Sex mánaða uppsagnarfrestur?

Illa er komið fyrir öldruðum.

Við sem þjóð erum okkur til skammar með afskiptaleysi þessa hóps og hversu naumt við skömmtum honum af þeim auð sem aldrað fólk hefur búið okkur sem yngri erum, með eljusemi sinni.

Nú bætist við að aldraðir þurfa að segja upp húsnæði sínu með sex mánaða fyrirvara, áður en það drepst. Að öðrum kosti mun verða sótt að þeim með dómstólum.

Sennilega mun þó reynast erfitt að finna lögfræðinga til að reka málin, þar sem fæstir þeirra fá vist í efra!


mbl.is Lögsækir heilabilaðan öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með skítinn upp á bak

Eftir stendur fréttastofa ruv með skítinn upp á bak.

Ekki í fyrsta sinn sem þessi fréttastofa æðir af stað með fréttir sem ekki standast skoðun. Sú einlæga árátta fréttastofunnar að flytja fréttir einhliða og í æsifréttastíl, jafnvel þó lög um ríkisútvarpið segi skýrt að stofnunin eigi að vera hlutlaus, er með eindæmum.

Þegar svo er komið, fyllast jafnvel hörðustu aðdáendur ríkisútvarpsins efasemdum um hvort stofnunin sé réttlætanleg, í þeirri mynd sem hún er.


mbl.is Mjög dregið úr brottkasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískar galdrabrennur

Nokkrum einstaklingum tókst að klófesta hér fjármálakerfið og yfirtaka alla banka landsins. Þessum mönnum var hampað af þjóðinni og ekki síst fjölmiðlum. Sumir stjórnmálaflokkar nutu gjafmildi þessara manna og mærðu þá mjög. Svo hrundi allt. Landið fór nánast á hausinn og leit út fyrir um tíma að við yrðum ómagar heimsbyggðarinnar. Afreksmennirnir, sem áður voru dáðir fyrir ævintýraleg afrek á heims mælikvarða, höfðu afrekað það eitt að setja heila þjóð nánast á hausinn!

Ríkisstjórnin sprakk. Annar ríkisstjórnarflokkanna, sem voru við völd þann örlagaríka dag sem ormagryfjan opnaðist, hélt þó áfram völdum og fékk til lið við sig þann flokk sem lengst hafði verið utan stjórnar, í lýðveldinu. Það eina skilyrði sem sá flokkur setti, svo mynda mætti ríkisstjórn, var að virkja Landsdóm, úreltan dóm sem í raun var ekkert annað en pólitískur bálköstur.

Á þann bálköst voru settir nokkrir vel valdir stjórnmálamenn, pólitískir andstæðingar þess flokks sem nú loks komst til valda. En áður en kveikt var undir kestinum, var séð til þess að allir væru leystir af honum, utan einn maður. Illa gekk að kveikja undir bálkestinum og eftir rúma viku var ljóst að einungis brann eitt lítið sprek í honum.

Slíkar brennur tíðkuðust víða fyrr á öldum, en hafa sem betur fer ekki verið brúkaðar í siðuðum löndum um langt skeið. Þar til VG komst til valda, þá var ósiðurinn upp vakinn.

Allir sem með þessum aðförum fylgdust, með viðbjóð, sáu fáránleikann í þessu og flestir fordæmdu þetta. Sá stjórnmálaflokkur sem að aðförinni stóð hefur ekki borið sitt barr síðan. Hann er hinn raunverulegi tapari galdrabrennunnar.

Geir H Haarde þurfti í raun ekki að fara með þetta mál fyrir mannréttindadómstólinn. Í augum flestra landsmanna var hann ekki sekari en aðrir stjórnmálamenn og alls ekki sekari en þeir stjórnmálamenn sem með honum voru í ríkisstjórn, örlagadaginn mikla. Þeir sem sekir voru í galdrabrennunni eru þeir sem gerðu árangurslitla tilraun til að tendra bálið í kestinum, eftir að hafa losað vini sína af honum.

Landsdómur er með öllu úreldur. Þennan dóm á að leggja af. Við höfum byggt upp þrískipt vald hér á landi, löggjafavald, framkvæmdavald og dómsvald. Inn í þá mynd passar pólitískur dómstóll ekki.

Ef menn gerast brotlegir við lög, sér framkvæmdavaldið um rannsókn og dómsvaldið um dóm. Þannig virkar kerfið og þannig fá menn réttlátan dóm. Þetta kerfi virkar fyrir alla landsmenn, líka þingmenn og ráðherra. 

 


mbl.is Ríkið sýknað í landsdómsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Getum við ekki öll verið sammála um það"

Þegar fólk gengur til kosninga velur það væntanlega þann flokk sem hugmyndafræðilega liggur næst viðkomandi. Kýs málefnin.

Nokkuð er ljóst að kjósendur VG kusu ekki þann flokk til að taka upp stefnu Sjálfstæðisflokks, að hluta eða alveg. Líklegt er að kjósendur Sjálfstæðisflokks hafi hugsað á svipaðan veg.

Það er aftur erfiðara að spá í hvað kjósendur Framsóknar hugsuðu, þegar þeir munduðu blýantinn á kjörseðilinn. Eitt er víst að slagorð flokksins var einfalt; "getum við ekki öll verið sammála um það". Síðan komu ýmis mál sem voru spyrt við þessa setningu, mál sem flestir eða allir flokkar eru sammála um. Hvernig farið skuli að því marki greinir þó flokkanna í sundur. Þar skilaði Framsókn passi.

Það er ljóst að allir kjósendur Framsóknar eru sammála um eitthvað. Hvað það er er aftur á huldu. Kannski eru þeir allir sammála um það eitt að halda SDG utan stjórnar. Í það minnsta væri ekki slík ofuráhersla lögð á þá stjórnarmyndun sem nú er í gangi, ef kjósendur flokksins væri sammála um að fylgja eftir stefnuskrá flokksins. Þá hefði verið horft í aðra átt.

Frasarnir velta af miklum móð af vörum þeirra stjórnmálamanna sem nú reyna stjórnarmyndum. "Breið sátt frá hægri til vinstri", "samræðustjórnmál", "að sýna pólitíska ábyrgð", "pólitísk sátt" og fleira í þessum dúr. Saman við þessi slagorð koma svo yfirlýsingar um að allir verði að gefa eftir, að ná þurfi sátt um mikilvægustu málin.

Þessi slagorð hafa oft heyrst áður og fulltrúar allra flokka einhvertímann tekið sér þau orð í munn. En einn er sá flokkur sem stofnaður var beinlínis um slíka pólitík, samræðustjórnmál og breiða sátt milli flokka. Sá flokkur þurrkaðist út af þingi í síðustu kosningum. Það verður því ekki séð að vilji kjósenda sé í þessa átt. Kannski er það einmitt vandinn, kjósendur vilja sterka flokka, ekki eitthvað samsull og moð. Að skilningur stjórnmálamanna og geta þeirra til að lesa niðurstöður kosninga sé ekki nægur.

Hvað sem því líður, þá uppskera samræðustjórnmál ekkert annað en moð. Vandanum er ýtt til hliðar og einungis horft til þeirra mála sem allir eru sammála um. Engar lausnir, engar niðurstöður og engar stórar og erfiðar ákvarðanir. Eftir sitja kjósendur og klóra sér í hausnum, "til hvers í andskotanum var ég að kjósa?"

Það er nefnilega svo að þegar stjórnmálaflokkar, þvert yfir hið pólitíska litróf, verða sammála, er ekki lengur þörf á nema einum stjórnmálaflokk. Kosningarnar myndu þá snúast um það eitt hvaða persónur færu á þing, fyrir þann eina flokk. Stjórnarmyndun væri einföld, einungis spurning um hvaða persónur fengju stólanna! Lýðræðinu væri í raun útrýmt!

Forsenda lýðræðis er að vilji kjósenda sé virtur, að þeir flokkar sem vinna stæðstu sigrana í kosningum fái sæti í stjórn næsta kjörtímabil. Að þeir flokkar sem hafa pólitíska stefnu sem næst þeim sigurvegurum gangi til þeirrar stjórnar. Síðan kveður þjóðin sinn dóm að fjórum árum liðnum. Nú virðist vera, í annað sinn á skömmum tíma, sem þessum gildum lýðræðisins skuli kastað fyrir róða. Aftur á að mynda ríkisstjórn um málefni sem allir flokkar aðhyllast og aftur skal frestað að skilgreina hvað leið verður farin að því marki. Aftur munu erfiðu málin verða sett í salt og enn og aftur er vilji kjósenda hundsaður.

Þegar mynduð verður stjórn flokka sem ýmist rétt náðu að halda í horfinu eða töpuðu umtalsverðu fylgi, meðan flokkar sem sannarlega áttu hug kjósenda er haldið utan stjórnar, er verið að afskræma lýðræðið. Eftir kosningarnar 2016, var mynduð ríkisstjórn þriggja flokka. Af þeim þrem flokkum gat þó einn titlað sig sigurvegara kosninganna. Nú getur enginn þeirra þriggja sem eru í viðræðum skreitt sig slíkri fjöður.

 

Lýðræðið er hornsteinn okkar þjóðfélags, getum við ekki öll verið sammála um það.


mbl.is „Þessu miðar hægt en örugglega“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrsögn úr EES

Það er ljóst að ný ríkistjórn þarf að bregðast við dómi EFTA dómstólsins. Niðurstaðan er óviðunandi og vekur upp spurningar um hvort viljaleysi núverandi landbúnaðarráðherra eigi sõk á hvernig komið er, hvort slegið var slöku í málsvõrninni. Það leyndi sér ekki gleði hennar yfir dómnum, í fréttamiðlum.

Nú þekki ég ekki hvort hægt er að áfrýja dómum þessa dómstóls. Ef þetta er endanlegur dómur, er einungis eitt úrræði eftir, úrsögn úr EES.

Ef þessi dómur stendur, er ljóst að forsendur veru okkar í EES eru brostnar. Þegar sá samningur var samþykktur af Alþingi var fullyrt að í engu væri verið að hefta sjálfstæði þjóðarinnar. Þegar svo er komið að við ráðum ekki lengur hvað við flytjum til landsins, ráðum ekki hvort við setjum lýðheilsu ofar gróðabraski verslunar, er ljóst að við eigum ekki lengur erindi innan EES.


mbl.is Sérstaðan tapast með bakteríunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegar heimtur

Það voru lélegar heimtur í kattasmölun VG í fyrstu leit. Því er boðað til annarrar leitar á morgun. Svo er þriðja leit og að lokum eftirleitir. Ekki er þó víst að allir sauðir skili sér.

Þegar svo gengur að ná villiköttunum saman um það eitt að halda áfram viðræðum, geta allir ímyndað sér hvernig muni ganga ef þeir komast í ríkisstjórn. Sú stjórn þarf að hafa æði mikinn þingstyrk, eða sem nemur flestum þingmönnum VG.

 


mbl.is Fylgir sínum formanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að berja hausnum við stein

Enn berja formenn VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks haus sínum við stein, enn er haldið áfram vonlausri stjórnarmyndun, enn hæðast þessir stjórnmálamenn að lýðræðinu og kjósendum!

Afstaða Framsóknar að þessum viðræðum eru kannski skiljanleg. Þar er formaður með skýr skilaboð frá æðstaklerk flokksins; minn flokk í ríkisstjórn sem er án SDG, málefni eru aukaatriði, einungis stólar skipta máli. Einföld skilaboð sem formaður verður að hlýða í einu og öllu.

Um hina tvo flokkana er aftur erfiðara að átta sig. Ljóst er að innan VG eru þegar komnar raddir, opinberlega, um að þetta fen eigi ekki að æða út í. Grasrótin, með hinn nýja varaformann flokksins, reynir að tala um fyrir Kötu, setur fram kröfu sem er óásættanleg fyrir viðsemjandann. Hún vill ekki heyra, enda stólarnir þægilegir! Vinnubrögð Kötu eru farin að minna skuggalega mikið á forverann.

Innan Sjálfstæðisflokks þegja menn þunnu hljóði. Þar þorir enginn að tjá sig, enda úthlutun stóla kannski á næsta leiti. Hver vill fórna stól fyrir stefnu?! Bjarni hefur sennilega fryst á sér hausinn, svona eins og í Icesave málinu. Vonandi þiðnar hann upp áður en illa fer.

Það er deginum ljósara að það er ekki verið að reyna myndum ríkisstjórnar um málefni, heldur menn. Slík ríkisstjórn mun engu koma í gegn. Stjórnarsáttmáli slíkrar ríkisstjórnar getur aldrei orðið afgerandi í einu né neinu, yrði einhverskonar moð sem allir telja sig geta túlkað á sinn hátt. Við fengum nasasjón af slíkum stjórnarsáttmála skömmu eftir síðustu áramót. Allir þekkja hvernig fór.

Nú hafa stæðstu tapflokkarnir á þingi myndað bandalag, enda er þeim loks að skiljast að þjóðin hafnaði þeim til landsstjórnar. Viðreisn, sem afneitaði sinni trú skömmu eftir kosningar, er genginn í vinstri blokkina. Hvað næst?

 

 


mbl.is „Þetta hefur bara gengið vel“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæðst að lýðræðinu

 

 

Fyrir tæpum tveim vikum óskuðu stjórnmálamenn eftir umboði þjóðarinnar, til næstu fjögurra ára. Þjóðin kaus og eins og gjarnt er fyrir slíka kosningu, voru loforð stjórnmálamanna stór og falleg.

Niðurstaða þessarar kosningar var nokkuð skýr, þó flestir eða allir teldu sig hafa unnið sigur, jafnvel sá flokkur sem þurrkaðist út af þingi! Þetta sýnir kannski best hversu utangátta við kjósendur og yfirleitt utangátta í þjóðfélaginu, stjórnmálastéttin er. Þessi stétt, sem við ætlumst til að stjórni landinu virðist búa í sínum eigin heimi, kíkja út um gluggann í nokkra daga fyrir kosningar og deila út loforðum, en loka síðan glugganum strax aftur, að loknum kosningum.

Fyrir okkur kjósendur var niðurstaðan skýr, það voru sigurvegarar, flokkar sem rétt náðu að vernda sína stöðu og síðan taparar.

Björt framtíð var auðvitað stæðsti taparinn, flokkurinn sem átti heiðurinn af því stutta kjörtímabili sem nú er lokið. Tapaði öllum sínum þingmönnum og fékk einungis stuðning tæplega 2.400 kjósenda, á landsvísu.

Píratar töpuðu litlu minna, misstu nærri helming sinna þingmanna, tæplega 10.000 kjósendur sneru við þeim baki.

Viðreisn, spútnik flokkur fyrir ári síðan, rétt náði að halda sér á þingi. Tap þess flokks var stórt, frá því að hafa 10,5% kjósenda að baki sér niður í 6,7%. Mátti þakka fyrir að missa ekki alla sína þingmenn.

Samfylking náði að klóra í bakkann, náði reyndar að auka sitt fylgi frá síðustu kosningu nokkuð, eða sem svarar kjósendum systurflokksins, BF. Það er þó langt frá væntingum og fjarri því að vera viðunnandi fyrir eina flokkinn sem nú er á þingi og kennir sig við jafnaðarstefnu. Á sínum mektarárum var þessi flokkur með yfir 30% fylgi, fékk nú einungis 12%. Auðvitað er þessi flokkur ekki tapari núna, en varla hægt að halda því fram að einhver sigur hafi unnist. Mun frekar að flokkurinn sé kannski rétt búinn að forða sér frá andláti og hugsanlega byrjaður að vinna sig upp. Næstu kosningar skera úr um hvort þessi flokkur verður talin með smáflokkum áfram, eða hvort hann verður megnandi.

Vinstri grænir höfðu miklar væntingar til þessara kosninga. Fylgisaukning upp á 1% var því mikil vonbrigði fyrir flokkinn. Sennilega fælir margann kjósandann minningin um störf þessa flokks, á árunum 2009 - 2013. Ekki bara hvernig flokkurinn afneitaði öllum sínum málum á þeim árum og tók harða afstöðu með fjármagnsöflunum, heldur einnig hitt að þessi flokkur er einstaklega óstöðugur á þingi. Á því tímabili sem VG var í ríkisstjórn, hlupu fimm þingmenn hans úr flokknum, ýmist yfir í aðra flokka eða störfuðu sjálfstæðir á þingi. Þetta fólk fékk á sig stimpilinn "VILLIKETTIR". Ríkisstjórn með flokk sem býr að slíkum fénaði, þarf helvíti góðan meirihluta til að standast ágjöf. Meirihluti upp á 2 þingmenn mun aldrei duga!

Sjálfstæðisflokkur tapaði nokkuð, eða 3,8% af sínu fylgi. Reyndar verður að segja eins og er að miðað við látlausar árásir fjölmiðla á flokkinn, einkum formann hans, sé þetta ágætur varnarsigur fyrir hann. Þessi flokkur er enn móðurflokkur íslenskra stjórnmála. Á tímabili leit út fyrir að hann myndi tapa þeim titli. Er enn langstæðsti stjórnmálaflokkurinn, þrátt fyrir að lykilfólk flokksins hafi yfirgefið hann fyrir ári síðan. Sjálfstæðisflokkur má þó muna fífil sinn fegurri.

Framsókn kom á óvart og hélt sínu fylgi frá síðustu kosningum. Flestur gerðu ráð fyrir að klofningur flokksins, rétt fyrir kosningar, myndu höggva skarð í fylgið. Það var því mikill sigur fyrir flokkinn að halda sínu fylgi, mun stærri sigur en margur heldur. Hvort þetta fylgi muni halda til framtíða veit enginn, en víst er að mörgum kjósandi flokksins er farið að líða illa yfir því hvernig formaðurinn hefur haldið á spilum sínum frá kosningu. Þar virðist sem annað hvort persónulegar ástæður formanns ráði, nú eða öfl innan flokksins sem eru utan dagsljóssins.

Flokkur fólksins er stórsigurvegari í þessum kosningum. Einungis tveim dögum fyrir kosningar virtist sem þessi flokkur næði ekki inn manni. Að enda síðan með 4 þingmenn er nánast kraftaverk.

Stæðsti sigurvegari þessara kosninga var þó Miðflokkurinn. Stofnaður örfáum dögum fyrir kosningar og náði fylgi tæplega 11% þjóðarinnar. Aldrei í sögunni hefur nýjum flokki tekist að vinna slíkan sigur. Er með rétt rúmu 1% minna fylgi að baki sér og jafn marga þingmenn, og þriðji stæðsti flokkur landsins.

Þegar þetta er skoðað, er alveg með ólíkindum að enn skuli þeim tveim flokkum sem þjóðin sannarlega veitti umboð til landsstjórnar, verið haldið utan viðræðna. Að stjórnmálamenn þessa lands skuli ætla að reyna með öllum tilteknum ráðum að mynda hér ríkisstjórn án aðkomu þessara flokka, ætla að mynda ríkisstjórn flokka sem þjóðin ýmist hafnaði er var hlutlaus gegn. Flokka sem eru svo fjarri hvor öðrum í stefnu, að vandséð er að þeir geti starfað saman til lengri tíma, að ógleymdu kattafárinu sem einn þeirra flokka er haldinn.

 

Þarna hæðast stjórnmálamenn fullkomlega að lýðræðinu og þjóðinni!!

 

 


mbl.is Fundað áfram á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkurhreppur í gjörgæslu

Það styttist óðum í að Reykjavíkurhreppur fari í gjörgæslu, að fjárráðin verði tekin af hreppstjórninni! Slík hefur skuldasöfnunin verið undanfarin ár og ekkert lát á.

Það er magnað, mitt í góðærinu, þegar hótel rísa á hverju götuhorni og framkvæmdir í algjöru hámarki, þegar kaupmáttur hefur aukist með tilheyrandi tekjubólgnun fyrir hreppinn, þegar erlendir ferðamenn fylla allar götur og torg og þegar nánast öll merki þess að hreppurinn ætti að vera að greiða niður skuldir í stórum stíl, svona eins og önnur sveitarfélög á landinu, að þá skuli hreppssjóður safna skuldum. Og það ekkert smáskuldum, heldur talið í milljónum á hvert mannsbarn innan hreppsmarkanna!

Í dag eru skuldir Reykjavíkurhrepps komnar í 299 milljarða króna og hækka hratt. Þetta gerir nálægt 2,5 milljónum á hvert mannsbarn hreppsins, eða um 10 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu!!

Skuldaaukning Reykjavíkurhrepps er nálægt 70 milljónum á sólahring, alla daga ársins!

Það er magnað að um 39% þjóðarinnar skuli hafa kosið þá flokka sem sýna slíka óforsjálni, til landstjórnarinnar.

Er ekki allt í lagi með kjósendur?!!

 


mbl.is „Maður skuldsetur sig ekki út úr fjárhagsvanda“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að telja upp að 63

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, telur að hægt væri að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Vinstri Grænna og Viðreisnar. Vissulega væri slíkt hægt, samkvæmt þingmannafjölda. En hvers vegna þá að halda kosningar?

Er ekki boðað til kosninga til að skoða vilja þjóðarinnar, velja þingmenn, að sjá hvernig landið liggur í hugum kjósenda? Ef mynduð er ríkisstjórn sem saman er sett af flokkum sem þjóðin ýmist hafnaði eða veitti mjög takmarkað fylgi, meðan þeim flokkum sem sannarlega eru sigurvegarar kosninganna er haldið utan stjórnar, spyr maður sig; til hvers að kjósa?

Það getur varla verið hlutverk stjórnmálafræðings að tjá sig um stjórnmál út frá höfðatölu þingmanna. Það getur hvert barn sem kann að telja gert. Stjórnmálafræðingur hlýtur að lesa kosninguna, vega og meta stefnur flokkanna og spá út frá slíkum forsendum.

Jafnvel ég, án menntunar í stjórnmálafræði, sé eins og flestir kjósendur hverjir voru sigurvegarar þessara kosninga. Það er einnig augljóst að stefnumá þeirra þriggja flokka sem afgerandi sigur unnu, er nánast hin sama. Þó þessir þrír flokkar hafi haft sigur, ná þeir ekki meirihluta á þingi, hafa þó nærri þriðjung þjóðarinnar að baki sér og því vantar varahjól. Það eru þau varahjól sem stjórnmálafræðingar eiga að spá í. Það þarf ekki háskólamenntað fólk til að kenna okkur kjósendum að telja upp að 63!!

Niðurstaða kosninganna var skýr, þjóðin hafnar vinstri stjórn, eina ferðina enn.

Það veitir manni von!

 


mbl.is „Óvissan er lamandi fyrir þjóðfélagið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband