Einvaldurinn í Guðrúnartúninu

Hver færði forseta ASÍ það vald að ákveða örlög launafólks í landinu? Hvaða heimild hefur hann til að ákveða frestun á opnun kjarasamninga, þegar forsendubresturinn er staðfestur?

Þegar síðustu kjarasamningar voru gerðir var það án allrar aðkomu ASÍ. Eftir bitra reynslu ákváðu launþegar að heimila EKKI sínum stéttarfélögum að afhenda sambandinu samningsréttinn.

Í þessum samningum var ákvæði um endurskoðun um hvort forsendur kjarasamningsins stæðust. M.a. var ein slík endurskoðun nú í febrúar. Af einhverjum óþekktum ástæðum hefur forseti ASÍ staðið í þessari endurskoðun, sem fulltrúi launþega. Ekki minnist ég þess að launþegar hafi verið spurðir um hvort þeir treystu þeim manni til verksins, en kannski skiptir það ekki öllu máli. Endurskoðunin sjálf er í sjálfu sér einföld, skoðað er hvernig staðið hefur verið við þau loforð sem í samningnum fólust. Í ljós kom, eins og flestir hugsandi menn vissu, að forsendubrestur varð á kjarasamningnum. Þar með er kjarasamningurinn laus, opinn. Ekkert ákvæði var í kjarasamningnum að semja mætti um slíka opnun, samningurinn einfaldlega opnast ef forsendur standast ekki. Einfalt og auðskiljanlegt fyrir flesta.

Auðvitað getur sú staða komið upp, eins og hugsanlega má segja að sé nú uppi, að ekki sé skynsamlegt að opna samningana og betra sé að semja um frestun þess. Þá ákvörðun geta og meiga hins vegar launþegar einir taka. Formenn stéttarfélaga hafa ekki það ákvörðunarvald og enn síður forseti samtaka stéttarfélaga.

Þá var ömurlegt að hlusta á viðtal við forseta ASÍ í kvöldfréttum ruv. Ekki einungis talaði hann þar eins og hann væri einhver fulltrúi launþega landsins, heldur blandaði þar saman ótengdum málefnum og ruglaði beinlínis út í eitt. SALEK samkomulagið var honum þar hugleikið, eins og áður, þó launþegum hafi að gæfu tekist að gera síðasta kjarasamning án þess að spyrða þann ófögnuð saman við hann. Því kemur SALEK samkomulagið ekkert við endurskoðun kjarasamnings nú.

SALEK samkomulagið er hugðarefni SA og forseta ASÍ. Launþegar hafa aldrei lagt blessun sína yfir það samkomulag, enda ekki annað en skelfing sem það samkomulag getur leitt yfir launafólk. Nú er það samkomulag fullkomlega fallið um sjálft sig, þar sem einn stæðsti aðilinn að því, sjálft ríkið, hefur engan vilja til að fara eftir því. Forseti ASÍ, sem í óleyfi launþega hefur unnið að þessu samkomulagi, verður að átta sig á að hann kemst ekki lengra með það, sama hvað vinir hans í SA segja.

Allt frá því núverandi forseti ASÍ settist í þann stól sem hann vermir, hefur hann ljóst og leynt unnið gegn launþegum þessa lands. Hann á að skammast til að segja sig frá þessu starfi og það strax!!


mbl.is Kjarasamningum ekki sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátt hreykir heimskur sér

Þorgerður Katrín, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra hrópar húrra fyrir sjálfri sér. Þykist hafa unnið stórsigur.

Kjaradeila sjómanna nú, er (var) einhver sú erfiðasta hingað til. Þegar loks kom að því að deiluaðilar náðu saman stóð eitt mál útaf, skattur á matar og dagpeninga. Um réttlæti þess afsláttar má lesa í síðasta pistli mínum og ætla ég ekki að fjölyrða um það hér, en ítreka að starfsfólk ráðuneyta, þ.m.t. ráðherrar njóta slíkra fríðinda, jafnvel þó allur kostnaður sé greiddur.

Deiluaðilar mættu á nokkra fundi með ráðherra og reyndu hvað þeir gátu að koma henni í skilning um hvað málið snerist, en ráðherra gaf sig ekki. Það var svo loks í fyrrakvöld sem ráðherra mætti á fund deiluaðila með "sáttatillögu". Ekki hefur fengist upp gefið hvað fólst í þeirri tillögu, en samningsaðilar höfnuðu henni, kannski vegna þess að ráðherra veifaði byssu um lögbann, ef ekki væri gengið frá samningi. Reyndar hefur ráðherra sagt að hún hafi ekki hótað neinu, þó hún gerði deiluaðilum ljóst að lögbann yrði sett á verkfallið, ef ekki væri samið. Hvernig ráðherra skilgreinir hótun verður hún auðvitað að hafa fyrir sig.

Eftir þennan fund með ráðherra settust samningsaðilar niður og gengu frá samningi, enda ekki um annað að ræða. Lausnin fólst í að útgerðin greiði matinn fyrir sjómenn. Nú veit ég ekki hvort í tillögum ráðherra var að sú lausn myndi leysa sjómenn undan því að greiða skatt af fæðishlunnindum, að öðrum kosti breytir engu fyrir sjómenn þó útgerðin skaffi þeim frítt fæði. Hafi, hins vegar, í tilboði ráðherrans falist loforð um skattleysi á matarhlunnindi, er ljóst að kostnaður ríkisins verður mun meiri en ef skattleysi á matarpeninga hefði verið samþykk. Það hefur komið fram að þessi breyting á kjarasamningnum mun kosta útgerðina töluverða peninga og þann kostnað mun hún auðvitað setja inn í reksturinn. "Tapaðar" skatttekjur ríkisins munu því verða umtalsvert hærri með þessari lausn, en ef gengið hefði verið að kröfum sjómanna.

Ef sjómenn þurfa að greiða skatt af þessum hlunnindum, mun "tekjutap" ríkisins verða minna, þó hærra en ef matarpeningar hefðu verið gerðir skattlausir. Þá mun hins vegar verða erfitt að fá þennan kjarasamning samþykktan.

Allir vita hvað það þíðir ef samningurinn verður felldur, ráðherra hefur sagt það sjálf. Þá verða strax sett lög á deiluna, lögbann á verkfallið. Jafnvel þó allir viti hver staðan er, skal ráðherra ekki ganga út frá því sem gefnu að samningurinn verði samþykktur. Veigamesta atriðið fyrir sjómenn er að þeir viti hvort fæðishlunnindin verða undanþegin skatti.

Ef svo er, ef ráðherra hefur lofað samninganefndunum að sjómenn yrðu undanþegnir skatti af matarhlunnindum, er ljóst að ráðherrann valdi mun dýrari leið til lausnar deilunni. Ekki verður séð annað en að það hafi þá verið vegna fádæma þrjósku. Að vegna ótímabærra yfirlýsinga á fyrri stigum málsins hafi ráðherra frekar valið dýrari leiðina en að éta ofaní sig vanhugsuð ummæli.

Slíkur ráðherra er með öllu óhæfur í starfi!!

 


mbl.is „Eitt stórt takk og húrra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðvituð eða ómeðvituð fáviska ráðherra

Framkoma sjávarútvegsráðherra minnir mjög á framkomu nýkjörins forseta Bandaríkjanna. Hún hljóp fram með staðlausa stafi, strax og gagnrýni kom á hana um afskiptaleysi vegna sjómannaverkfallsins. Þvermóðskan leyfir henni síðan ekki að snúa af villu síns vega, þrátt fyrir að allar staðreyndir segi að hún hafi rangt fyrir sér.

Sjálfur er ég verkamaður í landi og vinn þannig vinnu að ég fæ greidda fæðispeninga, að hluta til utan staðgreiðsluskatts en skatt þarf ég að greiða af hluta þessa fjár. Ég fæ ekki dagpeninga, enda fer ég til vinnu heiman frá mér og kem heim aftur í faðm fjölskyldunnar að vinnuvakt lokinni. Hjá henni er ég síðan þar til næsta vakt hefst.

Ef ég væri sendur út á land, af mínum vinnuveitanda, fengi ég að sjálfsögðu dagpeninga sem munu þá innihalda fæðispeninga að auki. Það eina sem ég þarf að gera er að passa upp á allar nótur vegna fæðis og uppihalds í þeirri ferð og þar með losna ég undan skattgreiðslu af þeim dagpeningunum.

Hjá ráðuneytunum er þessu aðeins öðruvísi farið. Auðvitað fá starfsmenn þeirra, einnig ráðherrar, dagpeninga þegar farið er út fyrir höfuðborgina, en þessir aðilar þurfa hins vegar ekki að hirða um nótudraslið. Þeirra dagpeningar eru utan staðgreiðslu. Nú er það svo að þegar ráðamenn þjóðarinnar gera svo lítið að láta sjá sig í hinum ýmsu byggðum landsins, er gjarnan slegið upp veislu þeim til handa, enda ekki á hverjum degi sem slíkt mektarfólk kemur í heimsókn. Hvort til slíkrar veislu var boðið í ferð sjávarútvegsráðherra á Vestfirði, síðustu daga, veit ég ekki, en þar sem vestfirðingar eru einstaklega gestrisið fólk má fastlega gera ráð fyrir að ráðherrann hafi fengið a.m.k. eina fría máltíð í ferðinni. Dagpeningar hennar minnka þó ekkert við það.

Það liggur því fyrir að allt launafólk, utan sjómenn, fær dagpeninga þegar það þarf að stunda vinnu fjarri heimili sínu. Svolítið er misjafnt hvernig farið er með fólk varðandi skattaskil af þessum peningum,sumir þurfa að sanna kostnað á móti meðan aðrir, t.d. starfsfólk ráðuneyta, fær skattafsláttinn sjálfkrafa. Eðli málsins samkvæmt er útilokað að krefja sjómenn um kostnaðarnótur til að fá skattafslátt af dagpeningum.

Ástæðu þess að sjómenn hafa ekki þessi fríðindi eru auðvitað þekkt. Frá árinu 1957 til ársins 2009 höfðu sjómenn svokallaðan sjómannaafslátt, þ.e. ákveðinn skattafslátt af sínum tekjum fyrir hvern dag sem verið var á sjó.

Það var svo hin eina tæra vinstristjórn sem afnám þennan afslátt með einu pennastriki og sjómenn sátu eftir, eina starfstéttin á Íslandi, sem engar bætur fær fyrir að stunda vinnu fjarri faðmi fjölskyldunnar svo dögum og vikum skiptir. Sjávarútvegsráðherra kallar þessa aðgerð vinstristjórnarinnar "einföldun á skattkerfinu". Sú ríkisstjórn hefur aldrei fyrri verið talin hafa einfaldað skattkerfið hér álandi, þvert á móti.

Fram hefur komið í máli ráðherra að skattleysi á dag og fæðispeninga sjómanna muni kosta ríkissjóð yfir 700 milljónir króna. Það er ekki stór upphæð miðað við mörg kúlulánin sem afskrifuð voru eftir hrun. Þá má einnig snúa dæminu við og segja að ríkissjóður sé að ofskattleggja sjómenn um þessa upphæð.

Það sem eftir stendur er að ráðherra vill ekki eða getur ekki skilið samhengi hlutanna. Krafa sjómanna er fjarri því að vera upp á marga milljarða, eins og ráðherra lét frá sér á fyrstu stigum málsins. Krafa sjómanna er ekki nein niðurgreiðsla á launakostnaði útgerðarinnar, eins og margoft hefur oltið af vörum ráðherrans.

Krafa sjómanna er einungis að samræmis verið gætt. Að þeir fái það sama og allt annað launafólk í landinu, fái skattafslátt af dag- og fæðispeningum. Þar sem þeim er ómögulegt að leggja fram kostnaðarnótur móti þessum skatti, er eina leiðin að þetta verði tekið út fyrir staðgreiðslu, svona eins og hjá ráðuneytunum. Ef ráðherrann vill endilega að það gangi jafnt yfir allt launafólk má hæglega gera slíkt, án nokkurs kostnaðar fyrir ríkissjóð.

Samningur liggur fyrir milli sjómanna og útgerða. Ekki verður þó skrifað undir fyrr en ráðherra brýtur odd af oflæti sínu! Verkfallið er því allt hennar, hér eftir.


mbl.is „Ætlumst til þess að þeir klári deiluna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sjaldan hef ég flotinu neitað"

Bretar vilja ekki hafa flot í sínum peningum. Reyndar vissi ég ekki að slíkt væri algengt, svona yfir höfuð.

Það sem kannski kemur mest á óvart er að svokallaðar vegan ætur eru hellst mótfallnar flotinu. Því vaknar sú spurning til hvers Bretar brúka peningaseðla, hvort þeir séu soðnir í súpu og étnir!


mbl.is 100.000 manns mótmæla nýjum seðli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegatollar

Hugmyndin um vegatolla er ekki ný af nálinni, umræðan um þá leið hefur alltaf dúkkað upp aftur og aftur. Að mörgu leyti er þessi hugmynd ekki fjarstæðukennd, enda hugsunin að þeir sem nýta sér vegakerfið greiði fyrir þá notkun.

Því er hugmyndin um vegatolla alls ekki svo vitlaus, nema fyrir þá einföldu staðreynd að þeir sem um vegina fara eru þegar að greiða vel fyrir, reyndar svo vel að erfitt er að sjá hvaða rök réttlæta vegatollana. Bifreiðaeigendur, en það er jú í flestum tilfellum bílar sem um vegina aka, eru að greiða um 70 milljarða á ári til ríkisins. Ekki er hægt að sjá í fjárlögum ársins 2017 nákvæmlega hversu mikil útgjöld ríkisins eru til vegamála, þar sem fjarskipum er þar spyrt saman við vegamál. Til þeirra tveggja málaflokka er áætlað að nýta tæpa 29 milljarða, af þeim 70 sem innheimtast. Frekar lélegar endurheimtur!  

Ráðherra bendir réttilega á að víða erlendis séu vegtollar þekktir. Það er vissulega rétt, en hann lætur vera að nefna þá staðreynd að þar sem slíkt er gert eru aðrar álögur á bíleigendur mun minni en hér á landi og sumar álögur hér með öllu óþekktar þar ytra. Bíleigendur þurfa þar ekki að greiða til ríkisins nánast jafn háa upphæð og framleiðandinn, flutningsaðilinn og dílerinn fær, þegar keyptur er nýr bíll. Þar þurfa bíleigendur ekki heldur að greiða til ríkisins nánast sömu upphæð fyrir eldsneytið og framleiðandi þess, flutningsaðilar og dreifingaraðilar fá. Svona mætti lengi telja.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að taka upp vegtolla og fráleitt að halda því fram að með því væri verið að brjóta einhverja jafnræðisreglu. Ekki frekar en sú innheimta sem nú er stunduð á bíleigendur.

En frumforsenda vegtolla hlýtur að vera að aðrir tollar og gjöld séu þá lækkuð eða afnumin. Það er sjálfsagt að bera sig saman við erlendar þjóðir og taka upp það sem vel reynist þar, ef við teljum það gera okkur gagn. Þá verðum við að sjálfsögðu að horfa til heildarmyndarinnar, ekki bara einn þátt.


mbl.is Brýtur ekki gegn jafnræði íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldur sá er á heldur

Mikil snilld var gerð við samningu stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og ekki að undra þó tíma hafi tekið að setja þennan sáttmála saman. Snilldin sem gerð var felst í því að þessi sáttmáli getur fallið öllum í geð, fer eftir hvernig hann er lesinn og hvaða skilning menn setja í það sem fram er sett. Marinó G Njálsson fer vel yfir þennan sáttmála á bloggsíðu sinni og gerir það vel, eins og annað. Þessi úttekt hans er mjög góð og litlu við hana að bæta.

Þó langar mig til að taka einn kafla sáttmálans upp hér, þ.e. kaflann um landbúnað. Þó þetta sé ein að burðarstoðum samfélags okkar er kaflinn um landbúnað ansi rýr.

Úr stjórnarsáttmálanum:

Landbúnaður

Áfram skal lögð áhersla á framleiðslu heilnæmra, innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði. Velferð dýra verði í hávegum höfð. Skilvirkt eftirlit með dýrum og matvælaframleiðslu verði tryggt, sem og gætt að neytendavernd.

Breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skulu miða að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. Jafnframt verði horft til samkeppnisstöðu landbúnaðar á Íslandi vegna legu landsins, veðurfars og takmarkaðra landgæða. Hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verður ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Leggja ber áherslu á að draga ekki úr hagkvæmni og styðja áfram við jafna stöðu bænda eins og kostur er.

Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Verður af hálfu stjórnvalda hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum. Endurskoða þarf ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar.

Við fyrsta lestur þessa kafla virðist þarna vera vel hugað að landbúnaðnum. Talað um heilnæmi, fjölbreytni, skilvirkt eftirlit, hagsmuni bænda og fleira fallegt í þeim dúr. Semsagt hið besta mál. En þarna er einungis hálfur sannleikurinn.

Ekki kemur á óvart, með tilliti til hvaða flokkar mynda þessa ríkisstjórn, að vægi þeirra sem sjá um að höndla með landbúnaðarvörurnar er þarna aukið verulega og er það kallað "valfrelsi neytenda". Enginn fer í grafgötur með að þarna er fyrst og fremst verið að huga að hag verslunar í landinu og ætti engum að láta sér detta til hugar að hún skili neinu til neytenda. Verslunin í landinu hefur ekki sýnt þroska til að huga að hag neytenda á neinu sviði, eins og umræða síðustu vikna hefur sannað svo áþreifanlega. Álagning verslunarinnar er hvergi í hinum vestræna heimi hærri en hér og bera ársreikningar hennar merki þess.

Í málsgreininni um endurskoðun á búvörusamningi eru sett fram markmið. Þar er m.a. talað um auknar greiðslur til nýliðunnar og er það hið besta mál. Hins vegar er talað um að draga úr framleiðsluframlögum og auka landnýtingarframlög. Allir sem til þekkja kannast við fingraförin á þessari leið og að hún er ættuð frá landbúnaðarstefnu ESB, landbúnaðarstefnu sem sigldi í strand fyrir mörgum árum síðan, þó stjórnendur sambandsins hafi ekki áttað sig á þeirri staðreynd.

Auðvitað er gott að vera opinn fyrir því sem aðrar þjóðir eru að gera, en þá á auðvitað að leita til þeirra sem eru að gera hlutina betur en við, ekki þeirra sem hafa undanfarin ár og áratugi markvisst unnið að rústun landbúnaðar í sínum löndum, s.s. löndin innan ESB! Við eigum að sækja það sem gott er til annarra, en láta hið slæma eiga sig.

Reyndar er nokkuð undarlegt að koma fram með einhliða markmið. Þetta er jú endurskoðun á gildandi samningi og slík endurskoðun hlýtur að verða samningsatriði. Eða til hvers var ráðherra að skipa 13 manna hóp í slíka umræðu, ef niðurstaðan liggur fyrir?!

Loks er svo imprað á innflutningskvótana og samkeppnislög, í lok kaflans um landbúnaðarmál. Þar er maður engu nær. Þar er algerlega opinn tékki.

Hið snilldarlega orðalag þessa kafla, sem og flestra eða allra kafla sáttmálans, gerir það að verkum að ekki verður komið hönd á neitt haldbært um stefnu í landbúnaðarmálum.

Þar veldur sá er á heldur. Og því miður verður að segja að sá sem á heldur er kannski ekki sá sem bændur treysta best til þess að valda. Ekki að Þorgerður Katrín sé heimskari en annað fólk, þvert á móti er hægt að gera ráð fyrir að gáfnafar hennar sé í góðu lagi.

Hitt er staðreynd að hún á engar rætur til sveita landsins, leikaradóttir alin upp á mölinni. Það er einfaldlega til of mikils mælst að skilningur hennar á landbúnaði sé með þeim hætti að hún geti tekið réttar ákvarðanir í þeim málaflokki, sér í lagi þegar stjórnarsáttmálinn gefur henni svo frítt spil sem raunin er. Því miður.

 

 


Móðganir lýsa þeim sem þær nota

Maður verður eiginlega alveg orðlaus að hlusta á þjóðkjörna fulltrúa landsins flytja slíka tillögu, sem þingmenn VG gera. Svo arfavitlaus sem hún er og algjörlega út í hött. Og ekki nóg með að þetta fólk vilji fá að móðga erlenda þjóðhöfðingja, heldur virðist það setja sig upp á móti því að menn séu dæmdir fyrir að kasta bensínsprengjum að erlendum sendiráðum. Hvað býr eiginlega í höfði fólks sem svona talar?

Þetta kallar þetta fólk málfrelsi. Þvílík afbökun!!

Málfrelsi, sem og öllu frelsi, fylgja takmarkanir. Það er sjálfsögð kurteisi og ætti ekki að þurfa að ræða frekar, að þjóðhöfðingjar erlendra ríkja, sem eru þjóðkjörnir af eigin þjóð, fái notið verndar fyrir móðgunum, í það minnsta þeirra landsmanna sem við sem þjóð kjósum til forsvars fyrir okkur. Auðvitað getur okkur mislíkað stjórnarfar annarra landa og hvernig þjóðhöfðingjar þeirra haga sér. Þá á að rökræða slíkt á réttum vettvangi og færa rök fyrir máli sínu. Móðganir munu aldrei skila neinum árangri.

Beri slíkar rökræður ekki árangur, að okkar mati, höfum við sem þjóð einungis um tvennt að velja, að sætta okkur við það stjórnarfar sem aðrar þjóðir velja sér gildi áfram hjá þeim, nú eða að slíta stjórnmálasambandi við þær.

Það sem vekur ugg hjá manni, við að sjá og heyra þessa tillögu VG á Alþingi, er hvort það fólk sem hana flytjur hafi virkilega ekki vit eða þroska til að stunda eðlilega gagnrýnisumræðu. Hvort þetta fólk sé svo skini skroppið að telja móðganir vera það eina sem dugi í kappræðum.

Illa er farið fyrir íslensku lýðræði, þegar svo þenkjandi fólk nær kjöri til Alþingis. Þá er hætt við að erfitt reynist fyrir okkur að rökstyðja slæmt stjórnarfar annarra þjóða!!

 

 


mbl.is Löglegt verði að móðga þjóðhöfðingja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband