Hef aldrei skilið þessa pólitík

Hin síðari ár hefur mikið verið rætt um "endurheimt votlendis" sem töfralausn gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Þó liggja litlar sem engar rannsóknir sem staðfesta þennan þátt. Þær rannsóknir sem til eru, vísa til mjög takmarkaðs sviðs þessa máls, þ.e. að við þurrkun á blautu landi byrji jarðvegur að rotna með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda.

Ekkert er spáð í hvað kemur í staðinn, svo sem minni losun á metangasi, sem er mjög mikil í blautum mýrum. Það er ekkert rannsakað hvað gróðurbreytingar gera til bindingar á gróðurhúsaloftegundum, en á þurru landi er gróður margfalt ríkari en á blautu landi.

Þá hefur ekkert verið rannsakað hvað þessi rotnun jarðvegs tekur langan tíma og hvenær jarðvegur hættir að losa gróðurhústegundir í andrúmsloftið. Framræsla hér á landi hófst ekki að ráði fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar og var að mestu lokið undir lok þess áttunda. Eftir það hefur framræsla verið mjög lítil. Einungis verið framræst land til ræktunnar, með mjög markvissum og ábyrgum hætti. Það er því liðnir þrír og hálfur áratugur frá því framræslu lauk að mestu, hér á landi.

Því gæti allt eins farið svo að með svokallaðri "endurheimt votlendis" muni gróðurhúsaloftegundir aukast verulega. Að jarðvegur hafi jafnað sig eftir að land var ræst fram og lítil eða engin mengun komi frá því núna og í staðinn verði landið bleytt upp með tilheyrandi myndun metangass og minnkun grænblöðunga í umhverfinu.

Er ekki rétt að byrja á rannsóknum, mæla hver raunveruleg loftmengun er af þurrkuðu landi, hvort hún stöðvist á einhverjum árafjölda. Rannsaka hversu mikið mótvægi minnkun metangass er við þá mengun og að síðustu hvaða áhrif gróðurbreytingar hafa á þessa þætti.

Meiningin hlýtur að vera að stuðla að minni mengun, ekki meiri. Til að svo megi verða er lágmark að fólk viti hvað það er að tala um. Upphrópanir og sleggjudómar duga lítt til bjargar.


mbl.is Vantar vísindin við endurheimt mýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarti-Pétur?

Er þetta fólk ekki með fulla fimm? Heldur það að það sé í einhverju samkvæmisspili? Hvaða máli skiptir hver er Svarti-Pétur?

Fimm flokkar setjast að borðum og reyna myndun ríkisstjórnar. Það tókst ekki, enda mjög langt á milli stefnu og boðskap þessara flokka í mörgum málum. Þá er þetta bara búið, skiptir andskotans engu máli hver Svarti-Pétur er.

Möguleikunum fækkar og í raun einungis einn möguleiki eftir, myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og einhvers þriðja flokks. Eins og staðan er í dag þá eru Björt framtíð og Viðreisn búin að rotta sig saman, Píratar búnir að tala sig frá ríkisstjórn og því  í raun einungis Framsókn sem getur tekið stöðu þriðja flokks í slíku samstarfi. Eins og formaður þess flokks hefur talað frá kosningu, ætti honum ekki að verða skotaskuld í því að heilla bæði VG og Sjálfstæðisflokk, jafnvel samtímis.

En það er langt á milli Vinstri grænna og Sjálfstæðismanna. Þó vissulega mörg mál liggi saman, eins og efling grunnþjónustunnar, er aðferðafræðin til að nálgast það markmið svo gjörólík. Vinstri græn vilja fara skattaleiðina að markinu, meðan Sjálfstæðisflokkur vill fara virðisaukaleiðina.

Skattaleið til tekjuöflunar hefur verið reynd víða um heim, með skelfilegum afleiðingum. Hér á landi var sú leið valin á síðasta kjörtímabili, sem olli því að hagkerfinu tókst illa eða ekki að komast í gang. Ofsköttun leiðir af sér samdrátt í framleiðslu, sem aftur leiðir af sér aukið atvinnuleysi og í kjölfarið samdrátt í grunnþjónustu.

Núverandi ríkisstjórn sneri blaðinu við, skattar og gjöld hafa verið lækkuð og kerfið einfaldað. Nú er atvinnuleysi í lágmarki og staða ríkissjóðs hefur snarbatnað. Erlendar skuldir hafa lækkað verulega. Með lækkun skulda ríkissjóðs skapast tekjur, mun meiri tekjur en hægt væri að ná með skattaálögum. Þær tekjur eru raunverulegar og til framtíðar. Þannig er hægt að efla grunnþjónustuna, þannig að sómi sé af.

Það er því ljóst að grundvallar aðferðarfræði þessara tveggja flokka er gjörólík, annars vegar afturhalds skattastefna, byggð á froðu og hins vegar framsækni, byggð á traustum grunni. Annars vegar peningaplokkun af lýðnum og hins vegar peningaframleiðsla með verðmætum. Fyrir leikmann er útilokað að sameina þessi tvö sjónarmið.

Hins vegar er ljóst að kjörnum þingmönnum ber skylda til að reyna allar leiðir til stjórnarmyndunnar. Því ber að reyna þessa leið. Þetta þarf að gera sem fyrst, þannig að hægt sé að boða til nýrra kosninga.

 


mbl.is Hver er Svarti-Pétur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaða kosninga

Margir hafa stigið fram með sína speki um niðurstöður kosninganna. Því er kannski kominn tími til að slást í þann hóp spekinga. Hvort mín speki er eitthvað betri en annarra, skal ósagt látið, hún er sjálfsagt ekki verri.

En hvernig túlkar maður niðurstöðu lýðræðislegra kosninga? Ef einn flokkur fær hreinan meirihluta er auðvelt að túlka vilja kjósenda, en þegar í boði er mikill fjöldi framboða er hætt við að atkvæði dreifist vítt. Svo gerðist nú.

Flestir fara þá leið að bera saman niðurstöður kosninga við síðustu kosningu. Þetta er auðveld leið og staðreyndir liggja nokkuð vel á borðinu, þ.e. varðandi fylgisaukningu eða fylgistap hvers stjórnmálaflokks. En er þetta rétt aðferð? Engin spurning er hverjir eru sigurvegarar kosninganna samkvæmt þessari aðferð og hverjir taparar. Þar trónir auðvitað Viðreisn á toppnum með fylgisaukningu frá 0% upp í 10,5%, Píratar auka sitt fylgi um 9,5%, Vinstri græn auka sitt fylgi um 5% og Sjálfstæðisflokkur bætir við sig 2,3% fylgi. Tapararnir eru þá Samfylking með fylgistap upp á 9,2% og Framsóknarflokkur sem tapar 12,1%.

En skoðum þetta aðeins nánar. Er þessi fylgisaukning Viðreisnar staðreynd? Þetta er ekki í fyrsta skipti í sögunni sem klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokki verður til. 1987 varð Albert Guðmundsson ósáttur við sína félaga í flokknum og stofnaði nýjan stjórnmálaflokk, Borgarahreyfinguna. Sá flokkur fékk 10,9% atkvæða í Alþingiskosningum, nærri hálfu prósentu meira en Viðreisn nú. Í ljósi þess má segja að Viðreisn hafi ekki unnið neinn sigur, þvert á móti.

Varla er hægt að tala um sigur Pírata, þó aukning fylgis milli kosninga hafi verið upp á 9,5%. Að fá einungis 14,5% atkvæða í kosningum,, eftir að hafa mælst lengstan hluta kjörtímabilsins með yfir 30% fylgi og upp í 38%, jafnvel skömmu fyrir kosningar, hlýtur að teljast hneisa.

Vinstri græn, með sýna fylgisaukning upp á 5% milli kosninga, getur tæplega talið sig í góðum málum. Miðað við meðaltal úrslita kosninga árin "07, "09 og "13 er sigur flokksins einungis 0,3%! 

Sjálfstæðisflokkur er oft sagður sigurvegari kosninganna. Sigurinn er þó ekki nema upp á 2,3% milli kosninga og einungis 0,1% miðað við meðaltal þrennra kosninga þar fyrir framan. Ekki stór sigur samkvæmt tölum, en vissulega má segja að flokkurinn hafi unnið stórsigur miðað við klofningsframboð Viðreisnar. Þegar Borgarflokkurinn klofnaði frá Sjálfstæðisflokki, 1987, tapaði flokkurinn heilum 10%. Því má kannski segja að Sjálfstæðisflokkur hafi unnið stórann sigur.

Framsókn tapar vissulega stórt, eða um helming síns fylgis miðað við síðustu kosningar. Reyndar fékk flokkurinn afgerandi fylgi í síðustu kosningum svo vart er hægt að miða við þær einar. Þarf að leita aftur til þess tíma er kjördæmaskipan var réttlátari en nú til að finna flokknum meira fylgi en í kosningunum vorið 2013. Ef hins vegar notaður er sami samanburður og áður, meðaltal kosninganna "07, "09 og "13, er tap flokksins um 5,4%. Vissulega tap, enda fylgi flokksins nú í sögulegu lágmarki, þó kannski ekki muni miklu og í kosningunum 2007. Í ljósi þeirra væringa sem í flokknum var í sumar og þeirri herferð sem gerð var að þáverandi formanni flokksins, af fjölmiðlum, pólitískum andstæðingum og það sem verst var, pólitískum samherjum, má telja þessa útkomu flokksins í kosningunum varnarsigur. Flokkurinn á eftir að vinna úr sínum málum og fyrsta skrefið þar hefði auðvitað átt að vera að núverandi formaður færi að dæmi þess formanns sem áður skilaði flokknum með svo slöku gengi og segði af sér. Að varaformaður tæki við flokknum og leiddi hann gegnum það uppgjör sem vissulega þarf að eiga sér stað. Eins og núverandi formaður sagði svo skýrt í sumar: "Það er enginn maður stærri en flokkurinn". Hann ætti sannarlega að taka þessi orð til sín.

Það er sama hvernig litið er til Samfylkingar. Alveg sama hvaða mælikvarðar eru notaðir. Tap flokksins er stórt, mjög stórt. Fékk einungis einn kjördæmakjörinn þingmann og það tæplega. Hann dró síðan með sér tvo aðra sem uppbótarþingmenn með sér. Þáverandi formaður sagði af sér og tilkynnti um leið að Samfylking ætti að standa utan ríkisstjórnar. Þau orð gleymdust þó fljótt.

Samkvæmt þessu eru engir sigurvegarar í kosningunum, einungis einn stórtapari.

Það má líka nota önnur viðmið, þegar niðurstaða kosninga er skoðuð og reynt að lesa í vilja almennings. Það er röðun þingmanna í kjördæmi.

Í öllum kjördæmum á Sjálfstæðisflokkur fyrsta þingmann og í einu annan einnig. Framsókn á annan þingmann í þrem kjördæmum og Vinstri græn eiga annan þingmann í tveimur. Eru þessir flokkar þá ekki sigurvegararnir? Er það ekki þetta fólk sem þjóðin hefur valið sér til að stjórna landinu?

Lýðræðið er vand með farið og þung skylda á kjörnum fulltrúum að fara vel með það. Hver vilji fólks er nákvæmlega, samkvæmt kosningum, er oft vandséð. Þó er staðreynd að Sjálfstæðisflokkur fékk 29% atkvæða, Vinstri græn 15.9%, Píratar 14,5% og Framsókn 11,5%. Aðrir fengu færri atkvæði og eiga því vart erindi í landstjórnina. Píratar hafa gefið út að þeir vinni ekki með Framsókn og Sjálfstæðisflokk og gagnkvæmt frá þeim seinni. Eftir standa því Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur. Ekki kannski sú stjórn sem ég persónulega hefði viljað, en engu að síður augljósasti kosturinn miðað við niðurstöður kosninga.

Reyndar er ég ekki að sjá að þetta geti gengið upp, tel líklegra að einhverskonar samsuða tapflokkanna muni verða ofaná, undir stjórn Vinstri grænna. Þá er bara að vona að skaðinn verði ekki orðinn mikill, þegar gengið verður til kosninga, næsta vor!


mbl.is VG vill stórfelldar skattahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband