Landsbyggðaskattur

Bensíngjald, olíugjald, kolefnisgjald og virðisaukaskattur á þessi gjöld er tær landsbyggðaskattur. Á höfuðborgarsvæðinu þarf enginn að eiga bíl, frekar en hann kýs. Þar eru almenningssamgöngur þokkalegar, lagðir hafa verið stígar ( að hluta á kostnað landsbyggðafólks) vítt og breytt um borgina, þannig að göngu og reiðhjólafæri þar er með því betra sem þekkist í víðri veröld.

Landsbyggðafólkið er hins vegar nauðbeygt til að eiga bíl. Vinnu geta fáir sótt nema á eigin bíl, innkaup af öllu tagi eru útilokuð nema með eigin bíl og stundum þarf að fara langar leiðir til slíkra þarfa. Þjónusta er flest eða öll þannig að bíl þarf til. Og þar er enn verið að auka vegalengdir með sífelldri kröfu um stærri sveitarfélög, sem leiðir af sér að þjónusta, einkum ríkis og bæja, verður enn torsóttri.

Verst er þó með heilbrigðiskerfið. Þar er markvisst unnið að því að færa sem mest af allri slíkri starfsemi á einn stað, í miðbæ Reykjavíkur. Sjúkir og slasaðir verða því að sækja sífellt meira af slíkri þjónustu þangað. Fyrir landsbyggðafólk er það eitt slæm þróun og þegar síðan eina leið þess til að sækja slíka þjónustu er skattlögð enn frekar verður mismuninn enn frekari.

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að stór hluti aðfanga út á land fara með vörubílum, hvort heldur þar er um að ræða klósettpappírinn fyrir heimilið eða rekstrarvaran fyrir fyrirtækið. Þá þurfa flest fyrirtæki að koma sinni framleiðsluvöru til baka, eftir sömu leið.

Það er því verið að skattleggja landsbyggðafólk umfram annað fólk hér á landi. Slík mismunun er óviðunnandi og líklega brot á 65.gr. stjórnarskrár.


mbl.is Skilar tveimur milljörðum aukalega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verslunin grefur hægt en örugglega undan sjálfri sér

Verslunareigendur og samtök þeirra geta barið hausnum við stein. Þessir aðilar halda áfram að reyna að afsaka þá svívirðu sem þeir stunda gagnvart neytendum. Meðan þessir aðilar geta ekki komið því í sinn þykka haus að verslun er þjónusta fyrir neytendur, munu þeir stunda þennan leik. Og enginn mun tapa meira á þessu en einmitt verslunin sjálf.

Neytendur eru ekki hálfvitar, neytendur láta ekki segja sér hvar þeir eiga að versla. Þeir líta einfaldlega á tvo þætti, verð og þjónustu. Út frá þessum punktum versla neytendur. Eins og álagning er almenn hér á landi, er auðvitað leitað annarra leiða og meðan viðhorf talsmanna verslunar breytist ekki, líta neytendur það sem lélega þjónustu.

Það er alveg sama hvernig reiknað er, íslensk verslun leggur óhóflega á allar vörur, sérstaklega svokallaðar nauðsynjavörur. Talsmenn verslunar hafa borið við íslenskri krónu, flutningskostnaði og smáum innkaupum af erlendum heildsölum. Venjulegur neytandi, sem verslar á netinu býr líka við íslenska krónu, þarf að borga hlutfallslega mun hærri flutningskostnað og hefur ekki tök á að versla við erlendan heildsala, heldur verslar hann af smásala!

Þrátt fyrir þetta eru mörg dæmi þess að íslenskur neytandi geti keypt sér far til útlanda, verslaða þar þann hlut sem honum vantar (t.d. dekk undir bílinn sinn), flogið með vöruna heim, borgað af henni öll tilskilin gjöld til ríkisins og átt eftir afgang í samanburði við íslenska verslun með sama hlut!

Ef það er rétt hjá SVÞ að sterkara gengi og lækkun tolla hafi skilað sér til neytenda, segir það einungis það eitt að álagningin sé svo yfirdrifin að þessar lækkanir vigta nánast ekki neitt í verðinu!!

 


mbl.is Sterkara gengi og lækkun tolla hefur skilað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvirðing við lýðræðið

Verði til ríkisstjórn Pírata, Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar, er það sem blaut tuska í andlit kjósenda. Það er fullkomið virðingarleysi við lýðræðið!

Píratar gengu hnarreistir til kosninga, enda fylgi þeirra í öllum skoðanakönnunum langt yfir öllum væntingum, nánast allt kjörtímabilið. Einungis hálfu ári fyrir kosningar mældist fylgi flokksins í tæpum 40%, í skoðanakönnunum. Hroki frambjóðenda flokksins var slík að þeir töldu kosningu einungis formasatriði. Til merkis um það hóf þessi flokkur tilraun til stjórnarmyndunar viku fyrir kosningar. Þegar svo dómur kjósenda féll, kom í ljós að einungis rétt rúmlega einn sjöundi hluti þjóðarinnar gaf flokknum sitt atkvæði, eða 14,5%. Traust kjósenda á þessum stjórnmálaflokk var því ekki með þeim hætti að þeir vildu hann sem leiðanda í íslenskum stjórnmálum.

Vinstri græn gátu vissulega vel við unað í þessum kosningum, sé miðað við síðustu kosningar þar á undan. Í sögulegu samhengi, frá stofnun þessa flokks, er þessi "sigur" flokksins ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ekki verður horft framhjá þeirri staðreynd að í þessum kosningum náði þessi flokkur þeim merka áfanga að verða nærst stæðsti stjórnmálaflokkur landsins, í fyrsta sinn í sinni sögu og sennilega því síðasta.

Viðreisn er sem kunnugt er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokki. Tilurð þessa flokks er að nokkrir félagar Sjálfstæðisflokks gátu ekki sætt sig við samþykktir landsfundar um hvort Ísland ætti að gerast aðili að ESB. Vegna þessa eina máls ákvað þetta fólk að yfirgefa móðurflokkinn og stofna nýjan, um sitt hugðarefni. Í kosningabaráttunni klæddi þetta fólk sig síðan í önnur föt og boðaði einhverskonar "miðju stjórnmál". Sem minnst var talað um ESB fyrir kosningar og kjósendur því blekktir. Sú blekking opinberaðist strax að loknum kosningum, þegar farið var að reyna stjórnarmyndun. Enn stendur þessi flokkur svo fast á sínu máli að erfiðlega gengur að mynda ríkisstjórn, þar sem pólarnir til vinstri og hægri eru báðir andvígir inngöngu í ESB. Þessi flokkur fékk einungis 10,5% atkvæða, svo vart getur hann talist leiðandi í lýðræðislegu tilliti.

Björt framtíð var upphaflega stofnuð af nokkru óánægðum félögum Samfylkingar, þeim sem töldu flokkinn vera að færast of mikið til vinstri. Síðar gekk grínframboð Jóns Gnarr inn í þennan flokk og samanstendur hann nú að mestu af fólki frá þeim væng. Þessi flokkur telur sig hægrisinnaðan jafnaðarmannaflokk, með tilvísanir til vinstri, henti það. Varla hefur þó hvarflað að kjósendum þessa flokks að strax eftir að talið hafði verið úr kjörkössum, myndi forusta flokksins spyrða sig svo kyrfilega við Viðreisn. Þann flokk sem lengst er til hægri í íslenskum stjórnmálum. Að vísu er eitt málefni sem sameinar þessa tvo flokka, ástin til ESB. Það lím virðist sterkara en nokkur önnur hugsjón og nær langt yfir lýðræðislegan sannleik.

Samfylking, sem eitt sinn var næststæðsti stjórnmálaflokkur landsins og var stofnaður sem "andstæður póll gegn Sjálfstæðisflokk", þurrkaðist nánast út. Fékk einungis einn mann kosinn á þing og tvo uppbótarþingmenn. Um sorgarsögu þessa flokka þarf ekki að fjölyrða, en að það sé í anda lýðræðis að hann komi að stjórn landsins nú, er algjör fyrra!!

Það er því ljóst að ef að þessari ríkisstjórn verður, er það algjör óvirðing við lýðræðið í landinu og kjósendur gerðir marklausir. Samansafn tapara getur varla orðið að stjórnhæfri ríkisstjórn!!

 


mbl.is Framhaldið ákveðið í kvöld?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúverðugleiki fréttastofu ruv

Enn á ný hleypur fréttastofu ruv fram úr sér og flytur rangar eða villandi fréttir. Því miður fylgdu flestir fjölmiðlar á eftir og margir mætir bloggarar hafa tekið undir þetta frumhlaup fréttastofu ruv. Kannski ekki að undra, enda framsetningin með þeim hætti að sem mestur sori væri dreginn fram, hvort sem innistæða væri fyrir honum eða ekki.

Svo virðist sem starfsfólk fréttastofu ruv þekki ekki mun á hlutabréfaeign og eign inn á verðbréfasöfnum. Þarna er himinn og haf á milli, annarsvegar bein eign í fyrirtæki og hins vegar sparnaðarreikningar sem bankar buðu uppá fyrir hrun. Því miður nýttu margir landsmenn sér þessa leið bankanna, enda talin trú um að þetta fé væri svo dreift að engin hætta væri á að tapa því. Annað kom á daginn. Sjálfur átti ég nokkra upphæð á slíkum reikning en fékk aldrei að vita hvaða fyrirtæki lægju þar að baki, ekki einu sinni eftir að féð var tapað.

Í kastljósi fréttastofu ruv var því haldið fram að þeir hæstaréttardómarar sem teknir voru fyrir, hefðu átt hlut í Glitni, haustið 2008. Þetta var gert og veifað skjölum því til staðfestingar. Þó máttu stjórnendum þáttarins vera ljóst, ef þeir hefðu einungis lesið á þessi plögg, að þessir menn höfðu selt sína hluti í Glitni löngu fyrir hrun, jafnvel áður en innherjar áttuðu sig á hvert stefndi með bankakerfið.

Ekki höfðu starfsmenn ruv fyrir því að hafa samband við alla þá sem málið fjallaði um og fá þeirra sjónarmið fram. Ef ekki var hægt að ná til allra aðila, átti einfaldlega að bíða með "fréttaflutninginn" þar til það var hægt. Það er hámark lágkúrunnar að flytja fréttir að persónum án þess að þær fái að koma sínu sjónarmiði fram.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem fréttastofa ruv fer þessa leið, að flytja villandi eða jafnvel rangar fréttir. Mannorðsmorð virðist vera einskonar kappleikur innan fréttastofu ruv!

Hvort þessi svokallaði fréttaflutningur fréttastofu ruv stafar af þekkingarleysi starfsfólks stöðvarinnar, eða hvort þetta er með ráðnum hug gert, skiptir ekki megin máli. Hvoru tveggja er grafalvarlegt og hefur nú rýrt enn frekar trúverðugleik fréttastofunnar, svo vart er hægt að tala lengur um fréttaflutning frá henni, einungis hannaðar atburðarásir sem oftar en ekki leiða til mannorðsdrápa.

Verra er að horfa á aðrar fréttastofur hlaupa á eftir ruv í fenið. Að þar skuli ekki vera stansað örlítið við og mál skoðuð, áður en lengra er haldið. Sumir velvirtir bloggarar létu einnig glepjast. Kannski liggur mönnum svo á að tjá sig að þeir taka sér ekki tíma til að skoða mál, áður en lyklaborðið er dregið fram. Þessi svokallaða "frétt" fréttastofu ruv ætti þó að kenna öðrum fréttamiðlum að taka varlega mark á því sem fréttastofa ruv setur fram.

Í nýafstöðnum kosningum í Bandaríkjunum voru færðar fals- og hannaðar fréttir fyrir kjósendur. Jafnvel talið að einmitt sá "fréttaflutningur" hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna. Sú stofnun sem lengst hefur gengið á þessu sviði hér á landi er ríkirekna fréttastofan. Það var að undirlægi hennar að forsætisráðherra sagði sig frá embætti, síðasta vor og að kjörtímabilið var stytt. Það má vissulega segja að fréttaflutningur ruv hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna hér á landi, þó kannski ekki eins mikil og starfsfólk stofunnar vonaði. Nú er ráðist gegn dómurum og þeir gerðir tortryggnir!

Hverra manna fréttastofan vinnur fyrir ætla ég ekki að segja, en allir átta sig á hverjir það eru sem hagnast á þessu framferði hennar.

Hversu langt mun fréttastofa ruv ganga, áður en gripið verður í taumana?!


mbl.is Markús svarar fyrir verðbréfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband