"Launalækkun" þingmanna

Daginn eftir kosningar, síðasta haust, hækkuðu laun þingmanna um heil 44%. Þetta koma vitaskuld eins og köld vatnsgusa í andlita launþega þessa lands, en fjöldi þeirra er með lægri heildarlaun en sem nam launahækkuninni einni, er þingmenn fengu. Sem dæmi nam þessi hækkun sem svarar til tæplega þreföldum ellilífeyri þeirra sem byggði landið úr örbyrgð til velsældar!

Viðbrögð almennings voru hins vegar væg, allt of væg. Sennilegasta skýring þess er að fólk vildi ekki trúa þessu óréttlæti, að svona lagað gæti einfaldlega ekki gerst hér á landi. En ákvörðunin stóð og stendur. Einstaka þingmaður hvíslaði einhver hjáróma mótmæli og þá hellst einhver þeirra sem kosinn hafði verið á þing í fyrsta sinn, daginn áður. Þeir þögnuðu þó fljótlega og síðan hafa þingmenn flestir þagað þunnu hljóði um þessa ríflegu kauphækkun, Nokkrir hafa verið svo bíræfnir að réttlæta þessa hækkun. Vonandi muna kjósendur nöfn þeirra næst þegar kosið verður.

Nú ætla þingmenn að vera svo miskunnsamir og "lækka" laun sín aftur og hafa falið forseta Alþingis að flytja það mál. Það á sem sagt að skila svona fjórðungi til baka, þannig að launahækkunin verði "bara" sem svarar tvöföldum ellilífeyri!

En skoðum þetta aðeins. Sagt er að "lækkun" launa þingmanna verði sem svarar 150 þúsund krónum á mánuði. Eitthvað vefst þó fyrir mér reiknisdæmið sem forseti leggur fyrir þingið. Þar er talað um að lækka ferðakostnað um 54 þúsund krónur og að það sé ígildi 100 þúsund króna. Ef ferðapeningur þingmanns lækkar um 54 þúsund krónur, þá er það væntanlega lækkun launa hans um 54 þúsund krónur. Hvert ígildi lækkunarinnar er skiptir ekki máli, ekki frekar en hvert ígildi launahækkunarinnar var. Þá hélt ég í fávisku minni að þingmenn fengju ferðapeninga eftir því sem þeir þurfa að ferðast, vegna þingstarfa. Að sú fjárhæð væri fyrir ferðalög, en ekki einhver föst upphæða, jafnt yfir línuna. Ef allir þingmenn fá þessa upphæð, óháð því hversu mikið þeir þurfa að ferðast í sínu starfi, er þetta ekki ferðapeningur, heldur dulbúin launahækkun.

Þá er lagt til að starfskostnaður lækki um 50 þúsund krónur á mánuði. Ekki veit ég hver sá kostnaður er, en ljóst er að hann er eitthvað hærri, kannski mun hærri. Annars myndi verða sagt að sá kostnaður myndi verða afnuminn en ekki lækkaður.

Ég vil taka skýrt fram að ég er ekki háskólamenntaður í stærðfræði og ígildi launahækanna er mér ókunnugt hugtak. Mér sýnist að "lækkun" launa þingmanna muni einungis verða um 104 þúsund krónur á mánuði. Eftir stendur vel væn launahækkun sem þeim var færð á silfurfati, langt umfram það sem aðrir þegnar þessa lands geta látið sig dreyma um, nema kannski bankamenn og aðrir þeir sem véla með auð landsmanna.

Vera má að þjóðinni þyki þetta vera höfðinglegt af þingmönnum, að "lækka" laun sín svona. Að þarna sé komin tala sem almenningur skilur, er nær þeirra raunveruleika.

Aumingjaskapur þingmanna felst hins vegar í því að setja ekki strax lög sem afnema þá gígatísku hækkun sem þeim var færð og láta sér duga sömu launahækkun og almenningur þurfti að sætta sig við. Jafnvel þó prósentan hefði verið notuð, hefði það verið ásættanlegra en svívirðan sem kjararáð færði þeim. Þessi lög áttu þingmenn að koma sér saman um strax og þing kom saman fyrir jól og afgreiða þau á einum degi!

Allur leikaraskapur og öll þau leikrit sem þingmenn setja upp um þetta mál, er þeim til háborinnar skammar. Meðan stórir þjóðfélagshópar eru með laun langt undir þeirri hækkun sem þeim var færð og meðan þeir sem byggðu upp það samfélag alsnægta sem við búum við, byggðu það upp úr engu, fá skammtaða smáaura til framfæris, ætti þingmenn að sjá sóma sinn í að afnema það órétti sem kjararáð færði fram fyrir þjóðina, daginn eftir þingkosningar.  

Þingmenn eru þjónar þjóðarinnar, ekki öfugt!!


mbl.is Leggur til lægri greiðslur til þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögreglan bregst hratt við

Í viðtali við Pétur Gunnlaugsson, eftir að héraðsdómur vísaði máli gegn honum frá dómi, bendir hann á hversu mikinn skaða þetta mál hefur haft fyrir hann og fyrirtæki sitt, hvernig vegið hafi verið að æru sinni. Spurður hvort hann ætlaði að leita miska, vegna þess skaða, sagðist hann ekki vera tilbúinn til að segja af eða á með það. Fyrst og fremst óskaði hann eftir afsökun frá lögreglustjóra vegna málsins.

Lögreglustjóri brást hratt við og gaf Pétri áfrýjun til æðra dómstigs!

Það mun sennilega verða léttra fyrir Pétur að taka ákvörðun um sókn miskabóta, eftir þetta útspil lögreglustjórans.


mbl.is Lögreglan áfrýjar máli Péturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn falski nagladekkjasöngur

Enn á ný kyrja stjórnendur Reykjavíkurborgar sama sönginn og enn er hann jafn falskur. Það er ekki bara ógjörningur að banna nagladekk innan borgarmarkanna, heldur halda rök þeirra sem það vilja alls ekki.

Fyrir það fyrsta eiga nagladekk undir fólksbílum og venjulegum jeppum lítinn þátt í eyðingu malbiks á götum borgarinnar. Þeir orsakavaldar eru fyrst og fremst lélegt hráefni sem notað er í malbikið, gengdarlaus saltaustur á það og svo auðvitað veðurfarið hér á land, þar sem umhleypingar yfir vetrartímann eru tíðir.

Svifmengun er vissulega mikil af götum borgarinnar, á stundum, en orsök hennar er ekki eyðingin sem á sér stað á malbikinu, heldur þeirri einföldu staðreynd að borgin tímir ekki að sópa göturnar. Sóðaskapurinn í Reykjavík er að verða heimsþekktur!

Og hvernig hafa svo þessir sjálfhverfu menn, sem allt þykjast vita og hafa með stjórn borgarinnar að gera, að fara að því að framkvæma bann við nagladekkjum innan borgarmarkanna? Ætla þeir að setja upp varðhlið við alla innganga að borginni og banna þeim sem eru með slíkan nauðsynlegan öryggisbúnað undir bílum sínum inngöngu í höfuðborg landsins?!

Það slær ekkert undan í fávitaskap þessarar manna sem stjórna höfuðborg Íslands. Jafn skjótt og rykið sest af einni fáviskunni dúkkar sú næsta upp. Enginn endir virðist vera á þessum fíflalátum!!


mbl.is Sífellt fleiri nota nagladekk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salernispappír

Eitthvað hafa þessar skýrslur kostað. Hvað ef það fjármagn hefði verið nýtt til uppbyggingar á salernisaðstöðu ferðastaða? Hvað hefði verið hægt að leysa mörg salernisvandamál ferðastaða á þeim tíma sem tók að gera þessar skýrslur?

Væri ekki rétt fyrir Stjórnstöð ferðamála að girða sig í brók og láta frekar verkin tala. Það er endalaust hægt að gera skýrslur um hluti, en slíkar skýrslur leysa ekki vandann, nema kannski sem salernispappír, eftir að aðstöðunni hefur verið komið fyrir.

Salernisaðstaða er ekki flókin í sjálfu sér, en hún verður heldur ekki byggð á svipstundu. Frárennsli verður auðvitað að vera eftir lögum og reglum og húsin sjálf að vera boðleg. Til að leysa bráðasta vandann þarf að koma fyrir bráðabyrgða aðstöðu, ferðaklósettum. Það er einfalt og hægt að gera á mjög skömmum tíma. Slík aðstaða getur þó einungis verið bráðabirgðalausn, meðan varanleg aðstaða er byggð.

Meðan Stjórnstöð ferðamála lætur búa til fyrir sig skýrslur er fjármunum og dýrmætum tíma sóað. Svo einfalt mál, sem uppsetning salernisaðstöðu, ætti ekki að kalla á mikla skýrslugerð og erfitt er að sjá þörf á aðkomu verkfræðistofu að svo einföldu verki!!


mbl.is Salernismál ferðamanna í biðstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fellur skuggi á

Það er vissulega ánægjulegt að Ísland skuli skipa sér í annað sæti í rafbílavæðingu bílaflotans, í Evrópu. Reyndar einungis 5,3% nýskráðra bíla rafbílar, en engu að síður í rétta átt.

Það fellur þó skuggi á þessa gleði.

Vegna löggjafar sem heimskir búrókratar í Brussel sömdu og enn heimskari íslenskir þingmenn samþykktu án athugasemda, í tíð hinnar "tæru vinstristjórnar", er nú svo komið að innan við helmingur orku sem seld er hér á landi er endurnýjanleg og vistvæn. Rúmlega helmingur orkunnar sem seld er, er framleidd að hluta til með jarðefnaeldsneyti en að stæðstum hluta með kjarnorku.

Því er hagur okkar með tilliti til mengunar, mun minni en ella af rafbílavæðingunni, sér í lagi vegna þeirrar staðreyndar að sífellt stærri hluti orkunnar sem seld er hér á landi er framleidd með mengandi hætti og spurning hvenær því marki verður náð að öll orkan okkar verður óhrein. Hversu hratt það gengur fyrir sig fer að öllu leyti eftir peningagræðgi orkufyrirtækja.

 


mbl.is Ísland annað mesta rafbílaríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband