Að hamra járnið kalt

Svo lengi má hamra kalt járn að það mótist. Þetta er málpípum ferðaþjónustunnar að takast, að hamra svo á hæpnum eða röngum forsendum að þær hljóma sem sannar.

Á góðviðrisdögum er talað um ferðaþjónustuna sem einn af hornsteinum íslensks hagkerfis og vissulega má að hluta taka undir það, eða hvað?

Velta ferðaþjónustunnar hefur vissulega aukist ævintýralega síðustu ár, enda fjölgun ferðafólks til landsins svo mikil að vart þekkist annað eins á byggðu bóli. Það er þó margt að í íslenskri ferðaþjónustu, gullgrafaraævintýrið virðist blómstra þar sem aldrei fyrr. Verðlag á þjónustunni er með þeim hætti að mafíósar myndu skammast sín. Þegar gengið féll, eftir hrun, voru allir verðmiðar í erlendum gjaldmiðlum, þegar svo gengi krónunnar fór að rísa, þótti ferðaþjónustunni hæfilegra að færa sína verðmið yfir í íslenskar krónur. Þetta hefur leitt til þess að fyrir herbergiskytru sem vart er fólki bjóðandi er tekið eins og um fimm stjörnu hótel sé að ræða. Sjoppumatur er verðlagður sem stórsteikur. Og svo kenna þeir sem tjá sig fyrir hönd ferðaþjónustuaðila alltaf einhverju öðru um, þegar sökudólgurinn er óhófleg fégræðgi þeirra sem að þessari þjónustu standa.

Umræðan í dag er um hækkun á virðisaukaskatti, á þjónustu sem veitt er ferðafólki. Samkvæmt orðum framkvæmdastjóra SAF mun þessi hækkun nema um 20 milljarða kostnaðarauka á ferðaþjónustuna. Ekki ætla ég að draga þá fullyrðingu í efa, enda ætti hún að vita hvað hún segir.

Nú er það svo að ekki er verið að tala um að hækka vask á ferðaþjónustuna umfram aðra þjónustu, einungis verið að afnema undanþágur sem ferðaþjónustan hefur notið. Undanþágur frá vask greiðslum, sem auðveldlega má túlka sem ríkisstyrk. Þessi ríkisstyrkur hefur því verið nokkuð ríflegur, u.þ.b. 43% hærri en sú upphæð sem notuð er til landbúnaðar í landinu.

Ef það er svo að ferðaþjónustan getur ekki keppt á sama grunni og önnur þjónusta í landinu, er spurning hvort hún eigi yfirleitt tilverurétt. Þetta eru stór orð og kannski full mikið sagt, en einhver ástæða hlýtur að liggja að baki "vanda" ferðaþjónustunnar. Væri kannski hægt að reka þessa þjónustu á sama grunni og aðra þjónustu ef arðsemiskrafan væri svipuð? Getur verið að græðgin sé að fara með ferðaþjónustuna?

Afnám undanþágu á vask greiðslu ferðaþjónustunnar er tengd öðru og stærra máli, nefnilega lækkun á almennu vask prósentunni. Þetta er því ótvíræður hagnaður fyrir almenning í landinu. Hvers vegna hefur enginn innan verkalýðsbáknsins tjáð sig um það? Hvers vegna opnar verslun og þjónusta ekki á þá umræðu? Hvers vegna þegja allir fjölmiðlar um þessa lækkun á vask prósentunni til almennings? Þessi mál eru þó spyrt saman.

Ferðaþjónustan vill ekki borga skatta og ferðaþjónustan kallar eftir lækkun gengis krónunnar. Þetta tvennt fer þó illa saman. Ef ferðaþjónustan er svo illa stödd að nauðsynlegt er fyrir hana að fá undanþágur frá skattgreiðslum, er hún væntanlega nokkuð skuldsett. Lækkun gengis krónunnar leiðir sannarlega til aukinnar verðbólgu og hækkunar á vöxtum. Varla eru skuldsett fyrirtæki að sækjast eftir slíku. Jafnvel þó víst sé að ferðaþjónustan muni færi verðmiða sína yfir í erlenda gjaldmiðla, svona á meðan gengið er fellt, dugir það vart til ef skuldastaðan er sú að undanþága á sköttum er nauðsyn.

Ekki getur verið að rekstrarkostnaður sé að sliga ferðaþjónustuna. Vegna þess hve hátt gengi krónunnar er, er ljóst að erlendur kostnaður, s.s. byggingarefni og fleira, hefur sjaldan verið lægra. Innlendur kostnaður er vart að leggja hana. Að vísu voru nokkrar hækkanir launa, en þar sem þær hækkanir eru í prósentum og grunnurinn sem sú prósentutala er lögð á svo lág, er þar einungis um smáaura að ræða, í samhengi við veltu í ferðaþjónustu. Fram til þessa hafa þessi fyrirtæki farið yfir einkalönd fólks án þess að greiða svo mikið sem eyri fyrir, jafnvel heilu flokkarnir af rútum sem mæta heim á hlað hjá fólki, án þess að spyrja húsráðendur. Ferðaþjónustan hefur vaðið yfir landið án þess að skeyta um eitt né neitt og skilið heilu svæðin eftir í sárum. Víða er svo komið að vart er hægt að komast nærri náttúruperlum landsins vegna stórskaða á umhverfinu. Svo er bara kallað eftir hjálp frá ríkinu og það krafið um bætur?!

Að margra mati er fjöldi ferðamanna kominn langt yfir þolmörk. Ekki þarf að fara víða til að sjá að a.m.k. sumir staðir eru komnir langt yfir þolmörkin. Málpípur ferðaþjónustunnar tala í sífellu um að dreifa þurfi betur ferðafólki um landið, að nægt pláss sé fyrir fleiri ferðamenn ef dreifingin verður meiri. En með það, eins og annað, eiga einhverjir aðrir að sjá um þá dreifingu. Það er þó ljóst að enginn getur séð um þá dreifingu nema þeir sem selja ferðirnar. Þá komum við enn og aftur að fégræðginni. Í auglýsingum erlendis eru fagrar myndir af okkar helstu perlum, minna um myndir frá öðrum perlum landsins og auðvitað engar myndir af moldarflögunum sem eru komin við fallegustu staðina. Þetta leiðir til þess að erlendir ferðamenn sækjast mest eftir að heimsækja þá staði sem fallegu myndirnar eru af. Af einskærri fégræðgi vilja því allir ferðaþjónustuaðilar selja inn á þá, það er auðvelt og gefur mest í aðra hönd. Að kynna nýja staði kostar peninga og enn og aftur vill ferðaþjónustan að þeir komi úr ríkissjóði.

Ferðaþjónustan fær nú 20 milljarða í dulbúnum ríkisstyrk, borgar lægstu laun sem þekkjast í landinu og greiðir helst ekki fyrir neitt sem hún selur ferðafólki. Henni er ekki vorkunn.

 

 


mbl.is Mikið virðingarleysi stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög nr.73/2001

Eitthvað virðast stofnanir ríkisins vera utangátta. Samkvæmt lögum 73/2001 eru ákvæði um fólksflutninga á landi alveg skýr, hvaða leifi þarf, hver veitir þau leifi og hvernig farið skuli með þá sem ekki fara að þessum lögum. Samkvæmt þessum lögum starfa allir innlendir aðilar og því ætti Samgöngustofu að vera full ljóst um tilveru þessara laga. Það vekur því furðu að nú telji hún þessa starfsemi "falla milli laga".

Varðandi kjaramál þeirra sem starfa hjá þessum erlendu fyrirtækjum hér á landi, þá á ASÍ og aðildarfélög þess að hafa fullt vald til að taka á þeim vanda. Það eru í gildi kjarasamningar í landinu og eftir þeim skal farið, þar fellur ekkert milli laga. Þetta veit Halldór, þó hann virðist helst vilja að einhverjir "aðrir" taki á vandanum.

Um skattaundirskot þessar erlendu fyrirtækja er það eitt að segja að meðan til þess bær eftirlitskerfi, Samgöngustofa og ASÍ, ekki standa sig í sínu hlutverki, er andskoti erfitt fyrir skattayfirvöld að taka á málinu. Það er erfitt að skattleggja það sem hvergi er til á blaði.

Það er því lítil tilgangur að kalla saman fjölda fólks, víðs vegar úr stjórnkerfinu vegna málsins og einungis til þess eins að þæfa það og tefja lausnir. Í raun snýr þetta vandamál fyrst og fremst að Samgöngustofu og ASÍ og þeirra að leysa það. Vel getur hugsast að aðstoðar þurfi frá lögreglu til lausnar málsins og þá verður svo að vera.

Ástæða þess að erlendir aðilar flæða inn á íslenskan ferðamarkað er fyrst og fremst vegna þess að þeim er leift slíkt, að viðkomandi aðilar sem eftirlitinu eiga að framfylgja, eru ekki að standa sig. Lögin eru til staðar, kjarasamningar eru til staðar og því ekkert sem stendur í veginum.

Ef íslenskur aðili kaupir sér rútu og fer að praktísa með hana án tilskilinna leifa, eru þessar stofnanir fljótar til, mæta með lögreglu og stöðva starfsemina.

Hvers vegna ekki þegar erlendir aðilar stunda sömu lögbrot?!


mbl.is Lítið eftirlit með erlendum fyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SJS að vakna af dvala?

Mynni mitt er kannski betra en margra annarra, í það minnsta man ég vel átta ár aftur í tímann. Þá sat í stól fjármálaráðherra maður sem gerði sér mjög svo dælt við fjármagnöflin og "nýfrjálshyggjuna".

Ekki að mér svo umhugað um að verja gerðir og hamskipti Óttars Proppé, heldur hitt að þeir sem gagnrýna ættu fyrst og fremst að hafa efni á slíku.

Ef ekki hefði komið til árvekni þáverandi forseta lýðveldisins og síðan þjóðarinnar, hefði SJS fært fjármagnsöflunum og "nýfrjálshyggjunni" Ísland á silfurfati. Með þessari aðkomu forsetans og svo þjóðarinnar, tókst að lágmarka þann skaða sem SJS olli landi og þjóð.

Það er merkilegt að þessi maður skuli enn sitja á Alþingi, enn merkilegra að hann skuli þora að tjá sig þar innan veggja.


mbl.is Handjárnar BF sig við nýfrjálshyggjuna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggt fyrir unga fólkið

Mikill skortur er á íbúðahúsnæði í borginni, einkum fyrir ungt fólk sem er að koma sér upp sinni fyrstu íbúð. Reykjavíkurborg einblínir að mestu á þéttingu byggðar, þar sem byggingakostnaður er mun hærri en ella. Undantekningar eru þó á þessu og sum svæði sem tekin eru til uppbygginga eru ósnortin, þ.e. ekki verið að byggja innanum önnur hús. Þetta á við um uppbyggingu svokallaðs Valsreits, eða við enda neyðarflugbrautar Reykjavíkurflugvallar. Þarna ætti því byggingakostnaður að vera tiltölulega lágur.

Í fréttinni kemur fram að uppbygging svæðisins muni kosta 77 þúsund milljónir. Einnig kemur fram í sömu frétt að heildarfjöldi íbúða, þegar svæðið hafi verið byggt að fullu, muni verða um 600. Með einföldum reikningi má því segja að kostnaður við hverja íbúð muni verða tæplega 130 milljónir og ofaná þá upphæð reiknast síðan einhver þóknun til hinna svokölluðu "Valsmanna". Varla eru þeir að standa í þessu brasi til samfélagshjálpar. Og ekki má heldur gleyma "ófyrirséða kostnaðnum" sem er einkenni okkar íslendinga, sér í lagi í stærri framkvæmdum.

Til að gæta sanngirnis er rétt að taka fram að til frádráttar á þessum einfalda reikning um kostnað hverrar íbúðar, mun eitthvað af verslunar og fyrirtækjahúsnæði einnig vera á svæðinu. En jafnvel þó það lækki eitthvað meðalverð íbúða á svæðinu, er ljóst að það mun slaga hátt í 100 milljónir hver íbúð, að meðaltali.

Segið svo að borgaryfirvöld séu ekki að hugsa um ungafólkið, fólkið sem ekki kemst úr foreldrahúsum. Það mun auðvitað flykkjast til að kaupa þessar "hræ ódýru" íbúðir.

Skítt með þó ein af lífæðum landsbyggðafólks sé skorin. Vinir borgarstjórnarmeirihlutans þurfa auðvitað sitt og ganga fyrir.


mbl.is 77 milljarða króna framkvæmd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott þegar vel gengur

Það er gott þegar fyrirtækjum gengur vel og eigendur þeirra geta greitt sér arð.

Hins vegar stingur mann að HB Grandi skuli ætla að loka allri bolfiskverkun á Akranesi, vegna þess eins að tímabundin hagnaður af þeirri vinnslu er ekki eins mikill og eigendur hefðu viljað.

Sá arður sem eigendur HB Granda tekur sér nú samsvarar launum allra kvennanna sem vinna í bolfiskverkun fyrirtækisins á Akranesi, í heil fimm ár!! Þær konur standa nú frammi fyrir atvinnuleysi og fæstar þeirra eiga möguleika á annarri vinnu í heimabyggð.

Ef einhverjir hafa tilefni til að skammast sín, þá eru það eigendur HB Granda!!


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbreytt ástand er sannarlega óforsvaranlegt!

Ekki varðandi krónuna okkar, enda hélt hún lífi í þjóðinni eftir að "fjármálasnillingarnir" höfðu sett alla banka landsins á hausinn og hjálpaði okkur að komast undan þeim vanda.

Nei, það óbreytta ástand sem er óforsvaranlegt er þátttaka Viðreisnar í ríkisstjórn. Þar fer fólk sem hugsar um það eitt að koma Íslandi inn í brennandi hús ESB, þrátt fyrir að sífellt stækkandi meirihluti þjóðarinnar sé eindregið andvígur aðild að brunarústum ESB.

Fulltrúar Viðreisnar svífast einskis í sinni krossferð til ESB. Niðurrif og níð alls sem íslenskt er eru helstu aðferð þessa fólks. Sjálfur fjármálaráðherrann níðist á gjaldmiðlinum sem honum ber að verja. Landbúnaðarráðherra vill landbúnaðinum það versta þó frestun hafi orðið á þeim aðgerðum hennar fram á haust. Svona mætti lengi telja. Markmiðið er þó einungis eitt, að koma þjóðinni undir ESB. Rústun á íslensku hagkerfi er að mati þessa fólks réttlætanleg í þeim tilgangi.

Það er því með öllu óforsvaranlegt að þessi flokkur fái aðild að ríkisstjórninni, flokkur sem tæplega kæmi manni á Alþingi ef kosið yrði nú!!


mbl.is Óbreytt ástand „óforsvaranlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband