Óhæf peningastefnunefnd

Loksins kom vaxtalækkun, svo sem ekki mikil en lækkun þó og ber vissulega að fagna henni. En hún er bæði allt of lítil og kemur allt of seint.

Sama dag og Seðlabankinn kynnti lækkun á stýrivöxtum um 0,5%, kom frétt frá umboðsmanni skuldara um eftirgjöf skulda upp á  23,5 milljarða, til handa húsnæðiskaupendum í vanda. Til að setja þessa "rausn" í samhengi við vaxtaokrið hér á landi, þá jafngildir þessi eftirgjöf skulda rétt rúmu einu prósentustigi vaxta af lánum til húsnæðiskaupa. Því má með sanni segja að ef vextir hér á landi væru lægri, hefði sennilega ekki þurft að koma til afskrifta þessara lána,a.m.k. ekki í sama mæli.

Annar vandi, mun hættulegri, er að erlendir spákaupmenn eru farnir að spila á vaxtagróðann hér á landi. Við hrun bankanna kom í ljós að slíkir spákaupmenn áttu gífurlega fjármuni í íslenska hagkerfinu. Með fjármagnshöftum samkvæmt neyðarlögum, sem sett voru í kjölfar bankahrunsins, tókst að koma í veg fyrir að allt þetta fé færi úr landi og setti okkur beinlínis á hausinn. Það tók síðan nærri átta ár fyrir okkur að komast út úr þeim vanda. Eða hvað? Vandinn er enn til staðar, þar sem vaxtamismunur við útlönd er þvílíkur og enn streyma hingað spákaupmenn í stórum stíl og ekkert lát á.

Fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu er þessi stefna Seðlabankans skelfileg. Fyrirfjármagnsöflin,sérstaklega erlend, er hún hins vegar sem himnasending.

Peningastefnunefnd Seðlabankans er algjörlega óhæf. Hingað til hefur henni ekki tekist að rökstyðja hávaxtastefnu sína. Oftast hafa verið notuð rök um að verðbólgan væri handan hornsins, launahækkanir til almennings hafa einnig verið notaðar sem afsökun.

Verðbólgan hefur hins vegar ekki enn sýnt sig, en mun vissulega gera það á endanum. Ekkert hagkerfi getur lifað lengi með lága verðbólgu meðan vöxtum er haldið í hæstu hæðum.

Svo merkilegt sem það er, þá höfðu launahækkanir ekki heldur áhrif á verðbólguna. Þó laun almennings hafi hækkað verulega miðað við verðbólgu, þá var þarna einungis um örlítið brot á leiðréttingu launafalls vegna hrunsins að ræða, ekki eiginlegar launahækkanir heldur einungis örlítið brot á leiðréttingu launa hins almenna launamanns. Slík leiðrétting hefur ekki áhrif á verðbólgu, enda fæstir þeirra sem hennar nutu að fá einhverjar stórar upphæðir til að velta út í þjóðfélagið. Hitt er undarlegra að launahækkanir til hátekjufólksins, sem hefur fengið mun meiri hækkanir í prósentum talið og margfaldar í krónum, skuli ekki hafa vakið verðbólgudrauginn.

En nú hafa þessir snillingar sem fylla peningastefnunefnd fundið ný rök, happdrættisrökin. Ég þurfti þó að lesa aftur þessi orð Seðlabankastjóra, svona til að vera viss, svo undarlega og barnaleg sem þau eru. Ekki ætla ég að hella mér út í frekari orðræðu um þessi rök bankastjórans, vil að hann eigi þá skömm einn og óstuddur.

Vandi heimila landsins eru háir vextir, vandi fyrirtækja landsins eru háir vextir, vandi hagkerfisins eru háir vextir.

Gróði bankanna er fyrir háa vexti, gróði erlendra fjármagnseigenda eru háir íslenskir vextir.

Hvort viljum við að Ísland sé fyrir fólkið í landinu og fyrirtækin, svo þjóðfélagið fái blómstrað, eða fyrir bankana og erlenda fjármagnseigendur?


mbl.is Lægri vextir raunhæfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flatneskja stjórnmálanna

Mikið hefur verið rætt um vanda stjórnmálaflokka hér á landi og það litla fylgi sem þeir ná meðal þjóðarinnar. Þó skal engan undra, flatneskjan og popppúlisminn sem ríkir meðal stjórnmálamanna er slíkur að engan greinarmun er lengur hægt að gera milli flokka. Örlítill munur er á boðun þeirra til kjósenda, svona rétt meðan verið er að sækja atkvæðin, en þegar til valda er komið er fljótt að falla undan stóru orðunum. Þá er meira horft til skoðanakannana, athugasemdadálka netmiðla og þeirra sem hæðst láta í þjóðfélaginu. Grunngildin fjúka og kjósendur standa eftir sviknir og vonlausir.

Þegar síðan fram koma stjórnmálamenn sem þora, er samstundis ráðist gegn þeim. Slíkar árásir andstæðinga í pólitík er eðlileg og skapar líflega umræðu, meðan á henni stendur. En þegar samherjar taka þátt í þessum árásum, er fokið í flest skjól, sér í lagi þar sem kjósendur kalla með örvæntingu eftir fólki sem þorir í pólitík.

Allir þekkja sögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í pólitík. Hvernig hann kom á sjónarsvið íslenskrar pólitíkur í framhaldi af bankahruninu, hvernig málflutningur hans var innan og utan þings, meðan hann var í stjórnarandstöðu, hvernig honum tókst að færa Framsóknarflokknum stórsigur í síðustu kosningum og síðan hvernig hann var myrtur mannorði af hálfu eins manns, með aðstoð ríkisfjölmiðils Íslands.

Strax og SDG tók til við að skipta sér að pólitík, hér á landi, hófust skipulagðar árásir gegn honum. Þar gekk fréttastofa ruv í fararbroddi og mun sennilega verða rannsóknarefni framtíðar framganga þess fjölmiðils gegn honum í undanfara síðustu kosninga og síðan látlausar árásir allt þar til hann var felldur í margfrægum Kastljósþætti. Þar var endanlega gengið frá mannorði SDG, á hæpnum forsendum.

Einn maður, sem hefur þá einu menntun að hafa skilað 17 einingum frá fjölbrautarskóla, fékk í hendur stolin skjöl frá lögfræðistofu í Panama. Í tíu mánuði lá þessi lítt menntaði maður yfir skjölunum og flokkaði þau, sjálfsagt eftir bestu vitund, en skorti alla menntun til starfans. Að lokinni þessarar vinnu, fékk þessi maður fyrrverandi vinnuveitanda sinn sér til fulltingis við "opinberun sannleikans". Svo vel vildi til að þessi fyrrum vinnuveitandi mannsins var einmitt fréttastofa ruv, sú sem lengst og harðast hafði gengið í baráttunni gegn SDG.

Búið var til handrit, í samvinnu við sænska fréttastöð og leikritinu varpað til þjóðarinnar. Engin bein haldbær gögn voru lögð fram, einungis óskýrt ljósrit af pappír þar sem nafn SDG kom fram, án hans undirskriftar. Engan skal undra að viðbrögð SDG í þessari sjónvarpsupptöku voru vandræðaleg, enda komið að aftanað honum. Það er auðvelt að segja að hann "hefði" átt að gera þetta eða hitt, en ljóst er að fáum eða engum hefði tekist að svara þessari árás, svo óvænt sem hún var. Þar að auki var leikritið þannig upp sett að nokkuð er sama hvernig viðbrögð SDG hefðu orðið, leikritshöfundar höfðu slíka yfirburði að þeim hefði í öllu falli tekist ætlunarverk sitt.

Það liggur ljóst fyrir að hvorki bókhaldslærðir né löglærðir aðilar voru látnir lesa handrit aftökunnar, enda hefði þá sennilega þetta verið stöðvað af. Það liggur einnig ljóst fyrir að fréttastofa ruv braut alvarlega lög með útvörpun þessa þáttar, bæði eigin siðferðislög sem og landslög.

Engum hefur enn tekist að sýna fram á sekt SDG. Helstu sérfræðingar Guardian hafa farið yfir málið og segja enga sök hans vera til staðar. Þá hefur Guðbjörn Jónsson rannsakað þetta mál, svo vel sem má, samkvæmt gögnum Panama skjalanna og ættu allir að lesa þá úttekt hans. Nú, þegar flestum er ljóst að SDG er ekki sekur í þessu máli, er því haldið fram að hann hafi brotið siðferði og skaðað trúverðugleik sinn. Hvernig má það vera þegar til þess meinta brots er stofnað með siðferðisbrot? Hver er þá trúverðugleiki fréttastofu ruv?!

Hvernig má það vera að þjóðin leggur meiri trúnað í framsetningu fréttastofu ruv, byggða á orðum og gögnum frá manni, sem hann lá á í tíu mánuði og flokkaði, án nokkurrar þekkingar á því sviði, en orð æðsta manns þessa lands, sem hefur sýnt og sannað að hann hefur kjark til að standa við stóru orðin?! Er afl fjármagnsins svo gífurlegt hér á landi að þeim tekst að sannfæra þjóðina um að fyrirlýta það fólk sem þeim öflum stafar ógn af?!

Eygló Harðardóttir er nú undir árásum fréttastofu ruv. Hennar mannorð skal svert eða drepið. Þó gerði hún það eitt að standa á sinni sannfæringu, sannfæringu sem hún hafði þegar gefið út innan ríkisstjórnar.

Ásmundur Einar Daðason, Frosti Sigurjónsson og Vigdís Hauksdóttir hafa sagt að þau ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi starfa á Alþingi. Allt var þetta fólk, ásamt SDG. EH og fleira fólki innan Framsóknarflokks, lykilfólk í andstöðunni við icesave samningana, allt var þetta fólk afgerandi í sigri Framsóknarflokks í síðustu kosningum og allt hefur þetta fólk verið í lykilstöðu þess að tókst að láta kröfueigendur borga sig út úr þjóðfélaginu. Þetta fólk hefur verið helsta baráttufólkið gegn fjármagnsöflunum og haft kjark til að standa á þeirri sannfæringu. En þegar slík sannfæring og vinna færir fólki bara eintóman óhróður, er ekki undarlegt að það gefist upp. Þegar fólk vinnur stórvirki fyrir þjóðina, en þjóðin stendur óhaggað með þeim sem pínir hana, fjármagnsöflunum, er til lítils að sóa lífi sínu í það.

Það er ekki nema eðlilegt að andstæðingar í stjórnmálum gleðjist þegar óvinurinn lendir í vanda, að ekki sé talað um að þeir séu nánast hálshöggnir í beinni útsendingu. Það er og á að vera eðlilegt, svo fremi að heiðarlega sé að máli staðið. Pólitískir andstæðingar ættu þó aldrei að nýta sér mannorðsmorð andstæðingsins, mannorðsmorð byggt á hæpnum forsendum, sér til framdráttar.

Hitt er verra, þegar samherjar í pólitík nýta sér slíkt. Því miður er það svo að nokkrir samherjar eru ávallt fljótir til þegar á ofangreint fólk er ráðist. Þar hafa samherjar í samstarfsflokknum gengið hvað lengst og sumir jafnvel líkt þessu við súkkulaðinammi. Ljótari er þó leikur sumra samflokksmanna þessa fólks. Þar er vissulega fínna farið í málin, þó sannarlega maður hafi séð hlakka í mörgum liðleysingja Framsóknarflokks, sér í lagi vegna mannorðsmorðs Sigmundar Davíðs. Þar telja sumir sig eiga harma að hefna, meðan aðrir sjá hugsanleg tækifæri í að klifra örlítið upp stigann. Þetta fólk hefur ekki burði til að koma sér upp á eigin verðleikum og nýtir því ófarir annarra til að upphefja sig.

Það voru því mikil vonbrigði að sjá að nýjasti starfsmaður Framsóknarflokks, hin unga Lilja Alfreðsdóttir tók sér stöðu gegn kjarkfólkinu innan flokksins. Framtíð hennar í stjórnmálum verður ekki bjartari við það.

Flatneskjan í íslenskum stjórnmálum er nánast ógeðslegt fyrirbrigði. Eitt orð hefur verið fundið upp í íslenskri tungu, hin síðari ár, það er orðið "samræðustjórnmál". Samkvæmt skilgreiningu þeirra sem þetta orð nota, þá eiga allir flokkar að vinna saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Til hvers þarf þá að kjósa? Má þá ekki bara skipa hverjum stjórnmálaflokk ákveðinn fjölda þingmanna og spara þá fjármuni sem fer í kosningar? Ef þeir sem lægri hlut hljóta í augum kjósenda eiga að hafa sömu völd og hinir sem þóknast kjósendum, þarf ekki að kjósa.

Stjórnarandstaðan fagnaði afsögn SDG og segir að meiri friður hafi skapast á Alþingi. Réttara er að tala um að stjórnarandstaðan hafi fengið aukið afl innan Alþingis, vegna liðleskju þeirra sem eftir sátu í ríkisstjórn. Er það svo í anda lýðræðisins, að þeir flokkar sem kjósendur höfnuðu í síðustu kosningum, ráði hvernig þeir flokkar sem þjóðin treysti, stjórnar? Þetta er hin sanna birtingarmynd "umræðustjórnmála", hin sanna flatneskja íslenskra stjórnmála.

Þegar ég geng til kosninga þá kýs ég þann stjórnmálaflokk sem hefur stefnu sem mér hugnast og fólk sem ég treysti. Ef vilji meirihluta kjósenda er mér sammála, þá ætlast ég til að stjórnunin verði samkvæmt þeirri stefnu, út allt kjörtímabilið. Ef meirihluti kjósenda er mér ekki sammála, þá sætti ég mig við það, uns kjörtímabilinu lýkur. Svo einfalt er það.

Málpípur fjármagnsaflanna mun aldrei getað breytt þeirri hugsun minni, í hvaða mynd sem þau birtast, hvort það er í formi fréttastofu, í formi "virkra í athugasemdum", né heldur í formi hávaðaseggja á götum og torgum!! 


mbl.is „Það eru þín orð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn Sjálstæðisflokks og stjórnarsáttmálinn

Fréttastofa ruv hefur farið hamförum eftir að Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðisráðherra sat hjá við atkvæðagreiðslu á þingi. Minna fer þó fyrir upphlaupinu á síðum Moggans, helsta málgagni sjálfstæðismanna.

Fréttamenn ruv hafa verið duglegir að elta uppi ráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokks vegna þessa máls. Þessum fréttamönnum hefur tekist að ná ýmsum lítt hugsuðum ummælum frá þessu fólki, ummælum sem sjálfsagt margir hverjir sjá eftir. Jafnvel formaður þess flokks hefur látið frá sér undarleg ummæli um málið og minna þau nokkuð á hið "ískalda mat" sem sá maður lét falla í aðdraganda kosningar um icesave lögin, forðum daga. Þá helfraus heili Bjarna og engu líkara en það hafi einnig gerst í viðtali við fréttamann ruv, vegna "Eyglóar málsins".

Ekki þarf svo að tala um "eðlileg" viðtöl fréttastofunnar við stjórnarandstæðinga og hina venjubundnu "sérfræðinga". Þar er allt á sömu bókina lagt, sem áður.

Ekki er ég sérstakur aðdáandi Eyglóar, sem stjórnmálamanns. Tel hana frekar litlausa og hafa verið máttlaus við að koma sínum málum gegnum ríkisstjórnina. Því hefur hvorki verið efni til að mæra hana né lasta, þó hið síðarnefnda komi kannski oftar upp í hugann og þá fyrir skort á drifkrafti gegn þingmönnum samstarfsflokksins.

Þegar ríkisstjórn er mynduð er gerður sáttmáli um hvernig vinna skuli út kjörtímabilið. Hvaða málefni skal taka á og áherslur. Auðvitað verða flokkar stundum að fórna einhverjum málum sem þeir tala fyrir í kosningabaráttunni, þegar slíkur sáttmáli er gerður. Það er síðan þessi stjórnarsáttmáli sem er leiðandi í störfum ríkisstjórnarinnar, út kjörtímabilið.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar var gerð þessa sáttmála einstaklega auðveldur, enda málflutningur beggja stjórnarflokka ótrúlega samhljóða fyrir kosningar. Því tók það verk stuttan tíma og flest áherslumál beggja flokka rúmuðust innan sáttmálans.

En hver hefur svo framkvæmdin verið?

Í megin atriðum hefur tekist að koma flestum málum í framkvæmd. Eftir standa þó einstök málefni, einkum þau mál sem Framsókn hafði talað fyrir. Má þar helst nefna afnám frítekjumarks bóta aldraðra og öryrkja, afnám verðtryggingar og flugvöllur í Vatnsmýrinni.

Skýrt er tekið fram í stjórnarsáttmálanum að afnema skuli frítekjumark bóta aldraðra og öryrkja. Þetta mál er á hendi félagsmálaráðherra en með einhverjum óskiljanlegum hætti hefur henni ekki tekist að standa við þessa samþykkt. Má þar kenna andstöðu ákveðinna þingmanna Sjálfstæðisflokks.

Ekki er eins skýrt ákvæðið um afnám verðtryggingar. Þó kemur skýrt fram að stofnuð skuli nefnd um slíkt afnám og að henni beri að skila af sér fyrir áramótin 2013/2014. Nefndin var skipuð og hún skilaði af sér, héraumbil á réttum tíma. Vandinn var hins vegar, að flestir nefndarmenn misskildu sitt hlutverk, rugluðu saman orðunum "hvort" og "hvernig". Einungis einn nefndarmaður skildi skipunina rétt og skilaði séráliti.

Þessum ruglingi meirihluta nefndarmanna tóku sjálfstæðismenn fagnandi og hafa náð að þvæla málinu fram og til baka, þar til loks einhver óskapnaður var svo kynntur, nú í lok starfstíma þessarar ríkisstjórnar. Óskapnaður sem er í engum takt við stjórnarsáttmálann og tekur ekki með neinu móti á þeim vanda sem verðtryggingin hefur á almenning, þjóðina og þjóðarbúið í heild sinni!

Í kaflanum um samgöngumál, í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, er skýrt tekið fram að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni skuli standa óhaggaður. Ekki var langt liðið á stjórnarsamstarfið þegar Sjálfstæðismaður í embætti innanríkisráðherra, staðfesti dánarvottorð flugvallarins, með samningsgerð við Reykjavíkurborg. Formaður flokksins hefur síðan afhent Reykjavíkurborg afsal að lóðum við enda neyðarbrautar, samkvæmt samningi sem gerður var á síðasta kjörtímabili, milli tveggja samherja í Samfylkingunni, fyrir stóru landsvæði við suð vestur enda neyðarbrautarinnar! Því er ljóst að nú er svo komið að engin neyðarbraut er fyrir sjúkraflug á suð vestur horni landsins og innan tíða mun næsti varaflugvöllur fyrir utanlandsflugið vera í Skotlandi!

Hvergi í stjórnarsáttmálanum er þó tiltekið að gerð skuli fjármálaáætlun til ársins 2021. Gerð slíkrar áætlunar, undir lok kjörtímabils, er eins vitlaust sem frekast getur verið, sér í lagi þegar nánast er ljóst að núverandi ríkisstjórn missir umboð sitt og til valda kemur fjölflokka stjórn þar sem hver höndin mun verða upp á móti hver annarri og hrossakaup um öll málefni látin ráða. Undir slíkri fjölflokka ríkisstjórn, sem að auki hefur sagt að hún hugnist ekki þessi fjármálaáætlun, er ljóst að verið er að leggja mikla fjármuni og vinnu í tilgangslaust plagg. Að auki er ekki gert ráð fyrir að þau málefni sem ríkisstjórnin hefur ekki fullnægt, samkvæmt núverandi stjórnarsáttmála, einkum í félagslegum málum, er ekki innan þessa plaggs, er ekki undarlegt að ráðherra sem með þau málefni fer, sjái sér illfært að samþykkja það.

Eygló Harðardóttir er því ekki að brjóta upp stjórnarsamstarfið á neinn hátt. Þó henni hafi ekki tekist að fullnægja stjórnarsáttmálanum að fullu, er ekki við hana að sakast í því efni. Þó hún samþykki ekki einhverja tilgangslausa vinnu utan stjórnarsáttmálans, eru það engin svik við stjórnarsamstarfið!

Hins vegar væri hollt fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokks, þá einkum formanns flokksins, að lesa stjórnarsáttmálann yfir. Þá kæmust þeir að því hverjir hafa verið duglegastir við að fara framhjá þeim sáttmála, hverjir hafa verið ógn við tilveru þessarar ríkisstjórnar, allt þetta kjörtímabil. Að taka svo "ískalt mat" að hausinn frjósi, hefur aldrei verið til lukku. Því miður virðist það henda formann Sjálfstæðisflokks æ oftar!

Það sorglega, fyrir okkur sem ekki getum sætt okkur við vinstra afturhald í ríkisrekstri, er deginum ljósara að ef núverandi ríkisstjórn hefði staðið við stjórnarsáttmálann og unnið eftir honum, væru þessir flokkar að ganga til kosninga svo sterkir að enginn vafi væri um áframhaldandi velmegun í landinu.

Þá væru aldraðir og öryrkjar búnir að fá sína leiðréttingu og væru ánægðari. Þá væri fjármálakerfið orðið heilbrigt, með einn gjaldmiðil í landinu og lækkandi vexti á lánum til húsnæðiskaupa. Þá væri búið að treysta tilveru flugvallarins í Vatnsmýrinni, bæði sem neyðarflugvöll þegar vá ber að og einnig sem varaflugvöll fyrir utanlandsflugið. Svona mætti lengi telja, því þó heilt yfir hafi þessari ríkisstjórn tekist að vinna eftir stjórnarsáttmálanum, betur en áður hefur þekkst, þá eru það einmitt þau mál sem snúa beint að kjósendum, sem hafa orðið útundan.

Því munu kjósendur ekki endurnýja umboð þessarar ríkisstjórnar. Þar má sannarlega sakast við þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokks. Þeir hafa á kjörtímabilinu grafið gröf þessarar ríkisstjórnar, þeir hafa séð til þess að hér mun ríkja nánast stjórnleysi vinstri aflanna, á næstu árum, með tilheyrandi skelfingu fyrir þjóðina!


mbl.is Ræddu ekki ákvörðun Eyglóar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitraði kokkteillinn

Maður veit ekki hvernig taka skal þessari frétt, hvort mogginn sé þarna að gera grín, eða hvort stjórnarherrarnir séu gengnir af göflunum!

Fyrir það fyrsta er þetta frumvarp, þ.e. ef um raunverulegt frumvarp er að ræða, svo langt frá raunveruleikanum og þeim loforðum sem kjósendum voru gefin fyrir síðustu kosningar, að varla er hægt að tala um þetta sem sama málefni. Stjórnarsáttmálinn er skýr í þessu máli, en þar stendur m.a. orðrétt:

"Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.

Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Lækkun höfuðstóls nýtist þá til að koma í veg fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði aukist verulega, jafnvel þótt lán verði greidd hraðar niður. Þannig má einnig koma í veg fyrir þensluhvetjandi áhrif leiðréttingarinnar og styrkja grundvöll peningastefnunnar, en það er mikilvægur liður í afnámi hafta.

Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót."

Þarna kemur skýrt fram að unnið skuli að afnámi verðtryggingar og að nefndu um slíkt afnám og hvernig að því skuli staðið, verði skipuð. Sú nefnd var vissulega skipuð og hún skilaði af sér tillögum. Vandinn var bara sá að einungis einn nefndarmaður skildi sitt hlutverk, meðan aðrir nefndarmenn héldu að verkefni nefndarinnar væri að meta "hvort", en ekki "hvernig", ætti að afnema verðtrygginguna. Engin spurning er þó að nefndin átti einungis að koma með tillögur um "hvernig" afnema ætti verðtrygginguna!!

Í öðru lagi er þetta frumvarp svo gjörsamlega úr korti við raunveruleikann og þann vanda sem húsnæðiskaupendur búa við og kemur hvergi nærri því að taka á þeim vanda. Verðtrygging hefur áhrif á vexti og er verðbólguhvetjandi. Vandi húsnæðiskaupenda liggur fyrst og fremst í háum vöxtum hér á landi, svo háum að jafnvel hörðustu mafíósar, bæði vestan hafs og austan, myndu blygðast sín fyrir slíka okurvexti. Fjármagnskostnaðurinn er hærri en nokkur möguleiki er fyrir venjulegt fólk að ráða við. Ofaná þetta velur Seðlabankinn að reikna út verðbólgu með allt öðrum hætti en þekkist erlendis, þ.e. að reikna húsnæðiskostnað inn í slíkan útreikning, en slíkt þekkist hvergi í þeim löndum sem við miðum okkur við. Væri þessi hluti tekinn út úr útreikningi þeirrar vísitölu sem notuð er við útreikning verðtryggðra lána, væri verðtryggingar.áttur þeirra nánast enginn, eins og staðan er í dag. Eftir sætum við samt með vexti ofaná þessi verðtryggðu lán, sem eru nálægt því að vera helmingi hærri en vextir óverðtryggðra húsnæðislána erlendis. Í þessu liggur vandi húsnæðiskaupenda, fjármagnskostnaðnum. Aðgengi að lánum er ekki vandamál, enda varla til öruggari og betri fjárfesting en lán til húsnæðiskaupa. Greiðslumat á síðan að tryggja að enginn reisi sér burðarás um öxl. Lengd lánstíma er heldur ekkert vandamál, þar sem veðið að baki láninu lifir í flestum tilfellum lántakann og jafnvel mun lengur! 

Í þriðja lagi gerir þetta svokallaða frumvarp ráð fyrir að undanþágu megi gera frá megin reglunni, bæði lánstíma sem og greiðslumati. Þessa undanþágu má þó einungis gera fyrir þá sem illa stadda fjárhagslega! Þvílíkt bull! Þetta er eins og að taka ávaxtaskálina af borðinu og henda tveim þrem súkklaðimolum á það í staðinn, þegar séð var að of langt var gengið!

Hverjir eru í mestum vanda vegna húsnæðiskaupa? Eru það ekki einmitt þeir sem verr standa fjárhagslega? Ef hinn eitraði kokteill 40 ára lánanna er svona hættulegur, ætti þá ekki einmitt að víkja þeim bikar frá þeim sem minnst hafa? Ef greiðslumat kemur í veg fyrir að það fólk geti tekið lán, er þá lausnin fólgin í að fara framhjá greiðslumatinu? Þvílíkt rugl, þvílík fjarstæða!!

Hvort málflutningur sjálfstæðismanna um að "markaðurinn" eigi sjálfur að sjá til þess að fólk hætti að taka verðtryggð lán og færa sig yfir í óverðtryggð, er barnaskapur sem þeir trúa, eða hvort aðrar hvatir liggja þar að baki, breytir litlu. Hvoru tveggja er galið.

Það er enginn "frjáls markaður" hér á landi, þegar kemur að fjármálastofnunum. Enda landið það fámennt og dreifbýlt að slíkt frelsi gæti aldrei virkað sem skyldi, ekki frekar en á matvöruverslun í landinu. Seðlabankinn setur svokallaða stýrivexti og enginn banki getur lánað undir þeim. Í raun eru vextir allra útlánsbanka á svipuðu róli, ákveðnu hlutfalli fyrir ofan stýrivexti. Undantekningin er auðvitað okurlánastofnanir sem kallast "smálánafyrirtæki", en það er annar kapítuli, sem er svartur blettur á okkar þjóðfélagi.

Þá er það að öllu leyti á valdi bankanna sjálfra, hvernig lán fólk tekur. Uppsetning á kostunum sem í boði eru, er á valdi bankanna sjálfra. Það gengur enginn venjulegur maður inn í banka til að semja um lán, hann hefur einungis um að velja þá kosti sem bankinn býður og svo auðvitað þann kost að ganga tómhentur út. Það hefur í umræðunni verið notað sem rök að fleiri taka verðtryggð lán en óverðtryggð. Meðan bankinn ræður mun svo vera, hann vill auðvitað tryggara lánið, fyrir sig!

Það er því annað hvort barnaskapur að halda því fram að þessi breyting geti orðið af sjálfu sér, nú eða þeir sem þannig tala séu að verja einhverja annarlega hagsmuni. Verðtryggð neytendalán verða aldrei afnumin nema með lagasetningu, rétt eins og þeim var komið á. Til þess er sætabragðið af þessum lánum of mikið fyrir bankanna.

Undanfarin tvö ár hefur peningastefnunefnd Seðlabankans lagt reglulega leið sína út á svalir bankans, bleytt á sér puttann og rekið hann út í loftið. Þannið hefur þessir svokallaðir fræðingar, með sjálfan seðlabankastjóra í fararbroddi, komist að því að "verðbólguskot sé í vændum". Enn bólar ekkert á þessu voðaskoti, verðbólgan bara lækkar og lækkar og nú svo komið að ef húsnæðisliður er tekin út úr mælingunni, svona eins og siðaðar þjóðir gera, þá búum við nú við verðhjöðnun! En fræðingarnir í Svörtuloftum spá samkvæmt puttanum sínum og því eru stýrivextir frá bankanum nú á þeim mælikvarða annað eins þekkist hvergi í hinum vestræna heimi! Þrátt fyrir þetta hefur tekist að halda verðbólgunni niðri, en vegna gífurlegs þrýstings frá ofurvöxtum Seðlabankans, er bara spurning hvenær stíflan springur. Hvað ætlar peningastefnunefnd þá að gera?

Eins og áður segir liggur vandi húsnæðiskaupenda fyrst og fremst í miklum fjármagnskostnaði. Rót þess kostnaðar liggur fyrst og fremst í verðtryggingu lána, þó aðrir hlutir komi þar einnig við sögu. Verðtryggingin er þó stæðsti skaðvaldurinn.

Nú liggur fyrir að kosið verði í haust, svo undarlegt sem það er. Nánast öruggt má telja, verði þetta frumvarp að lögum, að til valda komist einhverskonar samsteypustjórn margra flokka, á vinstri vængnum. Slíkar ríkisstjórnir eru sjaldan langlífar, en geta valdið miklum skaða á starfstíma starfstíma.

Eins og áður segir, er kominn gífurlegur þrýstingur á hagkerfið vegna hárra stýrivaxta Seðlabankans. Það þarf sterka stjórn til að standast þann þrýsting. Ríkisstjórn margra flokka, þar sem hver höndin er upp á móti annarri og mál rekin áfram með ýmiskonar hrossakaupum, er vísasta leiðin til að þessi stífla bresti. Guð hjálpi Íslandi, verði mynduð slík margflokka ríkisstjórn.

Þá mun ekki langt að bíða þess að verðbólgudraugurinn, sem peningastefnunefnd og seðlabankastjóri þykjast hafa fundið með puttanum, láti á sér kræla. Og þá mun verðbólgan ekki mæld með einnar stafa tölu, jafnvel ekki tveggja stafa. Auðveldlega gæti verðbólgan þá ætt yfir 100%, á örstuttum tíma.

Hvað ætli farmiði aðra leiðina úr landi, kosti?!


mbl.is Verðtryggingin ekki afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband