiðsluna eitt árið, meðan gott árferði eykur hana. Hver þessi stuðpúði á nákvæmlega að vera er erfitt að segja til um. Vandinn er að þessu verður ekki stjórnað á skömmum tíma. Tvö til þrjú ár af slæmu árferði myndu sennilega þurrka upp 1500 tonna byrgðir af kjöti.

Ef við viljum vera okkur sjálfbær í matvælaframleiðslu, eins og flestar eða allar þjóðir keppast að, þarf auðvitað að gera ráð fyrir slíkum sveiflum, án þess að bændur sjálfir séu alltaf látnir taka skellinn. Þetta verður að vera á ábyrgð þjóðarinnar.

Þróun og framfarir

Síðustu 30 til 35 ár hefur þróun og framfarir í landbúnaði verið einstakar hér á Íslandi og erfitt að finna aðra atvinnugrein til samanburðar á því sviði. Búum hefur fækkað og þau stækkað. Framleiðsla per grip hefur aukist og gripafjölda fækkað. Framleiðslukostnaður hefur lækkað verulega en mestu skiptir að verð til neytenda hefur lækkað gífurlega, sem hlutfall af launum. Ríkisstyrkir til bænda hafa verið lækkaðir verulega á þessu tímabili.

Öll framþróun er oftast af hinu góða og auðvitað er alltaf gott þegar matvælakostnaður heimila lækkar, sem hlutfall af tekjum. En þessu fylgja auðvitað svört ský. Allir stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir eru, tala um að halda landinu í byggð. Það er í algerri andstöðu við þá þróun sem orðið hefur í íslenskum landbúnað. Byggð í sumum sveitum hefur þurrkast út á þessu tímabili, aðrar standa á þröskuldi hins búanlega og í flestöllum sveitum hefur orðið veruleg fækkun.

Fyrir 35 árum þótti 300 kinda bú stórbú. Bændur höfðu gott lífsviðurværi af slíkum búum. Í dag er lágmark að vera með 600 vetrarfóðraðar kindur til að lifa af, 800 - 1000 ef staðið er í einhverjum fjárfestingum. Með sama áframhaldi er ekki langt í að þörfin verði hátt í 2000 kindur á bú, svo það geti borið sig þokkalega. Það sjá allir hver áhrif það hefur á byggð í landinu. Fá og stór bú, sem væntanlega myndu safnast í fáar sveitir, mun ekki einungis rýra landið af byggð, heldur einnig geta stuðlað að ofnýtingu á takmörkuðum svæðum, væntanlega næst stæðstu byggðakjörnunum.

Norskir stjórnmálamenn tala einnig um nauðsyn þess að halda landinu í byggð, rétt eins og þeir íslensku. En öfugt við þá misvitru íslensku, láta þeir norsku ekki nægja að tala um hlutina, þeir fylgja þeim eftir. Í Noregi er bændum gert kleyft að lifa góðu lífi af litlum búum, 200 til 250 vetrarfóðruðum kindum. Þetta er gert í nafni byggðarsjónarmiða og þykir eðlilegt þar í landi. Velji menn að vera með stærri bú, er það þeirra ákvörðun, án sérstakrar aðkomu stjórnvalda. Auðvitað er sauðfjárbúskapur í Noregi sem hlutfall af landsframleiðslu lítill, meðan hann er tiltölulega stór hér á landi. Íslenskir stjórnmálamenn verða hins vegar að fara að gera upp við sig hvort þeir vilja halda landinu í byggð eða ekki og temja sinn málflutning og aðgerðir að því.

Afstaða ráðherra

Þegar ríkisstjórn er sett saman er oftast leitast við að velja hæfustu einstaklingana til ráðherrastóls í hverjum málaflokki, þá menn sem mesta og besta þekkingu hafa í hverjum málaflokki fyrir sig.

Því kom mörgum á óvart um síðustu áramót, þegar núverandi ríkisstjórn var kynnt, að íþróttafrömuður sem uppalinn er á mölinni, var kynnt sem ráðherra landbúnaðarmála. Innan þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem að ríkisstjórninni stendur eru til þingmenn sem hafa mjög góða og víðtæka þekkingu á landbúnaði og því kannski betur til þess fallnir að stjórna þeim málaflokki. Að hluta má rekja þetta til þess að svokallað kynjasjónarmið var metið hærra en hæfni. Ekki ætla ég að dæma um fyrri störf ráðherra, hvorki á pólitíska sviðinu né í hinu opinbera einkalífi. Þó er ljóst af störfum hennar frá síðustu áramótum, að betra hefði verið fyrir land og þjóð og ekki síst hana sjálfa, ef hún hefði látið vera öll afskipti af pólitík.

Hvað um það, í þeim vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir nú, hefur þetta þekkingarleysi ráðherrans á landbúnaði opinberast. Hún er dugleg við að tala um að hagur bænda eigi að vera sem mestur og að stuðla skuli að því að halda landinu í byggð. Verk hennar eru þó í aðra átt, þ.e. það litla sem hún hefur gert. Verslun og þjónusta stendur næst hennar hjarta í verki, þó allir eigi hug hennar í orði.

Ráðherra er dugleg við að ræða málin, en þegar kemur að framkvæmdum fer minna fyrir hennar vilja. Í nokkra mánuði hélt hún uppi samræðu við fulltrúa bænda og kom svo loks með svar sem hægt hefði verið að gefa strax á fyrsta fundi, að engar sértækar ráðstafanir væru í boði. Og enn tönglast hún á því sama, að engin von væri um aðgerð til lausnar bráðavandanum en er tilbúin að ræða framtíðina og einhverja óskilgreinda byltingu á landbúnaðarkerfinu. Lætur sem svo að landbúnaður hér hafi verið í einhverri kyrrstöðu síðustu áratugi!

Lausn vandans

Það er auðvitað engin einföld lausn á þeim vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir. Þó er deginum ljósara að þeir geta ekki tekið þann vanda á sig. Eftir 10% lækkun á afurðaverði á síðasta ári er ljóst að þar er ekki lengur borð fyrir báru. Auk þess sem afleiðingar þess að velta vandanum á bændur leiðir til enn meiri vanda. Það eina sem bændur geta gert til að vinna gegn slíkum tekjuskerðingum er að fjölga bústofni!

Kjötvinnslan berst í bökkum. Uppsöfnun byrgða lendir ekki síst á þeim. Þar má þó laga verulega til. Framsetning vara til neytenda hefur batnað mikið undanfarna áratugi og stórátak verið gert á því sviði. Þegar árangur næst fagna sumir, en vandinn er að halda þróuninni áfram. Því miður virðist sem kjötvinnslan hafi stöðvast í sinni þróun, kannski ofmetnast.

Það þarf stundum lítið til að gera mikið. Sú gífurleg fjölgun erlendra ferðamanna sést ekki í sölu lambakjöts, jafnvel þó á boðstólnum sé fyrirtaks hráefni fyrir það fólk sem hér ferðast um landið á eigin vegum. Bara það eitt að setja merkingar á ensku á pakkningarnar gæti aukið söluna, erlent ferðafólk kaupir ekki það sem það veit ekki hvað er. Þá mætti vinnslan einnig huga að því að hafa á boðstólnum fjölbreyttara úrval. Skoða hvernig kjöt er borið fram erlendis, s.s. þykktir sneiða og fjöldi í pakkningu. T.d. er mikið af ferðamönnum sem hingað koma frá Bandaríkjunum. Þar þekkjast ekki þunnar grillsneiðar, þeir vilja þær þykkar. Svona smávægilegar breytingar kosta nánast ekki neitt En hugsanlega gæti árangurinn orðið nokkur. Þetta eitt og sér leysir þó ekki vandann og alls ekki þann bráðavanda sem nú steðjar að. Þetta gæti hugsanlega minnkað hann eitthvað. Veitingahús vítt og breytt um landið hafa heldur ekki verið nægjanlega dugleg að bjóða lambakjötið. Þar er hellst að finna hangikjöt og stórsteikur, sem er auðvitað ágætt, en margt má þar bæta og auka söluna. Það er fullkomlega ljóst að flestir ferðamenn koma ekki hingað til lands til að metta einungis augum, þeir vilja einnig kynnast dásemdum fæðunnar.

Verslunin er eini hlekkurinn á matvælakeðjunni sem virðist fitna. Það er með ólíkindum að verslun, sem gerir það eitt að taka við matvælum frá vinnslustöðvum, selja þau og skila síðan til baka því sem ekki selst, skuli fá svipaða krónutölu fyrir hvert kíló og bóndinn, sem leggur alla sína vinni í að lágmarki 18 mánuði til að framleiða það kíló. Það er eitthvað verulega skakkt við þetta. Við vitum í dag að verslunin hefur svínað á neytendum undanfarna áratugi. Þar hafa engar hömlur verið á. Það er með ólíkindum að til hafi þurft erlenda verslunarkeðju til að opinbera þetta. Hvar er samkeppniseftirlitið? Er það svo upptekið við að fylgjast með því hvort vinnslustöðvar í landbúnaði sé að fara að lögum ? Er verslunin bara stykk frí í augum eftirlitsins?

Umframframleiðsla í landbúnaði er eitthvað sem nauðsynlegt er að hafa, svo landið geti talist sjálfbært í matvælaframleiðslu. Þetta er eitthvað sem aðrar þjóðir skilja, en einhverra hluta vegna virðast Íslendingar ekki skilja þessa einföldu staðreynd. Hugsanabreytingu þarf, það þarf að nást sátt um þetta, svona sátt eins og allar siðaðar þjóðir hafa náð. Þetta kallar auðvitað á að stjórnvöld séu tilbúin að fjármagna einhvern hluta þeirrar umframframleiðslu, svona rétt eins og aðrar þjóðir gera. Á þessu þurfa auðvitað að vera takmarkanir.

Það vekur ugg að hlusta á forsvarsmenn bændastéttarinnar tjá sig um vanda sauðfjárframleiðslunnar. Gamaldags hugsun, eins og útflutningskylda og úreldingarstyrkir eru þar efst á blaði. Þetta er ekki lausn vandans, heldur mun auka hann verulega. Verði ekkert að gert er ljóst að mikil úrelding verður í sauðfjárbúskap, margir munu leggja upp laupana. Það mun skapa enn meira offramboð á kjöti. Það sama á við um úreldingarstyrki. Sá vandi mun síðan fylgja sauðfjárframleiðslunni um einhver ár, jafnvel áratug. Útflutningsskylda er einhver óskiljanleg aðgerð. Það á að selja það kjöt úr landi sem selst, á viðunnandi verði. Þar má vissulega taka til hendinni og bændaforustan kannski ekki staðið sig sem skyldi í því. Hvers vegna í ósköpunum er verið að leggja áherslu á sölu lambakjöts í miðborg New York? Flestir þar sem einhverja peninga hafa nærast á matsölustöðum. Við þurfum einnig að átta okkur á því að stórir markaðir eru kannski ekki það sem þarf. Þar getur eftirspurn hæglega verið fljót að fara yfir framleiðslugetu og ef eftirspurn er ekki sinnt er mikil hætta á að viðkomandi markaður lokist. Við eigum að leita að smærri mörkuðum, í þeim löndum sem lambakjötsneysla er þekkt. Ekki reyna það ómögulega, heldur leggja áherslu á það sem er gerlegt. Markaðir fyrir íslenskt lambakjöt er klárlega fyrir hendi, þarf bara að vinna skipulegar að því að finna þá. Það er auðvitað meira spennandi fyrir sölufulltrúana að ferðast til New York en t,d, einhverrar smáborgar í suður Evrópu. Þessi ranga markaðsstefna er þó ekki vandi dagsins í dag, meira vandi morgundagsins. Þrátt fyrir hana hefur sala á kjöti úr landi verið með ágætum fram undir allra síðustu ár.

Hinn raunverulegi vandi sauðfjárframleiðslunnar nú liggur auðvitað í minni útflutningi síðustu ár. Þar kemur, eins og áður segir, það helst til að misvitrir íslenskir stjórnmálamenn ákváðu að elta ESB í viðskiptaþvingunum á Rússa. Uppsöfnun nú er nánast sú sama og samdrátturinn vegna þess viðskiptabanns hefur skapað. Menn geta haft hinar ýmsu skoðanir á tilefni þeirra þvingana, haft misjafnar skoðanir á því hvort við áttum að elta ESB í þeim, en það breytir litlu. Staðreyndin er sú að þetta var gert og afleiðingarnar fyrir okkur Íslendinga urðu miklar, mun meiri en nokkur önnur þjóð þurfti að glíma við. Og þar sem þetta var gert, hljóta stjórnvöld að vera ábyrg fyrir afleiðingunum og bæta tapið, svona rétt eins og allar aðrar þjóðir sem að þessum þvingunum stóðu, gerðu. Þetta eru ekki neinar sértækar aðgerðir, einungis hluti þess að elta ESB í þvingunum á Rússa. Þarna liggur lausn þess bráðavanda sem bændur standa frammi fyrir.

Um langtímavanda í Íslenskum landbúnaði er vart að ræða. Þó verður að stemma stigu við enn meiri samþéttingu landbúnaðar, ef ekki á illa að fara. Þó skaði þess fyrir byggð í landinu sé orðinn verulegur nú þegar, er enn hægt að snúa af þessari braut. Langtímamarkmið í landbúnaði hlýtur því að vera endurskoðun landbúnaðarsamnings í þá veru að byggð haldist. Fram til þessa hafa allar breytingar á þeim samningi verið í hina áttina.

Lokaorð

Það er ljóst að leysa þarf bráðavanda sauðfjárbænda hið snarasta. Annars fer illa og vandinn mun aukast verulega, með enn meiri uppsöfnun sem jafnvel gæti orsakað að farga þurfi heilbrigðu og úrvals kjöti. Þar með værum við komin marga áratugi aftur í tímann, auk þess sem förgun á heilbrigðum og góðum matvælum er aldrei réttlætanleg. Því er nauðsynlegt að samþykkt Alþingis um viðskiptabann á Rússa verði framkvæmt til fullnustu, með aðkomu ríkissjóðs að tapi þeirra sem á því tapa.

Taka þarf upp landbúnaðarsamninginn með tilliti til byggðarsjónarmiða. Þar mætti t.d. leita til Noregs og annarra dreifbýlla þjóða og skoða hvernig þær hafa þetta. Jafnvel Bandaríkin halda byggðasjónarmiðum hátt á lofti, í dreifðari byggðum.

Í öllu falli verða stjórnvöld að koma að lausn skammtímavandans og það fyrr en seinna. Ráðherra getur ekki og má ekki svíkjast undan þeirri skyldu sinni! Einungis eru örfáir dagar þar til slátrun hefst og margir bændur farnir að hugsa alvarlega um að hætta. Eftir nokkra vikur verður of seint að gera nokkuð, þegar fjöldi bænda hefur lagt inn allt sitt sauðfé, með tilheyrandi margföldum þess vanda sem fyrir er. Þann vanda verður erfitt að leysa og mun fylgja okkur um mörg ár og enda síðan með þeirri skelfingu að allt of fátt fé verður í landinu til að halda uppi kjötframleiðslu fyrir landsmenn. Heilu byggðirnar munu leggjast af og aðrar svo fámennar að erfitt eða útilokað verður að halda þar uppi landbúnaði.

Eftir mun sitja fátækt Ísland!!

 


??????

HB Grandi hefur lokað á botnfiskvinnslu á Akranesi og spurning hvort þessi frétt sé fyrirboði um að uppsjávarvinnslu verði einnig hætt. Myndin með fréttinni er af bræðsluverksmiðju HB Granda á Akranesi, ekki Sementsverksmiðjunni.

Hvað um það, saga Sementsverksmiðjunnar, frá stofnun til ársins 1993, er að öllu leyti góð saga. Þessi verksmiðja framleiddi sement fyrir landsmenn og á þessum tíma varð gífurleg uppbygging hér á landi. Verksmiðjan var vel rekin, skaffaði fjölmörg störf og sparaði mikinn gjaldeyri fyrir þjóðarbúið.

Árið 1993 tók að halla undan fæti. Stofnað var svokallað opinbert hlutafélag um verksmiðjuna (ohf), en á þeim tíma trúðu margir að slíkt fyrirkomulag væri töfralausn alls. Kratar voru kannski þar fremstir í flokki, enda með ráðuneyti iðnaðar á þeim árum undir sinni könnu. Efasemdarraddir heyrðust vissulega um þessa breytingu, að þetta væri einungis fyrsta skrefið í einkavæðingu verksmiðjunnar, einkavæðingu sem myndi enda með falli hennar. Ráðamenn þjóðarinnar á þeim tíma lofuðu hátíðlega að verksmiðjan yrði aldrei einkavædd, þetta væri einungis breyting á formi rekstrarins, breytingar sem myndu jafnvel auka hag hennar enn frekar.

Ekki gekk það þó eftir og þrátt fyrir hátíðleg loforð tók einungis einn áratug að einkavæða þessa verksmiðju. Þá fyrst byrjar hörmungarsaga hennar af alvöru. Ákveðið vandamál hafði skapast á þeim tíma er verksmiðjan starfaði sem ohf, en það sneri að lífeyrisskuldbindingum. Þær skuldir voru orðnar nokkrar, við ríkissjóð. Þegar verksmiðjan var auglýst til sölu var skýrt að væntanlegur kaupandi yrði að taka yfir þessar skuldbindingar, enda rekstur verksmiðjunnar að öðru leyti í þokkalegu standi, hús og búnaður vel viðunandi og því í raun einungis verið að koma þessari skuld ohf við ríkissjóð fyrir kattarnef.

Ekki vildi þó betur til við söluna, einkum kannski vegna afskipta Akranesbæjar, en að hún var seld þeim aðila sem kannski síst hafði burði til að reka hana. Nokkur tilboð komu, en því eina sem ekki stóðst var tekið. Niðurstaðan varð að ríkið tók á sig lífeyrisskuldbindingarnar og kaupandi greiddi málamyndunarverð, dugðu vart fyrir bílaflotanum sem verksmiðjunni fylgdi.

Níu árum síðar var verksmiðjan öll og Akranesbær sat uppi með lóð fulla af húsnæði sem ekki var til neins nýtilegt.

Frá árinu 1993, þegar hin svokallaða Viðeyjarstjórn (D+A) sat, hafa Akurnesingar þurft að horfa upp á og taka þátt í þessari sorgarsögu. Og henni er ekki enn lokið, þvert á móti. Fram til þessa hafa hörmungarnar lent á bæjarfélaginu í formi minnkandi tekna og á starfsfólkinu í missi sinna starfa. Nú hefjast fjárútlátin, einkum vegna afskipta bæjarstjórna á hverjum tíma af söluferli verksmiðjunnar.

Enginn veit hvað mun kosta að rífa verksmiðjuna. Víst er að áætlaðar 400 milljónir hrökkva þar skammt. Verksmiðjan var vel byggð og það verður ekkert einfalt mál að rífa hana. Þó tekur út yfir allan þjófabálk að svo virðist sem forsvarsmenn bæjarins hafi ákveðið að láta skorsteininn standa, telja hann einhverja bæjarprýði. Einfaldast og ódýrast er þó að rífa þennan stromp, þ.e. ef það er gert áður en byrjað verður að byggja umhverfis hann. Strompurinn er orðinn feyskinn, enda byggður m.t.t. að um hann leiki heitt loft, dag og nótt. Nú þegar eru farnar að sjást geigvænlegar sprungur á honum og ljóst að mjög dýrt, ef þá mögulegt, er að gera hann þannig úr garði að hann fái staðið.

Líklegast er þó að vandinn með strompinn leysast af sjálfu sér, innan stutts tíma, með því að hann falli sjálfur til jarðar. Við skulum þá vona að hann falli í rétta átt, annars gæti mannslíf verið í veði!

 Viðbót:

Eftir að færslan var rituð hefur mbl.is skipt um mynd við fréttina. Því er upphaf pistilsins úrelt.

 

 


mbl.is Úr álögum moldarkofanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband